Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. febrúar 2003

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 17. febrúar 2003

Mánudaginn 17. febrúar 2003 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 6/2002

Vegagerðin

gegn

Sveini Tyrfingssyni og

Guðmundu Tyrfingsdóttur

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :





 

I.  Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II.  Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 4. september 2002 óskaði Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), eftir því að Matsnefnd eignarnámsbóta mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á spildu úr jörðinni Lækjartúni, Ásahreppi, en eignarnámsþolar, þau Sveinn Tyrfingsson, kt. 280141-3809 og Guðmunda Tyrfingsdóttir, kt. 130232-2489, Lækjartúni, Ásahreppi, eru eigendur jarðarinnar.  Tilefni eignarnámsins er veglagning Hringvegar að nýrri brú yfir Þjórsá, u.þ.b. 800 m. neðan við núverandi brú yfir ána.

Eignarnámið nær nánar tiltekið til landspildu undir hinn nýja veg í landi Lækjartúns.  Í landi Lækjartúns mun vegurinn liggja í stórri bergskeringu.  Ætlunin er að vinna sprengt grjót úr skeringunni í burðarlag og fyllingu vegarins og er heildarrúmmál hennar 55.800 m³, en útreiknað nýtanlegt magn 26.000 m³.  Vegsvæðið, þ.m.t. skering í landi Lækjartúns er 4,5 ha. að stærð.  Við framkvæmdirnar er ætlunin að skilað verði til eignarnámsþola 2,0 ha. af núverandi vegsvæði Hringvegar.  Heildarstærð hins eignarnumda er því 2,5 ha.

Lagaheimild til eignarnámsins er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.


 

III.  Málsmeðferð:

Málið var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 11. september 2002.  Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum.  Að því búnu var gengið á vettvang og aðstæður skoðaðar.  Eignarnámsþolar samþykktu að eignarnemi hæfi framkvæmdir þó mati væri ekki lokið.  Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 7. október 2002.

Mánudaginn 7. október 2002 var málið tekið fyrir.  Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola til 28. október 2002.

Nokkur dráttur varð á framlagningu gagna af hálfu eignarnámsþola og var málið því ekki tekið fyrir fyrr en þriðjudaginn 21. janúar 2003.  Þá lögðu eignarnámsþolar fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings til 4. febrúar 2003.

Þriðjudaginn 4. febrúar 2003 var málið tekið fyrir.  Sættir voru reyndar en án árangurs og var málið því flutt munnlega fyrir nefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

IV.  Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður tilefni eignarnámsins vera lagning vegar að nýrri brú á Hringvegi yfir Þjórsá, sem verði byggð í samræmi við nútímakröfur um borðarþol, öryggi og þægindi. 


Svo sem fram kemur í kafla II. er andlag eignarnámsins 2,5 ha lands sem er þannig reiknað:


Vegsvæði                                                              4,50 ha.

Núverandi vegsvæði skilað                                  - 2,00 ha.

Samtals skerðing                                                   2,50 ha.

Eignarnemi kveður hina eignarnumdu spildu vera óræktað land.  Skipta megi spildunni í fjóra hluta, frá merkjum austan megin sé farið um núverandi vegsvæði á rúmlega 200 m. kafla, síðan sveigi veglínan af núverandi vegi inn á mýrlendi á um 200 m. kafla, því næst sé gróið holt á um 350 m. kafla að stað þar sem úverandi vegur þverar nýja vegstæðið, og loks taki við mjög blautt mýrarsvæði á um 300 m. kafla þar til komið sé að landamerkjum við Þjórsártún.  Eignarnemi kveður þannig vegarstæðið að stórum hluta vera mýrlendi og henti hvorki til ræktunar né mannvirkjagerðar.  Ekki liggi fyrir með hvaða hætti umrætt land hafi verið nýtt til þessa, en gera megi ráð fyrir því að um hefðbundin landbúnaðarnot hafi verið að ræða.  Eignarnemi telur að miða eigi við núverandi notkun landsins þegar landið er metið.


Eignarnemi álítur að hann þurfi ekki að greiða sérstaklega fyrir það efni sem hann getur nýtt úr bergskeringum, enda hljóti öll réttindi að fylgja því landi sem tekið sé eignarnámi.


Varðandi mat á bótum fyrir hið eignarnumda land telur eignarnemi að líta beri til orðsendingar nr. 13/2001, en skv. henni séu lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land kr. 20.000 pr. ha, en kr. 7.500 pr. ha fyrir óræktunarhæft land.  Eignarnemi kveðst þó geta fallist á að verðmæti lands á því svæði sem hin eignarnumda spilda liggi kunni að vera hærra en lágmarksverð sem boðið sé skv. orðsendingunni.  Eignarnemi vísar sérstaklega til þess að fasteignamat Lækjartúns fyrir utan ræktað land sé kr. 670.000-.  Fram komi í framlögðum gögnum að 39,2 ha. ræktað lands séu metnir á tæpar 2.133.000-, eða rúmar kr. 54.000- pr. ha.  Þá vísar eignarnemi ennfremur til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í sambærilegum málum, t.a.m. málinu nr. 18/1998 og 6/2000.  Þá er einnig vísað til nýgerðs samnings við eigendur Urriðafoss vegna sömu framkvæmdar auk þess sem vísað er til úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta í málum er varða lagningu Búrfellslínu 3A frá 1. júlí 1999, eftir því sem við á.

Eignarnemi telur að bæta eigi eignarnámsþolum raunverulegt fjártjón þeirra vegna eignarnámsins.  Í því sambandi bendir eignarnemi á að hann muni skila aftur 2 ha. lands og að malbiki verði flett af því landi, það verði jafnað út og sáð í það í samráði við eignarnámsþola.  Eignarnemi muni skila þessu landi og því eigi það að koma til frádráttar bótum fyrir hið eignarnumda land.  Eignarnemi benti sérstaklega á það við flutning málsins fyrir nefndinni að sjónarmið varðandi verðmætaminnkun landsins í næsta nágrenni við hinn nýja veg sem matsnefndin byggði á í úrskurði sínum í málinu nr. 2/2002 ætti ekki við í þessu máli, enda myndi hinn nýji vegur að mestu liggja á sama stað og vegurinn áður lá um land Lækjartúns. 

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að þeim verði ákvarðaðar a.m.k. kr. 17.000.000- í bætur vegna eignarnámsins auk kostnaðar vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni. 

Eignarnámsþolar kveðjast eiga Lækjartún í þeim eignarhlutföllum að Sveinn eigi 64,5% en Guðmunda 34,5%.  Jörðin hafi áður heitað Kálfholtshjáleiga, en nafnabreyting hafi orðið árið 1954.  Jörðin sé fremur lítil en notagóð.  Jarðhiti mun finnast á mörkum Lækjartúns og Þjórsártúns auk þess sem jörðin eigi veiðirétt í Þjórsá.  Eignarnámsþolar segja að nú sé stundaður hefðbundinn sauðfjár/kúabúskapur á jörðinni, en þar séu nú rekin tvö bú í þeirra eigu, Lækjartún I og II.

Eignarnámsþolar telja eignarnámið muni leiða til mun víðtækari skerðingar á eignarréttindum þeirra en eignarnemi haldi fram auk þess sem framkvæmd eignarnema muni valda þeim ónæði sem bæta beri þeim.   Eignarnámsþolar telja að miða beri bætur til þeirra út frá þeirri reglu sem gefi hagstæðasta niðurstöðu fyrir þá og vísa í því sambandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segi að fullt verð skuli koma fyrir hið eignarnumda.

Eignarnámsþolar telja að eignarnemi eigi að borga sérstaklega fyrir malarefnið sem hann komi til með að vinna úr landinu vegna bergskeringanna.  Telja eignarnámsþolar að efnið sé gott, sem sýni sig m.a. í því að  eignarnemi sjálfur hyggist nýta það til vegagerðar sinnar.  Auk þessa telja eignarnámsþolar að markaður sé fyrir efnið á svæðinu, sérstaklega þegar komi að því að byggja svokallaða Urriðafossvirkjun.  Eignarnámsþolar telja að þegar allt sé talið muni eignarnemi fjarlægja 65.800 m³ malarefnis, en sé einungis miðað við nýtanlegt efni séu það 27.900 m³.  Eignarnámsþolar telja eðlilegt að eignarnemi greiði þeim kr. 33 pr. m³ fyrir efnið, enda sé það verð sem eignarnemi sjálfur hyggist greiða eigendum Urriafoss fyrir efnistöku í landi þeirra skv. nýgerðum samningi þar að lútandi.

Eignarnámsþolar gera kröfu til þess að eignarnemi greiði þeim sérstakar bætur fyrir ónæði og óþægindi sem óneitanlega muni skapast meðan á framkvæmdunum standi.  Þá sé ljóst að uppgræðsla þess svæðis sem eignarnemi hyggist skila til baka muni taka tíma og ólíklegt megi telja að það land verði nokkurn tíma jafn gott og áður var og að landið muni ætíð bera þess merki að því hafi verið raskað og verði þannig lýti í náttúrunni.  Af þessum sökum geta eignarnámsþolar ekki fallist á að verðmæti 2,0 ha. lands verði dregið frá bótum til þeirra svo sem eignarnemi gerir kröfu til.  Eignarnámsþolar telja því að líta beri svo á að hið eignarnumda svæði sem meta eigi sé 4,5 ha. að stærð en ekk 2,5 ha.

Eignarnámsþolar hafna alfarið að þeir hagnist nokkuð á framkvæmd eignarnema.  Breyting á legu vegarins um land þeirra skipti engu um samgöngur á svæðinu og hafi enga þýðingu varðandi verðmat á jörðinni.  Þeir telja staðsetningu jarðarinnar svo nærri Stór-Reykjavíkursvæðinu gera hana að fýsilegum kosti til fjárfestinga auk þess sem hún liggi nærri þjónustukjörnum á Suðurlandi s.s. Hellu, Hvolsvelli, Árborg og Þorlákshöfn.  Eignarnámsþolar telja mikla verðhækkun hafi orðið á landi á þessu svæði á síðustu árum vegna aukinnar eftirspurnar.  Þannig sé hektaraverð lands sem hægt er að nýta undir bústaði hvers konar til heilsársdvalar á svæðinu komið upp í kr. 1.000.000- pr. ha.  Eignarnámsþolar vísa í þessu sambandi til framlagðs kaupsamnings um 0,5 ha. landspildu úr landi Skálmholts í Villingaholtshreppi sem seld var á kr. 500.000-.  Eignarnámsþolar hafna því alfarið hugmyndum eignarnema um verðmæti lands á svæðinu og benda að auki á að skv. úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 2/2002, vegna eignarnáms á landi úr Þjórsártúni vegna sömu vegaframkvæmdar, hafi matsnefndin talið verðmæti lands á svæðinu vera kr. 300.000- pr. ha., sem eignarnámsþolar telji einnig of lágt.


Eignarnámsþolar gera sérstaka kröfu til þess að land í næsta nágrenni við hinn nýja veg verði talið ónothæft vegna nálægðar við veginn.  Eignarnámsþolar vísa í þessu sérstaklega til áðurnefnds úrskurðar matsnefndarinnar í málinu nr. 2/2002.  Að auki telja eignarnámsþolar að framkvæmdin eigi eftir að hafa í för með sér almenna verðmætarýrnun á jörðinni þar sem vegurinn komi til með að skera verðmætan hluta landsins sem annars hefði verið hentugur til uppbyggingar.

Eignarnámsþolar gera sérstaka kröfu til dráttarvaxta á ákvarðaðar eignarnámsbætur frá þeim tíma sem framvæmdir hófust, eða frá 15. september 2002 til greiðsludags.


VI.  Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.  Stærð og lega þess lands sem eignarnemi ætlar undir hinn nýja veg er ágreiningslaus með aðilum. 

Fallist er á það með eignarnámsþolum að jörðin Lækjartún sé vel staðsett og einmitt á því svæði landsins sem þykir eftirsóknarvert vegna nálægðar við þéttýlið á Stór-Reykjavíkursvæðinu.  Telur matsnefndin að þróun landverðs á þessum slóðum undanfarin ár renni stoðum undir þessa staðhæfingu.

Veglagning eignarnema um land eignarnámsþola í landi Lækjartúns kemur ekki til með að breyta verulega staðsetningu vegarins í landinu.  Um er að ræða fremur litla breytingu á legu vegarins og er hið eignarnumda land því allt mjög nærri núverandi vegi auk þess sem hinn nýji vegur mun að hluta til liggja á sama stað og eldri vegurinn.  Af þessum sökum er ekki um það að ræða að verið sé að þvera ónýttan hluta lands eignarnámsþola með nýjum vegi líkt og gert verður í landi Þjórsártúns.   Af þessum sökum telur matsnefndin ekki rök til að ákvarða sérstakar bætur fyrir verðrýrnun lands í næsta nágrenni við hið eignarnumda svæði eins og gert var í úrskurði nefndarinnar í málinu nr. 2/2002, enda feli vegaframkvæmdirnar nú ekki í sér neina viðbótarrýrnun á landi eignarnámsþola í nágrenni við veginn umfram það sem áður var.  Af sömu ástæðu fær matsnefndin ekki séð að um almenna verðlækkun verði að ræða á jörðinni vegna framkvæmdarinnar.

Að áliti matsnefndarinnar er verðmæti hins eignarnumda lands kr. 300.000- pr. ha. Fallist er á það með eignarnema að taka skuli tillit til verðmætis þess lands sem skilað verður aftur til eignarnámsþola.   Vísað er til 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994 í þessu sambandi.  Fyrir liggur í gögnum málsins að eignarnemi hyggst fletta malbiki af gamla veginum á því svæði sem skilað verður, aka mold í það og sá.  Af þessum sökum telur matsnefndin að land það sem skilað verður aftur verði a.m.k. ekki verðminna en annað land á svæðinu og því beri að draga verðmæti þess að fullu frá bótum sem ákvarðaðar verða fyrir hið eignarnumda land.  Því miðar matsnefndin við að ákvarða bætur fyrir 2,5 ha. lands.

Ekki er fallist á það með eignarnámsþolum að þeir eigi að fá sérstakar bætur fyrir efnistöku á þeim hluta landsins sem eignarnemi tekur eignarnámi, enda eru bætur fyrir þann hluta landsins miðaðar við að um fullt verð á því landi sé að ræða með þeim gögnum og gæðum sem því fylgja.

Ekki þykja efni til að greiða sérstakar bætur fyrir ónæði og átroðning vegna framkvæmda eignarnema, enda eru þær í nokkurri fjarlægð frá húsakosti á jörðinni.  

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar eignarnámsbætur fyrir hið eignarnumda land vera 750.000-.  Ekki skal greiða vexti af þeirri fjárhæð frá 15. september 2002 svo sem eignarnámsþolar gerðu kröfu um.   Lögmaður eignarnámsþola hefur lagt fram vinnuskýrslu vegna starfa hans við málið.  Skv. henni er gerð krafa um kr. 427.260- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.  Skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum þá fjárhæð að auki.




 

ÚRSKURÐARORÐ:


Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, skal greiða eignarnámsþolum þeim Sveini Tyrfingssyni, kt. 280141-3809 og Guðmundu Tyrfingsdóttur, kt. 130232-2489, Lækjartúni, Ásahreppi, sameiginlega,  kr. 750.000- í eignarnámsbætur og kr. 427.260- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.


Þá skal eignarnemi greiða kr. 720.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.





 

_______________________________________

Helgi Jóhannesson





 

 ______________________________                        ___________________________

Ragnar Ingimarsson                                                      Kristinn Gylfi Jónsson


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta