Hoppa yfir valmynd

Nr. 153/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 153/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21020017

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 377/2020, dags. 17. desember 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2020, um að synja einstaklingi sem kveðst heita [...], kveðst vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 21. desember 2020. Hinn 29. desember 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar í máli KNU20120063, dags. 26. janúar sl.

Hinn 8. febrúar 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 17. desember 2020. Þann 11. febrúar 2021 barst önnur beiðni um endurupptöku. Sama dag barst kærunefnd viðbótarrökstuðningur við fyrri beiðni ásamt fylgigögnum. Hinn 15. og 22. febrúar sl. bárust frekari upplýsingar frá kæranda. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála hinn 25. mars 2021 ásamt talsmanni sínum.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í endurupptökubeiðni kæranda frá 8. febrúar 2021 er aðallega gerð sú krafa um að mál hans verði endurupptekið og að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar dags. 2. júlí 2020 og að stofnuninni verði gert að veita honum dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er gerð sú krafa að fyrrgreind ákvörðun verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er gerð sú krafa að fyrrgreind ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 76. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er gerð sú krafa að mál kæranda verði endurupptekið og að honum verði veitt tímabundið dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á framangreindar kröfur er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til nýrrar málsmeðferðar. Í endurupptökubeiðni kæranda frá 11. febrúar 2021 er aðallega gerð sú krafa að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til vara er gerð sú krafa að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál kæranda til nýrrar málsmeðferðar.

II. Málsástæður og rök kæranda

Málsástæður og rök kæranda í greinargerð dags. 13. ágúst 2020

Í greinargerð kæranda sem lögð var fram í stjórnsýslumáli nr. KNU20070023 kom fram að kærandi væri fæddur árið [...] og hefði flúið heimaríki sitt árið 2016, þá á [...] aldursári. Meginástæða flótta kæranda frá heimaríki hafi verið alvarlegt ofbeldi og ofsóknir af hálfu föður hans en faðir kæranda hafi beitt hann ofbeldi nánast hvern dag. Þá hafi faðirinn einnig beitt móður og yngri systur kæranda ofbeldi reglulega. Árið 2015 hafi kærandi orðið vitni að því að faðir hans hafi beitt móður hans ofbeldi með þeim afleiðingum að hún hafi látist. Faðir kæranda hafi tekið saman við aðra konu um tveim mánuðum eftir að móðir hans hafi látist og hafi hún flutt inn á heimilið. Hún hafi einnig beitt kæranda harðræði. Faðir kæranda hafi skyldað kæranda til að fá sér vinnu til að afla peninga fyrir heimilið og kærandi hafi byrjað að selja vatn og flögur úti á götum. Eitt sinn hafi yngri systir hans komið með kæranda að selja vörur. Þar hafi hún orðið fyrir slysi og verið flutt á spítala þar sem hún hafi látist vegna áverkanna. Kærandi eigi einn frænda í móðurætt sem kærandi hafi reynt að fá til að aðstoða sig, en hann hafi ekki viljað aðstoða hann vegna ótta við föður kæranda. Kærandi hafi ekki tengsl við annað fólk sem hann geti leitað til í heimaríki. Kærandi hafi ekki leitað til lögreglunnar vegna ótta við viðbrögð af hálfu föður síns. Faðir hans eigi vini og kunningja innan lögreglunnar og vegna þessara tengsla yrði hann aldrei lengi í haldi. Þá eigi faðir kæranda byssu og sé bendlaður við glæpastarfsemi. Fólk í heimabæ kæranda óttist almennt föður kæranda og sumir hafi ráðlagt honum að leggja á flótta.

Kærandi hafi samið við menn sem flytji fólk til Líbíu um að fara með þeim þangað þó hann hafi ekki getað borgað fyrirfram. Í Líbíu hafi kærandi verið látinn vinna fyrir nígeríska konu sem hafi rekið þar veitingastað en þannig hafi mennirnir fengið greitt fyrir ferðina. Kærandi hafi unnið fyrir konuna í fimm mánuði en þá hafi hún verið myrt af fólki sem hafi komið á veitingastaðinn í leit að eiginmanni hennar. Kærandi hafi þá komist í kynni við fólk sem hafi búið í fátækrahverfi (e. ghetto), en fólkið hafi verið á leið frá Líbíu til Ítalíu. Kærandi hafi viljað fara til Ítalíu og farið að vinna á sveitabýli til að safna sér fyrir ferðinni. Kærandi hafi þó ekki fengið greitt fyrir vinnuna en honum hafi verið leyft að sofa í útihúsi nálægt heimili eigandans. Eigandinn hafi í fjórgang komið í útihúsið og nauðgað kæranda. Kærandi hafi við þetta hlotið áverka á endaþarmi sem hann hafi enn ekki hlotið lækningu við en hann finni stöðugt fyrir verkjum og eigi erfitt með gang. Eitt sinn hafi kærandi heyrt eigandann og eiginkonu hans rífast en konan hafi komist að misnotkun mannsins á kæranda. Kærandi hafi verið sannfærður um að þetta myndi valda honum vandræðum, hann hafi því lagt á flótta og tekist að komast á bát til Ítalíu.

Gerði kærandi þá kröfu aðallega að honum yrði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggði á því að hann óttaðist ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi sem fórnarlamb heimilisofbeldis. Taldi kærandi að þar sem um heimilisofbeldi hafi verið að ræða gæti hann ekki gengið að vernd yfirvalda vísri. Til vara gerði kærandi þá kröfu að honum yrði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann ætti á hættu að verða fyrir illri og ómannúðlegri meðferð af hálfu föður síns.

Til þrautavara gerði kærandi þá kröfu að honum yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggði framangreinda kröfu á því að hann myndi glíma við alvarlega erfiðleika yrði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hefði ekkert félagslegt bakland í Nígeríu, hann væri ungur að árum og glímdi við líkamleg og sálræn vandamál. Þá hafi honum verið nauðgað í Líbíu en fórnarlömb kynferðisofbeldis teljist til einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu samkvæmt lögum um útlendinga.  

