Mál nr. 329/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 329/2017
Miðvikudaginn 20. desember 2017
Agegnumboðsmanni skuldara
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 8. september 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. ágúst 2017 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 3. nóvember 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. nóvember 2017.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. nóvember 2017 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fædd 1957. Hún býr í leiguhúsnæði að B. Tekjur kæranda eru lífeyrisgreiðslur og húsaleigubætur.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 19.142.507 krónur.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda, tekjulækkunar, offjárfestingar og vankunnáttu í fjármálum.
Kærandi sótti fyrst um greiðsluaðlögun 3. apríl 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. október 2010 var henni veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Með ákvörðun umboðsmanns 24. maí 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður þar sem hún hafði ekki lagt fyrir fé eins og henni bar skylda til og auk þess hafði hún stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála) sem staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara með úrskurði 28. apríl 2015.
Kærandi lagði aftur fram umsókn um greiðsluaðlögun 14. júní 2017 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. ágúst 2017 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi vísar til þess að henni þyki frekar undarlegt að umboðsmaður skuldara hafi fyrri umsókn til hliðsjónar í málinu en kærandi sæki nú um í annað sinn.. Þá eigi kærandi ekki fasteign lengur en íbúð hennar hafi verið seld nauðungarsölu í ágúst síðastliðnum.
Dóttir kæranda sé í hennar forsjá til 18 ára aldurs lögum samkvæmt. Þar af leiðandi sé barn hennar einnig í forsjá kæranda, en dóttir kæranda hafi eignast barn X ára. Í dag hafi kærandi forsjá yfir barninu þegar dóttir kæranda sé ófær um að hugsa um það. Dóttir kæranda sé með „borderline“ persónuleikaröskun auk þess að vera fíkill en hafi þó verið edrú í X mánuði. Hún sé nú að byrja í [skóla] og komi þá í hlut kæranda að sjá fyrir dóttur sinni og barnabarni.
Í sambandi við íbúðarkaup og ætlaða óskynsemi varðandi þau þá vísar kærandi til þess að hún hafi keypt íbúð í X 2008 til að koma dóttur sinni í þann skóla sem hún hafi þurft að ganga í. Bankarnir hafi fallið í október sama ár en kærandi hafi engan þátt átt í því.
Varðandi þann arf sem kærandi hafi fengið, hafi hann komið til vegna opinberra skipta. Skiptastjóri hafi greitt áhvílandi veðskuldir á eign arfláta og að auki uppsöfnuð námslán. Það sem eftir stóð hafi verið 60.000 krónur sem kærandi hafi notað til að kaupa mat.
Kærandi sæki nú aftur um greiðsluaðlögun því henni finnist að hún hljóti að hafa lært af fyrri umsókn og ætli sér að gera betur núna. Kærandi hafi ekki svarað bréfum umboðsmanns skuldara þar sem hún sé búin að missa trú á embættinu. Þetta sé þó hennar síðasta hálmstrá en að öðrum kosti verði hún lýst gjaldþrota.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá komi fram í 2. mgr. 6. gr. lge. að utan þeirra synjunarástæðna sem kveðið sé á um í 1. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni enn fremur heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a til g í ákvæðinu. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum hafi framast verið unnt. Í athugasemdum við 2. mgr. 6. gr. lge. sem fylgt hafi frumvarpi til lge. komi fram að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. október 2010 hafi fyrri umsókn kæranda um greiðsluaðlögun verið samþykkt. Með ákvörðun embættisins 24. maí 2013 hafi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda svo verið felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns hafi verið kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem hafi staðfest ákvörðun umboðsmanns með úrskurði 28. apríl 2015. Í úrskurði kærunefndar hafi verið byggt á því að greiðslugeta kæranda á tímabilinu 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013 hefði verið samtals 1.990.170 krónur og hafi kæranda borið að leggja þá fjárhæð til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærandi hefði þó ekkert lagt fyrir. Undir meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærandi gefið þær skýringar að hún hefði þurft að verja þeim fjármunum sem hún hefði lagt til hliðar til að undirbúa komu barnabarns síns en ung dóttir kæranda hefði eignast barn á tímabilinu. Einnig hefði kærandi greitt afborganir af bílasamningi og fasteignagjöld á tímabilinu. Þá hefði kærandi að auki gefið þær skýringar fyrir kærunefnd að lyfja- og tannlæknakostnaður hefði verið mikill, sem og rekstrar- og viðgerðarkostnaður bifreiðar. Hún hefði jafnframt staðið í kostnaðarsömum málaferlum í C, þurft að skipta um baðker og flísar á baðherbergi, greiða innritunargjöld og dýrar bækur vegna skólagöngu dóttur sinnar og þar að auki fyrir bílpróf beggja dætra sinna. Þá kvaðst kærandi ekki hafa vitað að hún ætti að leggja fyrir og hún hefði fengið misvísandi upplýsingar þar að lútandi. Fram komi í úrskurði kærunefndar að kærandi hefði ekki lagt fram gögn til að sýna fram á þann óvænta kostnað sem hún kvaðst hafa orðið fyrir. Því hafi ekki verið unnt að taka tillit til hans. Að mati kærunefndar hefði kæranda mátt vera það ljóst með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara að henni hefði borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli og gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Auk ofangreinds hafi kærandi að mati kærunefndar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með því að standa ekki skil á fasteignagjöldum að fjárhæð 385.221 króna sem fallið hefðu til eftir að heimild til greiðsluaðlögunar hafði verið veitt. Í ljósi alls þessa hefði kærunefnd litið svo á að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar. Ákvörðun embættisins hafi því verið staðfest.
Samkvæmt skattframtali kæranda 2014 vegna tekna ársins 2013 hefði kærandi fengið greiddan arf að fjárhæð 11.039.390 krónur árið 2013. Af þeirri fjárhæð hafi verið greiddur erfðafjárskattur að fjárhæð 1.028.939 krónur. Kærandi hafi því haft 10.010.451 krónu af arfinum til ráðstöfunar. Samkvæmt ofangreindu skattframtali hafi innstæður á bankareikningum kæranda samtals verið 10.314 krónur í lok árs 2013. Umboðsmaður skuldara byggi á því að 10.000.137 krónum af arfinum hefði verið ráðstafað á árinu 2013. Það liggi þó ekki fyrir hvernig kærandi hafi ráðstafað þessum fjármunum.
Af orðalagi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að gera megi þá kröfu til þeirra sem sæki um greiðsluaðlögun að þeir hafi í aðdraganda umsóknar gert það sem í þeirra valdi hafi staðið til þess að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Kærandi hafi notið svokallaðs greiðsluskjóls á tímabilinu 27. október 2010 til 28. apríl 2015. Í því felist meðal annars að kröfuhöfum hafi verið óheimilt að innheimta kröfur sínar á hendur henni á þessu tímabili. Af þeirri ástæðu hafi skapast töluvert svigrúm fyrir kæranda til að leggja fyrir fjármuni. Í fyrrnefndum úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 28. apríl 2015 í máli nr. 78/2013 hafi verið byggt á því að kærandi hefði haft tök á að leggja fyrir 1.990.170 krónur á tímabilinu 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013. Almennt verði að ætla að skuldari sem leitist við að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og honum sé „framast unnt“, í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., myndi nýta tilgreint svigrúm til að leggja fyrir fjármuni og nota þá síðan til greiðslu skulda þegar greiðsluskjóli ljúki.
Kærandi hafi nýtt allt það fjárhagslega svigrúm sem greiðsluskjólið hafi skapað henni til annars en greiðslu skulda. Hún hafi heldur ekki sýnt fram á að hún hafi nýtt fjármunina til að greiða nauðsynlegan framfærslukostnað. Af þessum sökum hafi hún enga fjármuni haft til að greiða af skuldum sínum þegar greiðsluskjóli hafi lokið. Þannig virtist útilokað að líta mætti svo á að hún hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og henni hafi framast verið unnt í aðdraganda þess að hún sótti um greiðsluaðlögun að nýju 15. júní 2017. Samkvæmt þessu verði að telja að með háttsemi sinni beri kærandi sjálf töluverða ábyrgð á þeirri alvarlegu fjárhagsstöðu sem hún sé nú í.
Ef skuldsettur einstaklingur, sem ekki nýtur greiðsluskjóls, myndi um langt skeið nýta allar tekjur sínar umfram framfærslukostnað, til annars en greiðslu skulda og sækja síðan um greiðsluaðlögun, væru almennt miklar líkur á því að umsókn viðkomandi yrði synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telji að hið sama eigi að gilda um einstakling sem sæki um greiðsluaðlögun í annað sinn eftir að hafa verið í greiðsluskjóli í fyrra máli. Annað myndi leiða til óeðlilegs ójafnræðis umsækjenda um greiðsluaðlögun.
Væri ekki horft til þess hvernig einstaklingar í greiðsluskjóli nýti það fjárhagslega svigrúm sem greiðsluskjól skapi þeim við mat á því hvort þeir hafi reynt að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins þeim hafi verið „framast unnt“, í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., virðist slíkt geta leitt til þess að óheiðarlegir einstaklingar gætu notið greiðsluskjóls út í hið óendanlega. Viðkomandi gæti þannig brotið gegn tilgreindum skyldum sínum í greiðsluskjóli, sem myndi leiða til niðurfellingar máls, og sótt strax um greiðsluaðlögun að nýju. Ljóst sé að slíkt samræmdist ekki tilgangi laga um greiðsluaðlögun og að óhæfilegt væri að samþykkja umsóknir um greiðsluaðlögun við þessar aðstæður. Að mati embættisins verði að telja að f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé ætlað að koma í veg fyrir að þessi staða komi upp.
Kæranda hafi verið sent ábyrgðarbréf 12. júlí 2017 þar sem henni hafi verið gerð grein fyrir mikilvægi þess að skýra tiltekin álitaefni og leggja fram gögn. sem sýndu fram á hvers vegna hún hefði ekki lagt til hliðar í samræmi við greiðslugetu á tímabilinu 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2013. Þá hafi í bréfinu verið óskað eftir upplýsingum um það hvernig fjármunum sem hún hefði fengið í arf árið 2013 hefði verið ráðstafað og tekið fram að nauðsynlegt væri að kærandi legði fram gögn máli sínu til stuðnings. Engin gögn hafi borist frá kæranda.
Þar sem ekki liggi fyrir hvernig kærandi hefði ráðstafað arfi árið 2013 þyki fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag hennar að mati umboðsmanns skuldara en það leiði til synjunar á umsókn um greiðsluaðlögun, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Þá sé það álit umboðsmanns skuldara að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni hafi framast verið unnt, með því að leggja ekki til hliðar af tekjum sínum þá fjármuni sem hún hafi haft aflögu á fyrrgreindu tímabili svo sem henni hafi borið að gera samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati embættisins leiði sú háttsemi til synjunar á umsókn kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Að framangreindu virtu telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun og hafi henni því verið synjað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að umboðsmaður skuldara telji óhæfilegt að samþykkja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og er umsókninni synjað með vísan til til b-liðar 1. mgr. og f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Fram kemur í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Kærandi sótti fyrst um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 3. apríl 2010. Hinn 18. október 2010 hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 1. mgr. 11. gr., sbr. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge. og 1. gr. laga nr. 128/2010. Umsókn kæranda var samþykkt 27. október 2010. Við meðferð málsins kom í ljós að kærandi hafði ekki lagt til hliðar af tekjum sínum í greiðsluskjólinu svo sem henni bar að gera og að auki hafði hún stofnað til nýrra skulda á tímabilinu. Kærandi hafði því brotið gegn a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Greiðsluaðlögunarumleitanir hennar voru því felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2013. Þessa ákvörðun kærði kærandi til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefnd velferðarmála). Kærunefndin kvað upp úrskurð 28. apríl 2015 og staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda þar sem hún hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Annars vegar vegna þess að kærandi lagði ekki fyrir á tímabili greiðsluskjóls, en hún hefði að mati kærunefndarinnar átt að geta lagt fyrir um 1.990.000 krónur. Hins vegar vegna þess að hún stofnaði til skulda á tímabilinu á þann hátt sem henni var óheimilt að gera. Þar með féll greiðsluskjól kæranda niður samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. lge. og lauk þá einnig heimild kæranda til að ná samningi við kröfuhafa um greiðsluaðlögun samkvæmt þeim lögum.
Kærandi sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 14. júní 2017 eða ríflega tveimur árum eftir að fyrra máli hennar lauk. Umsókn kæranda var hafnað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. ágúst 2017. Ástæður höfnunar voru tvær. Í fyrsta lagi var fjárhagur kæranda talinn óljós samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem ekki var talið liggja fyrir hvernig hún hefði ráðstafað arfi sem hún fékk á árinu 2013. Í öðru lagi var umsókninni hafnað þar sem kærandi hefði ekki lagt til hliðar fyrrnefndar 1.990.000 krónur á meðan fyrra mál hennar stóð yfir og var með því á ámælisverðan hátt talin hafa látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þessa ákvörðun kærði hún til úrskurðarnefndar velferðarmála og verður leyst úr henni með úrskurði þessum.
Meðal gagna í fyrra máli kæranda er tölvupóstur frá henni 16. september 2013 til Embættis umboðsmanns skuldara. Þar kemur fram að móðir kæranda hefði lánað henni veð í fasteign sinni og hefði arfur frá henni til kæranda farið í að greiða upp þau veðlán. Um hafi verið að ræða tvö lífeyrissjóðslán og eitthvað hjá Landsbankanum hf. eins og kærandi orðar það í fyrrnefndum tölvupósti.
Á skuldayfirliti umboðsmanns skuldara í fyrra málinu kemur fram að lán kæranda frá ofangreindum aðilum, útgefin 1993, 1999 og 2009, voru tryggð með lánsveði. Einnig voru þrjár kröfur við Landsbankann hf. tryggðar með lánsveði á grundvelli tryggingabréfs sem útgefið var 2006. Skuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti eldra máls voru eftirfarandi í krónum:
Krafa | Vanskil frá | Fjárhæð |
Íbúðalánasjóður | 2009 | 25.308.085 |
[lífeyrissjóður]* | 2008 | 1.406.580 |
[lífeyrissjóður]* | 2010 | 2.259.709 |
Íslandsbanki hf.* | 2010 | 4.286.285 |
Landsbankinn hf.* | 2010 | 9.836.665 |
Íslandsbanki hf. | 2010 | 7.678.400 |
D hf. | 2010 | 800.793 |
E hf. | 2008 | 63.512 |
F | 2009 | 449.940 |
G hf. | 2010 | 15.912 |
Fasteignagjöld | 2010 | 304.556 |
H hf. | - | 97.584 |
Tollstjóri | - | 165.074 |
LÍN | 2009 | 1.768.833 |
Alls: | 54.441.928 |
*Lánsveð í fasteign móður kæranda.
Skuldir kæranda tryggðar með lánsveði námu því 17.789.239 krónum en aðrar skuldir 36.652.689 krónum.
Á þeim tíma er kærandi sótti um greiðsluaðlögun í seinna skiptið voru skuldir hennar eftirfarandi í krónum:
Krafa | Vanskil frá | Fjárhæð |
Íslandsbanki hf. | 2015 | 14.965.117 |
Arion banki hf. | - | 1.670.371 |
G | 2013 | 34.325 |
J ehf. | 2013 | 197.215 |
Aðrir reikningar | 2013 | 108.048 |
Ofgreiddar bætur | 2013 | 71.392 |
Tollstjóri | 2014 | 244.605 |
LÍN | 2015 | 1.851.434 |
Alls: | 19.142.507 |
Samkvæmt þessu eru allar skuldir kæranda sem tryggðar voru með veði í fasteign móður hennar greiddar. Að auki var krafa Íbúðalánasjóðs greidd af uppboðsandvirði fasteignar kæranda sem seld var nauðungarsölu árið 2016. Aðrar kröfur að fjárhæð 1.716.385 krónur sem fyrir hendi voru í fyrra máli kæranda, koma ekki fram á yfirliti yfir skuldir hennar í síðara máli. Þetta eru kröfur vegna fasteignagjalda og kröfur frá D hf., E hf., F og H hf. Samkvæmt þessu liggur fyrir að staðhæfingar kæranda, um að arfur hafi verið notaður til að greiða veðskuldir eiga við rök að styðjast enda samræmast fyrirliggjandi gögn þeim skýringum sem kærandi gaf umboðsmanni skuldara í tölvubréfi 16. september 2013.
Þegar hin kærða ákvörðun var tekin lá því fyrir að kærandi hafði áður veitt Embætti umboðsmanns skuldara upplýsingar um hvernig arfi sem hún fékk árið 2013 hefði verið ráðstafað, sbr. fyrrgreint tölvubréf hennar. Með hliðsjón af því að upplýsingar um þetta atriði lágu þegar fyrir, eins og hér að framan er lýst, bar umboðsmanni skuldara að leggja sérstakt mat á hvort þessar tilteknu upplýsingar, með tilliti til breyttrar skuldastöðu kæranda, gæfu nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og rannsaka málið á fullnægjandi hátt með tilliti til þess.
Hin kærða ákvörðun er einnig byggð á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar í fyrra greiðsluaðlögunarmáli og með því ekki staðið við skuldbindingar eins og henni var framast unnt. Þegar metið er hvort kærandi hefur staðið við skuldbindingar sínar eins og henni framast var unnt, telur úrskurðarnefndin að nauðsynlegt sé að líta til fjárhags kæranda á því rúmlega tveggja ára tímabili sem leið frá því að fyrra greiðsluaðlögunarmál var fellt niður og þar til hún sótti um greiðsluaðlögun að nýju.
Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði hjá umboðsmanni skuldara undir rekstri kærumálsins kannaði umboðsmaður ekki hver greiðslugeta kæranda hefði verið á því rúmlega tveggja ára tímabili sem leið frá því að fyrra máli lauk og þar til kærandi sótti um greiðsluaðlögun að nýju. Þá var heldur ekki kannað hvort kærandi hefði greitt ofangreindar skuldir að fjárhæð 1.716.385 krónur eftir að fyrra greiðsluaðlögunarmáli lauk. Að mati úrskurðarnefndarinnar skortir því mikilvægar upplýsingar til að unnt sé að meta hvort kærandi lét hjá líða að standa við skuldbindingar á umræddu tveggja ára tímabili þannig að brjóti í bága við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Um sérstaka skyldu umboðsmanns skuldara til að rannsaka mál er mælt fyrir um í 5. gr. lge. Ákvæðið styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvald þarf að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Eins og hér hefur verið rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi ekki haft forsendur til að meta hvort fjárhagur kæranda taldist óljós við vinnslu seinna máls. Á sama hátt hafi embættið heldur ekki kannað fjárhag kæranda á þeim tíma er leið frá því að fyrra greiðsluaðlögunarmáli hennar lauk og þar til hún sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar rúmum tveimur árum síðar til þess að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort kærandi hafi staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem henni framast var unnt. Samkvæmt þessu þykir umboðsmaður skuldara ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 5. gr. lge., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin ekki á að nægar forsendur hafi verið fyrir þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að fjárhagur kæranda hafi verið óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Enn fremur telur úrskurðarnefndin að umboðsmaður hafi ekki kannað nægilega hvort kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málið sent til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi og málinu vísað til umboðsmanns skuldara til meðferðar að nýju.
Lára Sverrisdóttir
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal