Hoppa yfir valmynd

Nr. 264/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 264/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040013

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 4. apríl 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kína ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Ráða má að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 8. júlí 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna náms á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi kom hingað til lands 26. ágúst 2022 ásamt eiginmanni sínum og tveimur uppkomnum börnum þeirra. Í umsókn kæranda um dvalarleyfi kom fram að henni hafi ekki borist staðfesting frá Háskóla Íslands en fengi hún ekki inngöngu í skólann myndi hún dvelja á Íslandi með eiginmanni sínum þar sem hann hygðist jafnframt stunda nám við Háskóla Íslands. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi ekki inngöngu í Háskóla Íslands vegna efasemda um fullnægjandi enskukunnáttu hennar. Kærandi hóf í staðinn íslenskunám hjá […] og 8. september 2022 barst Útlendingastofnun staðfesting þess efnis. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2022, var umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga synjað með vísan til þess að íslenskunám hjá […] væri ekki nám á háskólastigi. Auk þess var vísað til þess að í ákvæðinu kæmi fram að sá sem sæki einstök námskeið teldist ekki stunda fullt nám í skilningi ákvæðisins. Var kærandi því ekki talin uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Með úrskurði kærunefndar nr. 497/2022, dags. 7. desember 2022, var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Hinn 14. nóvember 2022 lagði kærandi fram nýja umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við maka sinn, sbr. 70. gr. og 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. mars 2023, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að hún uppfyllti ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um heimild til fjölskyldusameiningar. Hin kærða ákvörðun barst kæranda með ábyrgðarpósti 22. mars 2023. Kærunefnd barst kæra kæranda ásamt fylgiskjölum 4. apríl 2023. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda með tölvubréfi 30. apríl 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í athugasemdum kæranda með kæru sinni kemur fram að í úrskurði kærunefndar, nr. 497/2022, í máli hennar og í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið vísað til ákvæða 69. og 70. gr. laga um útlendinga. Kærandi sjái ekki tengsl milli þessara ákvæða þar sem 69. gr. fjalli um fjölskyldutengsl en 70. gr. fjalli um maka. Kærandi óski því eftir því að kærunefnd fjalli skýrlega um tengsl þessara ákvæða. Nefnir kærandi sem dæmi ákvæði 4. mgr. 70. gr. laga um útlendinga þar sem tekið sé fram að 3. mgr. ákvæðisins eigi ekki við þegar aðilar hafi verið í hjúskap áður en maki búsettur á Íslandi hafi flust hingað til lands. Kærandi veltir upp þeirri spurningu hvort tilgangur laga um útlendinga sé að slíta í sundur pör í þeim tilvikum sem annar makinn hyggist stunda nám við Háskóla Íslands. Kveðst kærandi velta því fyrir sér hvers vegna íslensk stjórnvöld veiti pörum frá Venesúela dvalarleyfi hér á landi en ekki einungis öðrum hvorum maka. Þá kveðst kærandi velta fyrir sér, í ljósi þess að ráðherra sé heimilt að setja fram ný ákvæði, hvers vegna Útlendingastofnun og kærunefnd hafi ekki vald til þess að ákvarða að mál hennar krefjist sérstakrar íhugunar. Kærandi bendir á að eiginmaður hennar sé með meistaragráðu og hún með diplómu í list. Kærandi kveður þau hafa lagt pening inn á íslenska banka og leigt íbúð í miðbæ Reykjavíkur. Hún og eiginmaður hennar séu bestu hugsanlegu innflytjendur sem Ísland gæti óskað sér, einkum í ljósi þess að þau telji tungumál vera mikilvægasta atriði aðlögunar inn í nýtt samfélag. Þá óskar kærandi skýringa á því hvers vegna kærunefnd samþykki umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem endi á að vera fjárhagsleg byrði fyrir íslensku þjóðina, en synji umsóknum eins og hennar.

Í viðbótarathugasemdum vísar kærandi til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 16. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 23. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hvetur kærunefnd til þess að taka tillit til þeirra við meðferð máls hennar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna. Í 2. málsl. sama ákvæðis segir að til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna. Í 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka.

Eins og rakið var í úrskurði kærunefndar nr. 497/2022 fékk maki kæranda útgefið dvalarleyfi á grundvelli 65. gr. laga um útlendinga 8. september 2022 þar sem hann stundar nám í íslensku sem annað mál (e. Icelandic as a Second Language) við Háskóla Íslands. Var það niðurstaða kærunefndar, í ljósi þess að nám maka kæranda væri ekki framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir, líkt og ákvæði 69. gr. laga um útlendinga gerir kröfu um, að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 70. gr. sömu laga væru ekki uppfyllt.

Í ljósi athugasemda kæranda um tengsl ákvæða 69. gr. og 70. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd rétt að benda á að kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi fyrir maka. Sú tegund dvalarleyfis heyrir undir 70. gr. laga um útlendinga sem fjallar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna kemur m.a. fram að ,,skilyrði [ákvæðisins] er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt þessum kafla“, þ.e. VIII. kafla laga um útlendinga. Um þennan rétt til fjölskyldusameiningar og skilyrði slíks dvalarleyfis er fjallað í ákvæði 69. gr. laga um útlendinga í VIII. kafla laganna. Í síðasta málsl. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er réttinum til fjölskyldusameiningar, í þeim tilvikum sem útlendingur dvelur hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna, líkt og maki kæranda, settar þær skorður að viðkomandi stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir hér á landi svo að aðstandendur viðkomandi, í þessu tilviki kærandi, geti fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við viðkomandi. Eins og áður greinir liggur fyrir að maki kæranda stundar ekki framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám eða rannsóknir. Þar af leiðandi eru þau skilyrði fjölskyldusameiningar sem fram koma í síðasta málsl. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt í máli kæranda, sem leiðir jafnframt til þess að skilyrði ákvæðis 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, þ.e. grundvöllur þeirrar tegundar dvalarleyfis sem kærandi sótti um, teljast jafnframt ekki uppfyllt.

Hvað varðar athugasemd kæranda í tengslum við vald Útlendingastofnunar og kærunefndar til að ákvarða að mál hennar krefjist sérstakrar íhugunar bendir kærunefnd á að framangreind ákvæði mæla ekki fyrir um neinar undanþágur. Teljast ákvæðin því ófrávíkjanleg.

Hvað varðar beiðni kæranda um skýringu á því hvers vegna kærunefnd samþykkir umsóknir umsækjenda um alþjóðlega vernd, sem að sögn hennar endi á að vera fjárhagsleg byrði fyrir íslensku þjóðina, en synji umsóknum eins og hennar, bendir kærunefnd á að um sé að ræða eðlisólík mál sem byggja á öðrum lagagrundvelli og því ekki hægt að bera þau saman. Hvað varðar tilvísun kæranda til ákvæða framangreindra alþjóðasamninga um friðhelgi fjölskyldulífs bendir kærunefnd á að þau ákvæði veita ekki rétt til einstaklinga til þess að velja sér dvalarstað óháð lögum og reglum ríkja. Þvert á móti hefur Mannréttindadómstóll Evrópu í dómaframkvæmd sinni vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Verður því ekki fallist á það með kæranda að með því að synja umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi brjóti íslensk stjórnvöld gegn framangreindum ákvæðum.

V.            Samantekt og leiðbeiningar

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 1. mgr. 70. gr., sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga, séu ekki uppfyllt.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta