Hoppa yfir valmynd

Nr. 446/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 446/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070049

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. júlí 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. júlí 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Af greinargerð má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, með gildistíma frá 16. október 2015 og var það leyfi nokkrum sinnuð endurnýjað, nú síðast með gildistíma til 18. september 2018. Þann 20. ágúst 2018 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi sínu á grundvelli hjúskapar og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 17. desember 2018. Með úrskurði kærunefndar, dags, 28. febrúar 2019, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. júní 2019, var umsókn kæranda á ný synjað og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 445/2019, dags. 14. október 2019. Kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 18. október 2018 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. júlí 2019. Þann 22. júlí sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála og barst greinargerð kæranda þann 6. ágúst sl. ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar reifaði stofnunin þau skilyrði sem væru fyrir veitingu á ótímabundnu dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal þeirra skilyrða væri að umsækjandi uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sæki um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun sinni, dags. 27. júní 2019, hefði stofnunin synjað umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Með hliðsjón af því væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrra dvalarleyfis og því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis vegna hjúskapar sé í kæruferli hjá kærunefnd útlendingamála, en Útlendingastofnun hafi synjað þeirri umsókn með ákvörðun sinni 27. júní sl. Vísar hann til þeirra röksemda sem koma fram í greinargerð með því kærumáli. Vísar kærandi til þess að hann hafi ríka hagsmuni af því að fá ótímabundið dvalarleyfi útgefið. Synjun á slíku leyfi sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og skuli því gæta meðalhófs. Slík synjun hafi sérstaklega íþyngjandi áhrif á kæranda enda eigi hann þriggja ára dóttur sem treysti á hann og sé traust og gott samband milli þeirra feðgina.

Samkvæmt b-lið 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga sé heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl skv. 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt ef útlendingur sé í hjúskap með íslenskum ríkisborgara hér á landi og hafi haft dvalarleyfi í samfellt þrjú ár eftir stofnun hjúskapar. Hafi kærandi og fyrrverandi maki hans hafið hjúskap þann 23. mars 2015 og kærandi fengið útgefið dvalarleyfi þann 16. október s.á. Sé óumdeilt að hið útgefna dvalarleyfi hafi verið endurnýjað tvisvar sinnum og því hafi kærandi haft gilt dvalarleyfi í þrjú ár. Einnig liggi fyrir að hann hafi haft búsetu með fyrrverandi maka sínum á þessu tímabili. Uppfylli hann því öll skilyrði fyrrgreindar undantekningar og vísar jafnframt til lögskýringargagna með ákvæðinu. Hafi löggjafinn talið rétt að tryggja rétt aðila sem dvalið hafi hérlendis á grundvelli hjúskapar í þrjú ár með undantekningu 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga og telur hann aðstæður sínar falla bersýnilega að kjarna þeirrar undantekningar. Að öðru leyti vísar kærandi til þess að hann uppfylli öll önnur skilyrði ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. laganna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi samfellt með gild dvalarleyfi frá 16. október 2015 til 18. september 2018. Frá þeim tíma hefur kærandi haft umsókn um endurnýjun á dvalarleyfi vegna hjúskapar til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Samhliða meðferð umsóknar kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi vegna hjúskapar hefur kærandi frá 18. október 2018 verið með umsókn um ótímabundið dvalarleyfi til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a – e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 58. gr. má ráða að útlendingur sem sækir um ótímabundið dvalarleyfi þurfi almennt að uppfylla skilyrði a - e-liða 1. mgr. til að fá útgefið leyfið. Samkvæmt a-lið ákvæðisins er skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi.

Af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga leiðir þó að mat á því hvort umsækjandi uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis er miðað við þann tíma þegar umsókn er lögð fram. Þótt synjun á umsókn um endurnýjun á fyrra dvalarleyfi veiti ákveðnar líkur til þess að umsækjandi um leyfi hafi ekki uppfyllt skilyrði leyfisins þegar umsókn var lögð fram verður að taka tillit til þess ef atvik málsins benda til annars.

Eins og að framan greinir hefur umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar verið synjað með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 445/2019 frá 14. október 2019 og liggur því fyrir að kærandi uppfyllir ekki áfram skilyrði fyrra dvalarleyfis síns. Aftur á móti er úrskurðurinn byggður á þeirri forsendu, sem kom til þann 14. júní 2019, að kærandi og maki hans eru skilin að borði og sæng. Í ljósi þess og annarra atvika málsins, þ.m.t. að synjun Útlendingastofnunar á endurnýjun umrædds leyfis var felld úr gildi með úrskurði kærunefndar útlendingamála frá 28. febrúar 2019, er það mat kærunefndar að ekki verði annað lagt til grundvallar við úrlausn málsins en kærandi hafi uppfyllt skilyrði til að fá dvalarleyfi vegna hjúskapar endurnýjað þegar hann lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Stendur a-liður 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga því að mati nefndarinnar ekki í veg fyrir að kærandi fái útgefið ótímabundið dvalarleyfi, enda var kærandi enn í hjúskap þegar hann lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi þann 18. október 2018.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var ekki tekin afstaða til annarra skilyrða 58. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju með hliðsjón af þeim forsendum sem kærunefndin hefur byggt á í þessum úrskurði.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                    Ívar Örn Ívarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta