Mál nr. 32/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 32/2017
Fimmtudaginn 27. apríl 2017
AgegnVinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 23. janúar 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. janúar 2017, um útreikning á húsnæðisbótum.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 7. desember 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að greiðsla húsnæðisbóta næmi 3.732 kr. á mánuði að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæði. Í útreikningnum kemur fram að miðað væri við heildartekjur allra heimilismanna, 18 ára og eldri, að fjárhæð 969.647 kr. á mánuði.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 23. janúar 2017. Með bréfi, dags. 2. febrúar 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 22. febrúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. febrúar 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafi tekið með í útreikning á húsnæðisbótum bifreiðahlunnindi sem eiginmaður hennar fái frá vinnuveitanda sínum. Hann sé með takmörkuð afnot af bifreið og hlunnindin reiknuð á hvern ekinn kílómetra í mánuði. Fjárhæðin komi ekki í hans hlut heldur sé hún dregin strax af laununum. Kærandi bendir á að bifreiðahlunnindin séu skráð undir liðnum heildarlaun á launaseðli þar sem greiddur sé tekjuskattur af fjárhæðinni. Kærandi óskar eftir að bifreiðahlunnindin verði dregin frá heildarlaunum þeirra hjóna og að húsnæðisbætur þeirra verði endurreiknaðar í samræmi við þá fjárhæð.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar er vísað til 17. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur en þar komi fram í 1. mgr. að við útreikning húsnæðisbóta skuli lækka grunnfjárhæðir um fjárhæð sem nemi 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram nánar skilgreind frítekjumörk. Í 3. mgr. 17. gr. laganna segi að með tekjum sé átt við allar tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar samkvæmt 31. gr. sömu laga. Vinnumálastofnun tekur fram að samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt teljast ekki eingöngu beinar greiðslur fyrir vinnu til skattskyldra tekna, heldur hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi, svo sem endurgjaldslaus afnot af bifreið í eigu launagreiðanda, þ.e. bifreiðahlunnindi. Í lið 2.3. í reglum Ríkisskattstjóra nr. 1260/2016 um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2017 sé kveðið á um mat bifreiðahlunninda. Þar komi fram að takmörkuð afnot af bifreið skuli metin til tekna miðað við 110 kr. á hvern ekinn kílómetra.
Vinnumálastofnun bendir á að í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 75/2016 sé miðað við að allar skattskyldar tekjur heimilismanna, 18 ára og eldri, teljist til tekna. Við útreikning á húsnæðisbótum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna skuli bætur ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðist við fjölda heimilismanna að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. laganna. Með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum telji Vinnumálastofnun að leggja beri til grundvallar við útreikning á húsnæðisbótum allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bifreiðahlunnindi eiginmanns kæranda sem teljist til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, óháð því hvort um takmörkuð afnot sé að ræða sem skili sér ekki í beinum greiðslum til kæranda. Að mati Vinnumálastofnunar beri því að taka bifreiðahlunnindi með í útreikning húsnæðisbóta og að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar skuli standa.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um útreikning Vinnumálastofnunar á húsnæðisbótum kæranda. Ágreiningurinn takmarkast við það hvort bifreiðahlunnindi eiginmanns kæranda skuli teljast til tekna er lækki grunnfjárhæð húsnæðisbóta kæranda, en kærandi gerir ekki aðrar athugasemdir við útreikning Vinnumálastofnunar.
Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skulu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr.
Í 17. gr. laga nr. 75/2016 segir að við útreikning húsnæðisbóta skuli lækka grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr. um fjárhæð sem nemi 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram nánar skilgreind frítekjumörk. Þá segir í 3. mgr. 17. gr. laganna að með tekjum í lögunum sé átt við allar tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar samkvæmt 31. gr. sömu laga.
Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi svo og framlög og gjafir sem sýnilega séu gefnar sem kaupauki. Tekið er fram að hvorki skipti máli hver taki við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið sé, hvort sem það sé í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum. Samkvæmt framangreindu teljast ekki einungis beinar greiðslur fyrir vinnu til skattskyldra tekna, heldur einnig hvers konar fríðindi og hlunnindi sem launamenn njóta í starfi.
Samkvæmt gögnum málsins hefur heimilismaður kæranda mánaðarleg hlunnindi sem teljast til tekna eins og þær eru skilgreindar í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 75/2016, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Upplýst er af hálfu kæranda að greiddur er tekjuskattur af hlunnindunum. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að útreikningur Vinnumálastofnunar á húsnæðisbótum kæranda sé reistur á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. janúar 2017, um útreikning á húsnæðisbótum A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson