Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 358/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 358/2022

Miðvikudaginn 21. september 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. júlí 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. júlí 2022 þar sem umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða var synjað. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. apríl 2022, sótti kærandi um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá janúar 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að hún væri með tímabundið dvalarleyfi samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun og ætti því ekki rétt á félagslegum viðbótarstuðningi. Kærandi sótti á ný um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða með umsókn, dags. 13. júní 2022, sem var synjað með bréfi Tryggingstofnunar ríkisins, dags. 7. júlí 2022, á sömu forsendum og áður.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. júlí 2022. Með bréfi, dags. 14. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 4. ágúst 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi búi með syni sínum sem eigi […] börn. Kærandi sé gömul kona og það sé erfitt fyrir hana að búa hjá þeim þar sem það sé svo mikill hávaði. Hún þurfi að leigja sér íbúð þar sem hún geti búið ein í ró og næði.

Kæranda líði ekki vel, hún sé veik og með vandamál tengdum hnjám og maga. Peningar sem hún fái frá félagsþjónustunni fari að mestu í lyf og þá hafi henni verið bent á að hún þurfi að fara í aðgerð á hnjám.

Kærandi sé orðin XX ára gömul og hafi haft dvalarleyfi hér í fimm ár. Sá fjárhagsstuðningur sem kærandi fái frá félagsþjónustunni dugi henni ekki, hún eigi X dætur í C sem hún styðji fjárhagslega.

Með vísun til framangreinds sé kærð sú ákvörðun að synja kæranda um félagslegan viðbótarstuðing við aldraða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. júlí 2022, með vísan til þess að skilyrði greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða hafi ekki verið uppfyllt.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á félagslegum viðbótarstuðningi við aldraða samkvæmt 2. gr. laga um nr. 74/2020 um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á hinni kærðu ákvörðun.

Í 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða segi að lögin taki til einstaklinga sem séu 67 ára eða eldri, hafi fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelji varanlega á Íslandi. Í 2. mgr. komi fram að ef um erlendan ríkisborgara sé að ræða sé það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. Í 3. mgr. 2. gr. segi að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr., hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfylli skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í að minnsta kosti tvö ár þegar sótt sé um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Með umsókn, móttekinni 13. júní 2022, hafi kærandi sótt um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá 1. janúar 2022. Með umsókn hafi fylgt afrit af tímabundnu dvalarleyfisskírteini frá Útlendingastofnun, dags. 24. febrúar 2022, sem muni renna út 21. desember 2025.

Á skírteininu komi fram að um sé að ræða tímabundið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, að atvinnuþátttaka sé ekki heimil og að kóði dvalarleyfisins sé AVf-1-500. Þá segir að um sé að ræða dvalarleyfi fyrir foreldra 67 ára eða eldri og að breyttar forsendur gætu ógilt leyfið. Um dvalarleyfi samkvæmt 72. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga sé því að ræða en samkvæmt 2. mgr. 72. gr. laganna sé heimilt að veita útlendingi, sem sé 67 ára eða eldri, dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi. Í þeim tilvikum sé heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýni fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.

Miðað við kóða dvalarleyfisins sé um að ræða fjölskyldusameiningu við aðila sem njóti alþjóðlegrar verndar hér á landi en barn hennar virðist vera með dvalarleyfi sem hefur kóðann AV-1-102 og njóti stöðu sem flóttamaður samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi njóti á hinn bóginn ekki stöðu sem flóttamaður heldur hafi hún eingöngu tímabundið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar þar sem eitt af skilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sé að lögð séu fram framfærslugögn sem tryggi framfærslu á dvalartíma. Geti umsækjandi ekki sýnt fram á sjálfstæða framfærslu, sé barni umsækjanda heimilt að leggja fram gögn sem sýni fram á trygga framfærslu umsækjanda.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi kærandi verið búsett hér á landi síðan 21. desember 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 7. júlí 2022, hafi umsókn kæranda, dags. 13. júní 2022, verið synjað á þeim grundvelli að hún uppfylli ekki skilyrði 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða um dvalarleyfi samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun.

Kærandi hafi áður sótt um ellilífeyri og um félagslegan viðbótarstuðning með umsókn, dags. 20. apríl 2022, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 9. maí 2022.

Réttur til greiðslna félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða sé háður því að hinn erlendi ríkisborgari sé 67 ára eða eldri og hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða eigi rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. Heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfylli skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í að minnsta kosti tvö ár þegar sótt sé um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sé kærandi með tímabundið dvalarleyfi og uppfylli því hvorki skilyrði fyrir greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings né sé heimilt að gera undanþágu frá þeim skilyrðum í hennar tilfelli og hafi umsókn hennar því verið synjað.

Þar sem kærandi sé hvorki með varanlegt búsetuleyfi hér á landi né hafi hún verið búsett hér á landi í að minnsta kost tvö ár, uppfylli hún ekki framangreind skilyrði fyrir veitingu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða, sbr. 2. gr. laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Engin heimild sé til að víkja frá framangreindum skilyrðum vegna aðstæðna kæranda.

Með vísan til framangreinds sé það því niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn, byggð á faglegum sjónarmiðum og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. júlí 2022 á umsókn kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða.

Um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða er fjallað í lögum nr. 74/2020. Í 2. gr. laganna er kveðið á um gildissvið laganna sem er svohljóðandi:

„Lög þessi taka til einstaklinga sem eru 67 ára eða eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og sem dvelja varanlega á Íslandi.

Ef um erlendan ríkisborgara er að ræða er það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis eða hann uppfyllir skilyrði 84. eða 85. gr. laga um útlendinga, enda hafi hann verið búsettur hér á landi, sbr. 1. mgr., samfellt í a.m.k. tvö ár þegar sótt er um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.“

Samkvæmt framangreindu er meginreglan sú, ef um erlendan ríkisborgara er að ræða, að viðkomandi þurfi að uppfylla það skilyrði að hafa ótímabundið dvalarleyfi hér á landi eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu skilyrði hafi erlendi ríkisborgarinn dvalarleyfi hér á landi, enda hafi hann verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti tvö ár samfellt og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Meðal gagna málsins er útgefið dvalarleyfi Útlendingastofnunar, dags. 24. febrúar 2022, með gildistíma til 21. desember 2025. Í breytingasögu Þjóðskrár kemur fram að kærandi hafi flutt til Íslands 21. desember 2021.

Þar sem kærandi er hvorki með varanlegt búsetuleyfi hér á landi né hefur verið búsett hér á landi í að minnsta kost tvö ár uppfyllir hún ekki framangreind skilyrði fyrir veitingu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða, sbr. 2. gr. laga nr. 74/2020. Engin heimild er til að víkja frá framangreindum skilyrðum vegna aðstæðna kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. júlí 2022 um að synja kæranda um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu félagslegs viðbótarstuðnings við aldraða, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta