Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 612/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 612/2023

Fimmtudaginn 22. febrúar 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 12. desember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 17. ágúst 2023, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 22. ágúst 2023, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að skilyrði a. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt. Sú ákvörðun var staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 25. október 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2023. Með bréfi, dags. 21. desember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 4. janúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi alist upp í Reykjavík frá fæðingu og þar til hann hafi flutt norður á B fyrir 17 árum síðan. Nú hafi aðstæður kæranda breyst þannig að fjölskylda hans hafi flust til Reykjavíkur, móðir kæranda sé látin og stjúpfaðir, sem sé lítill stuðningur, sé sá eini sem sé búsettur nálægt kæranda. Kærandi hafi fengið heilablæðingu á árinu 2022 og hafi í kjölfarið þurft að vera í endurhæfingu í fjóra mánuði. Þá hafi kærandi verið búsettur í herbergi eftir að hafa búið í hreysi til margra ára og verið í virkri neyslu frá unglingsaldri. Kærandi þurfi að þjálfa talið og þar sem hann sé orðinn einangraður og fari lítið út á meðal fólks hafi honum ekki farið fram sem skyldi. Það hafi reynt mjög mikið á kæranda að fara í heimsókn til stórfjölskyldu sinnar í Reykjavík sem hafi gert honum gott. Kærandi sé með félagslegt leiguhúsnæði hjá C, fái heimaþjónustu einu sinni í viku og standi í skilum með húsaleiguna og hafi gert það alveg frá upphafi leigutímans, eða 1. júní 2022. Kærandi geti skilað staðfestingu á því ef þess þurfi.

Kærandi tekur fram að hann eigi tvö börn sem hafi bæði verið í varanlegu fóstri í Reykjavík en dóttir hans sé nýorðin 18 ára. Eftir að kærandi hafi veikst á árinu 2022 hafi hann hætt allri neyslu og hafi verið án vímuefna síðan þá. Börn kæranda hafi verið að eiga við hann samskipti eftir að hann hafi orðið edrú og það finnist kæranda dýrmætt. Kærandi vilji komast nær börnum sínum til að byggja upp traust og betri samskipti við þau. Kærandi hafi ekki fengið leyfi til að taka bílpróf aftur eftir veikindin og það sé óvíst hvort hann fái að taka það.

Kærandi eigi margra ára neyslusögu og sé öryrki vegna þess. Kærandi sé með skert minni eftir heilablæðinguna en sé hættur að vera reiður. Kærandi fari nú í endurhæfingu þrisvar í viku og fái akstursþjónustu frá sveitarfélaginu í þau skipti. Það sé mikilvægt fyrir kæranda að fá endurhæfingu en hana fái hann í meira mæli í Reykjavík.

Kærandi óski þess í einlægni að fá undanþágu frá lögheimilisreglunni og að hann fái að fara á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé öryrki, greindur með geðhvarfasýki. Kærandi sé faðir tveggja barna sem bæði séu í varanlegu fóstri í Reykjavík. Kærandi búi á B í félagslegu leiguhúsnæði. Kærandi hafi áður búið í Reykjavík en flutt á B fyrir 17 árum. Árið 2022 hafi kærandi fengið heilablæðingu og hafi í kjölfarið legið inni á D í fjóra mánuði. Kærandi sé í endurhæfingu á endurhæfingardeild hjá Heilbrigðisstofnun E þrisvar í viku. Hann fái akstursþjónustu frá sveitarfélaginu til þess að komast í endurhæfingu. Kærandi hafi farið til Reykjavíkur í heimsókn til stórfjölskyldu sinnar og í þeirri heimsókn hafi honum farið fram í tali. Hann telji því að fjarlægð hans frá stórfjölskyldunni sé hamlandi og óski því eftir að fá undanþágu frá því að eiga lögheimili í Reykjavík.

Kærandi hafi sótt um félagslegt leiguhúsnæði þann 17. ágúst 2023 hjá Reykjavíkurborg og þeirri umsókn hafi verið synjað þar sem hann hafi ekki verið með lögheimili í Reykjavík við umsókn, sbr. a. lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Í svarbréfi frá Reykjavíkurborg, dags. 22. ágúst 2023, hafi eftirfarandi komið fram:

„Ljóst er að þú uppfyllir ekki neðangreind skilyrði reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Samkvæmt a-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, skal umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um.“

Kærandi hafi skotið málinu til áfrýjunarnefndar velferðarsviðs Reykjavíkurborgar þann 22. september 2023 og nefndin hafi staðfest ákvörðun miðstöðvar með bréfi, dags. 25. október 2023, með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um undanþágu frá a. lið 4. gr. reglna um almennt félagslegt leiguhúsnæði.“

Núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði með áorðnum breytingum hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Umræddar reglur séu settar á grundvelli XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í 4. gr. framangreindra reglna séu talin upp skilyrði fyrir því að almennt félagslegt leiguhúsnæði verði samþykkt á biðlista og öll skilyrði greinarinnar skuli vera uppfyllt. Samkvæmt a. lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skuli umsækjandi eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um. Þá sé veitt stig í matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði fyrir að eiga lögheimili í Reykjavík. Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga séu almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Fram komi í 1. mgr. 12. gr. framangreindra laga að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá sé tekið fram í 1. mgr. 13. gr. laganna að með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.

Nánar sé fjallað um húsnæðismál í XII. laganna. Kærandi sé með lögheimili á B þar sem hann búi í félagslegu leiguhúsnæði. Einnig fái kærandi stuðning og þjónustu frá C. Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun miðstöðvar um almennt félagslegt leiguhúsnæði þar sem skilyrði a. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi ekki verið uppfyllt.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði a. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði væri ekki uppfyllt.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna er að finna skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt á biðlista og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í a. til e. liðum 1. mgr. ákvæðisins.

Samkvæmt a. lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði skal umsækjandi vera orðinn 18 ára á umsóknardegi og eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um. Óumdeilt er að kærandi átti lögheimili á B þegar hann sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg og því er þetta skilyrði ekki uppfyllt.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 1. mgr. 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá er tekið fram í 1. mgr. 13. gr. laganna að með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.

Með vísan til 12. og 13. gr. laga nr. 40/1991 og a. liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesti beri synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 25. október 2023, um að synja umsókn A, um félagslegt leiguhúsnæði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta