Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 627/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 627/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17090036

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 20. september 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. september 2017, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og að honum verði veitt heimild til dvalar hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að kærunefnd útlendingamála ógildi ákvörðun Útlendingastofnunar og geri stofnuninni að endurskoða ákvörðun sína.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hafi verið veitt dvalarleyfi vegna vistráðningar hér á landi með gildistíma frá 30. mars 2016 til 30. mars 2017. Þann 27. febrúar 2017 hafi kærandi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Kærandi móttók ákvörðun Útlendingastofnunar þann 11. september 2017 og kærði hana til kærunefndar útlendingamála með kæru, dags. 20. september 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 19. september 2017, ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu gæti Útlendingastofnun heimilað útlendingi, sem dvalist hefði hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um geti í 64., 66., 67. eða 68. gr. laganna og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn lægi fyrir. Ljóst væri að kærandi hefði haft dvalarleyfi hér á landi vegna vistráðningar, sbr. 68. gr. laga um útlendinga, og uppfyllti þar af leiðandi ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr. um að hafa dvalið hér á landi á öðrum grundvelli en þar kæmi fram. Yrði því að hafna umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli fyrirmæla í 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, nema ríkar sanngirnisástæður mæltu með því að heimila umsækjanda að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefði verið tekin. Taldi Útlendingastofnun ekkert í gögnum málsins benda til þess að ríkar sanngirnisástæður stæðu til þess að veita kæranda undanþágu frá 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi því hafnað með vísan til 6. mgr. 57. gr. sömu laga.

IV Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að ástæðan fyrir komu hans til landsins, umfram ráðningu hans til vistráðningar, hafi verið sú að faðir hans, tvö systkini og föðursystkini séu búsett hér á landi. Kærandi hafi alist upp hjá föður sínum í [...] en móðir hans hafi [...]. Fram kemur að kærandi sé ekki í neinu sambandi við fjölskyldu hennar. Þegar faðir kæranda hafi flust hingað til lands árið [...] hafi kærandi flutt til föðurforeldra sinna til að hann gæti lokið menntun sinni í [...]. Föðurforeldrar hans séu nú mjög aldraðir og hafi flust á dvalarheimili fyrir aldraða. Telur kærandi því ljóst að félagsleg tengsl hans við heimalandið séu engin í dag.

Kröfur kæranda eru reistar á því að Útlendingastofnun hafi farið á svig við leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi 27. febrúar 2017, fjórum vikum áður en dvalarleyfi hans vegna vistráðningar hafi runnið út og innan þess tímaramma sem getið sé um í 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Þegar kærandi hafi lagt fram umsóknina hafi hann átt bókað flug til [...] en honum hvorki verið tjáð að hann þyrfti að fara úr landi né hafi honum verið leiðbeint um að sækja sérstaklega um undanþágu frá því að þurfa að yfirgefa landið. Þá hafi Útlendingastofnun ekki upplýst kæranda um að honum hafi ekki verið heimilt að dvelja á landinu í bréfi stofnunarinnar til hans, dags. 14. mars 2017, þar sem óskað hafi verið eftir frekari gögnum frá kæranda vegna umsóknar hans um dvalar- og atvinnuleyfi. Útlendingastofnun hafi verið í lófa lagið að kynna fyrir kæranda það skilyrði að hann þyrfti að yfirgefa landið á meðan umsókn hans væri í vinnslu eða að sækja um undanþágu frá þeirri reglu.

Kærandi byggir á því að hann uppfylli öll skilyrði laga um veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Stór hluti fjölskyldu hans dveljist hér, hann hafi fjölda atvinnutilboða og sé með þak yfir höfuðið. Við þessar aðstæður sé eðlilegt að beitt sé undantekningarákvæði 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, þar sem heimilt sé að veita umsækjanda um dvalarleyfi, sem uppfyllir ekki skilyrði 5. mgr. 57. gr., leyfir til að dveljast hér þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Fram kemur að kærandi hefði yfirgefið landið í lok febrúar ef Útlendingastofnun hefði upplýst hann um þá skyldu. Af þeirri ástæðu, tengslum kæranda við landið og takmörkuðum tengslum hans við heimaríki telur kærandi að uppi séu ríkar sanngirnisástæður fyrir því að leyfa honum að dveljast á Íslandi meðan umsókn hans er til meðferðar. Kærandi styður varakröfu við sömu málsástæður og að framan greinir.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna umsókn kæranda um dvalarleyfi hér á landi, sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi sem dvalist hefur hér á landi á grundvelli annars konar dvalarleyfis en um getur í 64., 66., 67. eða 68. gr. og sækir um dvalarleyfi á nýjum grundvelli áframhaldandi dvöl þar til endanleg ákvörðun um umsókn liggur fyrir enda sæki útlendingur um nýtt leyfi eigi síðar en fjórum vikum áður en fyrra dvalarleyfi fellur úr gildi og hefur verið í löglegri dvöl a.m.k. síðustu níu mánuði. Í 6. mgr. 57. gr. laganna segir að sæki útlendingur um dvalarleyfi á nýjum grundvelli hér á landi án þess að uppfylla skilyrði 5. mgr. skuli hafna umsókn af þeirri ástæðu. Í undantekningartilvikum geti Útlendingastofnun þó heimilað umsækjanda, sem ekki uppfyllir fyrrgreind skilyrði, að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Málsástæður kæranda lúta annars vegar að því að Útlendingastofnun hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni við meðferð málsins. Í því sambandi vísar kærandi til þess að Útlendingastofnun hafi ekki upplýst hann um skyldu hans til að yfirgefa landið meðan umsókn hans um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla væri til meðferðar. Vegna þessarar athugasemdar tekur kærunefnd fram að meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun miðaði að því að leiða í ljós hvort heimilt væri að veita kæranda rétt til áframhaldandi dvalar hér á landi þar til endanleg ákvörðun um umsókn hans lægi fyrir, sbr. 5. og 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Varð ekki ljóst fyrr en Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu að hafna bæri umsókn kæranda um dvalarleyfi í ljósi 5. og 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga og að honum yrði gert að yfirgefa landið. Gat Útlendingastofnun því ekki leiðbeint kæranda um skyldu hans til að yfirgefa landið áður en stofnunin hafði komist að niðurstöðu um það atriði með ákvörðun í málinu. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með kæranda að Útlendingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Kröfur kæranda eru hins vegar reistar á því að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að honum verði heimiluð áframhaldandi dvöl hér á landi þar til ákvörðun hafi verið tekin um umsókn hans, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Í athugasemdum um 6. mgr. 57. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu til þess að dveljast á landinu ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því en við það mat yrði litið til sambærilegra ástæðna og greinir í 50. gr. frumvarpsins um hverjir þurfi dvalarleyfi. Með hliðsjón af efni 5. og 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga verður ekki önnur ályktun dregin en að ætlunin hafi verið að vísa til 51. gr. laganna, um skyldu til að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins, en ekki 50. gr., enda kveður 3. mgr. 51. gr. á um undantekningu frá skyldu 1. mgr. 51. gr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að í 3. mgr. 51. gr. sé almenn heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrði 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því og að ætlunin sé að ákvæðinu verði beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Ákvæði 3. mgr. 51. gr. og 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga mæla bæði fyrir um að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar, þrátt fyrir að ekki séu uppfyllt tiltekin skilyrði þess efnis, ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í því ljósi telur kærunefnd rétt að hafa hliðsjón af athugasemdum við 3. mgr. 51. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga við mat á 2. málsl. 6. mgr. 57. gr. laganna.

Eins og fram hefur komið er faðir kæranda búsettur hér á landi ásamt tveimur systkinum kæranda. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann hafi búið hjá föðurforeldrum sínum í [...] sem nú séu flutt á dvalarheimili fyrir aldraða. [...]. Er samkvæmt framansögðu ljóst að nánasta fjölskylda kæranda er búsett hér á landi og að kærandi hafi takmörkuð fjölskyldutengsl í heimaríki. Eins og aðstæðum kæranda er háttað að þessu leyti, með hliðsjón af fyrrnefndum athugasemdum við 3. mgr. 51. í frumvarpi til laga um útlendinga varðandi samvistir fjölskyldna, telur kærunefnd að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að kæranda verði veitt heimild til að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin um umsókn hans, sbr. 6. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.



Anna Valbjörg Ólafsdóttir Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta