Hoppa yfir valmynd

Nr. 418/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 10. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 418/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20120007 og KNU20120011

 

Beiðni [...] um endurupptöku og frestun framkvæmdar

 

I.               Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU20090001, dags. 29. október 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar frá 14. ágúst 2020 um að taka ekki umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 2. nóvember 2020. Þann 2. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt greinargerð og fylgigögnum. Þá barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun framkvæmdar ásamt fylgigögnum þann 4. desember sl.

Af endurupptökubeiðni kæranda má ráða að krafan byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli þess að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin auk þess sem að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi tekur fram í beiðni um endurupptöku málsins að hann hafi nú verið greindur með áfallastreituröskun en þrátt fyrir að læknisfræðileg gögn málsins hafi bent til mikillar vanlíðunar þá hafi hann aldrei verið greindur með neina geðræna kvilla fyrr en nú. Kærandi byggir á því að nú sé komin fram ný málsástæða sem hafi verulegt vægi við mat á því hvort sérstök ástæða sé til að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Þessu til stuðnings vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. KNU20100005 frá 29. október sl. Kærandi hafi nú aflað gagna sem sýni fram á nýtt atriði sem stjórnvöld hafi ekki tekið afstöðu til auk þess sem kærandi vísi til samlegðaráhrifa erfiðra félagslegra aðstæðna sinna og þeirra andlegu kvilla sem hann glími við. Ekki sé hægt að meta þætti í aðstöðu hans í tómarúmi heldur verði að fara fram heildstætt mat á þeim þar sem tekið sé tillit til hins nýja framlagða gagns.

Þann 4. desember sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði nefndarinnar nr. KNU20090001, sbr. lokamálsliður 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda vísar hann til þess að það sé óeðlilegt ef úrskurður kærunefndar útlendingamála kæmi til framkvæmdar áður en tekin væri afstaða til framangreindrar beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Þá vísar kærandi einnig til útbreiðslu Covid-19 faraldursins í Þýskalandi.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 29. október 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Til stuðnings beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram nýtt skjal sem ber með sér að fram hafi farið viðtal sálfræðings við kæranda. Í skjalinu, sem unnið er af móður talsmanns aðila, kemur m.a. fram að kærandi sýni áfallastreitueinkenni, s.s. svefntruflanir, neikvæðar hugsanir, sjálfsásakanir og skömm, auk þess sem að tilteknir matslistar hafi verið lagðir fyrir kæranda sem gefi til kynna að hann sé með einkenni áfallastreituröskunar. Skjalið virðist hafa verið ritað eftir eitt viðtal við kæranda. Í skjalinu kemur fram að þegar kærandi hafi náð að upplifa öryggi og stöðugleika megi gera ráð fyrir að áfallameðferð geti skilað góðum árangri. Í skjalinu er m.a. byggt á sjálfsmatskvörðum en ekkert bendir til þess að þær ályktanir sem höfundur skjalsins dró af þeim hafi tekið tillit til þess kærandi kunni að hafa beina og verulega hagsmuni af niðurstöðum skjalsins.   

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 29. október 2020, ásamt þeim fylgigögnum sem liggja fyrir í málinu. Þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda hinn 29. október sl. lágu fyrir ítarlegar upplýsingar um andlegt heilsufar kæranda en hann hafði í tvígang verið lagður inn vegna bráðrar sjálfsvígshættu og verið í endurteknum sálfræðiviðtölum samhliða lyfjameðferð á meðan hann hafi legið inni. Þá hafði kærandi lýst svefnerfiðleikum, mikilli depurð, kvíða og líkamlegum kvíðaviðbrögðum fyrir heilbrigðisstarfsfólki og í viðtali hjá Útlendingastofnun auk þess sem hann hafi hitt sálfræðing í tvígang á Göngudeild sóttvarna. Það er mat nefndarinnar að jafnvel þó að hinu nýja gagni sé gefin vigt hlutlægs og vandaðs sálfræðiálits feli það aðeins í sér sambærilegar upplýsingar um andlega heilsu kæranda en ekki nýjar. Nefndin telur að skjalið raski ekki fyrra mati nefndarinnar sem var á þá leið að kærandi glími ekki við alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sem meðferð er til við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Kærunefnd vísar í þessu samhengi til umfjöllunar um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi í framangreindum úrskurði kærunefndar í máli kæranda. Þar var m.a. tekið fram að gögn málsins bæru með sér að umsækjendur sem hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hafi fullnægjandi aðgang að heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd sem sæta varðhaldi rétt á heilbrigðisþjónustu. Þá er ekkert í beiðni aðila eða öðrum gögnum málsins sem bendir til þess að forsenda þess úrskurðar kærunefndar sem krafist er endurupptöku á, þ.e. að aðili hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki, sé röng eða aðstæður þar hafi breyst.

Talsmaður kæranda vísar í greinargerð sinni til þess að kærunefnd hafi sagt að þröskuldur sönnunar þess að sérstök ástæða sé til að taka mál til efnismeðferðar hér á landi sé ekki hár og vísar því til stuðnings til úrskurðar kærunefndar frá 29. október 2020. Þar á talsmaðurinn við mál KNU20100005. Tilvísuð ummæli kærunefndar fjalla um sönnunarbyrði og sönnunarkröfur þegar umsækjandi ber fyrir sig að hafa skipt um trú og trúskiptin skapi hættu á hann verði fyrir ofsóknum í heimaríki. Ummælin eiga augljóslega ekki við um sönnunarkröfur þegar álitaefnið er hvort taka beri mál til efnismeðferðar eða ekki. Gera hefði mátt ráð fyrir því að talsmaðurinn, sem starfað hefur um nokkurt skeið við þennan málaflokk, vissi að þessi málsástæða sé bersýnlega tilhæfulaus. Er hann eindregið hvattur til að vanda betur til verka.

Kærunefnd gerir athugasemd við gagnaframlagningu talsmanns kæranda. Talsmaður hafi, f.h. kæranda, framvísað skjali frá móður sinni sem er sálfræðingur hjá [...], dags. 1. desember 2020, án þess að gera kærunefndinni grein fyrir því að hún sé móðir hans. Kærunefnd áréttar að þar sem skjalið var í samræmi við þau gögn sem þegar lágu fyrir þegar úrskurður í máli nr. KNU20090001 var kveðinn upp hefur skjalið verið lagt til grundvallar í þessu máli þrátt fyrir þennan og aðra annmarka þess. Það er að engu síður mat nefndarinnar að þau vinnubrögð talsmanns að nýta sér þjónustu nánustu fjölskyldumeðlima með þessum hætti leiði óhjákvæmilega til þess að verulegur vafi leiki á hlutlægni þeirra gagna sem verða til við þessar aðstæður. Kærunefnd brýnir fyrir talsmanni kæranda, sem er lögmaður, að gæta betur að þessum atriðum. Kærunefnd tekur fram að búast megi við að nefndin muni framvegis, án frekari viðvarana til talsmanns kæranda, leggja þá vigt í slík skjöl sem nefnd fjölskyldutengsl gefa tilefni til enda hefur kærunefnd ítrekað gert sambærilegar athugasemdir við vinnubrögð talsmannsins.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að þrátt fyrir hið nýja skjal bendi ekkert til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar.

Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 29. október 2020, hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki talin ástæða til þess að fjalla frekar um beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði kærunefndar útlendingamála, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og er þeirri beiðni jafnframt hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kæranda er hafnað.

The appellant‘s requests are denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta