Hoppa yfir valmynd

Mál nr.578/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 578/2020

Fimmtudaginn 11. mars 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2020, um að fella niður bótarétt hennar í þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 5. febrúar 2020 og var umsókn hennar samþykkt 12. mars 2020. Þann 20. maí 2020 lýsti kærandi áhuga á því að fara á námskeiðið „Í leit að nýju starfi“ sem átti að hefjast 2. júní 2020. Þann 28. maí 2020 fékk kærandi tilkynningu í tölvupósti og smáskilaboð um að námskeiðið myndi hefjast þann 4. júní 2020. Þann 3. júní 2020 fékk kærandi aftur áminningu í tölvupósti um að námskeiðið myndi hefjast daginn eftir, auk þess sem fram kom í tölvupósti til kæranda að þátttaka í námskeiðinu væri valfrjáls en þegar búið væri að taka frá sæti væri 80% skyldumæting. Kærandi mætti ekki á námskeiðið og tilkynnti ekki forföll. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2020, var óskað eftir skriflegri afstöðu hennar vegna þessa. Skýringar bárust frá kæranda 3. september 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. september 2020, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Þann 20. október 2020 bárust frekari skýringar frá kæranda og var mál hennar því tekið fyrir á ný. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2020, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. janúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2021, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið synjun um atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði vegna þess að hún hafi hafnað námskeiði. Kærandi hafi verið undir miklu álagi á þessum tíma vegna þess að hún hafi verið að útskrifast og verið í nokkra mánuði að losna við kvíða sem hún hafi verið með eftir mörg ár af streitu. Einnig sé kærandi greind með lesblindu og ADHD. Allt þetta sjáist í fylgiskjölum frá læknum.

Það hafi farið fram hjá kæranda að hún hafi skráð sig á námskeið hjá Vinnumálastofnun vegna þess að hún sé vön að drífa sig að öllu og hafi því ekki kíkt á tölvupóstinn sinn. Kærandi hafi loks skilað inn skýringum á því af hverju hún hafi hafnað námskeiðinu. Kærandi sé nýbyrjuð í meðferð hjá sálfræðingi og sé að vinna með kvíðann sem gangi vel núna. Þegar hún hafi skráð sig á námskeiðið hafi hún verið mjög slæma af kvíða og ADHD. Það hafi alveg farið fram hjá kæranda að hún hafi skráð sig á námskeiðið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að mál þetta lúti að 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem séu tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 felist í virkri atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

Það liggi fyrir að kærandi hafi verið boðuð á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kæranda hafi verið gerð grein fyrir því að skyldumæting væri á námskeiðið. Kærandi hafi aldrei mætt á umrætt námskeið.

Í kæru til úrskurðarnefndar komi fram að kærandi hafi ekki mætt á umrætt námskeið sökum þess að hún hafi verið að takast á við kvíða og að hún hafi verið greind með ADHD og að það hafi alveg farið fram hjá henni að hún hafi skráð sig á námskeiðið. Stofnunin vísi í því samhengi til þess að kærandi hafi verið upplýst í tölvupóstum frá stofnuninni að um 80% skyldumætingu væri að ræða á námskeiðið.

Atvinnuleitendum beri í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi og fjarveru á boðaðan fund, án ástæðulausrar tafar. Það hafi kærandi ekki gert og það sé því mat Vinnumálastofnunar að ástæður sem komi fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar og í skýringarbréfum frá kæranda til stofnunarinnar séu ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 61. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars um 1. mgr. 58. gr. að ekki séu tilgreindar sérstakar vinnumarkaðsaðgerðir sem geti valdið því að hinn tryggði þurfi að sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu heldur eigi það við um allar aðgerðir sem hinum tryggða sé boðið að taka þátt í til að auka líkur sínar á að fá vinnu við hæfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Þannig megi ætla að þeim, sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, verði boðin þátttaka í vinnumarkaðsúrræðum við hæfi en litið sé svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði kærandi eftir því að fara á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Kærandi fékk áminningu um námskeiðið 28. maí 2020 og 3. júní 2020 en í síðarnefndu tilkynningunni kom fram að þátttaka í námskeiðinu væri valfrjáls en þegar búið væri að taka frá sæti væri 80% skyldumæting. Kærandi mætti ekki á umrætt námskeið og tilkynnti ekki forföll. Kærandi hefur borið því við að hafa ekki mætt á námskeiðið vegna þess að hún hafi verið undir miklu álagi á þessum tíma en hún sé slæm af kvíða og með ADHD. Það hafi því alveg farið fram hjá kæranda að hún hafi skráð sig á umrætt námskeið.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur kærandi ekki fært fram gildar skýringar sem réttlæta höfnun hennar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu sem henni var gert að sækja. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 kemur skýrt fram að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Ákvæðið er fortakslaust og því er ekki heimilt að beita vægari úrræðum en þar er kveðið á um.

Í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði þann 28. október 2015 á grundvelli 55. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu og þar sem kærandi hafði ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 4. mgr. 29. gr. laganna, bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 61. gr. laganna. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. laga nr. 54/2006, staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2020, um að fella niður bótarétt A, í þrjá mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta