Hoppa yfir valmynd

Nr. 165/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 4. maí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 165/2022

í stjórnsýslumálum nr. KNU22030013 og KNU22030029

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa og endurupptöku í máli [...]

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í stjórnsýslumáli nr. KNU21120049, dags. 24. febrúar 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. desember 2021, um að taka umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Hvíta-Rússlands (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 28. febrúar 2022 og hinn 7. mars 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Hinn 14. mars 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn hinn 1. apríl 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi krefst þess til vara að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fari með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

    Í því samhengi vísar kærandi til þess að aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi hafi farið hratt versnandi eftir að stríð hafi brotist út í Úkraínu. Með vísan til þess hafi atvik breyst verulega frá því ákvörðun var tekin í máli hennar í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Pólland sé undir miklu álagi enda sé landið að taka við meiri fjölda umsækjanda um alþjóðlega vernd en nokkru sinni fyrr. Kærandi vísar í greinargerð sinni til formálsorða Dyflinnarreglugerðarinnar, sbr. lið 4 og 5 þar sem fram komi að reglugerðin sé reist á þeirri meginreglu að ábyrgð aðildarríkis á umsókn um alþjóðlega vernd skuli byggjast á hlutlægum og sanngjörnum viðmiðum bæði fyrir aðildarríkið og viðkomandi einstakling. Þá megi ráða af liðum 21 og 25 sömu formálsorða að nauðsynlegt geti verið að grípa fljótt inn í ef í ljós komi annmarkar á verndarkerfum eða þau hrynji af völdum sérstaks álags. Auk þess sé nauðsynlegt að aðildarríkin sýni samstöðu. Kærandi telur að í ljósi þess fordæmalausa ástands sem nú ríki í Póllandi sé íslenskum stjórnvöldum rétt og skylt að stíga strax inn í. Annars sé hætta á að brotið verði á réttindum kæranda í skilningi 21. liðar formálsorða Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá sé í ljósi meginreglu Evrópuréttar um samstöðu og deilingu ábyrgðar ekki sanngjarnt, hvorki gagnvart kæranda né Póllandi að endursenda hana þangað.

    Auk framangreinds byggir kærandi á því að ákvörðun kærunefndar útlendingamála hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kæranda hafi nú verið ávísað þunglyndislyfjum vegna alvarlegrar andlegrar vanlíðanar. Ljóst sé af þeim nýju heilsufarsgögnum sem lögð hafa verið fram að andleg vanlíðan kæranda sé mun alvarlegri en áður hafi verið talið af stjórnvöldum. Kærunefnd útlendingamála beri því að endurupptaka mál hennar á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Nefndinni beri jafnframt að fella áðurnefnda ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda úr gildi og fela stofnuninni að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

    Þá sé kærandi frá Hvíta-Rússlandi sem margir líti á sem annan tveggja árásaraðila í fyrrnefndu stríði. Kærandi eigi því á hættu að verða fyrir mismunun, fordómum og áreiti í viðtökuríki. Af framangreindu sé ljóst að staða kæranda í Póllandi verði verulega síðri en staða almennings, þ.e. í ljósi gerbreyttra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 32. gr. a. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Því beri kærunefnd útlendingamála að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

    Til vara gerir kærandi kröfu um að réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar verði frestað, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, svo hún geti borið mál sitt undir dómstóla. Kærandi telur að hún geti ekki gætt hagsmuna sinna hér á landi verði hún endursend til Póllands. Aðstæður í Póllandi séu, í ljósi atburða, þess eðlis að henni sé það ómögulegt. Þá sé kærandi í sérstaklega viðkvæmri stöðu og bíði enn eftir niðurstöðu kæru þeirrar sem hún hafi lagt fram gegn ofbeldismanni sínum hér á landi. Í því samhengi vísar kærandi til meginreglunnar um réttláta málsmeðferð og telur hana ekki vera tryggða nema hún geti gætt hagsmuna sinna hér á landi. Kæranda sé nauðsynlegt að geta dvalist hér á landi þar til dómstólar fái tækifæri til að fjalla um málsástæður tengdar umsókn hennar um alþjóðlega vernd.

    Auk þess byggir kærandi beiðni sína um frestun réttaráhrifa á því að ákvæði reglugerðar um útlendinga skorti lagastoð. Kærandi telur kærunefnd útlendingamála ekki hæfa til að fjalla um þessa málsástæðu þar sem nefndin hafi margsinnis fullyrt að hana skorti ekki lagastoð. Því telur kærandi nauðsynlegt að réttaráhrifum hins umdeilda úrskurðar verði frestað í samræmi við 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, á meðan mál hennar sé til meðferðar hjá óhlutdrægum íslenskum dómstóli. Þá vísar kærandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. KNU18100036 og KNU18100037 sem urðu að dómi E-3973/2018 í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar hafi lögmæti reglugerðarinnar verið málsástæða en því hafi hins vegar lokið með dómsátt. Þá hafi héraðsdómi í máli nr. E-8252/2020 ekki verið áfrýjað og hann hafi því ekki fordæmisgildi. Kærandi vísar til þess að enn sé til staðar óvissa um lögmæti reglugerðarinnar og mikilvægt sé að þeirri óvissu verði eytt með dómsmáli kæranda. Auk þess stafi kæranda hætta af endursendingu til Póllands, í aðstæður sem falli augljóslega undir 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og jafnvel 1. mgr. 42. gr. sömu laga sbr. 3. mgr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

    Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

    Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 24. febrúar 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

    Kærandi byggir endurupptökubeiðni sína m.a. á að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp, hinn 24. febrúar 2022, og vísar í því samhengi til stríðsins í Úkraínu.

    Við úrlausn málsins hefur kærunefnd litið til hinna sérstöku aðstæðna sem eru uppi í ljósi átaka í Úkraínu og þess gríðarlega fjölda fólks sem Pólland hefur tekið á móti vegna þess. Þá hefur verið litið til þeirra áhrifa sem þetta kann að hafa á aðstæður flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd í Póllandi og þeirrar óvissu sem ríkir um framhaldið. Þá hefur kærunefnd jafnframt litið til atvika málsins í heild. Með vísan til þess er það mat kærunefndar að aðstæður í Póllandi hafi breyst verulega frá því að úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

    Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

  4. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi hefur notið þjónustu bæði lækna og sálfræðinga á Göngudeild sóttvarna m.a. vegna andlegra veikinda sinna. Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 24. febrúar 2022, byggði kærunefnd á því að ekki væru forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem lægju fyrir um aðstæður í Póllandi og gagna málsins, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi gæti leitað sér viðhlítandi aðstoðar á Póllandi vegna heilsufarsvandamála sinna. Var það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hennar yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Frá því að kærunefnd útlendingamála úrskurðaði í máli kæranda hinn 24. febrúar 2022 hafa aðstæður breyst verulega í viðtökuríki. Eftir að stríðsátök brutust út í Úkraínu hafa ríflega fimm og hálf milljón manns flúið heimili sín í Úkraínu í leit að vernd og öryggi. Pólland sem hefur landamæri að Úkraínu hefur tekið á móti stærstum hluta flóttafólksins en samkvæmt heimildum á vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa rúmlega þrjár milljónir manna flúið til Póllands á fáeinum vikum. Stærsti hluti þeirra sem hefur lagt á flótta eru konur, aldraðir og börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærunefnd telur ljóst að það mikla álag sem nú er á verndarkerfi Póllands og sú tímabundna óvissa sem þar ríkir um stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd, geti leitt til aðgangshindrana að þjónustu fyrir flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd þar í landi. Að svo stöddu liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um hvort þessi breytta staða hafi haft slík áhrif. Er það mat kærunefndarinnar að þangað til upplýsingar liggja fyrir um áhrif á stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd verði að beita ýtrustu varkárni enda ekki óvarlegt að draga þá ályktun að áhrif á móttökukerfi og meðferð umsókna séu veruleg í ljósi fjölda flóttafólks frá Úkraínu.

Að mati kærunefndar mæla því sérstakar ástæður, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, með því að mál kæranda verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, m.a. með vísan til þeirrar óvissu sem er um áhrif stríðsátaka við landamæri Póllands á innviði landsins.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér stendur sérstaklega á, að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar og leggja fyrir stofnunina að taka mál hennar til efnismeðferðar á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður eða varakröfu kæranda.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka mál hennar til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar, nr. 93/2022, er vísað frá kærunefnd.


 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

 

The appellant‘s request for re-examination of her case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s application for international protection in Iceland.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                             Gunnar Páll Björgvinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta