Nr. 3/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND HÚSAMÁLA
ÚRSKURÐUR
uppkveðinn 26. mars 2019
í máli nr. 3/2019
A
gegn
B
Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.
Aðilar málsins eru:
Sóknaraðili: A.
Varnaraðili: B.
Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila hafi borið að endurgreiða tryggingarfé ásamt vöxtum við lok leigutíma. Að því gefnu að varnaraðili hafi ekki varðveitt tryggingarféð á sérgreindum reikningi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að hann greiði hæstu mögulegu vexti á óbundnum reikningi sem séu 2,55% og að auki bætur sem nemi sömu fjárhæð.
Með kæru, dags. 12. nóvember 2018, móttekinni 9. janúar 2019, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 10. janúar 2019, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Þar sem engin viðbrögð bárust frá varnaraðila ítrekaði kærunefnd beiðni um greinargerð með bréfi, dags. 23. janúar 2019, og tölvupósti sendum sama dag. Jafnframt var upplýst að málið yrði tekið til úrlausnar á grundvelli þeirra gagna sem þegar lægju fyrir bærist greinargerð ekki innan tiltekins frests. Greinargerð varnaraðila barst ekki.
I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 15. september 2017 til 31. september 2018 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár en varnaraðili endurgreiddi tryggingarféð án vaxta að leigutíma loknum.
II. Sjónarmið sóknaraðila
Sóknaraðili segir að varnaraðili hafi neitað að greiða út áunna vexti af tryggingarfé. Hann hafi ekki varðveitt það á sérgreindum reikningi heldur tímabundið ráðstafað því til eigin nota.
Varnaraðili sé með margar íbúðir á leigu en neiti leigjendum um að leggja fram tryggingu fyrir efndum á leigusamningi í formi bankaábyrgðar. Það, sem og synjun hans um að sýna fram á að tryggingarféð hafi verið inni á sérgreindum reikningi og ekki í notkun á leigutíma, gefi sterklega til kynna að hann sé almennt að misnota tryggingarfé leigjenda.
III. Niðurstaða
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.
Í 4. tölul. 40. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli varðveita tryggingarfé á sérgreindum óbundnum reikningi hjá viðskiptabanka eða sparisjóði sem beri svo háa vexti sem kostur sé til greiðsludags sem greiðist leigjanda reyni ekki á tryggingu þessa. Einnig segir að leigusali megi ekki ráðstafa fénu eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðustaða um bótaskyldu leigjanda.
Sóknaraðili greinir frá því að hún hafi greitt tryggingarfé að fjárhæð 570.000 kr. við upphaf leigutíma sem hafi verið í vörslu varnaraðila í eitt ár og fimm mánuði. Hann hafi endurgreitt tryggingarféð að leigutíma loknum án vaxta og hefur sóknaraðili efasemdir um að það hafi verið varðveitt á óbundnum reikningi hjá viðskiptabanka eða sparisjóði á leigutíma.
Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber varnaraðila að endurgreiða tryggingarféð ásamt vöxtum. Losnar hann ekki undan þeirri skyldu með því að varðveita ekki fjárhæðina inni á sérgreindum óbundnum reikningi hjá viðskiptabanka eða sparisjóði líkt og lögbundið er. Ekki liggja fyrir upplýsingar um annað en að tryggingarfé hafi verið lagt fram við upphaf leigutíma, 15. september 2017, og verið endurgreitt sóknaraðila við lok leigutíma, 30. september 2018. Ber varnaraðila því að greiða sóknaraðila hæstu mögulegu vexti á óbundnum reikningi af 570.000 kr. frá 15. september 2017 til 30. september 2018.
Þá eru ekki efni til að verða við bótakröfu sóknaraðila en húsaleigulög gera ekki ráð fyrir bótum af þeim toga sem sóknaraðili krefst.
Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðila ber að greiða sóknaraðila vexti skv. 4. tölulið 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga af 570.000 kr. frá 15. september 2017 til 30. september 2018 og dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð frá 28. október 2018 til greiðsludags.
Reykjavík, 26. mars 2019
Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson Eyþór Rafn Þórhallsson