Mál nr. 25/2023 Úrskurður 21. mars 2023
Mál nr. 25/2023 Eiginnafn: Ójón (kk.)
Hinn 21. mars 2023 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 25/2023 í gegnum fjarfundarbúnað. Erindið barst nefndinni 22. febrúar og var fyrst tekið fyrir á fundi hennar 9. mars. sl. en afgreiðslu þess frestað til dagsins í dag.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Ójón (kk.) uppfyllir skilyrði nr. eitt, þrjú og fjögur hér að framan. Það tekur íslenskri eignarfallsendingu, Ójóns, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Hér reynir aftur á móti á skilyrði númer tvö. Í greinargerð með lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, segir að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þar segir einnig að skilyrðinu sé einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Nefndin lítur svo á að eiginnafnið Ójón sé afbökun á hinu rótgróna eiginnafni Jón og því ekki hægt að samþykkja það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Ójón (kk.) er hafnað.