Málsástæður og rök kæranda fyrir endurupptöku málsins

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er aðallega reist á þeim grundvelli að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Kærandi telur að málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi verið ábótavant sem eigi að leiða til þess að úrskurður kærunefndar nr. 377/2020 frá 17. desember 2020 sé ógildanlegur. Að mati kæranda hafi málsmeðferðin ekki verið í samræmi við þær reglur sem gildi um málsmeðferð á umsóknum umsækjenda um alþjóðlega vernd og hafi ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Telur kærandi að framangreind málsmeðferð sé brot á öryggisreglum og að annmarkinn sé svo verulegur að ákvörðun í máli hans sé ógildanleg hvort heldur sem notast sé við almennan eða sérstakan mælikvarða.

Í beiðninni er rakið að í Líbíu hafi kæranda verið haldið í fjárhúsi, hann látinn vinna við melónurækt og hann ítrekað beittur ofbeldi. Kærandi telur að ljóst sé að hann sé þolandi mansals en til þess hafi ekki verið tekið tillit við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Að mati kæranda sé sá annmarki í málsmeðferð stjórnvalda í ósamræmi við 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr., 75. gr. og 76. gr. sömu laga, sem og aðrar almennar öryggisreglur stjórnsýslulaga. Hér sé því um að ræða brot á formreglum og málsmeðferðarreglum sem hafi bein áhrif á mat stjórnvalda á því hvort beita eigi efnisreglum. Að mati kæranda sé um að ræða verulegan formlegan og efnislegan annmarka á ákvörðunum kærunefndar og Útlendingastofnunar. Kærandi telur að ýmsar lagagreinar í íslenski löggjöf séu til leiðbeiningar um það hvaða tilvik teljist til mansals. Mansal sé m.a. skilgreint í 14. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og þar vísað til 227. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og samnings Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi (Palermó-samningurinn) til fyllingar.

Kærandi vísar til þess að í úrskurði kærunefndar nr. 377/2020 hafi ekki verið fjallað um það hvort hann sé þolandi mansals, en í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að nefndin leggi til grundvallar að kærandi glími við andleg og líkamleg vandamál og hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í Líbíu. Kærandi telur að aðstæður sem hann hafi lifað við í Líbíu, þar sem hann hafi verið neyddur til að starfa við melónurækt, geymdur í fjárhúsi og ítrekað nauðgað, uppfylli skilgreiningu mansals, ekki vegna þess að kynferðisleg misneyting hans hafi verið í gróðaskyni heldur vegna aðstæðna og valdamisræmis. Það sé mat kæranda að aðstæður hans falli réttilega undir skilgreiningu á mansali en ekki einungis að hann sé þolandi kynferðisofbeldis. Kærandi telur að frásögn hans beri með sér að hann hafi einnig verið þolandi mansals í Nígeríu. Samkvæmt frásögn hans hafi menn í Lagos ferjað hann til Líbíu gegn loforði um greiðslu frá honum. Við komuna til Líbíu hafi hann hins vegar verið framseldur eða gefinn konu sem hafi innt greiðslu af hendi til þessara manna. Kærandi telur að af frásögninni megi ráða að hann hafi gengið kaupum og sölum milli landanna tveggja og sé því án nokkurs vafa þolandi mansals. Umrædd kona hafi haft kæranda í ánauð í fimm mánuði en þegar hún hafi verið myrt hafi kærandi lent í klóm líbansks bónda sem hafi geymt hann í fjárhúsi, látið hann tína melónur og nauðgað honum ítrekað. Þá sé það mat kæranda að hann hafi jafnframt verið þolandi barnaþrælkunar en faðir kæranda hafi neytt hann með ofbeldi, nauðung og hótunum til að vinna. Kærandi telur að allt framangreint hafi með réttu átt að hafa töluvert vægi við mat á því hvort aðstæður hans ættu að eiga undir 1. mgr. 74. gr., 75. eða 76. gr. laga um útlendinga. Þar sem framangreint hafi ekki verið metið hafi kærunefnd þar af leiðandi ekki tekið til skoðunar móttökuskilyrði í Nígeríu fyrir þolendur mansals. Ómögulegt sé því að niðurstaða kærunefndar hafi verið byggð á heildstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíði kæranda í heimaríki og sé það sjálfstætt brot á rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Í viðbótarrökstuðningi með endurupptökubeiðni frá 8. febrúar sl. er ítrekað að kærandi sé þolandi mansals og hafi íslensk stjórnvöld átt að koma auga á þá augljósu staðreynd. Kærandi byggir á því að málsmeðferð íslenskra stjórnvalda hafi verið í andstöðu við Samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali; tilmæli GRETA (Group of Experts on Action against Trafficking Human Beings) til Íslands frá 5. apríl 2019 og leiðbeiningar Flóttamannastofnunar nr. 7 um stöðu flóttamanna sem séu þolendur mansals. Hafi íslenskum stjórnvöldum ekki verið ljóst að kærandi væri þolandi mansals sé það brot á rannsóknarreglunni. En hafi stjórnvöldum verið það ljóst sé um að ræða brot á lögmætisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Um sé að ræða skýr brot á efnisreglu sem leiði til ógildingar á úrskurði kærunefndar. Þá gildi einu hvort að ástæður framangreinds annmarka sé annmarki á grundvelli brota á rannsóknarreglu eða um sé að ræða misbeitingu valds við val á leiðum til úrlausnar.

Í endurupptökubeiðni kæranda frá 11. febrúar sl. byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku málsins á því að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans hafi verið efnislega röng og hið sama eigi við um úrskurð kærunefndar útlendingamála. Hafi stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda verið í andstöðu við jafnræðisreglu sem lögfest sé í 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Þannig sé ákvörðunin andstæð lögmætisreglu og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Kærandi byggir á því að mat stjórnvalda á því hvort hann uppfyllti skilyrði þess að fá dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga hafi ekki verið í samræmi við mat stjórnvalda í sambærilegum málum. Kærandi telur að þar af leiðandi sé mat stjórnvalda óforsvaranlegt og ekki verði annað séð af rökstuðningi kærunefndar útlendingamála en að ómálefnaleg rök hafi legið til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar, sé hún borin saman við niðurstöður annarra sambærilegra mála. Kærandi hafi mikla og brýna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu vegna andlegra veikinda. Því til stuðnings vísar kærandi til sálfræðivottorðs frá Domus Mentis, dags. 12. nóvember 2019 og annarra læknisfræðilegra gagna sem lögð voru fram í kærumáli hans. Kærandi vísar til þess að samkvæmt heimildum sé geðheilbrigðiskerfið í Nígeríu í molum og sé ekki með sanngirni hægt að ætlast til þess að ungur, andlega veikur maður, án baklands, geti sem heimilislaus maður í Lagos, aflað sér slíkrar þjónustu. Kærandi telur að hann sé í þeirri stöðu að hafa ríka þörf fyrir vernd samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings framangreindu vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar nr. 300/2020 frá 22. október 2020, sbr. stjórnsýslumál kærunefndar nr. KNU20030045. Kærandi telur aðstæður sínar síst betri en aðstæður kæranda í því máli en honum hafi verið veitt vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna þess að hann hafi þurft á geðheilbrigðisþjónustu að halda sem hann hafi átt erfitt með að nálgast í heimaríki. Þó að um annað heimaríki sé að ræða sé ljóst af landaupplýsingum að aðstæður í heimaríki kæranda séu sambærilegar aðstæðum í heimaríki málsaðila í framangreindu máli. Raunar séu aðstæður kæranda erfiðari að því leyti að hann hafi jafnframt verið þolandi kynferðislegs ofbeldis og mansals. Að mati kæranda hafi kærunefnd ekki tekið tillit til upplýsinga um heimaríki kæranda sem nefndin hafi átt að hafa til hliðsjónar við matið, svo sem upplýsingar um móttökuskilyrði þolenda mansals og þá hafi nefndin dregið rangar ályktanir af þeim gögnum sem hafi komið til skoðunar. Þau gögn sem kærunefnd hafi sjálf vísað til beri eindregið með sér að kærandi muni ekki hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu í þeim mæli sem sé honum nauðsynleg.

Kærandi telur að framangreint eigi ekki einungis að leiða til þess að honum skuli veitt vernd á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, heldur yrði endursending hans til heimaríkis brot á 68. gr. stjórnarskrárinnar, 42. gr. laga um útlendinga og þá yrði niðurstaðan jafnframt í andstöðu við 11. gr. stjórnsýslulaga og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þann 15. og 22. febrúar 2021 bárust kærunefnd athugasemdir og viðbótargögn frá talsmanni kæranda vegna fyrirspurna frá kærunefnd er vörðuðu upplýsingar af fimm mismunandi Facebook reikningum kæranda undir nafninu [...]. Í athugasemdum frá 15. febrúar sl. var tekið fram að kærandi hafi alla tíð gefið stjórnvöldum rétt nafn, þ.e. nafnið [...]. Kærandi hafi tekið upp nafnið [...] þegar hann hafi flúið til Evrópu til að hefja nýtt líf fjarri áföllum og misnotkun. Þannig sé nafnið [...] auðveldara í framburði og þá sé [...] nærtækt sem eftirnafn á grundvelli evrópskrar nafnahefðar en nafnið sé seinna nafn föður kæranda. Kærandi hafi hins vegar hér á landi notað sitt rétta nafn, m.a. eftir hvatningu frá fjölskyldunni sem hann hafi búið hjá síðastliðið hálft ár. Kærandi taki fram að ekki hafi verið um blekkingu að ræða gagnvart stjórnvöldum heldur persónulegt val hans um hvernig hann tjái persónu sína á samfélagsmiðlum sem öllum sé frjálst. Í athugasemdum frá 22. febrúar sl. kom fram að kærandi hafi tjáð talsmanni sínum að frá desember 2013 hafi hann verið í Bretlandi um skamma hríð. Kærandi hafi unnið í verksmiðju en aldrei fengið laun og hafi honum verið haldið við óviðunandi aðstæður í íbúð manns sem hafi skipulagt ferðalagið. Kærandi telur að samkvæmt framangreindu hafi hann verið þolandi mansals. Kæranda sé ekki fullkunnugt um á hvaða grundvelli dvalarleyfi hans í Bretlandi hafi verið en telur að hann gæti hafa verið í landinu á tímabundnu ferðamannaleyfi. Snemma á árinu 2015 hafi kærandi verið handtekinn í Bretlandi og sendur aftur til Nígeríu. Í athugasemdum kæranda er vísað til þess að kærandi hafi verið þvingaður til hlýðni með nokkurs konar „Voodoo“ athöfn þar sem hann hafi verið látinn borða nýru úr kjúkling og sverja eið. Þannig hafi flótti kæranda frá heimaríki í raun hafist árið 2013. Kærandi telur framangreind atriði til marks um brot stjórnvalda á 10. gr. stjórnsýslulaga en hefði rannsókn stjórnvalda leitt í ljós þá augljósu staðreynd að kærandi hafi ítrekað verið þolandi mansals og misnotkunar hefði rannsókn stjórnvalda orðið nákvæmari og varpað ljósi á þau atriði sem nú liggi fyrir. Þessar upplýsingar hefðu jafnframt getað komið fram hefði málsmeðferð stjórnvalda verið í samræmi við 25. gr. laga um útlendinga. Í þessu samhengi er ítrekuð krafa um að framkvæmt verði þroskamat á kæranda en að mati lögmanns kæranda einkennist framkoma hans af vissum vanþroska sem geti útskýrt óreiðukennda frásögn hans á málsatvikum.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku málsins

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 17. desember 2020. Í úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er í meginatriðum reist á því að kærandi telur að annmarki hafi verið á málsmeðferð stjórnvalda sem eigi að leiða til þess að úrskurður kærunefndar nr. 377/2020 sé ógildanlegur. Kærandi telur að samkvæmt frásögn sinni um það hvernig för hans frá Nígeríu til Líbíu hafi verið háttað og atburðarás í kringum þá för og fram til þess að hann kom til Ítalíu, hafi íslensk stjórnvöld átt að koma augu á það að hann hafi verið þolandi mansals og að rannsaka hafi átt mál hans með tilliti til þess.

Við meðferð endurupptökumálsins komu fram upplýsingar, m.a. af Facebook reikningum kæranda og í athugasemdum hans, sem voru ekki í samræmi við fyrri frásögn kæranda af aðdraganda flótta hans frá heimaríki hans, persónuupplýsingum og aldri. Af þeirri ástæðu bauð kærunefnd kæranda að koma í viðtal hjá nefndinni til þess að skýra betur það ósamræmi sem komið var fram. Í ljósi upplýsinga sem fram komu í viðtali við kæranda, gagna sem aflað var, m.a. frá lögregluyfirvöldum í Bretlandi, er það mat kærunefndar að úrskurður nefndarinnar nr. 377/2020 hafi byggt á röngum upplýsingum um málsatvik. Eru skilyrði endurupptöku málsins á grundvelli. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga því uppfyllt.  

IV. Niðurstaða kærunefndar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram neitt sem til þess sé fallið að sanna á honum deili. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 12. október 2019, kom í ljós samsvörum við skráðan umsækjanda á Ítalíu og er kærandi því aðeins þekktur af framangreindri svörun. Að þessu virtu var það mat Útlendingastofnunar að kærandi hefði ekki sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti og yrði af þeim sökum leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi framvísað fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins og að hann hafi ekki lagt fram gögn sem til þess væru fallin að sanna á honum deili og því væri óvissa um hver kærandi er. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að kærandi væri nígerískur ríkisborgari. Að beiðni kærunefndar sendi Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, hinn 18. febrúar 2021, fyrirspurn til Interpol í Bretlandi um dvöl kæranda í landinu frá árinu 2013 til 2015. Hinn 19. mars 2021 bárust upplýsingar frá Interpol í Bretlandi þess efnis að samsvörun við fingraför kæranda hefði komið upp í fingrafaragrunni þeirra. Hafi upplýsingar í gagnagrunninum leitt í ljós að í Bretlandi hefði kærandi verið skráður með nafnið [...], fæðingardaginn [...] og með nígerískt ríkisfang. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að draga í efa ríkisfang kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé nígerískur ríkisborgari. Auðkenni kæranda er hins vegar óstaðfest.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Nigeria (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Background Note – Nigeria (U.K. Home Office, maí 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Actors of Protection (U.K. Home Office, 28. mars 2019);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Country Background Note (U.K. Home Of-fice, 7. janúar 2020);
  • Country Policy and Information Note – Nigeria: Medical and Healthcare issues (U.K. Home Office, janúar 2020);
  • DFAT Country Information Report – Nigeria (Department of Foreign Affairs and Trade, 3. desember 2020);
  • EASO COI Meeting Report – Nigeria – Practical Cooperation Meeting 12-13 June 2017 – Rome (European Asylum Support Office, 1. ágúst 2017);
  • EASO Country Guidance – Nigeria – Guidance note and common analysis (European Asy-lum Support Office, febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Actors of Protection (European Asy-lum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO Country of Origin Information Report – Nigeria – Country Focus (European Asylum Support Office, júní 2017);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Security Situation (European Asy-lum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Targeting of individuals (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • EASO – Country of Origin Information Report – Nigeria – Key socio-economic indicators (Eu-ropean Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2020 – Nigeria (Freedom House, 4. mars 2020);• Nigeria: Pass, identitetskort og underlagsdokumenter (Landinfo, 19. október 2012);
  • Nigeria 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Nigeria 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (http://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 8. apríl 2021);
  • Upplýsingar af vefsíðu Interpol (www.interpol.int);• Covid-19 vefsíða nígerískra heilbrigðisyfirvalda (https://covid19.ncdc.gov.ng/).
  • The World Factbook (CIA, 26. mars 2021);• Trafficking in Persons Report – Nigeria (U.S. Department of State, 25. júní 2020);
  • Visit to Nigeria: Report of the Special Rapporteur on trafficking in persons, especially women and children (UN Human Rights Council, 16. apríl 2019) og
  • World Report 2021 – Nigeria (Human Rights Watch, 13. janúar 2021).

Nígería er sambandslýðveldi með rúmlega 214 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2019 er talið að um helmingur íbúa landsins séu múslímar og hinn helmingurinn kristinn. Þar kemur fram að trúfrelsi sé verndað í stjórnarskrá Nígeríu og einnig sé að finna ákvæði sem banni stjórnvöldum að koma á ríkistrú. Flestir íbúar svæða í Norður-Nígeríu séu múslímar og í Suður-Nígeríu séu kristnir í meirihluta. Bæði kristnir og múslímar hafi greint frá mismunun á grundvelli trúar sinnar á þeim svæðum þar sem þeir séu í minnihluta.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðasambands sakamálalögreglu (e. Interpol) er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem talin er samanstanda af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslum EASO frá 2017 og 2018 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi orðið uppvísir að því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Þá sé mikill skortur á lögreglumönnum í ríkinu, auk þess sem þjálfun á lögreglumönnum sé ábótavant og skortur sé á fjármagni frá ríkinu. Í ríkinu séu þó til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu lögreglu. Þó hafi fá mál verið rannsökuð eða farið fyrir dómstóla.

Fram kemur í framangreindum gögnum, t.a.m. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019, að töluverð spilling sé innan dómskerfisins, auk þess sem skortur sé á þjálfun dómara. Þó kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða vernd. Komið hafi verið á fót embætti umboðsmanns í Nígeríu árið 2004 (e. The Public Complaints Commission) en um sé að ræða sjálfstæða og óháða stofnun sem taki á móti kvörtunum borgara og tryggi rétt þeirra gagnvart nígerískum stjórnvöldum endurgjaldslaust. Hægt sé að nálgast skrifstofur umboðsmanns í öllum 36 fylkjum Nígeríu og er almennt talið að um sé að ræða skilvirkt úrræði fyrir borgara Nígeríu. Þá kemur fram að ýmsar eftirlitsnefndir starfi í Nígeríu sem almenningur geti beint kvörtunum sínum til, s.s. mannréttindanefndin (e. The National Human Rights Commission (NHRC)) sem hefur það hlutverk að rannsaka meint brot gegn mannréttindum. Þá geti almennir borgarar beint kvörtunum til umboðsmanns Nígeríu (e. The Public Complaints Commission) ef þeir eru ósáttir við málsmeðferð stjórnvalda. Jafnframt geti almenningur leitað til nígeríska lögregluráðsins (e. The Nigerian Police Council) og lögreglunefndar (e. Police Service Commission) sem hafi eftirlit með störfum lögreglunnar.

Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá því í janúar 2020 er heilbrigðiskerfinu í Nígeríu skipt í fyrsta, annað og þriðja stig og skiptist jafnframt í opinberan- og einkageira. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins sé starfrækt á vegum sveitarfélaga, annað stigið sé starfrækt á vegum ráðuneyta í hverju og einu fylki og þriðja stigið sé starfrækt á vegum alríkisins. Fyrsta stig heilbrigðiskerfisins feli í sér almenna heilbrigðisþjónustu fyrir borgara Nígeríu og fái jafnframt minnsta fjármagnið af stigunum þremur. Því sé almenn heilbrigðisþjónusta almennt illa skipulögð og innviðir hennar veikburða. Aðgengi sé þá ekki gott sökum skorts á heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki víða um Nígeríu. Þá sé lækniskostnaður almennt hár og aðgengi að lyfjum slæmt. Heilbrigðisþjónusta sé fjórfalt aðgengilegri í þéttbýli heldur en í strjálbýli. Heilbrigðisþjónusta innan einkageirans sé almennt betri og skipulagðari en lækniskostnaður sé að meðaltali hærri en hjá opinbera geiranum. Þá komi fram í tímaritsgrein frá árinu 2010 að talið hafi verið að allt að 60% íbúa Nígeríu hafi þá ekki haft fullnægjandi aðgang að lyfjum. Þá komi fram að heilbrigðisþjónusta sé töluvert aðgengilegri í suðurhluta landsins en í norðurhluta þess.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna. Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Í endurriti efnisviðtals við kæranda hjá Útlendingastofnun sem fram fór hinn 4. júní 2020 má sjá að kærandi hafi fengið að greina frá því í löngu máli hvaða atburðir hafi leitt til þess að hann hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi greindi frá því að hann hefði flúið vegna föður síns en hann hafi farið illa með hann, m.a. beitt hann líkamlegu ofbeldi. Greindi kærandi frá því að faðir hans hafi barið móður hans svo illa að það hafi leitt til dauða hennar árið 2015. Faðir kæranda leiti nú að kæranda þar sem kærandi hafi orðið vitni að ofbeldi föður hans. Eftir andlát móður kæranda hafi faðir kæranda sagt honum að hann yrði að vinna. Eftir tæplega tvo mánuði hafi faðir kæranda gifst á ný og sú kona hafi ásamt börnum sínum tveimur flutt inn á heimilið. Kærandi hafi áfram sætt barsmíðum af hálfu föður síns og harðræði af hálfu stjúpmóðir sinnar sem hafi m.a. tekið af honum allan pening sem hann hafi unnið sér inn. Á þessu tímabili hafi systir kæranda lent í bílslysi og látist. Einn dag hafi kærandi ákveðið að flýja þessar aðstæður. Kærandi hafi fengið peninga hjá vini móður sinnar og tekið rútu til Lagos. Í Lagos hafi kærandi kynnst nokkrum mönnum sem hafi verið að fara til Líbíu og Ítalíu og fengið far með þeim gegn loforði um greiðslu þegar komið yrði til Líbíu. Í Líbíu hafi þeir farið með hann til konu sem hafi átt veitingastað og hafi hún greitt mönnunum. Kærandi hafi unnið á veitingastaðnum í fimm mánuði eða allt þar til að dag einn hafi konan verið myrt. Mánuði síðar hafi kærandi fengið vinnu á sveitabýli við að tína melónur en maðurinn sem hafi átt sveitabýlið hafi neitað að borga honum og þá hafi hann hótað kæranda lífláti ef hann myndi ekki stunda kynlíf með sér. Maðurinn hefði nauðgað kæranda fjórum sinnum. Eftir að kona mannsins hafi komist að kynferðislegu ofbeldi mannsins hafi kærandi heyrt mikið rifrildi og hlaupist á brott og farið á stað þar sem fólk hafi safnast saman til að fara til Ítalíu. Kærandi hafi farið með bát sem hafi sokkið og ítalskir aðilar hafi bjargað honum 22. ágúst 2016.

Aðspurður um það hverja kærandi óttaðist svaraði kærandi því að hann óttaðist föður sinn þar sem að faðir hans viti að kærandi muni afhjúpa hann. Kærandi kvaðst aðspurður hvergi annars staðar geta verið í heimaríki en hann ætti enga að í Lagos sem hafi verið fyrsti staðurinn sem hann hafi farið til. Í sama viðtali var kærandi spurður af talsmanni sínum hvort einhver hafi látið hann gera eitthvað gegn greiðslu eða selt hann gegn gjaldi eftir að hann hafi yfirgefið Nígeríu. Kærandi svaraði því játandi og greindi frá því að fólkið sem hafi farið með hann frá Nígeríu til Líbíu hafi fengið peninga frá konunni sem hafi átt veitingastaðinn. Hafi konan átt að láta hann fá 15 dinars en bara látið hann fá 5 dinars. Kærandi kvaðst hafa unnið fyrir hana í fimm mánuði og þá hafi hann verið búinn að greiða henni fargjaldið.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar má sjá að stofnunin lagði til grundvallar að kærandi hefði flúið heimaríki sitt vegna ofbeldis af hálfu föður hans og taldi stofnunin ekki ástæðu til að draga í efa að hann óttaðist föður sinn. Jafnframt lagði stofnunin til grundvallar að kærandi hefði orðið fyrir kynferðisofbeldi. Var það hins vegar mat stofnunarinnar að kærandi ætti þess kost að leita verndar hjá stjórnvöldum í heimaríki. Hafnaði Útlendingastofnun öllum kröfum kæranda og var ákvörðun stofnunarinnar kærð til kærunefndar.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, gögnum sem lágu fyrir í stjórnsýslumálum kæranda hjá kærunefnd nr. KNU20020008 og KNU20070023, viðtali kæranda hjá kærunefnd útlendingamála hinn 25. mars 2021, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við upphaf málsmeðferðar kærunefndar á endurupptökubeiðni kæranda fundust tveir reikningar í eigu kæranda, annar á nafninu .[...] og hinn á nafninu [...]. Hinn 11. febrúar 2021 sendi kærunefnd talsmanni kæranda tölvubréf með ósk um að kærandi gæfi nefndinni skýringar á framangreindu, svo sem hvort nafnið væri hans raunverulega nafn og af hverju hann gengi undir tveimur mismunandi nöfnum. Hinn 15. febrúar 2021 bárust svör frá talsmanni kæranda. Fram kom að rétt nafn kæranda væri [...]. Þegar kærandi hafi flúið til Evrópu til að hefja nýtt líf fjarri þeim áföllum og misnotkun sem hann hafi mátt þola hafi hann lagt sig fram um að aðlagast nýju samfélagi og hefja nýtt líf. Þannig sé nafnið [...] í raun gælunafn sem sé auðveldara í framburði og nafnið [...] hafi einnig verið nærtækt sem eftirnafn á grundvelli nafnahefðar í Evrópu en það sé seinna nafn föður hans. Við frekari skoðun á nafninu [...] á Facebook mátti finna fimm Facebook reikninga á því nafni í eigu kæranda. Kærunefnd sendi hinn 16. febrúar 2021 tölvubréf til talsmanns kæranda þar sem nefndin greindi frá því að hafa fundið fimm Facebook reikninga á nafninu [...] í eigu kæranda og að á tveimur þeirra mætti sjá myndir af kæranda þar sem hann væri í Englandi, m.a. í Manchester, frá desember 2013 til september 2015. Vakti kærunefnd athygli á því að dvöl kæranda í Englandi, og á þessum tíma, væri í engu samræmi við frásögn kæranda hjá íslenskum stjórnvöldum. Kærunefnd óskaði eftir skýringum frá kæranda á því hvað hann hefði verið að gera í Englandi á þessu tímabili og hvers konar dvalarleyfi hefði legið til grundvallar þeirri dvöl.

Í skýringum kæranda sem bárust með tölvubréfi talsmanns hans hinn 22. febrúar 2021 kom fram að kærandi hefði verið í Bretlandi um skamma hríð frá 2013 en honum hefði verið lofuð vinna í verksmiðju. Kærandi hefði hins vegar aldrei fengið greitt og verið geymdur við óviðunandi aðstæður í íbúð manns sem hefði skipulagt ferðalag kæranda. Kærandi hefði þó fengið að vinna hlutastarf á næturklúbbi til að hafa í sig og á. Kærandi hefði verið handtekinn í Bretlandi og sendur aftur til Nígeríu, líklega snemma á árinu 2015. Þá kom fram í skýringunum að eins og algengt sé í mansalsmálum hefði kærandi verið þvingaður til hlýðni með nokkurs konar „Voodoo“ athöfn og verið látinn sverja eið. Þannig hafi flótti kæranda úr óviðunandi heimilis- og misnotkunaraðstæðum í Nígeríu í raun hafist 2013. Ferðalag hans frá Nígeríu til Íslands eins og lýst hefði verið væri þá í annað skiptið sem hann væri fluttur milli landa í þeim tilgangi að selja hann mansali.

Í viðtali hjá kærunefnd svaraði kærandi því aðspurður að hann hefði farið til Bretlands í desember árið 2013. Var kærandi spurður að því hvernig það hefði komið til að hann hafi farið til Bretlands. Kærandi svaraði því að stuttu eftir að systir hans hafi látist hafi nágranni hans boðist til að aðstoða hann við að fara til Bretlands þar sem hann gæti átt betra líf fjarri föður sínum. Kærandi kvaðst hafa fengið vegabréf í Lagos sem hann hefði þó ekki vitað hvað stæði í, hann hefði bara átt að vera með það á sér. Við komuna til Bretlands hafi hann verið stöðvaður og haldið í heilan dag á flugstöðinni í London. Að því loknu hefði hann fengið upplýsingar frá ótilgreindum manni um það hvernig hann ætti að ferðast til Manchester. Í Manchester hafi hann fyrst búið hjá manninum sem hefði sótt hann á rútumiðstöðina en síðar hjá vini þess manns. Aðspurður kvaðst kærandi hafa gist á sófa í stofu mannsins. Við komuna til Manchester hefði kæranda verið tjáð að hann skuldaði 40 þúsund pund og til að greiða þá skuld hafi hann þurft að vera ávallt tilbúinn að vinna ýmis störf. Aðspurður um það hvort honum hefði verið frjálst að fara í burtu svaraði hann því að hann hefði verið handsamaður og settur í varðhaldsmiðstöð þar sem hann hefði verið í langan tíma áður en honum hafi verið brottvísað frá Bretlandi. Kærandi kvaðst hafa farið frá Bretlandi til Lagos þar sem hann hafi verið í sex til sjö mánuði en þá hafi hann farið til manns sem hefði farið með hann til Líbíu. Kærandi hafi ekki farið til Benín borgar eftir að hann hafi komið til heimaríkis frá Bretlandi 2015 og þar til hann hafi yfirgefið Nígeríu sama ár. Kærandi hafi samkvæmt framangreindu því ekki verið á heimili föður síns frá því að hann hafi farið til Bretlands árið 2013. Framangreint er í verulegu ósamræmi við þá atburðarrás sem kærandi hefur greint frá í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun fram að þessu og sem hafi, samkvæmt kæranda, að miklu leyti átt sér stað árið 2015 og leitt til flótta hans frá Nígeríu í febrúar 2016.

Í gögnum frá ítölskum stjórnvöldum vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi kemur m.a. fram að nafn hans sé [...], nafn föður hans sé [...] og nafn móður hans sé [...]. Á Ítalíu var kærandi upphaflega skráður með fæðingardaginn [...] en dagsetningunni var síðar breytt í [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 4. júní 2020 greindi kærandi frá því aðspurður að nafn föður hans væri [...] og nafn móður hans væri [...]. Í viðtali hjá kærunefnd var kæranda gefið færi á að skýra framangreint ósamræmi. Kærandi gat ekki gefið skýringar á því en aðspurður hvað faðir hans héti svaraði hann að hann heiti [...] en kærandi kvaðst þó sjálfur ekki nota eftirnafnið [...]. Kæranda var þá greint frá því að nefndin hefði upplýsingar frá bresku lögreglunni þess efnis að hann hefði verið skráður þar í landi undir nafninu [...] með fæðingardaginn [...]. Var kærandi spurður að því hvort hann hefði einhverja hugmynd um það hvers vegna bresk stjórnvöld hefðu skráð hann með eftirnafnið [...] og hvort hann hefði heyrt það nafn áður. Kærandi svaraði því að hann teldi að fólkið sem hafi aðstoðað hann við Bretlandsförina hafi látið útbúa vegabréfið og hann viti ekki hvernig vegabréfið hafi verið gert. Kærandi gat ekki gefið frekari skýringar á þessu ósamræmi. Aðspurður að því hvers vegna kærandi hefði ekki áður í viðtölum sínum hjá íslenskum stjórnvöldum greint frá ferðalagi sínu til Bretlands svaraði kærandi að hann væri mjög hræddur að segja frá vegna þess að hann hefði svarið eið og þá væri hann jafnframt feiminn við að segja fólki frá.

Kærandi var þá spurður um Facebook reikninga sína sem hann hefði stofnað á nafninu [...]. Kærandi gaf þær skýringar að fólk ætti í erfiðleikum með að bera fram nafnið hans og þar sem honum líkaði við nafnið [...] hafi hann valið að kenna sig við það. Kærandi hefði ekki stofnað Facebook reikningana heldur hafi fólk gert það fyrir hann. Þegar hann hafi týnt síma sínum hafi hann tapað lykilorðum á Facebook reikningunum. Kærandi gat ekki gefið greinargóðar skýringar á því hvers vegna hann hafi stofnað fimm Facebook reikninga á þessu nafni en vísaði til þess að þegar hann hafi týnt síma eða keypt nýjan hafi lykilorð inn á reikninga tapast.

Samkvæmt framangreindu hefur frásögn kæranda um ástæður flótta tekið grundvallarbreytingum eftir að kærunefnd fann upplýsingar um veru hans í Bretlandi frá desember 2013 til ársins 2015 og ljóst er að ósamræmi er um veigamikil atriði m.a. aldur kæranda, nöfn foreldra hans, og tímalínu atburða, svo sem andlát móður hans. Kærunefnd telur að þær skýringar sem kærandi hefur gefið á breyttri frásögn um atburðaás og orsök flótta frá heimaríki séu ótrúverðugar og ekki sé hægt að fallast á þær. Í ljósi þess að kærandi hefur leynt upplýsingum og gefið upplýsingar til grundvallar umsókn sinni sem stangast að miklu leyti á við það sem síðar hefur komið fram þá telur kærunefnd að málatilbúnaður hans sé ótrúverðugur. Verður því aðeins lagt til grundvallar að kærandi sé frá Nígeríu og að hann sé fullorðinn einstaklingur.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort að einstaklingur sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda hverju sinni að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Nígeríu sé ótryggt á sumum svæðum, þá einkum í norðurhluta landsins. Þótt hryðjuverkahópar starfi í landinu er það engu að síður mat kærunefndar að þau gögn og heimildir sem nefndin hefur yfirfarið við meðferð málsins bendi ekki til þess að aðstæður í Benínborg, sem kærandi kveðst hafa búið í, séu slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Að virtum framburði kæranda, gögnum málsins og landaupplýsingum er það mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þá kemur fram í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í greinargerð kæranda vegna máls KNU20070023 kemur fram að kærandi glími við áverka á endaþarmi sem valdi honum verkjum og geri honum erfitt með gang. Í samskiptaseðlum lækna, dags. 5. nóvember og 17. desember 2019, kemur fram að kærandi glími við gyllinæð og hafi fengið lyf við verkjum. Í sálfræðimati, dags. 12. nóvember 2019, sem unnið var að beiðni Útlendingastofnunar, kemur fram að kærandi uppfylli greiningarskilmerki áfallastreituröskunar, alvarlegrar geðlægðar og kvíða. Í göngudeildarnótu bráðaþjónustu geðsviðs, dags. 17. júlí 2020, kemur fram að kærandi glími við svefnleysi, sjálfsvígshugsanir, þunglyndi og lífskrísu. Kærandi fékk lyf og boðun í bráðaeftirfylgd. Í bráðaeftirfylgd, dags. 21. og 27. júlí 2020, kemur fram að kærandi upplifi algjört vonleysi, glími áfram við vanlíðan, svefnleysi og sjálfsvígshugsanir. Þá sé kærandi í aukinni sjálfsvígshættu til lengri tíma vegna áfallastreitu og alvarlegra félagslegra aðstæðna. Kærandi fékk lyf í bæði skiptin og tilvísun til Göngudeildar sóttvarna í lok tímans þann 27. júlí sl. Í lýsingum sálfræðings hjá Göngudeild sóttvarna, dags. 20. júlí, 24. ágúst og 8. og 28. september 2020, kemur fram að kærandi hafi mörg einkenni áfallastreitu og hann óttist ekkert meira en að verða sendur til Nígeríu þar sem faðir hans sé. Kærandi sé svefnvana, kvíðinn og beri merki langvarandi vannæringar.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar stendur íbúum Nígeríu almennt til boða heilbrigðisþjónusta þrátt fyrir að aðgengi kunni að vera takmarkað á ákveðnum svæðum. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu í þéttbýli er talsvert betra en á strjálbýlli svæðum og þá er aðgengi að heilbrigðisþjónustu betra í suðurhluta landsins en norðurhluta þess. Þrátt fyrir að í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar komi fram að fordómar ríki í garð einstaklinga með geðraskanir í heimaríki kæranda og að skortur sé á geðheilbrigðisstarfsfólki þá standi íbúum landsins almennt geðheilbrigðisþjónusta til boða. Íbúar hafi aðgengi að geðlæknum, geðhjúkrunarfræðingum og sálfræðingum, ráðgjöf og lyfjameðferðum á fjölda opinberra og einkarekinna sjúkrahúsa. Liggur fyrir að kærandi var búsettur í borginni Benín í Edo fylki í suðurhluta Nígeríu. Af framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi sé ekki haldinn skyndilegum og lífshættulegum sjúkdómi auk þess sem að ekki þykir sýnt að andleg veikindi kæranda muni valda honum óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá verði ekki séð að kærandi sé í meðferð hér á landi vegna andlegrar heilsu sinnar sem óforsvaranlegt sé að rjúfa. Að mati kærunefndar benda gögn til þess að kærandi geti fengið aðstoð heilbrigðisyfirvalda eða annarra aðila í heimaríki vegna þeirra líkamlegu kvilla og andlegu veikinda sem hann glími við. Af framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd af heilbrigðisástæðum.

Í beiðni um endurupptöku var gerð krafa af hálfu kæranda um að framkvæmt yrði þroskamat á honum þar sem að mati lögmanns hans einkenndist framkoma hans af vissum vanþroska sem gæti útskýrt óreiðukennda frásögn hans á málsatvikum. Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, svo sem læknisfræðileg gögn og endurrit viðtala ásamt því að fá kæranda til viðtals. Það er mat kærunefndar að ekki verði séð að verulegur þroskamunur sé á kæranda og öðrum kærendum sem séu í sambærilegri stöðu og með sambærilegan bakgrunn. Það er því mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins eða í fari og framkomu kæranda kalli sérstaklega á að framkvæmt skuli þroskamat á honum.

Kærandi kvaðst ekki geta snúið sér til föðurfjölskyldu sinnar vegna ofsókna föður hans og í móðurfjölskyldu eigi kærandi aðeins einn frænda sem snúið hafi baki við kæranda af ótta við föðurinn. Þá muni kærandi búa við afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki sínu, hann hafi ekkert félagslegt baklandi í Nígeríu, sé ungur og glími við líkamleg og sálræn vandamál. Kærunefnd óskaði eftir frekari upplýsingum um félagsleg tengsl kæranda í heimaborg hans. Í svari sem barst frá kæranda þann 30. september 2020 kemur fram að hann sé ekki í sambandi við fjölskyldu sína í Nígeríu og hafi ekki verið það í langan tíma. Kærandi hafi þó fundið æskuvin sinn á Facebook nýverið og hafi skrifast á við hann. Í gögnum frá Ítalíu kemur fram að kærandi hafi sagst eiga móðurbróðir á Spáni sem hafi sent honum peninga en í málsmeðferð hér á landi hefur hann greint frá því að móðurbróðir hans hafi snúið við honum baki. Í ljósi framangreinds trúverðugleikamats kærunefndar er það mat kærunefndar að óljóst sé hvert raunverulegt bakland kæranda er í heimaríki. Á Facebook reikningum kæranda, á nafninu [...], á kærandi marga vini og eru margir þeirra búsettir í Nígeríu. Er því ljóst að kærandi á að minnsta kosti vini og kunningja í heimaríki. Í greinargerð kæranda og viðtali hans hjá Útlendingastofnun, dags. 4. júní 2020, kemur m.a. fram að kærandi hafi gengið í grunnskóla (e. primary school) í heimaríki en hann hafi farið að vinna 15 ára gamall. Kærandi er í dag orðinn fullorðinn einstaklingur sem er almennt vinnufær. Þá er það, líkt og áður hefur komið fram, mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki.

Kærandi byggði endurupptökumál sitt meðal annars á því að málsmeðferð Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála hafi verið haldin annmörkum þar sem ekki hafi verið lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi hafi verið fórnarlamb mansals í Nígeríu og Líbíu. Var því haldið fram í beiðninni að það að hann hafi verið þolandi mansals og það sem fyrir hann hafi komið í Líbíu hefði átt að hafa meira vægi við mat á því hvort aðstæður hans ættu undir 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds trúverðugleikamats kærunefndar í niðurstöðu vegna 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga leggur nefndin ekki til grundvallar frásögn hans um að hann hafi verið þolandi mansals. Er þegar af þeirri ástæðu ekki tilefni til að fjalla um þrautavara- og þrautaþrautavarakröfu kæranda um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 75. eða 76. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur þó rétt að vekja athygli á því að nefndin hefur í fyrri úrskurðum, svo sem úrskurðum nr. 18/2021 og 426/2020, tekið afstöðu til stöðu ríkisborgara Nígeríu sem hafa verið þolendur mansals. Þá hefur Héraðsdómur Reykjavíkur staðfest það mat nefndarinnar með dómi frá 5. janúar 2021 í máli nr. E-846/2020. Hefur það verið mat kærunefndar að heimildir um Nígeríu bendi til þess að þar í landi séu til staðar innviðir sem ætlað sé að taka á mansali, taka á móti þolendum og veita þeim aðstoð og stuðning. Með vísan til þess og framangreindrar umfjöllunar um geðheilbrigðismál í Nígeríu er það mat kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar aðstæður sem bíði kæranda í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.Krafa um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar og nýja málsmeðferðÍ endurupptökubeiðnum sínum gerir kærandi þá þrautaþrautaþrautavarakröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og mál hans verði tekið til nýrrar málsmeðferðar hjá stofnuninni. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar er það mat nefndarinnar að ekki séu forsendur til að taka framangreinda kröfu til greina.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands hinn 12. október 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar.Kærandi virðist vera við góða líkamlega heilsu en hefur greint frá slæmri andlegri heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.Í ljósi Covid-19 faraldursins er athygli kæranda einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.  

 

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

 

The appellant‘s request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

Sindri M. Stephensen                                      Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta