Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 88/2003

Þriðjudaginn, 4. maí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 23. desember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 22. desember 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. október 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins uppfylli ég ekki þau skilyrði um rétt á fæðingarstyrk. Í fyrsta lagi samkvæmt l. mgr. 19 gr. laga nr. 15/2000 og í öðru lagi vegna þess að ekki er talið að ég hafi flutt til B-lands vegna náms heldur vegna vinnu. 

Ég mun nú hér að neðan gera grein fyrir, að ástæðan fyrir flutningi mínum til B-lands var fyrst og fremst sú að fara í nám. Ég mun einnig færa rök fyrir því hvers vegna námsframvinda mín var ekki 100% á síðasta námsári.

Ég fluttist til B-lands í febrúar árið 2000. Ástæða þess að ég fluttist var sú að unnusti minn, D, fékk inngöngu í E-skólann. Hann fluttist út haustið 1999, en ég ákvað að klára eina önn til viðbótar í F-fræði við G-háskólann og flytjast til B-lands eftir áramótin. Ætlunin var að halda áfram námi ytra við H-háskólann. Ég kynnti mér hvað var í boði og hvenær umsóknarfrestur rynni út við H-háskólann í gegnum internetið áður en ég fluttist út, það kom í ljós að ég gat ekki byrjað í skólanum í janúar, þannig að ég sótti um fyrir haustið 2000 áður en umsóknarfresturinn rann út þann 15. mars 2000. 

Ég ákvað samt sem áður að flytjast utan og koma mér inn í B-lenska tungu og menningu áður en skólinn myndi hefjast. Ég fékk vinnu við I í u.þ.b. þrjá mánuði (frá miðjum apríl til lok júní), þessi vinna hjálpaði mér mikið við að komast inn í tungumál þjóðarinnar. Þann 28.júlí 2000 fékk ég tilkynningu um að hafa fengið inngöngu í H-háskólann í J-fræðum. Ég byrjaði haustið 2000 og hef stundað námið síðan. 

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég hafi ekki lokið fullu námi á síðastliðnu námsári, en ég tel mig hafa góðar og gildar ástæður fyrir því. Á haustönn 2002 frestaði ég einni ritgerð, vegna þess að ég þjáðist af mikilli meðgönguógleði og uppköstum allan desember mánuð. Ég frestaði sem sagt einni ritgerð þangað til á vorönn. Á vorönn 2003 náði ég því miður ekki að klára vegna þess að ég eignaðist son minn þremur vikum fyrir tímann. Ég á því eina ritgerð eftir (þó ekki BA ritgerðina, sem ég kláraði vorið 2002), og reikna með að klára hana vorið 2004.

Á síðasta námsári kláraði ég samtals 45 ECTS (alþjóðlegar einingar) það gera 22,5 íslenskar einingar og samtals 75% námsárangur. 

Það er von mín að rökstuðningur minn hér að framan varpi ljósi á staðreynd málsins. en eins og fram hefur komið í bréfi mínu þá var það alltaf einlægur ásetningur minn þegar ég flutti til B-lands að mennta mig. Eðli málsins samkvæmt á ég ekki i fórum mínum staðfest gögn sem sanna það, enda vissi ég ekki þá hvað framtíðin bæri í skauti sér og vona ég nefndin virði mér það til vorkunnar.“

  

Með bréfi, dags. 6. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 19. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærandi flutti lögheimili sitt til B-lands þann 8. febrúar 2000. Hún hóf nám þar 1. september sama ár. Samkvæmt skattframtali 2003 hafði hún launatekjur erlendis á árinu 2002. Í kærubréfi kemur einnig fram að hún hafi stundað atvinnu í B-landi um þriggja mánaða skeið árið 2000.

Samkvæmt 34. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) ber við framkvæmd laganna að taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

Reglugerð EBE nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja gildir m.a. um greiðslur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar. Í 13. gr. eru ákvæði er mæla fyrir um hvaða löggjöf skuli beita. Grundvallarreglan er sú að þeir einstaklingar sem reglugerðin nær til skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis og er það ríkið sem þeir eru ráðnir til starfa eða starfa sjálfstætt í. Hætti einstaklingur að heyra undir löggjöf eins aðildarríkis án þess að löggjöf annars taki við skal hann heyra undir löggjöf búsetulandsins.

Þessar reglur hafa í för með sér að ef einstaklingur stundar atvinnu á evrópska efnahagssvæðinu telst hann tryggður í vinnulandinu, og hafi hann jafnframt flutt lögheimili sitt til vinnulandsins heldur hann áfram að lúta reglum þess lands um almannatryggingar þrátt fyrir að hann láti af störfum, svo fremi sem hann hefji ekki störf í öðru landi.

Ákvæði reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá koma til fyllingar ofangreindum meginreglum. Samkvæmt 10. gr. hennar er heimilt að ákveða að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt almannatryggingalögum sé áfram tryggður í allt að einu ári frá brottför frá Íslandi, enda sé dvölin erlendis ekki í atvinnuskyni. Samkvæmt 11. gr. telst sá sem fer af landi brott í atvinnuskyni ekki tryggður nema annað leiði af lögum, milliríkjasamningum eða ákvæðum reglugerðarinnar.

Með vísun til ofanritaðs verður að líta svo á að kærandi sé, með starfi sínu í B-landi, fallin af tryggingaskrá hér á landi og eigi því ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks, hvorki lægri né hærri. 

Komist úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála að annarri niðurstöðu þykir rétt að benda á eftirfarandi:

Í 1. mgr. 19. gr. ffl. segir að foreldrar í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig og að sameiginlega eigi þau rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Reglur um fæðingarstyrk námsmanna eru nánar útfærðar í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 1. mgr:

“Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á sl. 12 mánuðum fyrir fæðingu barns Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.”

Kærandi hefur lögheimili í B-landi og því kemur ákvæði 13. gr. reglugerðarinnar til skoðunar. Samkvæmt ákvæðinu er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Ljóst má vera að kærandi flutti ekki lögheimili sitt í beinum tengslum við nám, enda leið umtalsverður tími frá flutningnum og þar til námið hófst. Skilyrði greiðslna samkvæmt ákvæðinu eru því ekki uppfyllt.

Jafnframt þykir rétt að benda á að samkvæmt framvinduvottorði skóla virðist kærandi ekki heldur uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 14. gr. um fullt nám á haustönn 2002. Hefur hún lagt fram læknisvottorð vegna veikinda á meðgöngu.

Í 14. gr. a reglugerðar nr. 909/2000 segir að heimilt sé að greiða móður fæðingarstyrk sem námsmanni þó að hún fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um viðunandi námsárangur og/eða ástundun enda hafi hún ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna, sbr. 2. mgr. 7. gr. Skal hún sannanlega hafa verið skráð í nám og fengið greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður eða hafa verið á biðtíma eftir dagpeningum á þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins á kærandi ekki rétt á sjúkradagpeningum frá stofnuninni og byggir sú niðurstaða á starfi hennar í B-landi, sbr. það sem áður er rakið. Réttur til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna virðist því ekki vera fyrir hendi.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

  

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi ódags. í mars 2004, þar segir m.a.:

„Í greinargerð stendur að samkvæmt skattframtali 2003 hafði ég launatekjur erlendis á árinu 2002. Það er rétt að þetta komi fram í skattframtali mínu, en endurskoðandinn minn hefur misskilið bréfin sem að ég sendi honum og hefur sett það inn sem tekjur sem að B-lenska ríkið áætlaði á mig, en ekki ársuppgjörið þar sem að stendur að ég hafi þénað K krónur á árinu 2002.

Varðandi þriggja mánaða starf mitt í B-landi árið 2000, kemur fram í greinargerðinni að ég sé fallin af tryggingaskrá á Íslandi. Ég hef nú gengið á milli skrifstofa hér í B-landi og reynt að leita réttar míns, en þeir standa fastir á því að ég sé ekki tryggð hér í B-landi, sérstaklega þar sem að ég hef stundað vinnu á Íslandi eftir þetta og telst þá B-land ekki lengur vinnuland mitt.

Í lok greinargerðarinnar kemur fram að ég uppfylli ekki skilyrði um fullt nám á haustönn 2002 og í framhaldi af því stendur að ég hafi ekki getað stundað nám á meðgöngu vegna heilsufarsástæðna. Það er ekki rétt að ég hafi ekki getað stundað nám á meðgöngunni, ég flutti eitt af prófum mínum á haustönn yfir á vorönn vegna veikinda sem að tengdust meðgöngu. Ég stundaði námið að öðru leyti samviskusamlega á haustönninni, þrátt fyrir að desember mánuður hafi verið erfiður, og datt aldrei í hug að sækja um sjúkradagpeninga hjá Tryggingastofnun ríkisins, enda taldi ég mig ekki vera sjúkling á meðgöngunni.“

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er kveðið á um heimild félagsmálaráðherra til að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í 35. gr. ffl. er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 8. febrúar 2000. Í apríl sama ár hóf hún störf í landinu og starfaði þar til loka júní. Þann 1. september 2000 hóf hún nám við H-háskólann, en hún hafði sótt um skólavist áður en hún hóf störf. 

Kærandi ól barn 16. júní 2003. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir nægjanlega staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hennar í H-háskólanum. Hún uppfyllir því skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr. 

Kærandi var skráð í fullt nám á haustmisseri 2002 og vormisseri 2003. Vegna veikinda í desember sem staðfest eru með læknisvottorði frestaði hún skilum á ritgerð, sem hún lauk síðan á vormisseri 2003. Á námsárinu lauk hún 45 einingum (ECTS) sem jafngilda 75% námi. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála staðfesta gögn málsins að kærandi hafi verið í fullu námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins. 

Með hliðsjón af framangreindu og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, sbr. breyting nr. 915/2002, 2. ml. 3. gr., er fallist á að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þess að eiga rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns, er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta