Nr. 402/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 402/2018
Þriðjudaginn 12. mars 2019
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.
Með kæru, dags. 13. nóvember 2018, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. ágúst 2018 um bætur úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu vegna meðferðar sem fór fram á Landspítala X. Sjúkratryggingar Íslands samþykktu bótaskyldu og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. ágúst 2018, var stöðugleikapunktur ákveðinn X, varanlegur miski kæranda metinn 8 stig og tímabil vaxta frá X til X.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 29. nóvember 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2018, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærð er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hvað varðar mat á varanlegri örorku vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðar þann X og byggir kærandi á því að hún búi við skerðingu á getu til þess að afla sér tekna.
Kærandi hafi lagt fram umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna afleiðinga meðhöndlunar á handleggsbroti á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi þann X. Sjúkratryggingar Íslands hafi samþykkt bótaskyldu og hafi ákvörðun verið kynnt kæranda með bréfi, dags. 16. ágúst 2018.
Aðdraganda málsins megi rekja til þess að kærandi varð fyrir slysi þann X er hún var að [...] og hlaut brot á [...] framhandlegg. Að öðru leyti sé vísað til málavaxtalýsingar í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og til fyrirliggjandi gagna málsins hvað varðar meðferðina á Landspítala. Í stuttu máli hafi Sjúkratryggingar Íslands komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki fengið bestu mögulegu meðferð við ölnarbroti sínu á árinu X. Í ákvörðuninni segir orðrétt:
„Að mati SÍ hefði verið heppilegra að setja inn svokallaða TEN nagla í upphafi eins og stóð til þótt ekki hafi verið beinlínis rangt að falla frá því. Enn fremur hefði mátt grípa inn í við fyrsta eftirlit X en lega brotsins hafði þá versnað. Rétt hefði verið að gera endurleiðréttingu og setja inn pinnana þá. Tjónþoli er nú með slíka skekkju í ölninni að líklegt er að hún hafi af henni hreyfiskerðingu og hugsanlega önnur einkenni. [...] Er það mat SÍ að mál tjónþola falli undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu vegna afleiðinga meðferðar á LSH sem leiddi til þess að ekki var veitt besta mögulega meðferð við áverka tjónþola. Í þessu felst hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður, skv. 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu, og er tjónsdagsetning ákveðin X (fyrsta koma).“
Þar sem fallist hafi verið á bótaskyldu hafi afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins verið metnar samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um sjúklingatryggingar. Í þeim tilgangi hafi kærandi komið til viðtals og skoðunar hjá C, sérfræðingi í bæklunar- og handaskurðlækningum, þann X. Í ákvörðun sinni hafi Sjúkratryggingar Íslands stuðst við greinargerð C frá X.
Niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands hafi verið sú að stöðugleikapunkti samkvæmt skaðabótalögum hefði verið náð þann X þegar X ár var liðið frá slysinu. Þá hafi varanlegur miski vegna hins eiginlega sjúklingatryggingaratburðar verið talinn réttilega metinn til 8 miskastiga. Að lokum hafi í ákvörðuninni verið vísað til þess að það væri mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki yrði séð að hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður hefði valdið varanlegri skerðingu á getu tjónþola til að afla vinnutekna og því kæmi ekki til greiðslu bóta fyrir varanlega örorku.
Kærandi geti ekki fallist á framangreinda afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji að hún búi svo sannanlega við skerta getu til þess að afla atvinnutekna vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins. Þar af leiðandi sé henni nauðsynlegt að kæra ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar velferðarmála. Kærandi leggi áherslu á að ekki sé deilt um bótaskyldu sem slíka, ágreiningurinn lúti einvörðungu að mati á varanlegri örorku samkvæmt skaðabótalögum vegna hins eiginlega sjúklingatryggingaratburðar. Kærandi vísar til eftirfarandi atriða máli sínu til stuðnings:
Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé vísað til þess að hefði kærandi fengið bestu mögulegu meðferð hefði hún náð fullum bata. Þau einkenni sem kærandi búi við í dag vegna sjúklingatryggingaratburðarins séu m.a. skekkja í [...] framhandlegg, hreyfiskerðing og kraftskerðing, auk þess sem hún fái áreynslubundna verki. Í samræmi við niðurstöðu C læknis telji Sjúkratryggingar Íslands einkenni kæranda falla best að lið VII.A.b.2. í miskatöflunum: Daglegur áreynsluverkur með miðlungs hreyfiskerðingu í olnboga eða skertri snúningshreyfingu á framhandlegg: 8%.
Við mat á því hvaða einstaklingsbundnu áhrif fyrrgreind einkenni sem hafa verið metin til miska hafi á kæranda og getu hennar til þess að afla tekna segi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands:
„Við mat á varanlegri örorku er litið til þess að tjónþoli var X ára þegar hún varð fyrir því tjóni, sem fjallað hefur verið um. Tjónþoli er nú X ára og hefur alla möguleika á að haga menntun sinni og starfsvali þannig að einkenni þau sem hér hafa verið rakin að framan hafi sem minnst áhrif, jafnvel engin. Af öllum gögnum virtum og með hliðsjón af takmörkunarskyldu tjónþola verður að mati SÍ ekki séð að hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður hafi valdið varanlegri skerðingu á getu tjónþola til að afla vinnutekna. Kemur því ekki til greiðslu bóta fyrir varanlega örorku.“
Kærandi geti ekki verið sammála fyrrnefndri afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og bendi á að þrátt fyrir ungan aldur þá setji einkennin henni ákveðnar skorður við starfsval og hafi vissulega áhrif á vinnugetu hennar, allt hennar daglega líf og feli í sér skerðingu á bæði atvinnugetu og lífsgæðum.
Kærandi sé einungis X ára gömul í dag og enn sé óljóst hvaða starfsvettvang hún muni velja sér, aftur á móti liggi fyrir að hún eigi langa starfsævi fyrir höndum ef hægt sé að reikna með því að venjulegri starfsævi ljúki í kringum 67 ára aldur. Mat á varanlegri örorku sé ávallt háð ákveðinni óvissu um framtíðina og því sé nauðsynlegt að taka mið af ástandi tjónþola þegar mat fari fram og leggja mat á það hvernig varanleg einkenni hái viðkomandi þá og þegar og hvernig sé líklegt að einkennin komi til með að hafa áhrif á vinnugetu í framtíðinni.
Þó svo að kærandi hafi tök á því að haga starfsvali sínu með tilliti til þeirra einkenna sem hún búi við og hafi verið metin til miska, finnist henni ótækt að hægt sé að slá því föstu að einkennin hafi ekki og muni ekki valda henni varanlegri skerðingu á getu til að afla sér tekna. Í því samhengi vísar kærandi til þess að um sé að ræða einkenni frá [...] handlegg, en hún sé [...] og því séu einkennin frá hennar ríkjandi hendi. Kærandi kveðst alltaf vita af einkennunum. Þá hafi hún starfað sem [...] og einkennin hafi háð henni verulega í því starfi, meðal annars vegna minnkaðs krafts og óstyrkleika í [...] hendi. Kærandi hafi enn fremur starfað í 100% starfi á D og þar kveðst hún hafa átt erfitt með að [...] og orðið þreytt mjög fljótlega vegna einkenna sinna. Þegar kærandi var yngri hafi hún hvorki treyst sér til að [...] vegna ástands síns.
Þrátt fyrir að framtíð kæranda sé óljós að einhverju leyti byggi hún á því að það liggi fyrir að ástand hennar og einkenni frá [...] handlegg muni ætíð há henni og verða til þess að hún standi ekki jafnfætis jafnöldrum sínum hvað varðar val á atvinnu o.s.frv. í ljósi þess að hún muni alltaf eiga erfiðara með líkamlega erfið störf og þreytist fyrr en ella. Því telur hún eðlilegt að henni sé metin varanleg örorka í samræmi við það. Hún eigi í öllu falli að fá að njóta vafans.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 með umsókn sem borist hafi Sjúkratryggingum Íslands þann 18. maí 2018. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á bráðamóttöku Landspítalans þann X. Með ákvörðun, dags. 16. ágúst 2018, hafi bótaskylda verið samþykkt og bótauppgjör sent kæranda.
Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi á bráðamóttöku Landspítala þann X vegna brots í [...] framhandlegg. Hún hafði fyrr um daginn verið að [...] og lent illa á [...] handlegg. Lýst hafi verið skekkju á handlegg við komu á bráðamóttöku og röntgenmyndir sýnt brot í skafti ölnar, í nærhluta beinsins. Á fyrstu myndum hafi ekki verið unnt að meta legu höfuðs sveifar í olnboga og vaknað hafi viss grunur um liðhlaup þar, en þá hefði verið um svokallaðan Monteggia áverka að ræða.
Kærandi hafi verið lögð inn á [...] og tekin til aðgerðar þar sem lega brotsins hafi verið leiðrétt og skráð verið að ágæt staða hafi náðst í brotið. Upphaflega hafi aðgerðarlæknir hugsað sér að setja inn sk. TEN (titanium elastic nails) en þar sem náðst hafi góð lega hafi hann horfið frá því. Lagðar hafi verið háar gipsumbúðir og áformað að kærandi hefði þær í fjórar vikur og síðan jafnháar plastumbúðir í tvær vikur til viðbótar. Eftir aðgerðina hafi aukalega verið teknar viðbótarmyndir til þess að kortleggja nánar legu höfuðs sveifar í olnboga og hafi þá áðurnefndur grunur um liðhlaup þar horfið.
Þann X hafi kærandi verið í eftirliti og röntgenmyndir þá sýnt samkvæmt sjúkraskrá að brotið lá vel. Í greinargerð meðferðaraðila séu hins vegar mælingar sagðar sýna 20° skekkju í brotinu á þeim myndum. Þann X hafi kærandi verið aftur í eftirliti. Þá hafi verið teknar af henni gipsumbúðirnar og þá sést sveigja á framhandlegg. Röntgenmyndir þennan dag hafi sýnt aukna sveigju í brotinu en yfirbrúandi beinnýmyndun (callus). Þennan dag hafi verið ljóst að of seint væri að grípa inn í meðferðina því til þess hafi brotið verið of vel gróið.
Þann X hafi kærandi hitt aðgerðarlækni í eftirliti. Myndir hafi þá sýnt 30° skekkju (samkvæmt greinargerð meðferðaraðila) en aðgerðarlæknir hafi skráð „eitthvað um 20°.“ Samkvæmt sjúkraskrá hafi kæranda verið sagt að horfur væru góðar og líklegt að þetta réttist. Kærandi hafi leitað til bæklunarlæknis á E X og X, skráð hafi verið að planið hafi verið að bíða í X ár með frekara eftirlit. Frekari færslur vegna áverkans sé ekki að finna í sjúkraskrám.
Samkvæmt 5. gr. laga um sjúklingatryggingu fari ákvörðun bótafjárhæðar eftir skaðabótalögum nr. 50/1993. Samkvæmt 1. gr. skaðabótalaga skuli greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað, annað fjártjón og þjáningabætur. Auk þess skuli greiða bætur fyrir varanlegar afleiðingar, þ.e. bætur fyrir miska og örorku, sbr. 4 og 5. gr. skaðabótalaga. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um upphæð bóta sé sjálfstætt mat sem stofnuninni sé falið að gera lögum samkvæmt, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um sjúklingatryggingu. Stofnunin byggi ákvörðun sína á fyrirliggjandi gögnum þegar litið sé svo á að ástand sjúklings sé orðið stöðugt.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanlegur miski kæranda verið metinn 8 (átta) stig og varanleg örorka engin. Stöðugleikapunktur hafi verið ákveðinn X.
Við gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið stuðst við fyrirliggjandi gögn ásamt því sem fram hafi komið í viðtali og skoðun kæranda hjá C bæklunarskurðlækni, [...] þann X. Varðandi umfjöllun um forsendur niðurstöðu vísist í hina kærðu ákvörðun og gögn sem ákvörðunin byggi á.
Af kæru verði ráðið að í málinu sé uppi ágreiningur um mat Sjúkratrygginga Íslands á afleiðingum sjúklingatryggingaratburðarins. Kærandi telji að mat Sjúkratrygginga Íslands á varanlegri örorku sé of lágt miðað við þær afleiðingar sem hún glími við í raun og áhrif þeirra á starfsævi hennar.
Við mat á varanlegri örorku skuli líta til þeirra kosta, sem tjónþoli eigi til að afla sér tekna með vinnu, sem sanngjarnt sé að ætlast til að hann starfi við. Matið snúist um það að áætla, á grundvelli fyrirliggjandi gagna og rökstuddrar spár um framtíð tjónþolans, hver sé hin varanlega skerðing á getu hans til að afla launatekna í framtíðinni vegna hlutaðeigandi tjóns – eða, að öðrum kosti, að staðreyna að ekki sé um þess háttar skerðingu að ræða. Við þetta mat beri meðal annars að taka hæfilegt tillit til félagslegrar stöðu tjónþolans, aldurs hans, atvinnu- og tekjusögu, andlegs og líkamlegs atgervis, menntunar, heilsufars, eðlis líkamstjóns og hinna varanlegu áhrifa þess. Þá skuli metnir þeir kostir sem tjónþola bjóðist eða kunni hugsanlega að standa til boða varðandi það að halda fyrra starfi sínu eða finna sér nýtt starf við sitt hæfi. Jafnframt beri að gæta þess að samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar hvílir sú skylda á tjónþola að takmarka tjón sitt eins og unnt sé að ætlast til af honum miðað við aðstæður.
Við mat á varanlegri örorku hafi verið litið til þess að kærandi hafi verið X ára þegar hún varð fyrir því tjóni sem fjallað hafi verið um í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi sé nú X ára og hafi því alla möguleika á að haga menntun sinni og starfsvali þannig að einkenni vegna sjúklingatryggingaratburðar hafi sem minnst áhrif, jafnvel engin. Samkvæmt skoðun matslæknis þann X séu umrædd einkenni kæranda þau að hún búi nú við skekkju í [...] framhandlegg, væga hreyfiskerðingu og kraftskerðingu, auk þess sem hún fái áreynslubundna verki.
Það hafi verið mat Sjúkratrygginga Íslands að einkenni kæranda séu ekki þess eðlis að þau hafi áhrif á tekjuhæfi hennar til frambúðar. Með vísan til tjónstakmörkunarskyldu kæranda hafi Sjúkratryggingar Íslands ekki talið vera forsendur fyrir því að meta kæranda varanlega örorku. Því hafi ekki komið til greiðslu bóta fyrir varanlega örorku.
Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekkert komið fram í máli þessu sem gefi tilefni til þess að víkja frá hinni kærðu ákvörðun. Við gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið, eins og áður hefur komið fram, tekið mið af því sem fram kom í umræddri skoðun og læknisfræðilegum gögnum málsins. Varðandi nánari rökstuðning vísist í hina kærðu ákvörðun.
Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar mat á afleiðingum sjúklingatryggingaratviks sem kærandi varð fyrir vegna meðferðar á Landspítala X. Kærandi telur að varanleg örorka hafi verið vanmetin í hinni kærðu ákvörðun. Kærandi hefur ekki gert athugasemdir við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um stöðuleikapunkt, tímabil þjáningabóta eða varanlegan miska.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt þeim lögum eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó 2. mgr. 10. gr. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku valdi líkamstjón, þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Við mat á varanlegri örorku skoðar úrskurðarnefndin annars vegar hver hefði orðið framvindan í lífi tjónþola hefði sjúklingatryggingaratburður ekki komið til og hins vegar er áætlað hver framvindan muni verða að teknu tilliti til áhrifa sjúklingatryggingaratburðarins á aflahæfi kæranda. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga skal, þegar tjón vegna örorku er metið, líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.
Samkvæmt gögnum málsins eru varanlegar afleiðingar líkamstjóns kæranda, sem rekja má til sjúklingatryggingaratviksins, þær að hún býr við skekkju í [...] framhandlegg, væga hreyfiskerðingu og kraftskerðingu, auk þess sem hún fær áreynslubundna verki.
Í hinni kærðu ákvörðun er meðal annars vísað í forsendur niðurstöðu í mati C læknis, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum, dags. X. Þar segir um skoðun á kæranda:
„Það er sýnileg skekkja ölnarlægt ofarlega í [...] framhaldlegg og til staðar sk. varus skekkja. Þannig er horn séð fram frá (sk. carrying angle) 15° [...] megin en -10° [...] megin, þ.e.a.s. hornið er í varus en ekki í valgus eins og eðlilegt er og eins og er [...] megin.
Réttigeta í [...] olnboga er skert, þannig að þar vantar 5° á fulla réttu en til samanburðar nær hún 10° yfirréttu í [...] olnboga. Beygigeta er einnig lítillega skert í [...] olnboga. Snúningshreyfingar (pronatio/supinatio; ranghverfa/rétthverfa) eru eðlilegar beggja vegna. Tjónþoli fær verki við mestu réttu í [...] olnboga. Kraftar í [...] olnboga eru minni en í þeim [...] og tjónþoli fær verki við prófun á krafti í réttu [...] megin.
Skoðun á úlnliðum og höndum er innan eðlilegra marka. Húðlitur handa er eðlilegur beggja vegna sem og húðhiti og svitamyndun. Siggdreifing í höndum er eðlileg. Ekki er að sjá neinar vöðvarýrnanir í höndum.
Snertiskyn í fingurgómum er eðlilegt og ekki koma fram við skoðun nein merki um taugaklemmur.
Gripkrafatar handa, mældir með JAMAR(2) eru [...] megin 14kg en [...] megin 22kg.“
Um líðan kæranda segir:
„Í hvíld er tjónþoli að jafnaði verkjalaus en hún fær verki í [...] framhaldlegg, á brotsvæði, við álag og áreynslu. Hún finnur einnig fyrir skertri hreyfigetu í [...] olnboga, einkum getur hún ekki rétt úr honum eins og þeim [...]. Þá finnur hún fyrir kraftskerðingu í [...] handlegg. Öll þessi atriði trufla hana á ýmsan hátt í daglegu lífi. Hún nefnir í því sambandi að hún átti oft erfitt með að [...] þegar hún vann sem [...], [...]. Hún finnur fyrir að hún getur ekki gert það sama með [...] handlegg og þeim [...] þegar hún er í líkamsrækt, núna í [...]. Þá átti þreytuverkur í [...] handlegg sinn þátt í því að hún hætti [...], þótt hún reyndar segi að það hafi ekki verið öll ástæðan. Á sama hátt trufla þessi atriði hana við ýmis þyngri störf.
Hún segir einkenni þessi ekki valda sér neinum svefntruflunum og hún kveðst ekki finna fyrir neinum dofa í fingrum [...] handar.“
Samkvæmt framangreindu kemur því til álita hvort einkenni kæranda, sem lýst hefur verið hér að framan og rakin verða til sjúklingatryggingaratviksins, hafi áhrif á aflahæfi kæranda í framtíðinni.
Líkt og fram hefur komið byggja Sjúkratryggingar Íslands niðurstöðu sína á því að kærandi geti, sökum ungs aldurs, takmarkað tjón sitt með því að haga menntun sinni og starfsvali með þeim hætti að einkenni hennar vegna sjúklingatryggingaratburðarins muni ekki hafa áhrif. Regla 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 kveður á um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt og er inntak hennar að tjónþoli verður að gera þær ráðstafanir sem teljast sanngjarnar svo að fjárhagsleg áhrif tjóns á hagi hans verði sem minnst. Samkvæmt gögnum málsins hafa þær breytingar orðið á högum kæranda eftir atvikið að hún hefur minna þrek, er [...] og á erfitt með fínhreyfingar sem háir henni í starfi. Vandasamt er að segja til um fjárhagslegar afleiðingar tjóns vegna ungs aldurs kæranda en að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru meiri líkur en minni á því að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins eins og þeim er lýst hér að framan, þ.e. skekkja í [...] framhandlegg, væg hreyfiskerðing og kraftskerðing, séu slíkar að þær valdi varanlegri skerðingu á getu kæranda til að afla vinnutekna í framtíðinni, þrátt fyrir að hún hagi menntun sinni og starfsvali þannig að það hefði sem minnst áhrif á getu hennar til að vinna fulla vinnu. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefnd velferðarmála þann varanlega miska sem kæranda hefur verið ákvarðaður, 8 stig, gefa raunhæfa mynd af varanlegri örorku hennar vegna sjúklingatryggingaratviks.
Með vísan til þess sem rakið hefur verið hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvarða varanlega örorku kæranda vegna sjúklingatryggingaratviksins 8%.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til A, vegna varanlegrar örorku er felld úr gildi. Varanleg örorka er metin 8%.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson