Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 156/2012 - Úrskurður

 

 

Miðvikudaginn 28. nóvember 2012

 

156/2012

 

 

 

A

 

gegn

 

Sjúkratryggingum Íslands

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.

 

Með bréfi, dags. 15. maí 2012, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur vegna tjóns í kjölfar aðgerðar þann X.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt gögnum málsins að Sjúkratryggingum Íslands barst þann 21. nóvember 2011 umsókn frá kæranda um bætur vegna tjóns í kjölfar ristilaðgerðar á Landspítalanum þann X.

 

Sjúkratryggingar Íslands höfnuðu bótaskyldu með bréfi, dags. 13. mars 2012, þar sem ekki væri unnt að ráða með óyggjandi hætti að kærandi hafi orðið fyrir tjóni í aðgerð og legu í framhaldi af henni. Kærandi hafi verið haldinn ýmsum kvillum og með undirliggjandi þætti sem hafi verið líkleg meðorsök eða orsakavaldur að þeim einkennum sem kærandi telur mega rekja til sjúklingatryggingaratburðar.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir svo:

 

„Varðandi rökstuðning fyrir því að ég eigi bótarétt skv. ákvæðum laga um sjúklingatryggingar nr. 111/2000 vísa ég til athugasemda minna við greinargerð Landspítalans frá því í janúar 2012. Ég tel eins og þar kemur fram að sjúkraskrá mín sé ekki rétt eða í besta falli ónákvæm, þar sem í hana vantar kvartanir mínar yfir höfuðverk og nákvæmar lýsingar á því þegar ég tel mig hafa orðið varan við leka á mænuvökva. Ég bendi á að það er að mínu mati með öllu óforsvaranlegt að draga það frá X, þegar blæðing við heila greinist með sneiðmynd, til X, þegar aðgerð var framkvæmd, en fyrst eftir þann tíma fór heilsa mín að skána.

 

Staða mín er hins vegar enn í dag sú, að ég hef enn ekki getað hafið störf hjá B og bíð eftir niðurstöðu á taugasálfræðilegu mati, auk mats trúnaðarlæknis B á starfshæfi mínu.

 

Ég tel að það liggi fyrir að bein orsakatengsl séu milli aðgerðar þeirrar sem ég gekkst undir X og þessara einkenna og megi það rekja til lélegrar eftirfylgni og eftirlits af hálfu sjúkrahússins. Ljóst er að ég var mjög illa haldinn og líðan mín í engu samræmi við það sem reikna mátti með eftir aðgerðina í X. Ekki verður heldur komist hjá að benda á þann langa tíma sem leið frá greiningu á blæðingu og þar til aðgerð var gerð til að tappa blóði af höfði mínu.

 

Ég mótmæli því harðlega að nokkuð utan að komandi, s.s. fall, hafi komið fyrir mig frá því aðgerðin var gerð X þar til blæðingin uppgötvaðist í X sama ár, eins og gefið er í skyn í niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands.

 

Ég tel ljóst miðað við sönnunarreglur sem gilda samkvæmt lögum nr. 111/2000 þá verði sönnunarbyrði ekki lögð á mig og ég verði látinn njóta þess vafa sem kann að vera uppi varðandi orsakatengsl og sennilega afleiðingar aðgerðarinnar í X.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands með bréfi, dags. 19. júlí 2012.  Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 30. júlí 2012, segir svo:

 

„Vísað er til umsóknar kæranda (1) um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 sem barst Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) þann 21. nóvember 2011. Kærandi sótti um bætur þar og rekur meint sjúklingatryggingaratvik til þess þegar hann undirgekkst skurðaðgerð þann X, brottnám hluta ristils. Kveðst hann hafa verið óvinnufær síðan og oft fárveikur, inn og út af spítölum í marga mánuði. SÍ töldu ekki heimilt að verða við umsókninni sbr. ákvörðun dags. 13. mars 2012. Sú ákvörðun hefur nú verið kærð sbr. beiðni um greinargerð dags. 19. júlí 2012.  

 

  1. Um sjúklingatryggingu

    Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu er tilgreint til hvaða tjónsatvika lögin taka. Skilyrði er að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum sem nánar eru rakin í 1.-4. tölulið 2. gr. laganna.

     

    1. tl. lítur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð, 2. tl. fjallar um bilun eða galla í tækjum eða áhöldum, 3. tl. um hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni og 4. tl. tekur til heilsutjóns sem hlýst af sýkingu eða öðrum fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. 2. og 3. tl. 2. gr. eiga ekki við. Því koma 1. og 4. tl. 2. gr. sjúklingatryggingalaga nr. 111/2000 til nánari skoðunar.

     

  2. Áskilnaður ákvæðis 2. gr. sjúklingatryggingarlaga

    Þegar metið er hvort atvik geti átt undir einhvern af fjórum töluliðum ákvæðisins ber að hafa eftirfarandi áskilnað í huga. Með orðalaginu „að öllum líkindum” er átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á að tjónið megi rekja til einhverra þessara atvika. Það er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar eða rannsóknar sem hann gekkst undir.

     

    Sjúklingatrygging bætir ekki tjón sem er afleiðing grunnsjúkdóms sjúklings eða er af öðrum völdum, svo sem vegna heilsufars sjúklings fyrir umrædda meðferð. Ef engu verður slegið föstu um orsök tjóns verður að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. ,,Ef niðurstaðan verður sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildir ef ekkert verður sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns.”

     

  3. Málavextir
    1. Aðgerðin X

    Í greinargerð meðferðaraðila (2), yfirlæknis á svæfingadeild LSH, kemur fram í heilsufarssögu að kærandi sé með colitis ulcerosa (sáraristilbólgu).  Hann undirgekkst subtotal colectomia (brottnám mesta hluta ristils) í X, jafnframt kom fram að hann væri með ileostomiu (smágirni leitt út um kviðvegg). Vegna primary sclerosis colangitis (gallvegssjúkdómur) var gerð lifrarígræðsla X og ný skipti X vegna fylgikvilla. Viðvarandi nýrnabilun með kreatinini gildi um 150 – 200.

     

    Í aðgerð þann X var gerð proctectomia og ileo-anal pouch (tekinn neðsti hluti ristils). Fyrir aðgerð hafi til verkjastillingar verið lagður utanbasts leggur á T:10 – 11 svæði. Fram komi að stungið hafi verið einu sinni og engin vandkvæði við lögnina. Kærandi var með þennan legg frá aðgerð og fram á fjórða dag eftir aðgerð en þá var skipt um legg þar sem kærandi var ekki nægilega verkjastilltur. Fram kemur að á þessum fyrstu 4 dögum hafi hann kvartað um dofa í fótum. Við lögn á öðrum legg var ekki getið um vandræði við ísetningu og var hann settur í sama bil og fyrri leggur. Eftir seinni legginn var kærandi vel verkjastilltur og virðist deyfing verka vel fram að lokum meðferðar (sem var á 6. degi) en þá mun leggur hafa runnið út. 

     

    Ekki var talað um það á eftirlitsblaði verkjameðferðar á deild né sérstöku eftirlitsblaði svæfingardeildar að kærandi hafi haft svima eða höfuðverk. Hinsvegar var þess getið að hann væri með viðvarandi ógleði. Ekki komi heldur fram á ofangreindum eftirlitsblöðum að lekið hafi meðfram utanbastslegg. Af hjúkrunarnótum kom í ljós að kærandi hafi verið með dofa og máttleysi í fótum frá fyrsta degi eftir aðgerð. Eftir að nýr leggur var lagður brá til betri vegar. Kærandi varð verkjalítill og svaf vel.

     

    Ekki voru skráðar neinar kvartanir um svima eða höfuðverk á þessu tímabili (frá X – X), hinsvegar viðvarandi ógleði. Kærandi útskrifaðist þann X en lagðist aftur inn þann X vegna vaxandi slappleika, svima, ógleði og lystarleysis og með hækkað kreatinin. Í þessari legu var hann metinn dehydreraður (ofþornaður) og með lágt natrium. Fékk hann vökvameðferð og útskrifaðist þann X við góða líðan. Fram kom í hjúkrunarnótu þann X að kærandi hafi fallið í yfirlið fyrir nokkrum dögum og við komu á göngudeild X var hann slappur og var gefinn vökvi í æð. 

     

    1. Umkvartanir um höfuðverk

    Kærandi kom á göngudeild meltingardeildar þann X vegna tveggja vikna sögu um frontal höfuðverk. Rtg. mynd af höfði sýndi þykknaðar slímhúðir í sinusum og var hann settur á sýklalyf. Kærandi leitaði síðan á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi þann X vegna viðvarandi höfuðverkja og svima. Þá var tekin tölvusneiðmynd (TS) af höfði sem sýndi hygroma báðum megin yfir frontal svæði og nokkurn bjúg í heila. Fengnar voru ráðleggingar taugaskurðlæknis sem ráðlagði verkjastillingu og kontrol mynd eftir viku. Kærandi lagðist inn á taugadeild X vegna sömu einkenna.

     

    Segulómun sýndi að hygroma var svipað að umfangi og áður og ekki talin ábending fyrir aðgerð nema einkennin myndu versna. Í nótu frá X sagði að kærandi hefði fallið í yfirlið eftir að heim var komið eftir aðgerð í X og skollið í vegg. Einnig komi fram í nótu læknis frá X að í X hefði hann farið fram úr rúmi um nótt og dottið inn á baðherbergi, fengið vægt höfuðhögg. Grunur vaknaði um að hygrom gæti verið afleiðing af ógreindum mænuvökvaleka sem orðið hafi við utanbasts deyfingu við aðgerð í X.

     

    1. Leki á mænuvökva?

    Kærandi upplýsti að hann hafi vaknað blautur á baki eina nóttina en ekkert hafi verið gert annað en skipta á rúminu. Gerð var þá segulómun af mænusvæði og sást ekki mænu-vökvaleki. Greining lækna síðar á taugadeild var hygrom af völdum lágþrýstings vegna mænuvökvaleka. Þar sem einkenni löguðust ekki var gripið til aðgerðar þann X eins og áður segir og tæmdir út 200 ml frá báðum heilahvelum gegnum borholu. Kærandi fór síðan á Grensásdeild til endurhæfingar.

     

    Yfirlæknir svæfinga segir að sjúklingur sé talinn hafa fengið ógreindan mænuvökvaleka við ísetningu utanbasts deyfingar fyrir aðgerð. Í framhaldi af áframhaldandi leka án dæmigerðra kliniskra einkenna um hann (stöðuhöfuðverkur) er talið að myndast hafi subdural blæðing sem langan tíma tók að greina. Yfirlæknir telur það hins vegar mæla gegn ofangreindri greiningu að ekki kom fram við lögn leggja neinn grunur um mænusekksástungu. Báðir leggir voru lagðir við fyrstu stungu. Dæmigerð einkenni mænuvökvaleka sé stöðuháður slæmur höfuðverkur, oft með svima og ógleði. Miðað við umfang hygromans mætti ætla að kærandi hefði haft höfuðverkjareinkenni strax eftir deyfingu ef um leka hefði verið að ræða. Eina sem hugsanlega bendi til leka sé að hann hafi vaknað blautur á baki eina nóttina. 

     

    1. Þættir sem ýta undir einkenni

    Sé það rétt að hér sé um að ræða hygroma af völdum mænuvökvaleka þá sé um afar sjaldgæfan fylgikvilla að ræða. Yfirlæknir benti jafnframt á að í sögunni kom fram að kærandi hafi fallið nokkrum sinnum í yfirlið og fengið höfuðhögg og því sé hugsanlegt að subdural blæðing hafi hlotist af slíkum höfuðhöggum. Hann hafi væga nýrnabilun og taki ónæmisbælandi lyf vegna lifrarígræðslu. Þessir tveir þættir hafi áhrif á storkukerfið og fall í heimahúsi eftir aðgerð ásamt vökvaskorti og salttruflunum, sem leiddu til innlagnar á meltingardeild LSH þann X., kunni að hafa verið meðvirkandi þættir í subdural blæðingu.

     

    Í gögnum máls þessa er gríðarmikið magn af nótum úr sögukerfi.  Þar kemur m.a. fram að andlegt atgervi hafi verið skert og sömuleiðis að kærandi hafi ekki verið fær um að meta ástand sitt og yfirleitt talið sig miklu betur á vegi staddur en hann í rauninni var. Fram kemur í einni nótunni að honum hafi verið boðið að koma í taugasálfræðilegt endurmat en talið enga þörf á því, hann væri kominn í fínt lag og færi að vinna þann X

     

    1. Atvik að mati kæranda

    Sótt er um bætur þar sem kærandi rekur meint sjúklingatryggingaratvik til þess þegar hann undirgekkst skurðaðgerð, brottnám hluta ristils þann X. Kveðst hann hafa verið óvinnufær síðan og oft fárveikur, inn og út af spítölum í marga mánuði. 

     

    Kærandi lýsir miklum höfuðverk, svefnhöfga, jafnvægisleysi og þvoglumælgi. Í margar vikur hafi hann verið mjög slæmur höfuðverkur og orðið að halda kyrru fyrir. Hugsun hafi verið óskýr, dómgreind skert, hann verið bæði sinnulaus og hvatvís. Þá er skammtímaminni lélegt, drifkraftur horfinn.  Jafnvægisskyn kæranda er að sögn slæmt, hann hafi þurft að láta leiða sig. Öll viðbrögð sú hæg og hefur hann ekki mátt aka bíl og því þurft aðstoð við flesta hluti. 

     

    Auk alvarlegra líkamlegra einkenna olli þetta ástand og öll biðin eftir greiningu andlegri vanlíðan, kvíða og leiða, einnig mikilli röskun á persónulegum högum. 

     

    Kærandi rekur einkenni sín til mænudeyfingar og mænuvökvaleka. Fékk hann heilablæðingar að hann telur vegna þrýstingsfalls í mænuvökva. Þessu fylgdu miklir höfuðverkir, svimi, ógleði, máttleysi og sjóntruflanir. Blæðingin greindist um miðjan X. Kærandi átelur að ekkert hafi verið gert, honum hafi verið sagt að þetta mundi lagast af sjálfu sér með tímanum. Eftir mikla baráttu kveðst hann hafa haft það fram að aðgerð var gerð (X) og blóðinu hleypt út.

     

    Kærandi lá á skurðdeildum Landspítalans, síðan í X – X á taugadeild LSH í Fossvogi en síðan á Grensásdeild í endurhæfingarmeðferð. Fram kemur að kærandi var ekki enn vinnufær þegar tjónstilkynning var fyllt út (1).

     

  4. Forsendur niðurstöðu
    1. Áskilnaður 2. gr. sjúklingatryggingalaga

    Í 1. mgr. 2. gr. sjúklingatryggingalaga nr. 111/2000 er gerð krafa um að tjón megi að öllum líkindum rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. þarf því tjón að öllum líkindum að vera rakið til sjúklingatryggingaratburðar. Við mat á því hvort heilsutjón fellur undir 1. tl. 2. gr. ber að líta til þess hvort ranglega hafi verið staðið að meðferð sjúklings. Þegar um vangreiningu eða ranga greiningu er að ræða hefur verið miðað við hvað gegn og skynsamur læknir hefði gert undir sömu kringumstæðum. Með orðalaginu „að öllum líkindum” er átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á að tjónið megi rekja til einhverra þessara atvika. Það er því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar eða rannsóknar sem hann gekkst undir.

     

    Gögn bera með sér að skoðun og meðferð hafi verið framkvæmd á hefðbundin og eðlilegan hátt. Yfirlæknir er ekki sannfærður um að mænuvökvaleki hafi orsakað þau einkenni sem umsækjandi varð fyrir (2), en ýmsir undirliggjandi þættir valdi því að subduralblæðing átti sér stað. Subdural blæðing og heilabjúgur voru líklegast talin tilkomin vegna lækkunar á mænuvökvaþrýstingi en leki var ekki staðfestur. Hér skal haft í huga að mörg atriði í fari sjúklings hafa áhrif á og ýta undir slíka blæðingu. Þá bendir yfirlæknir á að ekki hefði farið milli mála ef slíkur leki hefði verið til staðar, kærandi hefði haft einkenni sem bentu til þess. Hann hafi væga nýrnabilun og taki ónæmisbælandi lyf vegna lifrarígræðslu. Þessir tveir þættir hafi þau áhrif á storkukerfið. Fall í heimahúsi eftir aðgerð ásamt vökvaskorti og salttruflunum, sem leiddu til innlagnar á meltingardeild LSH þann X, kunni að hafa verið meðvirkandi þættir í subdural blæðingu, en fram kemur hjá kæranda að hann varð fyrir höfuðhöggi.

     

  5. Niðurstaða

 

Ekki er hægt að ráða það með óyggjandi hætti að kærandi hafi orðið fyrir mænuvökvaleka í aðgerð og legu í framhaldi af henni enda er ekkert um það skráð í gögnum. Þá benda einkenni ekki til þess að slíkur leki hafi verið til staðar að mati yfirlæknis. Kærandi var haldinn ýmsum kvillum og var með undirliggjandi þætti sem eru líkleg meðorsök eða orsakavaldur að þeim einkennum sem sótt er um bætur vegna.

 

Er það mat Sjúkratrygginga Íslands með vísan til ofangreinds að ekki liggi fyrir tjón sem að öllum líkindum megi rekja til meintrar vangreiningar eða rangrar meðhöndlunar. Ákvæði 2. gr. laganna gerir áskilnað um að meiri líkur en minni séu á að tjónsatburð sé að rekja til meðferðar sem ekki hafi verið hagað svo vel sem unnt var. Þau skilyrði teljast ekki uppfyllt, heldur telst orsakasamband að því leyti óljóst.

 

Með vísan til áskilnaðar 1. tl. um meiri líkur en minni telst atvik ekki falla undir þann tölulið. Þá er, með vísan til sömu raka, ekki unnt að fella atvik undir 4. tl. þar sem ekki er í ljós leitt að um sé að ræða fylgikvilla aðgerðar eða læknismeðferðar.

 

Ekki liggur fyrir rökstuðningur með kæru og tekur greinargerð þessi mið af því. SÍ áskilja sér rétt til þess að svara frekar komi athugasemdir eða ný gögn fram í máli þessu.

 

Að því sögðu er það mat SÍ að ekki liggi fyrir tjón sem að öllum líkindum megi rekja til meintrar vangreiningar eða rangrar meðhöndlunar enda hafi kærandi hlotið hefðbundna og eðlilega meðferð. Þá ítreka Sjúkratryggingar Íslands afstöðu sína í ákvörðun dags. 13. mars 2012.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi, dags. 31. júlí 2012, og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum eða athugasemdum. Þann 14. ágúst 2012 bárust úrskurðarnefnd svohljóðandi athugasemdir frá kæranda:

 

„a. Aðgerðin X

„Ekki var talað um það á eftirlitsblaði verkjameðferðar á deild né sérstöku eftirlitsblaði svæfingardeildar að kærandi hafi haft svima eða höfuðverk. Ekki komi heldur fram á ofnagreindum eftirlitsblöðum að leki hafi meðfram utanbastlegg“. Athugasemd: Ég veit ekkert um einhverjar skráningar en ég var með mikinn höfuðverk alveg frá því að ég vaknaði eftir aðgerð. Ég er þannig gerður að ég kvarta ekki mikið en ég talaði um þetta við mína unnustu og mína nánustu, en ég var mjög kvalinn fyrst á eftir aðgerðina og hélt að þetta ætti bara að vera svona. Ég minnist á þetta við starfsfólk, (sjúkraliða,lækna og hjúkrunarfræðinga) en ég veit ekkert hvort þetta var skráð.

 

„Ekki voru skráðar neinar kvartanir um svima eða höfuðverk á þessu tímabili (X – X ), hinsvegar viðvarandi ógleði“ Athugasemd: Ég var með mikinn höfuðverk á þessum tíma og eins og ég sagði hér áðan veit ég ekkert um skráningar en ég minntist á þetta við starfsfólk deildarinnar og mína fjölskyldu.

 

„Fékk hann vökvameðferð og útskrifaðist þann X við góða líðan“ Athugasemd: Mér leið ekki vel þegar ég kom heim. Var að mestu rúmliggjandi og þurfti hjálp við nánast allt. Hugsun óskýr, dómgreind skert og var ég sinnulaus og hvatvís. Jafnvægisskynið var ekkert og þurfti ég að styðja mig þegar ég gekk um. Mátti ekki aka bifreið og andlega vanlíðan á öllu leyti.

 

b. Umkvartanir um höfuðverk

 

„Í nótu frá X sagði að kærandi hefði fallið í yfirlið eftir að heim var komið eftir aðgerð í X og skollið á vegg. Einnig komi fram í nótu læknis frá X hefði hann farið fram úr rúmi um nótt og dottið inn í baðherbergi, fengið vægt höfuðhögg“ Athugasemd: Þetta er stór misskilningur. Það er marg ítrekað verið að minnast á þetta höfuðhögg. Ég féll aldrei á neinn vegg. Ég þurfti að fara á salernið eina nóttina og fékk mikinn svima þegar inn á bað var komið. Ég studdi mig við vegginn og datt síðan í góflið. Ég missti aldrei meðvitund og fór síðan aftur að sofa. Ég var einn heima svo það er engin til frásagnar um þetta nema ég. Ég vil ítreka það að ég skall aldrei á neinn vegg enda var ég ekki með neina áverka á höfði. Ég minntist á þetta þegar ég fór á slysadeild til að leggja áherslu á alvarleika málsins en það átti ekkert að gera fyrir mig þar, aðeins að láta mig taka verkjatöflur og senda mig heim.

 

„Dæmigerð einkenni mænuvökvaleka sé stöðuháður slæmur höfuðverkur oft með svima og ógleði. Miðað við umfang hygromans mætti ætla að kærandi hefði haft höfuðverkjareinkenni strax eftir deyfingu ef um leka hefði verið að ræða. Eina sem hugsanlega bendi til leka sé að hann hafi vaknað blautur á baki eina nóttina“ Ég var með mikinn höfuðverk og svima strax á eftir aðgerðina svo þetta er alrangt að fullyrða að ég hafi ekki haft neinn höfuðverk. Það er rétt að ég vaknaði blautur á baki eina nóttina.

 

c. Þættir sem ýta undir einkenni.

 

„Yfirlæknir benti jafnframt á að í sögunni kom fram að kærandi hafi fallið nokkrum sinnum í yfirlið og fengið höfuðhögg og því sé hugsanlegt að subdural blæðing hafi hlotist af slíkum höfuðhöggum“ Athugasemd: Þvílík þvæla og vitleysa. Ég féll aldrei í neitt yfirlið og fékk aldrei neitt höfuðhögg. Ég veit ekki hvernig yfirlæknirinn getur sagt svona að hafi „fallið nokkrum sinnum“. Ég fell einu sinni á gólfið og ég náði að styðja mið við vegginn og ég missti aldrei meðvitund, enda var ég ekki með neina áverka á höfði.

 

Í lokinn er sagt. „Fall í heimahúsi“ ........ Enn og aftur er verið að tala um einhvert fall. Ég ýtreka, ég fell á gólfið og náði að koma höndum mér til hjálpar þannig að ég féll í gólfið og missti aldrei meðvitund. Ég var einn heima því er engin til frásagnar nema ég. Eins og áður segir þá sagði ég starfsfólki slysadeildar frá þessu til að ítreka alvarleika málsins því það átti bara að senda mig heim og taka verkalyf.

 

Ég er algjörlega ósammála niðurstöðu SÍ. Ég var strax með mikinn höfuðverk eftir aðgerðina og leið mjög illa í langan tíma á eftir. Ég var ekki vinnufær í X sem sýnir hversu alvarlega ég var veikur“

 

Athugasemdir kæranda voru sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 14. ágúst 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, vegna tjóns í kjölfar aðgerðar þann X á Landspítala.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að kærandi telji að sjúkraskrá hans sé ekki rétt eða ónákvæm þar sem í hana vanti kvartanir hans um höfuðverk og nákvæmar lýsingar á því þegar hann telji sig hafa orðið varan við leka á mænuvökva. Hann telji óforsvaranlegt að draga það frá X þegar blæðing við heila hafi greinst með sneiðmynd til X þegar aðgerð hafi verði framkvæmd en fyrst eftir þann tíma hafi heilsa hans farið að skána. Fram kemur að hann hafi ekki getað hafið störf enn og bíði eftir niðurstöðu á taugasálfræðilegu mati og mati frá trúnaðarlækni á starfshæfi sínu. Þá telji kærandi bein orsakatengsl vera milli aðgerðar í X og einkenna hans og megi rekja það til lélegrar eftirfylgni og eftirlits af hálfu sjúkrahússins. Kærandi hafi verið mjög illa haldinn og líðan hans í engu samræmi við það sem reikna hafi mátt með eftir aðgerðina.

 

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að yfirlæknir sé ekki sannfærður um að mænuvökvaleki hafi orsakað einkenni kæranda en ýmsir undirliggjandi þættir hafi valdið því að subdural blæðing hafi átt sér stað. Subdural blæðing og heilabjúgur hafi líklegast verið tilkomin vegna lækkunar á mænuvökvaþrýstingi en leki hafi ekki verið staðfestur. Kærandi hafi verið haldinn ýmsum kvillum og með undirliggjandi þætti sem séu líkleg meðorsök eða orsakavaldur að þeim einkennum sem kærandi telur mega rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir tjón sem að öllum líkindum megi reka til meintrar vangreiningar eða rangrar meðhöndlunar enda hafi kærandi hlotið hefðbundna og eðlilega meðferð.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, eiga sjúklingar, sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem verða fyrir líkamlegu eða geðrænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkraflutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu landlæknis til starfans, rétt til bóta.

 

Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þeirra atvika sem getið er í 1.- 4. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.

 

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

 

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.   Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.   Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.   Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.  Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

 

Það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingarlögum að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir eða slysi sem sjúklingur verður fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Þannig skal bæta tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af t.d. rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Þessi lögskýringasjónarmið eru áréttuð í greinargerð með lögunum.

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem hún telur nægjanleg. Verður fyrst skoðað hvort bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt 1. tölulið 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Síðan 2. og 3. tölul. nefndrar 2. gr. og loks 4. tölulið greinarinnar.

 

Samkvæmt gögnum málsins gekkst kærandi undir ristilaðgerð þann X. Utanbastleggur hafði verið lagður til verkjastillingar fyrir aðgerð. Á fjórða degi eftir aðgerð var skipt um legg þar sem kærandi var ekki nægilega verkjastilltur. Kærandi útskrifaðist X en var lagður aftur inn þann X vegna vaxandi slappleika, svima, ógleði og lystarleysis. Kærandi var greindur með ofþornun og fékk vökvameðferð og var síðan útskrifaður þann X. Þann X leitaði kærandi á meltingardeild vegna tveggja vikna sögu um höfuðverk og voru honum gefin sýklalyf. Kærandi leitaði á bráðadeild X og sýndi tölvusneiðmynd af höfði hygroma báðum megin yfir frontal svæði og nokkurn bjúg í heila. Hann var lagður inn á taugadeild X og greindur af læknum á deildinni með hygromu af völdum lágþrýstings vegna mænuvökvaleka. Einkenni kæranda löguðust ekki og fór hann í aðgerð X þar sem tæmdur var vökvi frá báðum heilahvelum.

 

Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að samkvæmt gögnum málsins hafi meðferð kæranda verið hefðbundin og í fullu samræmi við þær aðferðir sem eru tíðkaðar í tilvikum sem þessum

og ekkert í gögnum málsins sem bendir til mistaka. Bótaskylda verður því ekki byggð á 1. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

 

Töluliðir 2 og 3 eiga ekki við um tilvik kæranda.

 

Þá skal loks vikið að skilyrðum þess hvort bótaskylda verði byggð á 4. tl. 2. gr. nefndra laga. Samkvæmt ákvæðinu skal greiða bætur ef tjón hlýst af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

 

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri af slíku tjóni.

 

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að meiri líkur en minni séu að kærandi hafi hlotið mænuvökvaleka í aðgerð þann X og að tjón kæranda megi rekja til þess. Nefndin telur að lekinn hafi verið sjaldgæfur fylgikvilli aðgerðar og að kærandi hafi ekki mátt gera ráð fyrir svo verulegum afleiðingum. Telur úrskurðarnefndin að fylgikvillinn séu meiri en svo að sanngjarnt sé að kærandi þoli það bótalaust. Hefur kærandi því orðið fyrir bótaskyldu tjóni, sbr. 4. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000. Eins og málið er upplýst liggur þó ekki nægilega fyrir hvert tjón kæranda er af þessum sökum og er málinu því vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni kæranda vegna sjúklingatryggingaratviksins.

 

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að bótaskylda í málinu sé viðurkennd. Málinu er vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Viðurkennd er bótaskylda í máli A, samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, vegna fylgikvilla aðgerðar sem hann gekkst undir á Landspítala háskólasjúkrahúsi. Málinu er heimvísað til frekari meðferðar hjá Sjúkratryggingum Íslands.

 

 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta