Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 73/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 73/2015

Fimmtudaginn 13. október 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 18. nóvember 2015, kærði A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. nóvember 2015, um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til hans á bið.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 26. október 2015. Áður hafði kærandi sætt biðtíma á grundvelli 54. og 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og voru eftirstöðvar  biðtímans 3,1 mánuðir þegar hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 26. október 2015. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. nóvember 2015, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en bætur yrðu ekki greiddar fyrr en framangreindur biðtími væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 18. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 14. desember 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2015, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um bætur í desember 2013 eftir að hafa neyðst til að hætta í þáverandi starfi. Hann hafi hitt ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun í janúar 2014 og rætt þá hugmynd að fara erlendis til að sækja um vinnu því að atvinnuleit hans hafi gengið illa hérlendis. Þá hafi kæranda grunað að hann þyrfti að sæta biðtíma þar sem hann hafi ekki verið rekinn. Í viðtalinu hafi hann verið upplýstur um vottorð sem hann gæti fengið, en hann hafi skilið það sem svo að þá fengi hann greitt á meðan hann væri erlendis í atvinnuleit. Kærandi tekur fram að hann hafi ætlað að vera erlendis í tvær vikur og því ekki sótt um slíkt vottorð.

Í febrúar 2014 hafi kæranda verið tilkynnt að hann ætti ekki rétt á að fá bætur fyrr en að tveimur mánuðum liðnum þar sem hann hefði í raun ekki verið rekinn heldur hafi vinnuskilyrðum aðeins verið breytt og þau ekki hentað honum lengur. Stuttu síðar hafi hann ákveðið að lengja dvölina erlendis eftir að hafa staðfest atvinnuleit og þá beðið eiginkonu sína um að tilkynna Vinnumálastofnun um að hann ætlaði að vera áfram og þyrfti ekki bætur. Í mars 2014 hafi kærandi fengið boð frá Vinnumálastofnun um að mæta í viðtal en hann hafi ekki skilið bréfið þar sem það hafi einungis verið á íslensku. Eiginkona hans hafi verið sein að tilkynna stofnuninni um breytta hagi hans og því hafi hann þurft að sæta nokkurra mánaða biðtíma. Hann hafi þó ekki fengið neinar upplýsingar um þann úrskurð, hvorki með tölvupósti né öðru móti.

Kærandi tekur fram að í lok október 2015 hafi hann misst starf sitt og því sótt um atvinnuleysisbætur. Þá hafi hann fyrst fengið upplýsingar um framangreinda ákvörðun um biðtíma. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni Vinnumálastofnunar, sem kærandi hafi fengið í símtali í nóvember 2015, hafi ástæða ákvörðunar um biðtíma verið sú að hann hafi staðfest atvinnuleit 21. febrúar 2014 en ekki tilkynnt um dvöl sína erlendis. Kærandi ítrekar að hann hafi staðfest atvinnuleit áður en hann hafi framlengt dvöl sína og beðið eiginkonu sína um að tilkynna Vinnumálastofnun um framlenginguna. Um heiðarleg mistök sé að ræða  en ekki einbeittan vilja til að svíkja kerfið. Kærandi bendir á að þegar hann hafi komið aftur til Íslands í byrjun maí 2014 hafi hann farið samstundis á skrifstofu Vinnumálastofnunar til að varpa ljósi á aðstæður og fá upplýsingar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að láta kæranda sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Ákvörðun um biðtíma á grundvelli 54. gr. og 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar séu annars vegar frá 5. febrúar 2014 og hins vegar 20. ágúst 2014. Kærufrestur vegna þeirra ákvarðana sé því liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006, enda sé meira en ár frá því að síðasta ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda. Til umfjöllunar sé því einungis hvort kærandi hafi átt að sæta eftirstöðva biðtíma þegar hann hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur 26. október 2015.

Vinnumálastofnun tekur fram að fyrir liggi að kæranda hafi verið gert að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í október 2015 hafi biðtími hans ekki verið liðinn. Síðasta biðtímaákvörðun í máli kæranda sé frá 20. ágúst 2014 en hún hafi falið í sér ítrekun á fyrri biðtímaákvörðun. Þar sem um hafi verið að ræða seinni viðurlagaákvörðun kæranda á sama bótatímabili hafi komið til ítrekunaráhrifa samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 og því hafi kæranda verið gert að sæta þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 5. mgr. 61. gr. laganna sé fjallað um hvenær biðtími samkvæmt ákvæðinu geti fallið niður en þar segi að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil hefjist samkvæmt 29. gr., sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu þurfi atvinnuleitandi sem hafi sætt biðtíma á grundvelli 61. gr. laganna að ávinna sér inn nýtt tímabil svo að biðtími falli niður. Niðurstaða í máli þessu velti því á því hvort kærandi hafi áunnið sér rétt á nýju bótatímabili samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 26. október 2015 hafi hann ekki starfað í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur, enda hafi einungis verið liðnir um 14 mánuðir frá því að biðtímaákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tilkynnt kæranda. Bótatímabil kæranda hafi því haldið áfram að líða þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju, sbr. 4. mgr. 29. gr. og 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils og biðtími hafi haldið áfram að líða. Áður en greiðslur atvinnuleysisbóta geti hafist að nýju til kæranda þurfi hann því að taka út biðtíma samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar frá 4. nóvember 2015.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2014, var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði frá 27. desember 2013. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en ákvæðið er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Samkvæmt 2. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði uppfylla skilyrði laganna á biðtímanum.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2014, var bótaréttur kæranda felldur niður í þrjá mánuði frá 14. ágúst 2014. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006, sbr. 61. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Í 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Þar segir að sá sem hafi sætt viðurlögum samkvæmt 57.-59. gr. eða biðtíma samkvæmt 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greini eigi sér stað að nýju á sama tímabili samkvæmt 29. gr. skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggi fyrir, enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili samkvæmt 29. gr. Í 5. mgr. 61. gr. laganna kemur fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefst, sbr. 30. og 31. gr. laganna.   

Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.    

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 26. október 2015, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 26. október 2015.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á bið staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. nóvember 2015, í máli A um að setja greiðslu atvinnuleysisbóta til hans á bið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta