Hoppa yfir valmynd

Nr. 72/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 72/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010039

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 28. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. október 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn […], fd. […], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur kæranda þann 3. desember 2018 og þann 10. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 21. desember 2018, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Þann 29. janúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku auk fylgigagna. Þá bárust viðbótargögn þann 31. janúar 2019.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi krefst endurupptöku á máli sínu og að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og stofnuninni gert að taka umsókn hennar til efnislegrar meðferðar. Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem ákvörðunin hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum.

Í beiðni kæranda kemur fram að hún óttist um líf sitt verði henni gert að snúa aftur til Grikklands. Hún hafi orðið fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð þar í landi ekki síst vegna þess að hún snéri baki við íslam og leitaði til kirkjunnar og kristinnar trúar. Kveður kærandi að mágur hennar hafi hótað sér lífláti. Þá hafi hún mátt þola ýmsar hótanir og ofsóknir af hálfu óþekktra og strangtrúaðra múslima í Grikklandi. Meðfylgjandi beiðni kæranda um endurupptöku séu umsagnir einstaklinga sem þekki vel til aðstæðna hennar og hvað hún hafi mátt þola í Grikklandi. Þar komi með óyggjandi hætti fram að lífi hennar verði stefnt í hættu verði henni gert að snúa aftur til Grikklands. Kærandi hafi fengið litla sem enga vernd, aðstoð eða stuðning frá grískum stjórnvöldum og þá muni hún sæta ómannúðlegri meðferð í flóttamannabúðum. Kærandi vísar til 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 þar sem fram komi m.a. að óheimilt sé að senda einstakling til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr. laganna. Kærandi telur að umsagnirnar beri með sér að aðstæður hennar í Grikklandi nái því alvarleikastigi sem áskilið sé í 1. mgr. 42. gr. laganna.

Þá kemur fram að verði ekki fallist á að kærandi uppfylli framangreind skilyrði fyrir efnismeðferð byggi kærandi á því að hún hafi myndað sérstök tengsl við landið og að sérstakar ástæður mæli með efnismeðferð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi aðlagast vel íslensku samfélagi og lagt sig fram við að læra íslensku. Þá hafi hún starfað hér á landi, sent nánast allar tekjur sínar til barna sinna í heimaríki og ljóst sé að lífsgæði barna hennar muni skerðast verulega verði henni gert að snúa aftur til Grikklands. Kærandi telur að það sé andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda hana úr landi. Þá telur kærandi að meðfylgjandi umsagnir kalli á nýtt mat í málinu og því séu skilyrði til endurupptöku málsins ótvírætt fyrir hendi.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 28. nóvember 2018, sbr. úrskurð nr. 525/2018. Þá hefur nefndin áður tekið afstöðu til beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa með úrskurði nr. 570/2018 frá 21. desember 2018. Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nr. 525/2018 og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu. Meðal gagna málsins eru umsagnir einstaklinga sem þekkja til kæranda, þar sem fram kemur lýsing á aðstæðum kæranda á meðan hún hafi dvalið í Grikklandi og aðbúnaðinum sem hún hafi búið við þar í landi. Meðal þess sem fram kemur í umsögnunum er að kærandi hafi búið við slæmar aðstæður í Grikklandi, hún hafi m.a. dvalið í gistiskýli fyrir heimilislausa, á götunni og þá hafi hún verið misnotuð bæði líkamlega og fjárhagslega auk þess sem henni hafi verið hótað lífláti. Þá kemur einnig fram lýsing á aðstæðum kæranda eftir að hún hafi komið hingað til lands. Hún starfi á leikskóla hér á landi, sé í íslenskunámi og taki þátt í kirkjustarfi.

Í úrskurði kærunefndar nr. 525/2018 kemur m.a. fram að samkvæmt framlögðum heilsufarsgögnum þjáist kærandi af kvíða og andlegri vanlíðan vegna fjarveru frá börnum sínum og fjölskyldu. Þá hafi kærandi farið til sálfræðings og í áliti hans komi m.a. fram að kærandi hafi einkenni áfallastreituröskunar og að niðurstöður úr viðtölum bendi til mjög mikils og alvarlegs andlegs vanda. Var það niðurstaða kærunefndar að kærandi væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum er jafnframt vísað til þess að í skýrslum um aðstæður í Grikklandi komi fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, m.a. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu auk þess sem að einstaklingar með dvalarleyfi í Grikklandi séu sjálfkrafa með atvinnuleyfi þar í landi. Þá kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá er í úrskurðinum áréttað að óttist kærandi um öryggi sitt geti hún leitað til lögreglu eða annarra stjórnvalda í Grikklandi. Var það niðurstaða kærunefndar að endursending kæranda til Grikklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga auk þess sem að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hennar yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Meðal þeirra gagna sem lágu fyrir í máli því sem kærandi óskar endurupptöku á voru viðtöl kæranda hjá Útlendingastofnun þar sem fram kom lýsing hennar á aðstæðum sínum og aðbúnaði í Grikklandi. Þá lagði kærandi fram greinargerð í því máli þar sem fram kom ítarleg lýsing á aðstæðum og aðbúnaði kæranda í Grikklandi. Einnig lágu fyrir heilbrigðisgögn sem báru með sér að kærandi glími við tiltekin veikindi. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að gögn þau sem kærandi hefur lagt fram, annars vegar varðandi aðstæður og aðbúnað hennar í Grikklandi og hins vegar er varða tengsl hennar hér á landi, séu ekki þess eðlis að talið verði að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærunefnd telur að framangreind gögn séu í samræmi við lýsingar kæranda á aðstæðum sínum og aðbúnaði í Grikklandi, sem lágu fyrir þegar kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu, auk þess sem að skýrslur um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd þar í landi komi heim og saman við fyrirliggjandi gögn í málinu.

Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og gagna málsins, þ.m.t. þeirra gagna sem lögð voru fram með beiðni þessari um endurupptöku, er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar nr. 525/2018 hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir                         Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta