Nr. 101/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 101/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU19120023
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 10. desember 2019 kærði […], fd. […], ríkisfangslaus (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 39. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Til vara er gerð krafa um að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar í samræmi við umsókn hans á grundvelli 39. gr. laga um útlendinga.
Til þrautavara er þess krafist að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd verði tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. ágúst 2019. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Þann 21. ágúst 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 23. ágúst 2019, synjuðu þau beiðni um viðtöku kæranda þar sem eistnesk yfirvöld bæru ábyrgð á umsókn hans. Vísuðu þýsk stjórnvöld til þess að eistnesk yfirvöld hefðu samþykkt beiðni þeirra um viðtöku á kæranda í maí 2018 á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Umrætt samþykki eistneskra yfirvalda fylgdi með gögnum sem þýsk yfirvöld sendu Útlendingastofnun. Í kjölfarið var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans, dags. 27. ágúst 2019, um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Eistlandi, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari frá eistneskum yfirvöldum, dags. 24. september s.á., samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 22. nóvember 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 26. nóvember 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 10. desember 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 17. desember s.á. ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að eistnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Fram kom að skv. 1., 2. og 3. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar sé ljóst að ríkisfangslausir einstaklingar heyri undir reglugerðina. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Eistlands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Eistlands.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun m.a. greint frá því að hann hafi fæðst í eistneska lýðveldinu, sem hafi þá verið hluti af Sovétríkjunum, og búið þar í 30 ár. Við fall Sovétríkjanna hafi kærandi misst öll réttindi í heimalandi sínu, Eistlandi. Kærandi hafi fengið útgefið dvalarleyfi í Eistlandi en verið talinn ríkisfangslaus og hafi þ.a.l. ekki haft nein réttindi og ekki notið aðstoðar yfirvalda, s.s. í tengslum við húsaskjól, fæði og dagpeninga. Enn fremur hafi kærandi aðeins haft aðgang að heilbrigðiskerfinu þar í landi á meðan hann hafi haft atvinnu auk þess sem hann hafi ekki haft kosninga- eða framboðsrétt til jafns við eistneska ríkisborgara. Kvaðst kærandi hafa orðið fyrir mismunun á grundvelli þjóðernis í Eistlandi þar sem hann væri ríkisfangslaus. Þá hafi kærandi orðið fyrir fordómum þegar hann hafi tjáð löngun sína til að skipta um kyn.
Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi mótmælir kærandi því að ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar hafi verið beitt í máli hans. Telji kærandi ekki tækt að beita Dyflinnarreglugerðinni þar sem ekki standi til að senda hann til þriðja ríkis heldur til heimaríkis sem sé aðildarríki að Dyflinnarreglugerðinni og þar sem honum hafi verið synjað um ríkisfang. Þrátt fyrir að eistnesk yfirvöld hafi samþykkt ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd telji kærandi að aðildarríki að Dyflinnarreglugerðinni geti ekki samið um eða tekið á sig ábyrgð sem þau beri ekki skv. reglugerðinni. Að auki telji kærandi að með því að senda endurviðtökubeiðni til Eistlands hafi Útlendingastofnun brotið gegn 2. mgr. 15. gr. laga um útlendinga sem kveði á um að stjórnvöld megi ekki afla upplýsinga eða veita upplýsingar um einstök mál er varða umsókn útlendings um alþjóðlega vernd hér á landi á þann hátt að þeir sem valdir hafa verið að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í máli viðkomandi útlendings geti fengið upplýsingar um mál hans þannig að öryggi hans eða fjölskyldu hans sé teflt í tvísýnu. Í öðru lagi telji kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar en við meðferð málsins hafi kærandi vísað í úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 325/2018 þar sem hann telji málsatvik sambærileg að verulega miklu leyti. Um hafi verið að ræða ríkisfangslausan einstakling með dvalarleyfi frá Lettlandi sem hafi verið veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun hafi talið að málin væru ólík að því er varðar veigamikil atriði án þess að frekari rökstuðningur hafi fylgt þeirri afstöðu stofnunarinnar. Hafi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda því falið í sér brot á jafnræðisreglu. Í því sambandi vísar kærandi til aðferðafræði sem Mannréttindadómstóll Evrópu hafi þróað sem greinir ólögmæta mismunun. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki metið hann sem einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Stofnunin hafi ekki framkvæmt heildarmat á aðstæðum kæranda, skv. 1. mgr. 25. gr. sömu laga. Hafi rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga sem áréttuð er í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga þar með ekki verið fylgt. Telji kærandi ýmsa annmarka vera á framkvæmd Útlendingastofnunar við mat á því hvort umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, m.a. sé skimunarlisti um andlega vanlíðan aðeins lagður fram fyrir hluta þeirra og umræddur listi hafi ekki verið lagður fram fyrir kæranda. Með hliðsjón af ríkisfangsleysi kæranda, réttindaleysis í Eistlandi, stöðu hans sem meðlims LGBTQ+ samfélagsins og andlegs heilsufars telji kærandi fullt tilefni til að mál hans verði verði sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun þar sem hann eigi rétt á því að fjallað verði um ákvörðun um sérstaklega viðkvæma stöðu hans í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga á tveimur stjórnsýslustigum. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar hvað varðar aðstæður rússneskumælandi einstaklinga í Eistlandi. Kærandi telji m.a. að möguleiki þessa hóps til borgaralegrar þátttöku sé mun minni en möguleiki þeirra sem koma upprunalega frá Eistlandi. Í því sambandi sé réttur þeirra til kosningaþátttöku lakari en réttur síðarnefnda hópsins. Erfitt sé fyrir rússneskumælandi einstaklinga að öðlast ríkisborgararétt í Eistlandi og vegur þar þungt strangar kröfur um eistneska tungumálakunnáttu. Þá upplifi umræddur hópur mismunun í eistnesku samfélagi. Vísar kærandi í greinargerð sína til Útlendingastofnunar hvað varðar frekari umfjöllun um aðstæður og réttindi ríkisfangslausra og umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi.
Kærandi byggir á því að heimild í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga til þess að taka umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna ekki til efnismeðferðar eigi samkvæmt orðalagi ákvæðisins ekki við um umsókn um alþjóðlega vernd skv. 39. gr. laganna þegar sótt er um alþjóðlega vernd á grundvelli ríkisfangsleysis. Samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga hafi ríkisfangslaus einstaklingur sem staddur er hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr. og er ekki útilokaður frá réttarstöðu ríkisfangsleysis skv. 41. gr. sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns samkvæmt umsókn. Í ljósi þess að kærandi sé staddur hér á landi og ekkert ríki telji hann sem ríkisborgara sinn samkvæmt landslögum séu skilyrði 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar uppfyllt. Þá eigi útilokunarástæður 41. gr. laganna ekki við um kæranda, þ.m.t. b-liður 1. mgr. ákvæðisins þar sem kærandi njóti ekki allra sömu réttinda og fylgir ríkisfangi í Eistlandi.
Varakröfu sína byggir kærandi á því að enga heimild sé að finna í lögum um útlendinga til að synja umsóknum um efnismeðferð sem lagðar eru fram á grundvelli 39. gr. laganna. Eigi ákvörðun stofnunarinnar því ekki stoð í íslenskum lögum. Áréttar kærandi að Eistland sé það upprunaland sem hann sé að flýja en slíkur flótti eigi ekki undir Dyflinnarreglugerðina.
Þrautavarakröfu sín byggir kærandi á því að sérstakar ástæður séu uppi í máli hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi fyrst og fremst til þess réttindaleysis sem hann hafi lifað við í Eistlandi, þ. á m. hafi hann haft lakari kosningarétt heldur en eistneskir ríkisborgarar og ekki getað fengið viðunandi atvinnu þar í landi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna á áhrifum ríkisfangsleysis á einstaklinga, sem gefnar voru út árið 2017, verði umræddur hópur fyrir mismunun, eigi erfitt með að ráða sig í vinnu auk þess sem þeir geti ekki skráð eignarréttindi sín formlega. Vegna þessa séu sérstakar ástæður uppi í máli kæranda, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, og því beri íslenskum stjórnvöldum að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 20. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er ríkisfangslaus einstaklingur skilgreindur sem einstaklingur sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954. Um alþjóðlega vernd til handa ríkisfangslausum einstaklingum er fjallað í IV. kafla laga um útlendinga, þá aðallega 37. og 39. gr. laganna.
Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann hafði áður reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-liður 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. greinarinnar segir að flóttamaður skv. lögunum sé einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður skv. ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði hann sendur aftur til heimalands síns. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ríkisfangslaus einstaklingur er sá sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna skv. landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá árinu 1954. Ríkisfangslaus einstaklingur sem staddur er hér á landi en telst ekki flóttamaður skv. 37. gr. og er ekki útilokaður frá réttarstöðu ríkisfangsleysis skv. 41. gr. hefur sjálfstæðan rétt til alþjóðlegrar verndar á grundvelli ríkisfangsleysis síns skv. umsókn. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að alþjóðleg vernd skv. greininni sé veitt á grundvelli samnings um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga og að það sé Útlendingastofnun sem leggi mat á umsókn ríkisfangslauss einstaklings.
Af ofangreindum ákvæðum leiðir að ríkisfangslaus einstaklingur getur annars vegar sótt um alþjóðlega vernd á þeim grundvelli að hann sé flóttamaður og óttist ofsóknir í því ríki þar sem hann hafði áður reglulegt aðsetur skv. 37. gr. laga um útlendinga og hins vegar á grundvelli ríkisfangsleysis skv. 39. gr. laga um útlendinga og útilokunarástæður skv. 41. gr. sömu laga eigi ekki við.
Af gögnum málsins, þ. á m. viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun, má ráða að kærandi hafi allt frá upphafi meðferðar á máli hans borið fyrir sig ríkisfangsleysi í Eistlandi sem grundvöll fyrir umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Ennfremur byggja aðalkröfur kæranda í greinargerðum hans til Útlendingastofnunar, dags. 28. október 2019, og kærunefndar útlendingamála, dags. 17. desember s.á., á því að honum skuli veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 39. gr. laga um útlendinga.
Eins og áður hefur komið fram kom í ljós við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Hollandi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Frekari rannsókn leiddi í ljós að eistnesk yfirvöld höfðu áður samþykkt beiðni þýskra yfirvalda um viðtöku kæranda. Í kjölfarið var send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til eistneskra yfirvalda sem samþykktu beiðnina á grundvelli 1. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna þessa komst Útlendingastofnun að því í hinni kærðu ákvörðun að umsókn kæranda skyldi ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt greininni skal umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Íslands hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Hér ber að taka fram að í athugasemdum við 36. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga kemur fram að greinin grundvallist á alþjóðasamstarfi sem Ísland tekur þátt í og þá sér í lagi þátttöku í Schengen samstarfinu og í samstarfi ríkja á grundvelli Dyflinnarsamningsins.
Í lögskýringargögnum við 39. gr. laga um útlendinga kemur fram að komi upp að umsækjandi um alþjóðlega vernd á grundvelli flóttamannasamningsins óski jafnframt eftir stöðu ríkisfangslaus einstaklings skuli leysa úr þeim samhliða.
Kærunefnd útlendingamála hefur áður í úrskurðum sínum fjallað um samspil 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 39. gr. laganna. Í úrskurði nefndarinnar nr. 59/2019 frá 12. febrúar 2019 í máli KNU18120057 voru málsatvik þau að umsækjandi bar m.a. fyrir sig ríkisfangsleysi skv. 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins hafði hann verið skráður sem ríkisborgari Aserbaísjan hjá yfirvöldum í Belgíu en við meðferð máls hans hér á landi bar hann fyrir sig að hafa misst ríkisborgararétt sinn þar í landi. Þá hafi honum verið synjað um ríkisborgararétt í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Belgísk yfirvöld höfðu samþykkt viðtöku kæranda á grundvelli 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Vísaði kærunefnd m.a. til þess að ljóst væri af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar að hún ætti við um ríkisfangslausa einstaklinga og að ekkert benti til annars en að belgísk yfirvöld myndu skoða og taka tillit til þess ef kærandi myndi kveðast vera ríkisfangslaus í Belgíu en landið væri m.a. aðili að samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga. Komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga bendi til þess að ákvæðið taki eingöngu til umsókna um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laga um útlendinga, nái heimild til að synja efnismeðferð umsóknar til málsástæðna sem varði umsókn um alþjóðlega vernd, bæði á grundvelli ríkisfangsleysis og á þeim grundvelli að einstaklingur sé flóttamaður. Byggði nefndin niðurstöðu sína m.a. á þeirri heimild að krefja Belgíu um að taka við umsókn hans á grundvelli Dyflinnarsamstarfsins og þar sem ljóst væri að efnismeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og umsókn um stöðu ríkisfangsleysis einstaklinga haldast í hendur skv. lögum um útlendinga. Var ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi skyldi fluttur til Belgíu því staðfest.
Í 2. mgr. inngangsorða Dyflinnarreglugerðarinnar er mælt fyrir um að sameiginleg stefna um hæli, þ.m.t. samevrópskt hæliskerfi, sé þáttur í því markmiði Evrópusambandsins að koma smám saman á fót svæði frelsis, öryggis og réttlætis sem sé opið þeim sem aðstæður neyða til að leita verndar innan sambandsins á löglegan hátt. Af orðalagi greinarinnar er ljóst að reglugerðinni er ætlað að ná til þeirra sem neyðast til þess að leita sér verndar innan samevrópska hæliskerfisins vegna aðstæðna utan kerfisins, þ.e. vegna aðstæðna og atburða sem hafa átt sér stað utan aðildarríkja reglugerðarinnar. Umfjöllun um samevrópskt hæliskerfi er að auki gegnumgangandi í inngangsorðum reglugerðarinnar, sbr. m.a. 3., 4., 6., 7., 9., og 22. mgr. þeirra. Enn fremur er í 25. mgr. inngangsorða reglugerðarinnar kveðið á um að uppbygging svæðis án innri landamæra þar sem frjáls för fólks er tryggð í samræmi við sáttmálann um starfshætti Evrópusambandsins og mörkun stefna sambandsins að því er varðar komu- og dvalarskilyrði ríkisborgara þriðju landa, þ.m.t. sameiginlegt átak um stjórnun ytri landamæra, kalli á að komið sé á jafnvægi milli viðmiðana um ábyrgð í anda samstöðu. Greinin ber það bersýnilega með sér að gerður er greinarmunur á innri landamærum aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar gagnvart hvert öðru og ytri landamærum aðildarríkjanna gagnvart þriðju löndum, þ.e. löndum sem eru ekki aðildarríki að reglugerðinni. Í 2. mgr. 67. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins þar sem fjallað er um innri og ytri landamæri sambandsins er einnig kveðið á um að það sama skuli gilda um ríkisborgara þriðja ríkis og ríkisfangslausa einstaklinga.
Í 1. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er gerð grein fyrir viðfangsefni hennar og mælt fyrir um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða aðildarríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkjanna. Í a-lið 2. gr. reglugerðarinnar er ríkisborgari þriðja lands skilgreindur sem hver sá sem er ekki borgari sambandsins í skilningi 1. mgr. 20. gr. sáttmálans um starfshætti Evrópusambandsins og sem er ekki ríkisborgari ríkis sem tekur þátt í reglugerðinni í krafti samnings við Evrópusambandið. Þá er umsækjandi í skilningi reglugerðarinnar skilgreindur sem ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur sem hefur lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd sem enn liggur ekki endanleg niðurstaða fyrir um, sbr. c-liður 2. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerðinni er hins vegar ekki að finna skilgreiningu á ríkisfangslausum einstaklingi en skv. 20. tölul. 3. gr. laga um útlendinga er ríkisfangslaus einstaklingur sá sem ekkert ríki telur til ríkisborgara sinna samkvæmt landslögum, sbr. samning um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954.
Það er mat kærunefndar að ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar beri það ekki með sér að það hafi verið vilji Evrópuþingsins og ráðsins að gera greinarmun á möguleikum annars vegar ríkisborgara þriðja lands og hins vegar ríkisfangslausra einstaklinga til þess að sækja um alþjóðlega vernd innan aðildarríkja reglugerðarinnar. Af ofangreindri umfjöllun má leiða að reglugerðinni hafi fyrst og fremst verið komið á laggirnar til þess að tryggja skilvirkni umsóknarferlisins þegar að einstaklingar sem koma frá þriðja landi sækja um alþjóðlega vernd innan aðildarríkjanna vegna aðstæðna sem hafa neytt þá til þess að gera slíkt. Verða aðstæðurnar sem umsókn um alþjóðlega vernd grundvallast á og umsækjandi, sem er annað hvort ríkisborgari þriðja lands eða ríkisfangslaus einstaklingur skv. skilgreiningu reglugerðarinnar, ber fyrir sig að hafa verið uppi í ríki eða á svæði sem er utan yfirráðasvæðis aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar. Rétt eins og Dyflinnarreglugerðin gildir ekki um einstaklinga sem eru ríkisborgarar landa sem eru aðildarríki að henni þá gildir hún heldur ekki um ríkisfangslausa einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna sem eru uppi í aðildarríki að reglugerðinni.
Eins og áður hefur komið fram sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi á grundvelli ríkisfangsleysis, skv. 39. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst hafa fæðst í eistneska lýðveldinu en á þeim tíma hafi það verið hluti af Sovétríkjunum. Þar hafi hann búið í um 30 ár. Við fall Sovétríkjanna hafi hann misst öll réttindi sín í Eistlandi. Vegna þessa hafi kærandi ekki notið þeirra réttinda sem fylgi ríkisfangi þar í landi. Hann sé handhafi tímabundins dvalarleyfis þar í landi. Byggist umsókn kæranda því á aðstæðum hans í Eistlandi en landið er á meðal aðildarríkja Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi þess að Eistland er aðildarríki að Dyflinnarreglugerðinni er það mat kærunefndar að gildissvið hennar nái ekki utan um mál kæranda og því sé ekki heimild til staðar til að flytja kæranda aftur til Eistlands á grundvelli hennar þrátt fyrir samþykki eistneskra yfirvalda þar um. Væri það niðurstaðan væri yfirvöldum í Eistlandi í raun gert að rannsaka aðstæður í eigin landi í því skyni að athuga hvort skilyrði væru fyrir veitingu alþjóðlegrar verndar til handa kæranda.
Er fyrirliggjandi mál því frábrugðið fyrrnefndum úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 59/2019 en í því máli var umsókn umsækjanda um alþjóðlega vernd byggð á aðstæðum í Aserbaísjan þar sem hann kvaðst m.a. hafa misst ríkisborgararétt sinn, auk þess sem honum hafi verið synjað um ríkisborgararétt í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. Ekkert af löndunum þremur er aðildarríki að Dyflinnarreglugerðinni. Umsækjandinn hafði því lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd í Belgíu eftir að hafa ferðast þangað frá þriðja landi í skilningi reglugerðarinnar.
Er það því mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi heimild til þess að senda kæranda til Eistlands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er því ekki heimilt að krefja Eistland, sem aðildarríki Dyflinnarreglugerðarinnar, um að taka við kæranda, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um útlendinga er það Útlendingastofnun sem leggur mat á umsókn ríkisfangslauss einstaklings. Þar sem slíkt mat hefur ekki farið fram ber að senda umsókn kæranda aftur til Útlendingastofnunar til efnismeðferðar.
Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar.
Samantekt
Kærunefnd útlendingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fella ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of
the application of the applicant for asylum in Iceland.
Áslaug Magnúsdóttir
Þorbjörg Inga Jónsdóttir Árni Helgason