Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 55/2017

Fimmtudaginn 27. apríl 2017

A
gegn
Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. nóvember 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 9. ágúst 2016 og var umsókn hans samþykkt. Í nóvember 2016 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði verið lögskráður á skip hjá eigin fyrirtæki til 1. september 2016. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2016, óskaði Vinnumálastofnun eftir frekari gögnum frá kæranda vegna þeirra upplýsinga og bárust þau stofnuninni 7. nóvember 2016. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2016, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 9. ágúst til 31. ágúst 2016, samtals að fjárhæð 168.791 kr. sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi lagði fram frekari gögn og óskaði eftir endurupptöku málsins en þeirri beiðni var tvívegis hafnað með bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2016 og 24. janúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. febrúar 2017. Með bréfi, dags. 10. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 8. mars 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun eftir að strandveiðum hafi verið lokið þann 8. ágúst 2016. Honum hafi láðst að afskrá sig úr lögskráningarkerfinu og því verið lögskráður á bát út ágúst 2016. Kærandi bendir á að þegar strandveiðitímabili sé lokið megi enginn bátur, sem sé skráður í strandveiðikerfið, róa til fiskjar fram að nýju fiskveiðiári sem hafi verið 1. september 2016. Kærandi hafi því ekki verið í vinnu á því tímabili sem endurkrafa Vinnumálastofnunar lúti að. Kærandi tekur fram að hann hafi sent Vinnumálastofnun ýmis gögn sem staðfesti það að hann hafi ekki verið í vinnu á framangreindu tímabili. Þrátt fyrir þau gögn líti Vinnumálastofnun eingöngu til þess að hann hafi verið lögskráður á tímabilinu.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið lögskráður á skip hjá eigin fyrirtæki samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 9. ágúst til 31. ágúst 2016. Í 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um ávinnslutímabil og hvenær einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum en samkvæmt 8. mgr. ákvæðisins tekur vinnuframlag sjómanna mið af fjölda lögskráningardaga.

Vinnumálastofnun vísar til þess að lög nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna gildi um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi sem gerð séu út í atvinnuskyni. Markmið laga nr. 35/2010 sé að tryggja að skipverjar hafi gild skírteini til þess að starfa um borð í skipi, að skip hafi gilt haffærisskírteini og að lögboðin áhafnartrygging sé í gildi, sbr. 1. gr. laganna. Markmið þeirra sé einnig að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingartími skipverja sé skráður. Í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna segi enn fremur að lögskráning sé lögformleg skráning skipverja um borð í skipum í gegnum lögskráningarkerfið, að uppfylltum skilyrðum 5. gr. laganna. Í 4. gr. laga nr. 35/2010 komi fram að skipstjóri skuli sjá til þess að allir skipverjar sem séu ráðnir til starfa um borð í skipi séu lögskráðir í skiprúm. Að sama skapi skal skipstjóri sjá til þess að skipverji sé lögskráður úr skiprúmi þegar veru hans um borð ljúki. Þá beri skipstjóri ábyrgð á því að lögskráning fari fram í gegnum lögskráningarkerfið með rafrænum hætti, sbr. 5. gr. laganna. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að lögskráning sjómanna hafi veruleg áhrif á réttarstöðu aðila. Röng skráning hafi víðtæk áhrif og brot gegn lögunum eða tilraun til brots varði sektum eða fangelsisvist, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2010.

Vinnumálastofnun tekur fram að opinberri skráningu Samgöngustofu sé meðal annars ætlað að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi, hver siglingatími þeirra sé og hvort lögboðin áhafnartrygging sé til staðar. Lögskráningardagar leiði þar að auki til réttindasöfnunar í atvinnuleysiskerfinu og almannatryggingakerfinu, sbr. 15. gr. laga nr. 54/2006 og 52. gr. laga nr. 100/2007. Kærandi hafi verið lögskráður á skipið B frá 11. júlí 2016 til 1. september 2016 samkvæmt opinberri skráningu Samgöngustofu. Ekki verði fallist á að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og lögbundin opinber skráning tilgreini hann í áhöfn á skipi. Einnig beri að líta til þess að lögskráningardagar kæranda leiði til ávinnslu samkvæmt 15. gr. laga nr. 54/2006 en ekki verði séð að kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil og ávinni honum rétt til atvinnuleysistrygginga. Í ljósi framangreinds verði ekki fallist á að kærandi hafi átt rétt á atvinnuleysisbótum á tímabilinu 9. ágúst til 31. ágúst 2016, enda ekki uppfyllt almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta. Þrátt fyrir þau gögn sem kærandi hafi fært fram í málinu telji Vinnumálastofnun ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur fyrir sama tíma og kærandi hafi verið skráður á skip sitt. Berist upplýsingar frá Samgöngustofu um breytingar á lögskráningu kæranda muni stofnunin taka mál hans fyrir að nýju. Þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga nr. 54/2006 á framangreindu tímabili sé Vinnumálastofnun skylt að krefja hann um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta í samræmi við 39. gr. laganna.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 168.791 kr. fyrir tímabilið 9. ágúst til 31. ágúst 2016 samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum en eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-liður 1. mgr. 13. gr. Svo að atvinnuleitandi geti talist í virkri atvinnuleit þarf hann meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og að vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. d- og e-liðir 14. gr. laga nr. 54/2006.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Óumdeilt er að kærandi var lögskráður á skip á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar lýtur að. Í 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna kemur fram að lögskráningarkerfi sé rafrænn gagnagrunnur sem visti upplýsingar um lögskráningar. Samgöngustofa reki gagnagrunninn en veiti aðgang að honum til lögskráningar. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 35/2010 skal skipstjóri sjá til þess að allir skipverjar, sem eru ráðnir til starfa um borð í skipi skráðu hér á landi, séu lögskráðir í skiprúm áður en haldið er úr höfn. Í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að óheimilt sé að leggja úr höfn nema allir skipverjar hafi verið lögskráðir í skiprúm og þegar veru skipverja um borð lýkur skal skipstjóri sjá til þess að viðkomandi sé lögskráður úr skiprúmi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 35/2010 er markmið þeirra meðal annars að tryggja sönnun fyrir því hverjir séu um borð í skipi hverju sinni og að siglingartími skipverja sé skráður. Að framangreindu virtu er ljóst að taka skal mið af upplýsingum úr lögskráningarkerfi Samgöngustofu við mat á því hvort skilyrði laga nr. 54/2006 séu uppfyllt.

Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 á sama tíma og hann var lögskráður á skip. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að en ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun tilkynnti hann ekki að hann væri enn lögskráður á skip og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. nóvember 2016, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta