Hoppa yfir valmynd

Nr. 514/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 30. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 514/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060016

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. júní 2019 kærði maður sem kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. maí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. ágúst 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 12. desember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. maí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. júní 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 25. júní 2019 ásamt fylgigagni. Þá barst viðbótargagn þann 10. júlí 2019. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. október 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að líf hans sé í hættu í heimaríki vegna ofsókna hryðjuverkahóps.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í Mogadishu í Sómalíu en hafi síðar alist upp skammt frá í bæ sem heiti Afgooye. Kærandi tilheyri Geledi ættbálknum í heimaríki sem sé undirættbálkur Digil. Hann hafi lagt á flótta frá heimaríki vegna ofsókna meðlima hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab í garð hans og fjölskyldu hans. Meðlimir samtakanna hafi m.a. rænt kæranda og flutt hann á ótilgreindan stað þar sem hann hafi þolað pyndingar. Kæranda hafi verið tjáð að ef hann gengi ekki til liðs við samtökin væri líf hans í hættu. Í framhaldinu hafi kæranda tekist að flýja og hann síðar flust ásamt móður sinni til Puntland í Sómalíu. Í Puntland hafi kærandi fengið símtöl frá Al-Shabaab þar sem honum hafi verið hótað og ítrekað að hann gengi til liðs við samtökin. Kærandi hafi síðar farið til frænda síns í Mogadishu en flúið til Evrópu eftir lát hans. Kveður kærandi að yfirvöld í Sómalíu hafi ekki neitt vald gegn Al-Shabaab og að líf hans sé í hættu snúi hann aftur þangað.

Kærandi vísar til þess að við meðferð málsins hafi hann gengist undir tungumála- og staðháttapróf. Niðurstöður prófsins hafi bent til þess að mállýska hans komi heim og saman við mállýsku sem töluð sé í norður-Sómalíu (Northern-Somali), en ekki svæðinu í kringum Mogadishu. Hafi Útlendingastofnun því talið kæranda vera frá norður-Sómalíu og leyst úr umsókn hans með hliðsjón af aðstæðum á því svæði. Kærandi gerir fjölmargar athugasemdir við niðurstöður prófsins, slík tungumálapróf og ályktanir Útlendingastofnunar af prófinu. Kveður kærandi að Northern-Somali mállýskan sé töluð af rúmlega 60% Sómala og að hún sé ekki bundin við norðurhluta landsins. Kærandi telur auk þess að Útlendingastofnun hafi byggt ákvörðun sína á röngum ályktunum um tungumálaprófið. Þá hafi móðir kæranda átt rætur að rekja til Puntland, sem gæti hafa haft áhrif á talanda hans. Í prófinu hafi verið vísað til Benadiri mállýsku sem sé töluð á því svæði sem kærandi hafi alist upp á, en kærandi kveður að það sé ekki eina mállýskan sem töluð sé á svæðinu. Þá styðji frásögn kæranda af því að tala ekki Benadiri mállýskuna við þá niðurstöðu. Vísar kærandi einnig til þess að engar rannsóknir hafi verið gerðar á mismunandi mállýskum í Sómalíu síðan á 9. áratug síðustu aldar, en sú óöld sem hafi ríkt í landinu hafi leitt af sér mikla fólksflutninga innan landsins. Kemur einnig fram að foreldrar kæranda hafi tilheyrt sitt hvorum ættbálknum og átt ættir að rekja til ólíkra staða í Sómalíu. Með vísan til framangreinds telur kærandi með öllu ótækt að líta svo á að niðurstöður tungumála- og staðháttaprófs hafi áhrif á trúverðugleika hans í málinu.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun mætti kærandi í viðtöl þar sem hann var beðinn um að gera grein fyrir því hvar hann hefði fæðst og alist upp. Í viðtölum hjá stofnuninni 3. og 12. desember 2018 kvaðst kærandi vera fæddur í höfuðborg Sómalíu, Mogadishu, en að hann hefði alist upp í bæ að nafni Afgooye. Í viðtali þann 17. apríl 2019 greindi kærandi frá því að hafa búið í Mogadishu fram að 14 ára aldri, en hann hafi þá flutt til Afgooye. Samkvæmt upplýsingum kærunefndar er bærinn Afgooye í u.þ.b. 30 kílómetra fjarlægð norðvestur af Mogadishu.

Í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi gengist undir tungumálapróf þar sem kannað hafi verið hvort kærandi talaði mállýskuna Benadiri í sómalska tungumálinu, sem sé töluð á því svæði sem kærandi kveðst vera frá. Var niðurstaða prófsins sú að allar líkur væru á því að kærandi talaði ekki Benadiri mállýskuna. Í ljósi niðurstöðu prófsins sendi Útlendingastofnun hljóðupptöku af prófinu í aðra greiningu, þar sem kannað var hvort kærandi talaði mállýskuna Northern Somali, sem sé einkum töluð í norðurhluta Sómalíu. Samkvæmt niðurstöðum þess prófs eru allar líkur á því að kærandi tali umrædda mállýsku. Var kærandi í framhaldinu boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þar sem honum var gefið færi á að tjá sig um niðurstöður prófanna. Í viðtalinu hélt kærandi því m.a. fram að Benadiri mállýskan væri töluð af minnihluta Sómala og að hann talaði hefðbundna sómölsku. Í hinni kærðu ákvörðun segir að hafið sé yfir vafa að kærandi tali mállýskuna Northern Somali, sem fyrirfinnist á Puntland-svæðinu, Sómalílandi og svæðum innan Eþíópíu og Djúbútí. Að því virtu lagði stofnunin til grundvallar að kærandi kæmi frá norður-Sómalíu og leysti úr umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli gagna og upplýsinga um ástandið í þeim hluta landsins. Í ákvörðuninni fjallaði Útlendingastofnun um aðstæður í Puntland og Sómalílandi í norðurhluta landsins og synjaði honum um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Eins og nánar er rakið að framan gerir talsmaður kæranda fjölmargar athugasemdir við ályktanir Útlendingastofnunar af fyrrgreindu tungumálaprófi og mat stofnunarinnar á búsetu kæranda í heimaríki.

Kærunefnd boðaði kæranda í viðtal hjá nefndinni, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga, sem fór fram þann 8. október 2019. Í viðtalinu kvaðst kærandi hafa fæðst í Mogadishu en alist upp í Afgooye. Kvaðst kærandi ekki vita hvað hann hafi verið gamall þegar hann hafi flutt til Afgooye en taldi sig hafa verið yngri en 15 ára. Greindi kærandi m.a. frá því að hafa gengið í tilgreinda skóla í Mogadishu og Afgooye. Aðspurður um niðurstöður tungumálaprófa kom fram í máli kæranda að hann teldi sig hvorki tala mállýskuna BenadiriNorthern Somali.

Í viðtölum við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd hefur kærandi haldið því staðfastlega fram að vera fæddur í Mogadishu og alinn upp í bænum Afgooye skammt frá. Sem fyrr segir var mat Útlendingastofnunar á búsetu kæranda eingöngu byggt á niðurstöðu tungumálaprófs um að kærandi talaði mállýskuna Northern Somali. Niðurstaða stofnunarinnar um það, hvort kærandi ætti rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, tók því einungis mið af aðstæðum á svæðunum Puntland og Sómalílandi í norðurhluta Sómalíu.

Í skýrslu fyrirtækisins sem gerði tungumálaprófið fyrir Útlendingastofnun koma fram ákveðnir fyrirvarar varðandi gildi prófsins. Í skýrslunni segir: „It should be noted that no known field studies have been carried out on the dialects of Somali since the 1980s, with the exception of Abdullahi (2000) who was in Hargeysa in Somaliland in 1999. The disturbances in Somalia have resulted in many displacements. Therefore, caution is advised when the connection between geographical region and linguistic community is made.“

Kærunefnd telur að þessi fyrirvari dragi nokkuð úr vægi tungumálaprófa vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd sem kveðast vera frá Sómalíu og óttast ofsóknir þar í landi. Af þeim sökum er sérstök ástæða til að líta jafnframt til annarra gagna sem gefa til kynna uppruna umsækjenda, þ.m.t. trúverðugleika framburðar umsækjanda sjálfs varðandi uppruna sinn og um þá atburði og aðstæður sem hann telur leggja grundvöll að umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Að mati kærunefndar er jafnframt þörf á sérstakri varúð varðandi umsækjendur sem kveðast vera frá þeim svæðum Sómalíu þar sem líf þeirra kann að vera í hættu vegna langvarandi átaka og óstöðugleika.

Það er mat kærunefndar, einkum í ljósi framburðar kæranda um fæðingarstað hans og búsetu lengst af, að Útlendingastofnun hafi gefið niðurstöðu tungumálaprófanna of mikið vægi við mat á því hvaða hluta Sómalíu kærandi sé frá. Stofnunin virðist t.d. ekki hafa metið sjálfstætt trúverðugleika frásagnar kæranda af þeim atburðum og aðstæðum sem hann vísaði til sem ástæður ótta síns við ofsóknir heldur eingöngu skoðað hvort aðstæður einstaklings í hans stöðu í norðurhluta Sómalíu gætu verið grundvöllur alþjóðlegrar verndar. Þá virðist ekki hafa verið metið sjálfstætt hvort framburður kæranda varðandi fæðingarstað sinn og það umhverfi sem hann ólst upp í geti talist trúverðugur. Kærunefnd telur því að skort hafi á að sú heildstæða skoðun sem verði að fara fram á þeim málsástæðum sem kærandi bar fyrir sig og trúverðugleika framburðar hans hafi í raun farið fram. Málsmeðferð Útlendingastofnunar er því að þessu leyti haldin verulegum annmarka sem kann að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans hjá Útlendingastofnun.

Þar sem nýtt mat á trúverðugleika framburðar kæranda kann að leiða til frekari rannsóknar á aðstæðum kæranda í heimaríki og mats á því hvort hann geti átt rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi telur kærunefnd rétt að það fari fram á tveimur stjórnsýslustigum. Ekki verður því unnt að bæta úr annmörkum á málsmeðferð Útlendingastofnunar með frekari rannsókn æðra stjórnvalds. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta