Mál nr. 481/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 481/2016
Fimmtudaginn 27. apríl 2017
AgegnReykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 12. desember 2016, kærir B hdl, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 19. ágúst og rökstuddri 13. september 2016, á beiðni hennar um leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi hefur þegið húsaleigubætur frá Reykjavíkurborg um árabil vegna leiguhúsnæðis að C. Í júní 2016 hafði kærandi samband við ráðgjafa á þjónustumiðstöð til að upplýsa um breytingar á bankareikningi og hækkun á leigufjárhæð. Kæranda var tjáð að hún þyrfti að skila þinglýstum viðauka við húsaleigusamninginn vegna breytingar á leigufjárhæð. Í júlí 2016 fór kærandi fram á endurskoðun á fjárhæð húsaleigubóta til hennar og afturvirka greiðslu á mismuninum frá apríl 2010. Með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 21. júlí 2016, var beiðni kæranda synjað með vísan til 14. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 19. ágúst 2016 og staðfesti synjunina. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 13. september 2016.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. desember 2016. Með bréfi, dags. 16. desember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 12. janúar 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. janúar 2017, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Reykjavíkurborg hafi haft allar forsendur til að hafa útreikning húsaleigubóta réttan. Húsaleigusamningur kæranda hafi verið við leigusalann D, sem hafi í áraraðir haft ákvæði í sínum samningum um hækkun húsaleigu á þriggja mánaða fresti eftir vísitölu húsaleigu og síðar vísitölu neysluverðs. Því sé líklegt að starfsmenn sveitarfélagsins hafi verið upplýstir um þá stöðu, eða hefðu átt að vera upplýstir um hana. Þar með hefðu starfsmennirnir átt að uppfylla skyldu sína um að grípa til sérstakra ráðstafana í málinu og leiðbeina kæranda um rétt til greiðslu húsaleigubóta.
Kærandi bendir á að sú framkvæmd að sækja þurfi um húsaleigubætur á hverju ári mæli með því að starfsmenn sveitarfélagsins hefðu átt að átta sig mun fyrr á stöðu kæranda. Kærandi sé blind og því hvíli enn ríkari leiðbeiningarskylda á starfsfólki sveitarfélagsins. Kærandi vísar til þess að stöðluð ákvæði opinberra aðila sem valdi skerðingum á rétti borgara geti ekki átt við um blinda einstaklinga, nema fram komi með sérstökum hætti að þeir hafi verið upplýstir um áhrif slíkra ákvæða. Þá hefði einnig átt að vekja athygli starfsfólks að árlega væri byggt á fyrstu umsókn þar sem húsaleiga sé skráð 18.000 kr.
Kærandi gerir athugasemd við túlkun Reykjavíkurborgar á ákvæði 14. gr. laga nr. 138/1997 um upplýsingaskyldu leigjanda. Kærandi hafi talið að með breytingu á högum væri átt við ef hún hætti að búa ein, skipti um húsnæði, hækkaði í launum eða annað sem gæti leitt til lækkunar eða niðurfellingar á húsaleigubótum, sbr. 15. gr. sömu laga. Ekkert í því ákvæði eigi við um mál kæranda en hún hafi aldrei veitt rangar eða villandi upplýsingar og uppfyllt skyldu sína eftir sinni sannfæringu og bestu trú. Vegna þessa sé ekki hægt að beita ákvæði 15. gr. laganna um mál hennar. Kærandi bendir á að þegar hún hafi verið upplýst um að Reykjavíkurborg hafi ekki greitt henni réttar húsaleigubætur hafi hún bætt við fyrirliggjandi upplýsingar. Slíkt komi ekki í veg fyrir rétt hennar til afturvirkrar greiðslu og geti ekki verið rök fyrir því að takmarka rétt einstaklings til lögbundinna greiðslna. Þá gerir kærandi athugasemd við að synjun Reykjavíkurborgar skuli vera byggð á lagareglu sem ekki sé hægt að beita í málinu. Sveitarfélagið beiti ákvæði til þess að takmarka lögbundinn rétt einstaklinga til húsaleigubóta en tilgangur reglunnar sé allt annar. Tilgangurinn sé að tryggja að greiðslur séu ekki ofgreiddar, með öðrum orðum að sjá til þess að greiðslur skuli vera réttar. Að því virtu sé um ótæka túlkun að ræða.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá því að kærandi hafi leigt íbúð í eigu D, frá 1. júní 1990. Í janúar 1995 hafi kærandi sótt um húsaleigubætur og lagt fram ótímabundinn þinglýstan húsaleigusamning þar sem fram komi að leigufjárhæð sé 18.000 kr., bundin húsaleiguvísitölu í apríl 1990. Samkvæmt þinglýstum viðauka, dags. 5. júlí 2016, sé leigusamningurinn enn í gildi og húsaleiga hækki á þriggja mánaða fresti eftir vísitölu neysluverðs til verðbóta. Þann 1. júlí 2016 hafi leigufjárhæðin verið 60.719 kr.
Reykjavíkurborg vísar til þess að samkvæmt 14. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur skuli bótaþegi tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem geti haft áhrif á rétt hans til húsaleigubóta og bótafjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna skuli sækja um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildi umsóknin til ársloka. Kærandi hafi endurnýjað umsókn um húsaleigubætur í byrjun hvers almanaksárs, án athugasemda, en í umsókninni sé meðal annars vísað til framangreindrar tilkynningarskyldu. Það hafi því verið mat velferðarráðs að sú skylda hvíldi á kæranda að upplýsa um breytingar á upphæð húsaleigu, enda fari upphæð húsaleigubóta eftir upplýsingum sem umsækjandi gefi.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja beiðni kæranda um leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta aftur í tímann. Kærandi óskaði eftir leiðréttingu á grundvelli þess að ekki hafi verið tekið tillit til hækkunar á húsaleigu við útreikning á húsaleigubótum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að í beiðni kæranda í júlí 2016 um leiðréttingu á greiðslum hjá Reykjavíkurborg hafi falist beiðni um endurupptöku á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í samræmi við framangreint telur úrskurðarnefndin að líta verði á að í synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um leiðréttingu hafi falist synjun á beiðni um endurupptöku.
Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Af ákvæði þessu leiðir að aðili máls á lögvarinn rétt til að mál hans verði tekið til meðferðar á ný ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.
Kærandi sótti fyrst um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg árið 1995 og liggur umsóknin fyrir í málinu. Meðfylgjandi umsókn kæranda um húsaleigubætur var þinglýstur húsaleigusamningur um ótímabundna leigu á fasteign að C í eigu D. Í húsaleigusamningnum kemur meðal annars fram að fjárhæð leigunnar sé 18.000 kr. miðað við húsaleiguvísitölu í apríl 1990. Í samningnum er einnig tilgreint að húsaleigan hækki í samræmi við húsaleiguvísitölu á þriggja mánaða fresti. Kærandi hefur frá umsókn sinni árið 1995 sótt um og fengið greiddar húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár, í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997, á grundvelli samningsins.
Í 5. gr. laga nr. 138/1997 kemur fram að húsaleigubætur skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við ákveðinn grunn sem miðast við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna. Óumdeilt er að húsaleigubætur kæranda voru reiknaðar út miðað við leigufjárhæðina sem tilgreind var á framangreindum húsaleigusamningi, án tillits til vísitöluhækkunar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála lágu því fyrir rangar upplýsingar um leigufjárhæð kæranda við útreikning Reykjavíkurborgar á húsaleigubótum hennar. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin að skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um endurupptöku er því felld úr gildi og málinu vísað til Reykjavíkurborgar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 13. september 2016, um synjun á beiðni A, um endurupptöku er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson