Mál nr. 38/2012
Fimmtudaginn 13. desember 2012
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 30. mars 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 29. mars 2012. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 27. mars 2012, um 15% álag á endurkröfu á kæranda vegna ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu Y. maí 2011.
Með bréfi, dags. 30. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 4. apríl 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 12. apríl 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
I. Sjónarmið kæranda.
Kærandi greinir frá því að hann vilji kæra þá ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs að leggja 15% álag á endurkröfu á hendur honum. Kærandi segir endurgreiðslukröfuna vera vegna þess tíma sem hann hafi ekki verið í fæðingarorlofi og telur sig ekki eiga að greiða aukakostnað vegna þess eins að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki sinnt vinnu sinni nægilega vel. Kærandi telji umrætt álag ósanngjarnt þar sem hann hafi unnið sína vinnu samviskusamlega og farið síðan í fæðingarorlof. Honum hafi ekki dottið í hug að hann væri að brjóta af sér með því einu að vinna vinnu sína en hafi svo þurft að greiða X kr. auk 15% álags sem gerir samtals X kr.
Kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður hefði getað brugðist mun fyrr við en raunin hafi verið og látið strax vita að um væri að ræða ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða að kærandi hefði verið að vinna of mikið miðað við að vera í fæðingarorlofi hálfan mánuðinn. Kærandi sé mjög ósáttur við framgöngu Fæðingarorlofssjóðs í þessu máli. Kærandi gerir athugasemd við að það hafi tekið tæpa átta mánuði að taka ákvörðun um ofgreiðslu kæranda auk þess sem hann sé ósáttur við að hann megi ekki stunda vinnu sína af þeim krafti sem hann hafi ávallt gert þar sem hann sé í fæðingarorlofi í 15 daga í mánuði.
II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.
Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með bréfi, dags. 27. mars 2012, hafi kæranda verið send greiðsluáskorun ásamt sundurliðun ofgreiðslu, í kjölfar undangenginnar málsmeðferðar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar fyrir júlí, ágúst og október 2011 ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt skrám RSK, fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs með barni fæddu Y. maí 2011 og innsendum gögnum og skýringum að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði skv. 9. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 og f-lið 8. gr. laga nr. 74/2008, nú 10. mgr. 13. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 136/2011, sbr. og 2. mgr. 15. gr. a ffl.
Í 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga 90/2004, sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni hafi foreldri fært rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslur fæðingarstyrks komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum skuli Vinnumálastofnun senda greiðsluáskorun til foreldris vegna hinnar ofgreiddu fjárhæðar ásamt 15% álagi. Þegar foreldri telji að því verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um of háar greiðslur úr sjóðnum til foreldris skuli foreldri færa fyrir því skrifleg rök innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun hafi sannanlega borist foreldri. Vinnumálastofnun skuli taka afstöðu til þess innan fjögurra vikna frá því að rök foreldris hafi borist stofnuninni hvort þau leiði til þess að fella skuli niður álagið.
Fæðingarorlofssjóður bendir á að í það sé fyrst í kæru kæranda sem fram komi krafa um að 15% álagið verði fellt niður. Séu þau rök nefnd að kæranda finnist hann ekki eiga að borga aukakostnað fyrir það eitt að Fæðingarorlofssjóður vinni vinnuna sína. Jafnframt komi fram að kærandi hafi engan sérstakan rökstuðning fyrir þessu annan en að honum finnist þetta ósanngjarnt og hann hafi unnið sína vinnu samviskusamlega og tekið síðan fæðingarorlof. Honum hafi ekki dottið í hug að hann væri að brjóta eitthvað af sér með því að vinna vinnuna sína.
Að mati Fæðingarorlofssjóðs hefur kærandi engin rök fært fram fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um ofgreiðslu og því sé ekki tilefni til að fella niður 15% álagið.
Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda Y kr. útborgað að viðbættu 15% álagi, Y kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði Y kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 27. mars 2012.
III. Niðurstaða.
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um 15% álag á endurkröfu á kæranda vegna ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið júlí, ágúst og október 2011 vegna fæðingar barns hinn Y. maí 2011.
Kærandi byggir á því að umrætt álag sé ósanngjarnt og að hann hafi verið í góðri trú þegar hann þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sama mánuði og hann þáði greiðslur frá vinnuveitanda sínum. Auk þess byggir kærandi á því að málsmeðferð Fæðingarorlofssjóðs hafi verið ábótavant þar sem það hafi tekið sjóðinn átta mánuði að taka ákvörðun um krefja kæranda um endurgreiðslu.
Af kæru virðist mega draga þá ályktun að einungis sé deilt um réttmæti 15% álags á endurkröfu Fæðingarorlofssjóðs á hendur kæranda.
Í 2. mgr. 15. gr. a ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004 og 5. gr. laga nr. 155/2006, segir að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Þá segir jafnframt að fella skuli niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, en skv. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, skal kærandi færa rök sín fram innan fjögurra vikna frá því að greiðsluáskorun sannanlega barst honum. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur kærandi hins vegar ekki fært fullnægjandi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til endurkröfu Fæðingarorlofssjóðs. Skal þá tekið fram að samkvæmt lögunum skal leggja álagið á óháð huglægri afstöðu eða ásetningi foreldris.
Í ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. mars 2012, er kærandi krafinn um endurgreiðslu útborgaðar fjárhæðar fyrir mánuðina júlí, ágúst og október 2011. Að mati nefndarinnar verður að játa Fæðingarorlofssjóði nokkurn tíma til þess að keyra saman skrár við eftirlit sitt með ósamrýmanlegum greiðslum. Verður sá tími sem leið ekki talinn slíkur annmarki á meðferð málsins að hann hafi áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunarinnar.
Með vísan til alls framangreinds verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um 15% álag á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs á hendur A er staðfest.
Jóna Björk Helgadóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson