Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2021 - Úrskurður

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Háskóla Íslands

 

Beiting agaviðurlaga. Kynbundin mismunun. Ekki fallist á brot.

Kærð var ákvörðun skóla um agaviðurlög sem kærandi taldi hafa falið í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Að mati kærunefndar jafnréttismála hafði hvorki verið sýnt fram á né gert líklegt að kynferði kæranda hefði skipt máli við ákvörðun um agaviðurlög. Var því ekki fallist á að kærði hefði brotið gegn lögum nr. 150/2020.

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 1. mars 2022 er tekið fyrir mál nr. 17/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 30. október 2021, kærði A Háskóla Íslands vegna mismununar á grundvelli kyns við beitingu agaviðurlaga á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla.
  2. Af kæru má ráða að kærandi telji að beiting kærða á agaviðurlögum í kjölfar brots á 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 feli í sér kynbundna mismunun þar sem gengið hafi verið lengra gagnvart kæranda en öðrum nemendum.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var send kærða með ósk um afstöðu til kæruefnis þann 5. janúar 2022. Kærði sendi greinargerð ásamt fylgigögnum í málinu 27. janúar s.á. og voru kæranda send gögnin til kynningar. Kærandi sendi athugasemdir við greinargerð kærða með bréfi, dags. 8. febrúar 2022.

    MÁLAVEXTIR

  4. Þann 21. október 2021 boðaði sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs kæranda á fund til að ræða framkomu kæranda innan skólans. Kærandi hafnaði fundarboðinu með tölvubréfi sama dag. Sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs sendi kæranda á ný tölvubréf 22. október 2021 og tjáði kæranda að til skoðunar væru ætluð brot hans á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Sama dag barst svarbréf kæranda með skýringum hans á háttseminni. Með bréfi deildarforseta Sálfræðideildar 25. október 2021 var kæranda tilkynnt að deildarforseti hefði lokið þeim þætti málsins er laut að ákvörðun um brot og að málið yrði sent sviðsforseta til ákvörðunar agaviðurlaga. Daginn eftir, 26. október 2021, sendi sviðsforseti bréf til kæranda þar sem honum var gefinn kostur á að koma að andmælum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um agaviðurlög.
  5. Kærandi sendi sviðsforseta andmæli 31. október 2021. Með bréfi dags. 1. nóvember s.á. var kæranda vísað úr skóla að fullu. Í bréfinu kemur fram það mat sviðsforseta að kærandi hefði sent tölvubréf sem væru til þess fallin að valda samnemanda hans ótta. Ummæli sem þar hefðu verið viðhöfð væru með öllu óboðleg. Ekki væri að sjá nein merki um iðrun eða eftirsjá í andmælum kæranda. Þá kæmi ekkert fram í andmælunum sem útskýri eða afsaki ummæli kæranda.
  6. Fyrir liggur að kærandi hefur áfrýjað málinu til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sbr. kæruskjal dags. 2. nóvember 2021. Áfrýjunarnefndin starfar skv. 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006 og skv. reglum nr. 550/2020. Áfrýjunarnefndin úrskurðar m.a. í málum þar sem námsmenn í háskólum telja brotið á rétti sínum við brottvikningu úr skóla.

     

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  7. Í kæru til kærunefndar er rakið að í tilefni af atvikum sem áttu sér stað í samskiptum kæranda og samnemanda, sem voru upphaf þess ferlis sem fór af stað gagnvart kæranda, hafi forseti deildarinnar ákveðið að beita kæranda hörðustu mögulegu viðurlögum á meðan á málsmeðferð stæði, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla og hafi ákveðið að meina kæranda aðgang að skólanum. Af þeim sökum hafi kærandi ekki getað gengist undir próf í deildinni og hafi kærandi því verið útilokaður frá námi. Nefnt tilefni hafi verið að forseti viðkomandi deildar hafi ásakað kæranda um ósæmilega framkomu. Hafi deildarforseti gengið lengra gagnvart kæranda en gegn öðrum nemendum. Bendir kærandi á að ef svipuð mál eru skoðuð hjá öðrum kynjum eða öðrum nemendum megi sjá að hörðustu viðurlögum hafi verið beitt gagnvart kæranda. Hafi deildarforseti því brotið gegn kæranda almennt og einnig vegna kyns hans. Eftir bestu vitund kæranda sé hann saklaus af öllum ásökunum.
  8. Rekur kærandi nánar að með tölvubréfi dags. 21. október 2021 hafi honum verið boðið á fund deildarinnar vegna tölvubréfasamskipta við samnemanda hinn 15. október, en fyrirvarinn hafi verið of stuttur og að af fundinum hafi ekki orðið. Ekki hafi verið gefinn kostur á annarri dagsetningu og í framhaldi hafi ákvörðun verið tekin. Kærandi telur, að því er varðar agaviðurlögin, að hann hafi ekki fengið sömu meðferð og aðrir nemendur, sem hann telur óréttlátt, sérstaklega ef horft er til heildarfjölda brottfelldra nemenda með tilliti til kyns. Óskar kærandi í þessu sambandi eftir því að kærði framvísi gögnum er snúa að brottrekstri námsmanna á síðustu önn (haustönn 2021).
  9. Að því er varðar ummæli gagnvart samnemanda þá bendir kærandi á að talið hafi verið að nefnd ummæli hafi verið ógnandi gagnvart viðkomandi, en viðkomandi nemandi hafi ekki verið spurður um álit á ummælunum. Í umsögn kæranda til kærunefndar er og vísað til ákvæða stjórnarskrárinnar varðandi tjáningarfrelsi og þess að það sé ekki hlutverk háskóla eða annarra að setja því skorður. Eingöngu dómstólar dæmi um rétt er varðar tjáningarfrelsið. Þá vísar kærandi til ákvæðis stjórnarskrár um jafnrétti kynjanna.

     

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  10. Í athugasemdum kærða til kærunefndar er rakið að mál þetta sé að rekja til tölvubréfasamskipta kæranda við samnemanda í Háskóla Íslands frá 15. október 2021 þar sem ummæli kæranda hafi verið afar ógnandi og hafi falið í sér alvarleg brot gegn reglum háskólans. Í kjölfar þessa hafi forseti Heilbrigðisvísindasviðs talið rétt að boða kæranda á fund til að ræða málið. Hafi sviðsforseti gert ítrekaðar tilraunir til að fá kæranda á sinn fund en hann hafi ekki sinnt fundarboðum. Í ljósi þess hafi verið tekin ákvörðun í máli kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Í samræmi við 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 hafi deildarforseti viðkomandi deildar sent kæranda bréf þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um opinbera háskóla og fyrrgreindar reglur fyrir Háskóla Íslands. Hinn 1. nóvember 2021 hafi sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs sent kæranda erindi þar sem tekin hafi verið ákvörðun um agaviðurlög og að þar sem brot kæranda hafi verið alvarlegt hafi ekki annað komið til greina en að vísa kæranda úr skóla að fullu. Áður en sú ákvörðun var tekin hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma á framfæri andmælum.
  11. Af hálfu kærða er því alfarið hafnað að brotið hafi verið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er kæranda var vikið úr skóla á grundvelli laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Er því hafnað að kærandi hafi orðið fyrir mismunun á grundvelli kynferðis þar sem ekki hafi verið beitt jafnhörðum viðurlögum gagnvart nemendum af öðrum kynjum, en slíkar fullyrðingar séu ekki studdar neinum gögnum. Kærði telur að kyn kæranda hafi ekkert með umrædda ákvörðun að gera. Brot kæranda hafi verið það alvarlegt að ekki hafi verið annað í stöðunni en að víkja honum úr skóla. Þá tekur kærði sérstaklega fram að fullyrðingar kæranda um „svipuð mál“ fái ekki staðist, enda sé mál kæranda einstakt og hafi ekki átt sér fordæmi innan Háskóla Íslands.

    NIÐURSTAÐA

  12. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna með því að beita kæranda harðari viðurlögum en nemendur af öðrum kynjum.
  13. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Fjölþætt mismunun er jafnframt óheimil. Fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns teljast einnig mismunun samkvæmt lögum þessum. Enn fremur telst kynbundin eða kynferðisleg áreitni til mismununar samkvæmt lögunum sem og hvers konar óhagstæð meðferð einstaklings sem rekja má til þess að hann hafi vísað á bug kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða hafi látið hana yfir sig ganga.
  14. Í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur jafnframt fram að í skólum, öðrum menntastofnunum, frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sé hvers konar mismunun á grundvelli kyns óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, þjálfun, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur og iðkendur.
  15. Af gögnum máls þessa má ráða að tilefni viðurlagaákvörðunar kærða gagnvart kæranda hafi verið rafrænar skeytasendingar kæranda til samnemanda hinn 15. október 2021. Af þeim má ráða að samskiptin hafi verið að frumkvæði kæranda og óvelkomin. Í skeytasendingum kæranda eru notuð orð og orðasambönd sem almennt kunna að teljast ógnandi og líkleg til að vekja ugg hjá móttakanda, óháð kyni. Agaviðurlög kæranda voru rökstudd svo að framkoma kæranda gagnvart samnemanda, en í því sambandi var sérstaklega vísað til útdráttar úr nefndum orðsendingum kæranda, hafi verið í andstöðu við 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Í tilvísuðum reglum er kveðið á um að nemandi skuli forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu innan og utan háskólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Í umsögn kærða til kærunefndar kemur og fram að ákvörðunin hafi verið tekin til að tryggja öryggi nemenda og kennara og hafi ekki átt sér fordæmi innan Háskóla Íslands.
  16. Af ákvörðun kærða og gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi fengið óhagstæðari meðferð vegna kyns en annar einstaklingur myndi fá við sambærilegar aðstæður eða að kynferði hans hafi skipt máli er kærði tók ákvörðun um agaviðurlög. Þá verður heldur ekki talið að ákvörðunin sé almennt þess eðlis að hún með óheimilum hætti geti beinst að einu kyni frekar en öðru. Verður því ekki talið að sýnt hafi verið fram á eða gert líklegt að kærði hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020.
  17. Það athugast að af hálfu kærunefndar jafnréttismála er ekki að öðru leyti en að framan greinir tekin afstaða til málsmeðferðar eða beitingar umræddra agaviðurlaga gagnvart kæranda, en kærandi hefur vísað málinu til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, sem starfar skv. 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Háskóli Íslands, braut ekki gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ákvörðun um agaviðurlög kæranda.

 

Andri Árnason

 

Sigurður Örn Hilmarsson

 

Anna Tryggvadóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta