Mál nr. 83/2013.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 83/2013.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið við vinnu hjá B ehf.
samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 124.022 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag, sem yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 28. ágúst 2013. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. janúar 2013.
Kæranda var sent erindi, dags. 15. ágúst 2013, þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins hefði hann verið við störf hjá B ehf. 9. júlí 2013, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum á þessu hjá kæranda. Skýringar kæranda bárust í tölvupósti 19. ágúst 2013. Þar greinir kærandi meðal annars frá því að hann ásamt föður sínum og systkinum hafi stofnað gistiheimili haustið 2007. Reksturinn hafi ekki gengið vel og því hafi allir eigendur gistiheimilisins þurft að vinna fulla vinnu annars staðar. Þar sem hann hafi verið atvinnulaus og búið hjá föður sínum hafi hann reynt eins og mögulegt var að halda rútínu og meðal annars aðstoðað föður sinn með ýmislegt, svo sem tölvusamskipti og að taka á móti gestum á gistiheimilinu en það hafi að mestu komið í hlut föður hans í gegnum tíðina auk þess sem systkini hans hafi hlaupið undir bagga. Kærandi tekur fram að allir hluthafar hafi lagt vinnu að mörkum fyrir gistiheimilið í sjálfboðavinnu.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann sé hluthafi í gistiheimilinu C ásamt sex öðrum, þ.m.t. föður sínum. Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að hann mætti ekki hjálpa til við móttöku gesta, innkaup og þess háttar þar sem hann hafi ekki þegið nein laun fyrir viðvikin. Kærandi bendir á að starfsstúlka starfi á gistiheimilinu en þó gestir komi í hlaðið hafi hún ekki verið kölluð út enda hafi hún ekki umsjá með bókhaldinu sem eftirlitsmennirnir hafi beðið um að fá að skoða. Faðir hans sjái um það. Kærandi kveðst ekki hafa verið kunnugt um að hann þyrfti að tilkynna það að hann væri hluthafi í gistiheimilinu. Kærandi bendir á að á blaði um upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sé talað um að tilkynna ef hafinn sé rekstur fyrirtækis en gistiheimilið hafi hafið rekstur árið 2007. Þá hafi kærandi talið að hann þyrfti að tilkynna um tilfallandi launað starf en ekki um viðvik í sjálfboðavinnu. Af þeirri ástæðu kæri hann ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi kveðst ekki hafa þegið nein laun fyrir að taka á móti gestum og aðstoða föður sinn við tölvusamskipti og innkaup.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. september 2013, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun greinir frá því að mál þetta varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Stofnunin bendir á að annar málsliður 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.
Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun greinir frá því að fyrir liggi að samkvæmt gögnum málsins, meðal annars kæranda sjálfum hafi hann verið að sinna tilfallandi verkefnum fyrir B og að hann hafi tekið á móti gestum 9. júlí 2013 eins og fram komi í skýringarbréfi hans, dags. 19. ágúst 2013. Vinnumálastofnun bendir á að umræddir gestir hafi verið aðilar vinnumarkaðarins í eftirlitsferð samkvæmt lögum nr. 42/2010. Þá viðurkenni kærandi í kæru að hafa tekið á móti gestum og hjálpað föður sínum með tölvusamskipti og innkaup. Taki kærandi það fram að hann hafi gert þetta í sjálfboðavinnu og ekki fengið nein laun fyrir en í málinu liggi fyrir að kærandi sé einn af eigendum gistiheimilisins.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að þær skýringar kæranda að honum hafi ekki verið greidd persónuleg laun vegna vinnunnar leiði ekki til þess að honum hafi ekki borið að sinna skýrri skyldu sinni skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að tilkynna um vinnu með a.m.k. eins dags fyrirvara.
Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Vinnumálastofnun bendir á að hvergi í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð krafa um að greidd séu laun vegna vinnu á innlendum vinnumarkaði heldur sé einungis tekið fram að „hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur“. Af orðalaginu og með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 157/2012 sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. október 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett var kveðið á um þá meginreglu í fyrstu málsgrein 60. gr. laganna að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum getur misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Framangreindu ákvæði var breytt með setningu 23. gr. laga nr. 134/2009 sem tók gildi 1. janúar 2010 og veigamesti tilgangur ákvæðisins sagður vera að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.
Ákvæði 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:
„Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“
Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er þeim sem telst tryggður skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit.
Ljóst er af framangreindum ákvæðum 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynningar og upplýsingaskylda atvinnuleitenda er mjög ströng.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi að störfum hjá B ehf. er aðilar vinnumarkaðarins hittu hann þar fyrir 9. júlí 2013. Af hálfu kæranda kemur fram í skýringarbréfi til Vinnumálastofnunar 19. ágúst 2013 og í kæru að hann hafi tekið á móti gestum á gistiheimilinu og aðstoðað föður sinn við tölvusamskipti og innkaup. Þá segir í kæru að hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að tilkynna um ólaunað sjálfboðastarf.
Í málinu liggur fyrir að kærandi er einn af eigendum gistiheimilisins ásamt föður sínum og systkinum. Þá liggur einnig fyrir að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um störf sín hjá gistiheimilinu.
Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum enda liggja fyrir víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna. Engu máli skiptir í því samhengi hvort kærandi hafi ekki þegið tekjur frá einkahlutafélaginu. Með vísan til þessa telst kærandi hafa verið að sinna verkefnum sem fólu í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hann gat vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir enda er ein forsenda þess að hafa tekjur af gistiheimili að taka á móti viðskiptavinum. Þessi staða kæranda var í ósamræmi við g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi einungis verið að sinna sjálfboðastarfi. Fjallað er um heimild Vinnumálastofnunar til úthlutunar á sérstökum styrkjum úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum í reglugerð nr. 12/2009, með síðari breytingum. Í 10. gr. reglugerðarinnar er sérstaklega fjallað um sjálfboðaliðastörf. Fram kemur að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðaliðastarfi enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Það væri óþarfi að mæla fyrir um undanþáguheimild reglugerðarinnar ef atvinnuleitendum væri almennt heimilt að ráða sig til starfa við sjálfboðaliðastörf samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Enn fremur verður ekki fallist á að það teljist til sjálfboðastarfa að starfa fyrir sitt eigið einkahlutafélag.
Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda, sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.
Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur alls 124.022 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Úrskurðarorð
Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. ágúst 2013 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.
Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 124.022 kr.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson