Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 92/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 92/2016

Miðvikudaginn 19. október 2016

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. febrúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. desember 2015, um greiðslu umönnunarbóta, þar sem umönnun fóstursonar hennar, B, var felld undir 3. flokk, 0%.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umönnunarmati, dags. 1. október 2007, var umönnun fóstursonar kæranda felld undir 5. flokk, 0%, frá 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2012. Með umönnunarmati, dags. 12. desember 2013, var umönnun fóstursonar kæranda felld undir 3. flokk, 0%, frá 1. nóvember 2013 til 31. júlí 2016, en kæranda var synjað um umönnunargreiðslur á þeim grundvelli að barn væri í fóstri og vistun væri greidd af félagsmálayfirvöldum. Sú ákvörðun Tryggingastofnunar var kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga þann 20. janúar 2014 og var hún staðfest af úrskurðarnefndinni með úrskurði nr. 65/2014, dags. 28. maí 2014. Kærandi sótti um umönnunargreiðslur með fóstursyni sínum á ný með umsókn, móttekinni þann 21. september 2015. Með umönnunarmati, dags. 9. desember 2015, var umönnun fóstursonar kæranda felld undir 3. flokk, 0%, frá 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. mars 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. mars 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 22. mars 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Tryggingastofnunar verði tekin fyrir og nefndin skoði og úrskurði um lögmæti hennar með tilliti til þeirra laga sem kveði á um umönnunarbætur, hver tilgangur löggjafans sé og hvort reglurnar séu ekki í upphafi hugsaðar á öðrum forsendum og séu barn síns tíma.

Kærandi segir aðalröksemd sína vera að 5. gr. reglugerðar nr. [504/1997] standist hvorki jafnræðisreglu Stjórnarskrár Íslands né Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að ef barn sé vistað utan heimilis í fóstri á vegum ríkis eða sveitarfélags og framfærsla sé greidd af viðkomandi stjórnvaldi, þá séu ekki greiddar umönnunargreiðslur með viðkomandi barni.

Kærandi bendi á að dóttursonur hennar sé ekki vistaður utan heimilis heldur sé hann á því heimili sem hann hafi búið á allt frá fæðingu. Hann sé á framfæri kæranda og hafi alltaf verið.

Kærandi kveðst ekki fá greitt frá sveitarfélagi fyrir framfærslu drengsins heldur greiði sveitarfélagið C henni laun fyrir að annast hann. Það komi á engan hátt framfærslu hans við. Þær greiðslur sem kærandi fái séu fyrst og fremst tilkomnar vegna brota sveitarfélagsins á stjórnsýslulögum og lögum um barnavernd og viðurkennt hafi verið af Barnaverndarstofu sem alvarlegt brot á lögum þar sem velferðarnefnd C hafi verið alvarlega áminnt vegna þeirra brota.

Brot velferðarnefndarinnar hafi verið mjög alvarleg og valdið því að drengurinn hafi þurft sérstaka umönnun eftir þau brot. Það hafi komið í hlut kæranda að vinna með barnið, sem þá hafi verið X ára gamalt, og ekki möguleiki á þeim tímapunkti að kærandi gæti sinnt dóttursyni sínum með atvinnuþátttöku utan heimilisins. Auk þess hafi brot sveitarfélagsins komið illa við eigin heilsu kæranda sem hún hafi ekki enn borið bætur.

Einnig sé rétt að benda á að sé ferill máls á Alþingi um lög um almannatryggingar yfirfarinn og lesinn megi vera ljóst að tilgangur löggjafans sé ekki að börnum sé mismunað í lögunum. Kærandi telji ljóst að dóttursyni hennar sé mismunað að þar sem umönnunargreiðslur séu greiddar foreldrum barna hljóti þær að vera í þágu barna.

Þá er í kæru greint frá því að fóstursonur kæranda hafi greinst með sykursýki I í nóvember 2013. Kæranda hafi verið tjáð að hún ætti rétt á umönnunarbótum vegna ólæknandi sykursýki I samkvæmt lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun hafi hins vegar synjað umsókn hennar tvívegis, fyrst árið 2014 og svo nú. Rök stofnunarinnar fyrir synjun á umönnunarbótum sé sú að hún fái greitt tvöfalt meðlag með drengnum frá sveitarfélagi, auk meðlags frá föður. Því sé litið svo á að drengurinn sé á framfærslu sveitarfélagsins, en lögin kveði svo á að greiðslur falli niður ef börn séu vistuð utan heimilis.

Synjun Tryggingastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar almannatrygginga en nefndin hafi staðfest synjun Tryggingastofnunar. Kærandi kveðst hafa látið reyna á túlkun laganna í annað sinn í nóvember 2015 og erindi hennar hafi aftur verið synjað á sömu forsendum en að auki með þeim rökum að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest synjunina og því geti stofnunin ekki sveigt reglur á skjön við úrskurð nefndarinnar eða túlkað lögin á annan hátt.

Í annað sinn freistist kærandi til að kæra synjun Tryggingastofnunar því að í hennar huga sé það deginum ljósara hvað löggjafinn ætli sér með þessu ákvæði í lögunum. Miklar breytingar hafi orðið á vistun fatlaðra og þroskaskertra barna á stofnunum á síðustu árum. Lögin hafi ekki verið endurskoðuð með tilliti til breytinga sem gerðar hafi verið á lögum sem kveði á um umönnunarbætur. Í reglugerð nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri sé skýrt kveðið á um að allar greiðslur sem fósturforeldrar eigi rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar gildi um stjúpbörn og fósturbörn.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar á afar hæpnum forsendum. Ekki hafi verið litið svo á að reglugerðir velferðaráðuneytisins, sem gefnar hafi verið út eftir gildistöku umræddra laga, hefðu gildi.

Úrskurður nefndarinnar hafi verið með eindæmum. Í rökstuðningi hafi verið vísað til þess að tvöfalt meðlag sé alla jafna nægilegt til þess að framfleyta barni, eitt frá föður og eitt frá móður. Það sé með ólíkindum að löglærðir nefndarmenn noti slíka fásinnu og túlki sér í hag. Það viti hvert mannsbarn á Íslandi að enginn framfleyti barni á liðlega fimmtíu þúsund krónum á mánuði.

Ekki síst sé niðurstaðan undarleg í ljósi þess að velferðaráðuneytið gefi sjálft út lágmarksviðmiðun til framfærslu fjölskyldu og upplýsi þar að kostnaður við að framfleyta barni sé langt yfir þeim mörkum.

Kærandi kveðst hafa leitað til umboðsmanns Alþingis en því miður hafi hún verið of sein með erindi sitt. Því hafi hún sótt um umönnunarbætur að nýju frá Tryggingastofnun til þess að láta reyna á viðkomandi lög og reglugerðir og niðurstaðan hafi aftur orðið sú sama.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar um umönnunargreiðslur til kæranda með fóstursyni hennar.

Í greinargerðinni komi fram að gert hafi verið mat samkvæmt 3. flokk, 0% greiðslur fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2018. Fósturmóður hafi verið synjað um umönnunargreiðslur þar sem ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis.

Kveðið sé á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Nánar sé fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari tíma breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segi að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur en að önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Þá segir í greinargerðinni að í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 sé lagaákvæðið nánar útfært. Þar segir í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Hið kærða mat sé þriðja mat Tryggingastofnunar vegna drengsins. Áður hafi verið gert mat, dags. 1. október 2007, 5. flokk 0%, frá 1. ágúst 2007 til 31. júlí 2012 og síðan mat, dags. 12. desember 2013, 3. flokkur 0%, frá 1. nóvember 2013 til 31. júlí 2016. Þar hafi verið synjað um greiðslur til kæranda sem fósturmóður þar sem ekki sé heimilt að greiða umönnunargreiðslur með börnum í vistun utan heimilis og hafi sú synjun verið staðfest af úrskurðarnefnd almannatrygginga í kærumáli nr. 65/2014.

Almennt sé litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem svari til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Úrskurðarnefnd almannatrygginga sé sammála þeirri túlkun í úrskurði sínum og vísi þar til 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Tryggingastofnun og úrskurðarnefndin telji að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni séu umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis. Umönnunargreiðslum sé ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Þessum útgjöldum megi eðli málsins samkvæmt ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eigi sér stað.

Í málinu liggi fyrir upplýsingar um að kærandi fái greitt sem samsvari þreföldum barnalífeyri með drengnum. Greiðsla C nemi tvöföldum barnalífeyri og síðan komi greiðsla í formi meðlags frá föður. Auk þess greiði C fyrir tómstundir og sálfræðiþjónustu drengsins. Þá komi einnig fram í lögfræðiáliti sem Tryggingastofnun hafi borist sem viðbótargagn í málinu að kærandi hafi á einhverjum tímapunkti fengið greitt sexfaldan barnalífeyri með drengnum. Með vísan til framanritaðs telji Tryggingastofnun svo að vistun drengsins sé greidd af félagsmálayfirvöldum og að kostnaði við umönnun sé mætt. Af þeim sökum telji Tryggingastofnun ekki sé heimild til að greiða fósturmóður hans umönnunargreiðslur.

Hvað varði tilvísun kæranda til 13. gr. reglugerðar nr. 858/2013 telji Tryggingastofnun að lög nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 504/1997, sem sé byggð á þeim lögum séu sérlög og reglugerð sem gangi framar almennu reglugerðarákvæði eins og þessu. Hafi það einnig verið niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli kæranda nr. 65/2014.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. desember 2015 um greiðslu umönnunarbóta vegna fóstursonar kæranda. Í ákvörðuninni var umönnun drengsins metin til 3. flokks, 0%, frá 1. nóvember 2015 til 31. júlí 2018.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. nefndrar 4. gr. að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma. Í 2. mgr. 4. gr. segir að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur. Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði umönnunargreiðslur.

Í 4. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 5. málslið 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar falla umönnunargreiðslur til framfærenda niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Samkvæmt gögnum málsins fær kærandi greitt sem samsvarar þreföldum barnalífeyri með fóstursyni sínum. Greiðsla C nemur tvöföldum barnalífeyri og greiðsla í formi meðlags kemur frá föður drengsins. Auk þess greiðir C fyrir tómstundir og sálfræðiþjónustu drengsins. Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga kemur fram að greiða skuli tvöfaldan barnalífeyri þegar báðir foreldrar eru látnir eða örorkulífeyrisþegar. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kærandi fái greitt umfram hefðbundinn framfærslueyri með fóstursyni sínum. Það er því mat nefndarinnar að vistunin sé greidd af félagsmálayfirvöldum, sbr. 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997.

Kærandi byggir á því að 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 standist hvorki jafnræðisreglu Stjórnarskrár Íslands né samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá sé skýrt kveðið á um það í reglugerð nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri að allar greiðslur sem fósturforeldrar eigi rétt á samkvæmt lögum um almannatryggingar gildi um stjúpbörn og fósturbörn. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð skerðir önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis heldur en almenn leikskóla- og skólaþjónusta, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, umönnunargreiðslur. Skerðingar samkvæmt lagaákvæðinu eru útfærðar í 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 og samkvæmt því ákvæði falla umönnunargreiðslur alveg niður við vistun á vistheimili og vistun greidda af félagsmálayfirvöldum. Úrskurðarnefndin telur því að ákvæði 5. málsl. 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hafi nægjanlega lagastoð í 4. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 2. og 4 mgr. ákvæðisins. Bent er á að úrskurðarnefndin hefur ekki úrskurðarvald um það hvort þær lagareglur sem hér um ræðir kunni að brjóta í bága við einstök ákvæði stjórnarskrárinnar og er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem byggðar eru á því. Dómstólar skera úr um hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrána. Þá gangi jafnræðisregla samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 858/2013 um greiðslur vegna barna í fóstri ekki framar ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á umönnunargreiðslum til kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um umönnunargreiðslur vegna B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta