Hoppa yfir valmynd

Nr. 84/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 84/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120050

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 442/2022, dags. 3. nóvember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2022, um að taka ekki umsókn [...], fd. [...], ríkisborgara Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 4. nóvember 2022. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku 13. desember 2022.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji að hann hafi sannað auðkenni sitt með framlagningu afrita af palestínsku vegabréfi og fæðingarvottorði.

    Þá telur kærandi að taka beri umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til meðferðar á ný þar sem úrskurður kærunefndar frá 3. nóvember 2022 hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir á því að honum hafi ekki verið leiðbeint um mikilvægi þess að leggja fram gögn um tengsl við frænda sinn sem hann eigi hér á landi. Því sé ljóst að forsendur kærunefndar sem lagðar voru til grundvallar í úrskurðinum hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum í skilningi framangreinds ákvæðis stjórnsýslulaga.

    Kærandi vísar til athugasemda í frumvarpi því sem varð að núgildandi lögum um útlendinga en þar komi fram að sérstök tengsl geti átt við þegar útlendingar eigi ættingja á Íslandi en ekki í því landi sem þeir yrðu sendir aftur til. Vísar kærandi til úrskurða kærunefndar í málum nr. 397/2017, dags. 6. júlí 2017, 608/2017, dags. 21. nóvember 2017, 247/2018, dags. 29. maí 2018 og 326/2019, dags. 27. júní 2019. Kærandi telur að með framlögðum fæðingarvottorðum og dánarvottorðum sem hann hafi lagt fram hafi hann sannað tengsl við frænda sinn sem hafi dvalarleyfi hér á landi. Með framlagningu ljósmynda yfir langt tímabil og skjáskota af samskiptum þeirra þann tíma sem þeir hafi verið aðskildir telur kærandi að hann hafi sannað að tengsl milli þeirra séu raunveruleg og sérstök. Kærandi og frændi hans hafi haldið saman frá unga aldri. Líkt og framlagðar myndir sýni hafi þeir verið saman í Tyrklandi og Grikklandi áður en kærandi hafi komið til Íslands. Kærandi hafi búið heima hjá frænda sínum hér á landi og hefur hann veitt kæranda stuðning og aðstoð í andlegum veikindum hans.

    Með vísan til sannanlegra ættartengsla, raunverulegra og sérstakra tengsla hér á landi en ekki í Grikklandi og umönnunarsjónarmiða telur kærandi ljóst að hann hafi sérstök tengsl við Ísland og því beri að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi.

     

     

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi byggir á því að hann eigi frænda hér á landi. Kærandi og frændi hans hafi haldið saman frá unga aldri auk þess sem kærandi hafi búið heima hjá frænda sínum hér á landi. Þá hafi frændi kæranda veitt honum stuðning og aðstoð í andlegum veikindum hans.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því má m.a. leiða að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um, sbr. m.a. g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt framansögðu verður að leggja til grundvallar að eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd sannanlega ættingja hér á landi sem hefur heimild til dvalar hér og umsækjandi hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Kærunefnd telur að við mat á sérstökum tengslum í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sé stjórnvöldum heimilt að líta til 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en hafa verður í huga að hugtakið er annað og þrengra en hugtakið ættingi sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga. Þannig geta önnur fjölskyldutengsl fallið undir 2. mgr. 36. gr., en gera verður ríkari kröfur til þess að sýnt sé fram á að þau tengsl séu sérstök og rík.

Af framangreindu er ljóst að meta þarf tengsl kæranda við Ísland m.t.t. fyrirliggjandi gagna. Kærandi hefur lagt fram nokkurt magn af ljósmyndum af sér og frænda bæði í heimaríki, Grikklandi og í Tyrklandi. Þá hefur kærandi lagt fram fæðingarvottorð frænda auk frekari gagna frá heimaríki.

Kærunefnd telur, þegar litið er til tilgangs ákvæðisins og lögskýringargagna, að jafnvel þó lagt sé til grundvallar að framangreindur aðili sé frændi kæranda leiði þau gögn sem kærandi hefur lagt fram ekki til þess að hann hafi myndað sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Verður jafnframt að horfa til þess að túlka verður ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl þannig að það nái til atvika þar sem það yrði talið ósanngjarnt gagnvart kæranda að endursenda hann til annars ríkis. Eins og á háttar í þessu máli verður ekki séð að það sé ósanngjarnt gagnvart kæranda eða frænda hans að endursenda kæranda til Grikklands, enda geti kærandi ræktað tengsl sín við frænda áfram þrátt fyrir það.

Hvað varðar athugasemd kæranda í greinargerð um að hann hafi sannað auðkenni sitt tekur kærunefnd fram að það hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu um það hvort endurupptaka skuli mál kæranda. Við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum hefur auðkenni kæranda samkvæmt skráningu í heimaríki verið lagt til grundvallar.

Þá gerir kærandi jafnframt athugasemd við það að honum hafi ekki verið leiðbeint um mikilvægi þess að leggja fram gögn um tengsl við umræddan frænda. Kærunefnd tekur fram að kæranda, sem nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns, var leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 22. september 2022, um framlagningu frekari gagna sem þörf væri á til stuðnings kröfum hans. Engin frekari gögn um tengsl kæranda við landið bárust kærunefnd né var byggt á sérstökum tengslum í greinargerð hans til kærunefndar. Því telur kærunefnd að 7. gr. stjórnsýslulaga hafi verið uppfyllt hvað varðar leiðbeiningarskyldu stjórnvalds.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurða kærunefndar nr. 397/2017, nr. 608/2017, nr. 247/2018 og nr. 326/2019, tekur kærunefnd fram að um var að ræða mál sem vörðuðu reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (Dyflinnarreglugerðin). Í því máli sem hér er til meðferðar er kærandi með alþjóðlega vernd í Grikklandi og getur því nýtt sér rétt sinn til að ferðast hingað til lands og ræktað tengsl sín við frænda sinn.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 3. nóvember 2022 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the cases is denied.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Gunnar Páll Baldvinsson


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta