Hoppa yfir valmynd

Nr. 290/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 290/2018

Miðvikudaginn 5. desember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. ágúst 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2018 um annars vegar endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2017 og hins vegar innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2017 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. maí 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. september 2018, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. september 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti þann 19. september 2018 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála færi ranga útreikninga Tryggingastofnunar í það horf sem nefndinni virðist rétt og sanngjarnt.

Í kæru kemur fram að endurreikningur og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum greiðslum kæranda hafi verið ofgreiðsla að fjárhæð X kr. Þetta stafi af hækkun Tryggingastofnunar á mati á leigutekjum kæranda á árinu 2017, þ.e. úr X kr., sem hafði verið mat hans á hreinum skattskyldum tekjum 2017, upp í X kr.

Heildartekjur kæranda og […] hans á árinu 2017 hafi verið án frádráttar X kr., þar af hafi hans brúttóhlutur verið X% samkvæmt hans eignarhluta í fasteigninni þ.e. X kr.

Áður fyrr hafi leigusalar fengið að telja fram hreinar leigutekjur, að frádregnum greiddum opinberum gjöldum af íbúðarhúsnæði, fasteigna-, vatnssköttum o.fl., vaxta- og lánakostnaði, tryggingum á húsnæðinu, auk hluta rafmagns- og hitareikninga ef um það hafi verið að ræða, auk viðhalds og efniskostnaðar. Nú hafi skattayfirvöld breytt þessu með því að taka ekki lengur við neinum slíkum nótum, heldur draga 50% frá áður en lagður sé á fjármagnstekjuskattur.

Kærandi hafi aldrei fengið ofangreinda fjárhæð í sinn vasa því að ýmsan kostnað hafi hann og […]hans þurft að borga af íbúðinni, auk ólaunaðrar vinnu við umsýslu. Samtals hafi kærandi fengið X kr. sem raunverulegar leigutekjur það árið. Kærandi fái ekki skilið hvernig Tryggingastofnun geti reiknað á hann X kr. í leigutekjur. Samkvæmt skattframtali séu 50% brúttó leigutekna skattskyldar og hafi þá í hans tilfelli verið X kr.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2017.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Um skattskyldar tekjur sé fjallað í II. kafla laga um tekjuskatt. Í 7. tölul. C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sé kveðið á um það að arður, landskuld og leiga eftir hvers konar fasteignir og fasteignaréttindi, þar með talin námaréttindi, vatnsréttindi, jarðvarmaréttindi, veiðiréttur og hvers konar fasteignatengd hlunnindi teljist til skattskyldra tekna.

Í VI. kafla laga um tekjuskatt um tekjuskattsútreikning, afslætti og barnabætur segi í 3. mgr. 66. gr. að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þó skuli ekki reikna tekjuskatt samkvæmt 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 125.000 kr. á ári hjá manni og 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda.

Á árinu 2017 hafi kærandi verið með […]lífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2018 vegna tekjuársins 2017, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun með umsókn um […]lífeyri þann 30. desember 2016. Á grundvelli hennar og samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi verið unnin tekjuáætlun fyrir árið 2017 sem kærandi hafi fengið senda þann 9. janúar 2017. Samkvæmt tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2017 væri kærandi með X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í aðrar tekjur, X kr. í vexti og verðbætur og X kr. í leigutekjur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi honum verið greitt eftir henni frá 1. janúar 2017 til 31. ágúst 2017.

Kærandi hafi sent inn nýja tekjuáætlun þann 31. júlí 2017. Í þeirri tekjuáætlun hafi kærandi lækkað leigutekjur sínar í X kr. á árinu 2017. Tryggingastofnun hafi fallist á þessar breytingar og með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. ágúst 2017, hafi kæranda verið tilkynnt um nýja tekjuáætlun þar sem leigutekjur hafi verið lækkaðar en áætlunin hafi að öðru leyti verið óbreytt. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi honum verið greitt eftir henni frá 1. september 2017 til 31. desember 2017.

Við bótauppgjör ársins 2017 hafi komið í ljós að kærandi hafði verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í vexti og verðbætur og X kr. í leigutekjur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2017 hafi verið sú að kærandi hafði fengið greitt á árinu X kr. en hefði átt að fá greitt X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ágreiningur þessarar kæru varði eingöngu meðhöndlun Tryggingastofnunar á leigutekjum kæranda. Kærandi telji að taka eigi tillit til kostnaðar hans og systra hans af viðhaldi eignarinnar. Kærandi vísi einnig til ákvæðis um að fjármagnstekjuskattur leggist einungis á 50% af tekjum einstaklinga af útleigu íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt sé meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljist vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verði til peningaverðs og skipti ekki máli hvaðan þær tekjur stafi eða í hvaða formi þær séu. Síðan sé talið upp í A, B og C-liðum margvíslegar tekjur sem séu skattskyldar. Í 2. tölul. C-liðar 7. gr. sé kveðið á um að leigutekjur teljist til tekna.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar séu tilgreind sérstaklega þau ákvæði laga um tekjuskatt sem taka skuli tillit til varðandi hvað ekki teljist til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Líta verði svo á að þar sé um tæmandi talningu að ræða, enda sé ekki vísað til ákvæða laga um tekjuskatt til frádráttar frá tekjum í heild sinni.

Ekkert lagaákvæði sé í lögum um almannatryggingar sem heimili Tryggingastofnun að horfa til kostnaðar vegna fasteignar. Í gildi sé sérstök undantekningarregla um að fjármagnstekjuskattur sé reiknaður af 50% tekna manna af útleigu íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Þá reglu sé að finna í VI. kafla laga um tekjuskatt, nánar tiltekið í 3. mgr. 66. gr. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að taka tillit til þeirrar reglu þar sem hana sé ekki að finna í þeim ákvæðum laga um tekjuskatt sem talin séu upp í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Ljóst sé af orðalagi 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sem og öðrum ákvæðum laganna að ekki sé gert ráð fyrir því að stofnunin hafi heimild til þess að beita undantekningarreglu 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt til þess að lækka þann tekjustofn sem Tryggingastofnun miði við í útreikningum sínum. Það ákvæði sé að finna í VI. kafla laga um tekjuskatt en lög um almannatryggingar vísi eingöngu til ákveðinna ákvæða II. kafla laga um tekjuskatt. Þessi framkvæmd Tryggingastofnunar hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og sé þá meðal annars vísað til úrskurða í málum nr. 282 og 283 frá árinu 2017.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2017 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árinu 2017. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Í tekjuáætlun kæranda, dags. 30. desember 2016, var gert ráð fyrir X kr. í reiknað endurgjald, X kr. frá lífeyrissjóði og X kr. í vexti og verðbætur, auk X kr. í leigutekjur, með þeim athugasemdum að um væri að ræða 70% sem séu skattskyldar tekjur. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. janúar 2017, var kæranda send afgreiðsla stofnunarinnar á framangreindri tekjuáætlun, en í henni kom fram að kærandi væri með X kr. frá lífeyrissjóði, X kr. í aðrar tekjur, X kr. í vexti og verðbætur og X kr. í leigutekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun. Bótaréttindi voru því reiknuð og greidd út miðað við þær forsendur. Kærandi sendi Tryggingastofnun nýja tekjuáætlun, dags. 31. júlí 2017, þar sem hann breytti skráðum leigutekjum í X kr. Tryggingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 8. ágúst 2018, með framangreindri breytingu og voru bótaréttindi reiknuð og greidd miðað við þær forsendur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við bréfið. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2017 reyndust lífeyrissjóðstekjur kæranda vera X kr., vextir og verðbætur X kr. og leigutekjur X kr.

Fjármagnstekjur eru tekjustofn sem hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og einnig C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Í máli þessu snýst ágreiningur nánar tiltekið um tekjuviðmið Tryggingastofnunar ríkisins við endurreikning á tekjutengdum bótum kæranda. Kærandi gerir athugasemdir við að stofnunin hafi notað heildarleigutekjur til skerðingar á lífeyri og bendir á að hann hafi þurft að greiða ýmsan kostnað vegna íbúðarinnar. Fram kemur að samkvæmt skattframtali séu 50% brúttó leigutekna skattskyldar. Ætla má að kærandi sé að vísa til þeirrar reglu sem kemur fram í 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt. Í nefndu ákvæði segir að tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar skuli vera 22% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna teljist í þessu sambandi tekjur samkvæmt 1.-8. tölul. C-liðar 7. gr., þ.e. vextir, arður, leigutekjur, söluhagnaður og aðrar eignatekjur. Þó skuli ekki reikna tekjuskatt samkvæmt 1. málsl. af heildarvaxtatekjum að fjárhæð 125.000 kr. á ári hjá manni og 50% af tekjum manns af útleigu íbúðarhúsnæðis til búsetu leigjanda.

Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði er því tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun ríkisins skuli miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt eru tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni ber að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Þar er sú regla, sem kemur fram í áðurnefndum 3. málsl. 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt, ekki tilgreind. Úrskurðarnefnd telur því að þrátt fyrir að umrædd regla gildi við meðhöndlun skattyfirvalda á tilteknum fjármagnstekjum kæranda gildi hún ekki þegar kemur að endurreikningi Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum hans. Tryggingastofnun hefur því ekki heimild til að horfa til umræddrar reglu við útreikning og endurreikning bóta. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á leigutekjum kæranda hafi verið í samræmi við lög um almannatryggingar. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við endurreikning stofnunarinnar á tekjutengdum greiðslum ársins 2017. 

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2017 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2017 og innheimtu ofgreiddra bóta, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta