Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 152/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 6. nóvember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 152/2011.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem kærandi hafi verið staðinn að vinnu hjá B. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kærandi talinn hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 27. júlí til 19. ágúst 2011 samtals að fjárhæð 122.407 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag, sem verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði Aðalheiður Helgadóttir hdl., f.h. Láru V. Júlíusdóttur hrl., hana fyrir hönd kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 1. nóvember 2011. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga 8. desember 2010 í kjölfar uppsagnar vegna samdráttar hjá fyrirtæki sínu B.

 

Í eftirlitsferð fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, 7. júlí 2011, var komið að kæranda, að því er talið var, við störf hjá fyrirtækinu B. Eftirlitsferðir eru farnar samkvæmt heimild í 4. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010. Fram kemur að með lögunum sé meðal annars ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun atvinnuleysisbóta. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá, uppfærðri 20. september 2011, er kærandi meðstjórnandi í einkahlutafélaginu og stofnandi.

 

Kæranda var með bréfi, dags. 14. september 2011, tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði verið í vinnu hjá fyrirtækinu B. samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfi þessu var kæranda einnig veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum vegna þessa.

 

Með bréfi, dags. 20. september 2011, skilaði kærandi inn skýringum til Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að hann hefði látið af störfum hjá fyrirtæki sínu í desember 2010 vegna ónógrar verkefnastöðu þess. Verkefnastaðan hafi lítið batnað á þessu ári og alls ekki nægilega til þess að hann gæti hafið störf þar eða þegið laun. Hann telji sig hins vegar vera í fullum rétti til að fylgjast með starfsemi fyrirtækisins sem eigandi þess og einnig telji hann sig vera í fullum rétti til að líta til með húsnæði því sem hann sé skráður eigandi að, þ.e. C. Það sé hvorutveggja gert án þess að þiggja laun fyrir. Það hafi verið erindi hans í C þegar aðila vinnumarkaðarins hafi borið að garði. Svo hafi viljað til að þá hafi hann verið að gera við heimilisryksugu sína. Ástæða þess að hann hafi farið með hana í C hafi verið sú að þar séu til staðar verkfæri sem hann hafi talið sig þurfa að nota við viðgerðina. Kærandi mótmælir framkomu og tilbúnum áburði á hann frá aðilum vinnumarkaðarins er þeir hafi komið í eftirlitsferðina 27. júlí 2011. Hann hafi gefið þeim skýringar á veru sinni þar, sem hvorki hafi verið hlustað á né þær teknar til greina. Skýrsla þeirra sé í veigamiklum atriðum röng, þar sem hann hafi ekki og sé ekki að vinna fyrir fyrirtækið.

 

Aðalheiður Helgadóttir hdl. óskaði, fyrir hönd kæranda, rökstuðnings á ákvörðun Vinnumálastofnunar með bréfi, dags. 7. október 2011. Vinnumálastofnun veitti umbeðinn rökstuðning með bréfi, dags. 20. október 2011. Aðalheiður Helgadóttir hdl., f.h. Láru V. Júlíusdóttur hrl., kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsmála fyrir hönd kæranda, með bréfi dags. 1. nóvember 2011. Þar kemur meðal annars fram að ástæða þess að kærandi lét af störfum í desember 2010 hafi verið vegna stöðu fyrirtækisins. Verkefnum hafi fækkað gríðarlega og því hafi kærandi ekki getað haldið vinnunni. Verkefna- og fjárhagsstaða fyrirtækisins hafi ekki batnað. Vegna tæknivandamála við endurgerð heimasíðunnar hafi símanúmer kæranda þó haldist inni á síðunni. Kærandi hafi ekki lent í því áður að hringt sé í hann og spurt um framkvæmd fyrirtækisins en hann hafi svarað fúslega þeim fyrirspurnum sem lagðar hafi verið fyrir hann enda kunnugur rekstri fyrirtækisins. Hann hafi einungis gefið upplýsingar um hvers konar starfsemi færi fram í fyrirtækinu. Verði að telja mjög óeðlilegt ef sú staðreynd að hann hafi svarað einfaldri fyrirspurn leiði til svo alvarlegra afleiðinga.

 

Fram kemur í kærunni að framkvæmdastjóri félagsins, D, hafi haft samband við lögmann kæranda og lýst yfir óánægju sinni yfir framkvæmd starfsmanna Vinnumálastofnunar. Hafi hann sagt að enginn hafi haft samband við hann eða aðra starfsmenn fyrirtækisins til þess að fá upplýsingar um málið en með þessari ákvörðun væri beinlínis verið að saka hann um svarta atvinnustarfsemi sem væri alrangt.

 

Loks kemur fram í kærunni að kærandi hafi hvorki unnið né hætt virkri atvinnuleit það tæpa ár sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur þó öðru sé nú haldið fram. Það verði ekki nægjanlega oft ítrekað að starfsemi þess fyrirtækis sem hann sé sakaður um að vinna hjá fari ekki fram á þeim stað sem starfsmenn Vinnumálastofnunar virðist halda fram. Þá er ítrekað að símanúmer kæranda hangir fast inni á heimasíðu umrædds fyrirtækis vegna tæknivandamála, en heimasíðan hafi verið í endurgerð síðastliðið ár og treglega hafi gengið að ljúka þeirri vinnu.

 

Vinnumálastofnun beri rík skylda til þess að kanna slík mál til hlítar sem ekki hafi verið gert í máli þessu. Kærandi telji að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á röngum forsendum og að við ákvörðunartöku hafi rannsóknarskyldu á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ekki verið fylgt. Þá hafi meðalhófs ekki verið gætt við ákvarðanatöku.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar er dagsett 9. febrúar 2012. Þar er vísað til þess að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laganna og skipti þá engu máli hvort starfið sé launað eður ei.

 

Það komi skýrt fram í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sömu viðurlög skuli gilda um þá er starfi á innlendum vinnumarkaði til greiðslu atvinnuleysisbóta og þeirra er vísvitandi veita rangar upplýsingar í þeim tilgangi að fá greiddar bætur sem þeir eiga ekki rétt á. Hafi atvinnuleitandi ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar að atvinnuleit sé hætt eða um tilfallandi vinnu skv. 10. gr. og 35. gr. a sé stofnuninni því almennt skylt að beita viðurlögum á grundvelli 60. gr. laganna ef atvinnuleitandi sé síðar staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.

 

Vinnumálastofnun hafi borist upplýsingar um að kærandi hafi verið við störf hjá B. 27. júlí 2011 samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga og án þess að tilkynna fyrirfram til Vinnumálastofnunar um fyrirhugaða vinnu. Hafi kærandi verið á starfsstöð fyrirtækisins við vinnu þegar eftirlitsmenn hafi borið að garði. Kærandi haldi því fram að hann hafi verið að gera við heimilisryksugu sína. Einnig hafi verið hringt í uppgefið símanúmer kæranda í tölvukerfi Vinnumálastofnunar. Hafi það símanúmer einnig verið skráð á heimasíðu fyrirtækisins og sé það enn skráð á heimasíðu B. Þegar hringt hafi verið í síma fyrirtækisins hafi kærandi svarað og veitt ýmsar upplýsingar um rekstrarsvið þess. Hafi verið augljóst af símtalinu að hann sinnti daglegum rekstri fyrirtækisins.

 

Af hálfu Vinnumálastofnunar er bent á að í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi mjög skýrlega að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.

 

Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri ráð fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Hafi tilgangur með lagabreytingunni meðal annars verið að vinna gegn „svartri vinnu“. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laganna, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Beri því að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans og skuli hann ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Lögmanni kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. febrúar 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2012. Frekari athugasemdir bárust frá Aðalheiði Helgadóttur hdl., f.h. Láru V. Júlíusdóttur hrl., fyrir hönd kæranda með bréfi, dags. 24. febrúar 2012. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi aldrei hætt virkri atvinnuleit og þrái það heitast að komast aftur á vinnumarkaðinn. Lögmaðurinn vilji, fyrir hönd kæranda, ítreka það að engin vinna fari fram á starfsstöð B., hvorki launuð né ólaunuð. Félagið sjái um ræstingar og hreingerningar í öðrum húsnæðum. Ef viðgerða eða viðhalds hafi verið þörf hafi þeir notið þjónustu annars félags, E. Með hliðsjón af því geti kærandi einfaldlega ekki hafa verið að vinna þann dag sem meint atvik eigi að hafa átt sér stað.

 

Fyrrgreindu bréfi lögmannsins fylgdi yfirlýsing frá framkvæmdastjóra B., D, dags. 24. febrúar 2012. Þar kemur fram að framkvæmdastjórinn finnur að því að Vinnumálastofnun hafi ekki haft samband við hann sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins og leitað upplýsinga varðandi mál kæranda, sem sé sakaður um svarta atvinnustarfsemi. B. vinni aðallega fyrir ríkisstofnanir og sveitarfélög sem leggi ekki í vana sinn að borga svart. Hvað varði viðgerðir á tækjum þeirra hafi E séð um viðhald og viðgerðir fyrir þá. Því er mótmælt að kærandi hafi verið við vinnu er eftirlitsmenn komu í fyrirtækið. Hann hafi haft fulla heimild til þess að gera við heimilisryksugu í húsnæðinu.

 

Vinnumálastofnun sendi viðbótargreinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. september 2012, í tilefni af úrskurðum úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 140/2011 og 135/2011. Fram kemur í greinargerðinni að þeirra gagna sem nýtt eru við töku ákvarðana stjórnvalda sé aflað með mismunandi hætti. Hafi Vinnumálastofnun litið til áreiðanleika gagna við mat á því hvort hefja skuli rannsókn máls eða byggja skuli stjórnvaldsákvörðun á þeim upplýsingum er fram komi. Bent er á að í tilvitnuðum úrskurðum séu gögn sem nýtt hafi verið við rannsókn máls og töku ákvörðunar hjá Vinnumálastofnun virt að vettugi sökum þess að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að eftirlitsferðir fulltrúa aðila vinnumarkaðarins sem farnar hafi verið á grundvelli laga nr. 42/2010, hafi verið í andstöðu við lög. Úrskurðarnefndin virðist ekki telja ástæðu til að kanna gögn sem stafi frá eftirliti aðila vinnumarkaðarins, hafi upplýsingar komið úr eftirlitsferðum sem farnar hafi verið fyrir 21. desember 2011. Verði ekki fallist á með úrskurðarnefndinni að þau gögn sem berist stofnuninni séu sjálfkrafa talin óáreiðanleg eða ónothæf við töku stjórnvaldsákvörðunar hafi ekki legið fyrir afgerandi lagaheimild fyrir öflun þeirra. Bendir Vinnumálastofnun á að stofnuninni berist fjöldi ábendinga frá einstaklingum og lögaðilum. Hafi fæstum þeirra verið veitt sérstök heimild til eftirlits á grundvelli lagaheimildar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að við meðferð opinberra mála hafi íslenskir dómstólar tekið til athugunar sönnunargögn jafnvel þótt þeirra hefði verið aflað með öðrum hætti en lög geri ráð fyrir. Á grundvelli meginreglunnar um frjálst sönnunarmat sé dómara gert að meta það sjálfstætt í hverju tilviki fyrir sig, hvort og þá hvert gildi slíkra gagna sé. Verði ekki fallist á að frekari kröfur séu gerðar til sönnunarfærslu og uppruna þeirra gagna er berist Vinnumálastofnun í tengslum við stjórnsýslumál heldur en gerðar séu til dómstóla í opinberum málum.

 

Vinnumálastofnun telur að leggja skuli sjálfstætt mat á sönnunargildi gagna, hvaðan sem slík gögn berist. Telur stofnunin því að henni hafi verið heimilt að byggja ákvörðun sína á upplýsingum úr eftirlitsferð aðila vinnumarkaðarins í máli kæranda.

 

Viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 25. september 2012, og gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri fyrir 9. október 2011. Í bréfi Hilmars Þorsteinssonar, lögfræðings hjá Lögmönnum, Laugavegi 3, dags. 26. september 2012, er því mótmælt að Vinnumálastofnun skili greinargerð hálfu ári eftir að mál er tekið til úrskurðar. Það samræmist á engan hátt málshraðareglu stjórnsýslulaga né vandaðri meðferð stjórnsýslumála að annar aðilinn fái að koma að viðbótarrökstuðningi svo löngu eftir að skriflegum málflutningi sé lokið. Þess er krafist að viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar verði algjörlega virt að vettugi við úrlausn málsins. Verði ekki fallist á það er röksemdum stofnunarinnar harðlega mótmælt og vísað til forsendna úrskurða nefndarinnar í málum nr. 140/2011 og 135/2011. Þar að auki er ítrekað að það eitt að hluthafi í félagi hittist fyrir á starfsstöð þess þar sem hann er að gera við ryksugu í sinni eigu og sé skráður með símanúmer á heimasíðu þess sanni á engan hátt að hann hafi þegið frá því laun. Það sé með ólíkindum að Vinnumálastofnun telji sér fært að setja fram ásakanir um bótasvik á svo veikum grunni.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Með tveimur úrskurðum úrskurðarnefndarnefndarinnar frá 12. september 2012 í málum nr. 135/2011 og 140/2011 var meðal annars rýnt í efni laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010. Lögin kveða meðal annars á um þá skipan að sérstakir eftirlitsfulltrúar á vegum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sem eru einkaaðilar, hafi heimildir til að fara á vinnustaði og óska eftir því við einstaklinga sem þar eru staddir framvísi svokölluðum vinnustaðaskírteinum eða veiti eftir atvikum aðrar upplýsingar um ástæðu veru sinnar á viðkomandi vinnustöðum. Í úrskurðunum var talið leiða af 1. og 2. mgr. 1. gr. laganna að löggjafinn hafi framselt vald til aðila vinnumarkaðarins til að ákveða hvert gildissvið laganna skyldi vera en með eftirfarandi takmörkun þó, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna:

 

„Ráðuneytið skal birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda með lista yfir þær atvinnugreinar sem lögin skulu taka til á hverjum tíma samkvæmt kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. 2. mgr.“

 

Með hliðsjón af því að ákvæði laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010, eru íþyngjandi í garð atvinnurekenda og starfsmanna þeirra, var hið tilvitnaða ákvæði túlkað á þá leið að samningar aðila vinnumarkaðarins um gildissvið laganna tækju ekki gildi fyrr en ráðherra hefði birt auglýsingu þá sem kveðið er á um í 3. mgr. 1. gr. laganna.

 

Þessi auglýsing var birt 21. desember 2011.

 

Af ofangreindu leiðir að eftirlitsfulltrúar á vegum samtaka aðila vinnumarkaðarins höfðu fyrir 21. desember 2011 ekki lagaheimild til að (1) fara á vinnustaði, (2) sýna skilríki sem gáfu til kynna að þeir ynnu fyrir opinber stjórnvöld og (3) krefja einstaklinga svara við spurningum um þeirra einkahagi, meðal annars um nöfn þeirra.

 

Í úrskurðunum tveimur var komist að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af grundvallarreglunni um vernd einkalífs og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, væri ótækt að telja þær upplýsingar þýðingarmiklar sem aflað hafi verið með ólöglegum hætti. Þar sem kærendur í viðkomandi málum neituðu staðfastlega þeim ásökunum að hafa verið staðnir að því að sinna starfi á vinnumarkaði á sama tíma og þeir þáðu atvinnuleysisbætur, og engin önnur gögn í málunum vörpuðu fullnægjandi ljósi á málsatvik, var komist að þeirri niðurstöðu að Vinnumálastofnun hafi ekki rannsakað málin með fullnægjandi hætti. Af því leiddi að hinar kærðu ákvarðanir voru felldar úr gildi.

 

Í þessu máli hefur Vinnumálastofnun lagt fram viðbótargreinargerð, dags. 21. september 2012, þar sem fordæmisgildi úrskurðanna í málum nr. 135/2011 og nr. 140/2011 er andmælt. Stofnunin telur að ekki beri að líta til niðurstöðu þessara úrskurða við afgreiðslu þessa máls. Á þessar röksemdir Vinnumálastofnunar verður ekki fallist, sbr. rökstuðning hér að neðan.

 

Í viðbótargreinargerð Vinnumálastofnunar er meðal annars vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar frá 4. apríl 2012 í máli nr. 163/2011 en í því máli hafi úrskurðarnefndin engar athugasemdir gert þótt upphaf þess máls hafi mátt rekja til könnun eftirlitsfulltrúa samtaka vinnumarkaðarins sem síðan hafi leitt til viðurlagaákvörðunar Vinnumálastofnunar á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þessi rök verður ekki fallist þar sem í því máli veitti kærandi upplýsingar um hagi sína sem leiddu til þess að ekki voru taldar forsendur fyrir hendi að beita 60. gr. laganna. Þetta þýðir með öðrum orðum að atvik í máli nr. 163/2011 voru nægjanlega upplýst til að hægt væri að ljúka því á þann veg að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar væri felld úr gildi og kveðið væri um rétt kæranda til að þiggja áfram greiðslu atvinnuleysisbóta, að öðrum skilyrðum laga uppfylltum.

 

Einstaklingar og lögaðilar geta veitt Vinnumálastofnun upplýsingar sem kunna að auðvelda henni að sinna eftirliti með því að atvinnuleitendur ræki skyldur sínar samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Slíkar ábendingar geta verið upphaf stjórnsýslumáls hjá Vinnumálastofnun. Við afgreiðslu slíks máls ber stofnuninni meðal annars að gæta að málsmeðferðareglum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, svo sem með tilliti til rannsóknar þess og andmælaréttar borgarans. Meðferð stjórnsýslumálsins lýtur því lögbundnum reglum þar sem gætt er í senn að heimildum stjórnvalda til að rannsaka mál og réttindum borgarans til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þessi skipan mála brýtur á engan hátt á réttindum borgarans, meðal annars réttsins til einkalífsverndar. Allt annað er hins vegar upp á teningnum þegar fulltrúar á vegum einkaaðila, mæta á vinnustað, sýna skilríki sem gefa til kynna að þeir starfi með löglegum hætti í þágu opinberra aðila og krefja einstaklinginn svara um einkahagi, meðal annars nafn viðkomandi. Ótækt er að upplýsingar sem aflað er með slíkum hætti, geti haft verulega þýðingu við úrlausn máls.

 

Í fyrrnefndum úrskurðum í málum nr. 135/2011 og 140/2011 voru gögn, sem aflað var með ólögmætum hætti, talin hafa rýrt sönnunargildi. Þessi gögn voru ekki útilokuð og litið var til þeirra við afgreiðslu málanna. Aðalatriðið er að í málunum skorti á að upplýsingar væru nægar um málsatvik til að hægt væri að taka afstöðu til ágreiningsefnisins. Af þessum sökum voru hinar kærðu ákvarðanir felldar úr gildi.

 

Það leiðir af framangreindu að bollaleggingar Vinnumálastofnunar um frjálst mat á sönnunargögnum við meðferð sakamála eða við meðferð stjórnsýslumála eiga ekki við. Kjarni málsins er sá að þegar atvinnuleitandi neitar því staðfastlega að hafa starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi þegið greiðslu atvinnuleysisbóta, þá verða liggja fyrir fullnægjandi sönnunargögn um hið gagnstæða til að hægt sé að beita jafn viðurhlutamiklum viðurlögum og kveðið er á um í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þegar atvik þessa tiltekna máls eru virt í heild sinni er ljóst að þau eru sambærileg þeim sem lokið var með úrskurði 12. september 2012 í málum nr. 135/2011 og 140/2011. Kærandi hefur staðfastlega hafnað því að hafa verið að sinna starfi á vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Sönnunargildi skýrslugjafar eftirlitsfulltúa aðila vinnumarkaðarins, um heimsókn þeirra 7. júlí 2011 til fyrirtækisins B., er rýrt. Önnur sönnunargögn sem Vinnumálastofnun hefur reitt fram gefa ekki fullnægjandi vissu fyrir því að kærandi hafi starfað á vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysisbótar. Atvik málsins eru því ekki nægjanlega upplýst. Því verður talið að Vinnumálastofnun hafi brotið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. laganna, þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

 

Í ljósi framangreinds verður að fallast á kröfur kæranda í málinu og fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. október 2011 í máli A þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 122.407 kr., er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Laufey Jóhannsdóttir

Helgi Áss Grétarsson


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta