Hoppa yfir valmynd

Nr. 178/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 178/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030019

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 20. maí 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. mars 2021, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Nígeríu, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi, með úrskurði nr. 207/2021.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 25. maí 2021. Hinn 1. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 303/2021, dags. 24. júní 2021, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 20. ágúst 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Hinn 16. september 2021 var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar nr. 444/2021. Hinn 10. mars 2022 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að ákvörðun í máli sínu hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp. 

Í greinargerð kæranda kemur fram að í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, nr. 207/2021, hafi komið fram að samkynhneigð hjónabönd í Nígeríu hafi verið ólögleg frá árinu 2014. Þá komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kynlíf samkynja einstaklinga sé refsivert, en sú háttsemi geti varðað allt að 14 ára fangelsisvist.

Í greinargerð kæranda kemur fram að síðan úrskurður kærunefndar hafi fallið í máli kæranda hafi kærandi aflað fréttagreinar í dagblaðinu […] frá […]. Þar komi fram að hans sé leitað fyrir að hafa dregið son þekkts stjórnmálamanns á tálar. Enn fremur komi fram að æstur múgur hafi viljað kæranda feigan af þeim sökum en hafi fyrir mistök myrt bróður hans sem hafi verið ungur læknanemi. Kærandi telur fréttagreinina til þess fallna að varpa mun skýrara ljósi á trúverðugleika frásagnar hans, enda staðfesti hún tilvist […], […] og ofsókna sem kærandi hafi mátt þola. Af þeim sökum sé um að ræða grundvallargagn í máli kæranda og telur kærandi af þeim sökum ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að aðstæður hafi breyst verulega í máli hans frá því að ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi fréttagreinina einnig varpa ljósi á að hann eigi raunverulega á hættu að tapa lífi sínu snúi hann aftur til Nígeríu. Þrátt fyrir að í úrskurði kærunefndar segi að lögum um bann við samkynhneigð sé sjaldan framfylgt og að samkynhneigðir geti þurft að sæta hýðingu í stað dauðarefsingar sé raunin mun verri fyrir umsækjanda. Ekki sé eingöngu um að ræða möguleika á illri meðferð, snúi hann aftur til Nígeríu, heldur geti hann hreinlega gengið að því sem gefnu að finnist hann, verði hann myrtur. Líkt og sjáist á texta fréttagreinarinnar séu fordómar fyrir kynlífi samkynja einstaklinga miklir í Nígeríu og því geti hann ekki treyst á að nokkur komi honum til varnar, ofsæki hann hópur fólks eða reyni að myrða hann.

Kærandi telur að um sé að ræða atriði sem skipti miklu máli við úrlausn þessa máls. Nú sé full ástæða til að draga í efa þá niðurstöðu kærunefndar útlendingamála að kærandi þurfi ekki að óttast um líf sitt í heimaríki sínu, enda hafi frásögn hans frá upphafi átt sér stoð í hlutlægum gögnum um landaupplýsingar í Nígeríu. Líkt og segi í ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar sé spilling landlægt vandamál þar í landi, sama hvort litið sé til dómstóla, löggæslu eða stjórnsýslu landsins. Þá hafi einnig komið fram að fjármögnun í almennu heilbrigðiskerfi landsins sé verulega ábótavant. Af þeim sökum verði að þykja í hæsta máta ósanngjarnt að kærandi sé látinn bera hallann af því að gögn beri þess vott að þau hafi ekki verið fyllt út af „faglegum heilbrigðisstarfsmanni“, líkt og fram komi á blaðsíðu 15 í ákvörðun Útlendingastofnunar, eða að skráður fæðingardagur bróður hans hafi verið lagfærður. Kæranda þyki einsýnt að hann hafi fært fram slíkt magn gagna sem styðjist við hlutlægar upplýsingar um stöðu mála í Nígeríu að vilji íslensk stjórnvöld hafna röksemdafærslum hans verði að teljast sanngjarnast að slík höfnun byggi á efnislegum sjónarmiðum, ekki því einu að kærandi þyki ekki hafa sannað með fullnægjandi hætti að líf hans og fjölskyldu hans sé í hættu í heimaríki. Kærandi telur því rétt að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála rannsaki betur það sem ófullnægjandi þyki.

Þá byggir kærandi á því að ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd vísi í úrskurði sínum með almennum hætti til þess að eiginkona kæranda eigi þess kost að sækjast eftir aðstoð samtakanna NAPTIP og að ekkert standi því í vegi að kærandi og fjölskylda hans geti lifað öruggu lífi í Nígeríu. Kæranda þyki nægilega í ljós leitt að ástæða sé til að draga í efa þá mynd sem kærunefnd dragi af aðstæðum í Nígeríu og persónulegum aðstæðum kæranda og því séu aðstæður verulega breyttar í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi sýnt fram á að hátt settur aðili innan Nígeríu hafi krafist þess að lögregla leitaði hans fyrir að hafa narrað son hans, […], til ónáttúrulegra og refsiverðra athafna.

Auk framangreinds telur kærandi að kærunefnd hafi byggt úrskurð sinn á ófullnægjandi upplýsingum á grundvelli þess að ekki hafi verið nægilega í ljós leitt sannarlegt heilbrigðisástand kæranda. Kærunefnd vísi þannig til þess í úrskurði sínum að aðstæður kæranda hafi ekki verið sambærilegar aðstæðum aðila í ákvörðun Útlendingastofnunar nr. 2018-11754 þar sem aðili í því máli hafi verið samkynhneigður og með áfallastreituröskun. Í máli kæranda liggi ekki fyrir gögn um andlega heilsu hans, enda hafi hann ekki verið metinn af sérfræðingi og því sé ekki hægt að leggja til grundvallar að hann glími ekki við áfallastreituröskun eða annars konar andleg veikindi eftir allt sem yfir hann hafi dunið síðustu ár. Þá útiloki læknisfræðileg gögn ekki að kærandi glími við heilsubrest og að hann þurfi á læknisaðstoð að halda hér á landi, enda sé enn ekki ljóst af hvaða ástæðu kviðverkir hans hafi stafað þegar hann hafi þurft að leita á bráðamóttöku. Eðli málsins samkvæmt leiti fólk ekki á bráðamóttöku nema ástæða sé til og hvað þá þegar heimsfaraldur geisi og aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki sé skert. Kærandi telur Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála ekki hafa fullnægt rannsóknarskyldu sinni í þessu skyni, enda hafi verið full ástæða til að kanna betur heilsufarsástand kæranda og orsök kviðvandamála hans. Í ljósi alls framangreinds séu skýr og haldgóð rök fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli þessu þar sem hagsmunir kæranda og fjölskyldu hans séu í húfi. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin á fyrri stigum málsins. Kærunefnd útlendingamála beri að endurupptaka málið og kanna til hlítar framlögð gögn og hvaða áhrif þau kunni að hafa á niðurstöðu þess. Að mati kæranda beri að líta til þess að mál hafi verið endurupptekin hjá nefndinni af minna tilefni og gæta verði jafnræðis. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, hagsmunum þeim sem í húfi séu í málinu og hvernig hinar nýju upplýsingar kunni að breyta niðurstöðu málsins sé ljóst að mati kæranda að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 20. maí 2021, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Líkt og áður greinir lagði kærandi fram skjal hinn 10. mars 2022 samhliða beiðni sinni um endurupptöku sem hann kveður vera fréttagrein úr dagblaðinu […] frá […]. Þar kemur m.a. fram að kæranda sé leitað fyrir að hafa dregið son þekkts stjórnmálamanns á tálar. Af þeim sökum hafi æstur múgur viljað kæranda feigan en fyrir mistök hafi bróðir kæranda verið myrtur. Kærandi telur hið nýja gagn hafa þá þýðingu að aðstæður teljist hafa breyst verulega í máli hans frá því að ákvörðun hafi verið tekin í máli hans, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Eftir skoðun á skjalinu var það mat kærunefndar að skjalið væri ótrúverðugt, einkum vegna ritháttar greinarinnar og í ljósi þess að hún var merkt „ný“ á vefsíðu dagblaðsins þrátt fyrir að vera dagsett […]. Hinn 10. mars 2022 var kæranda veitt færi á að leggja fram andmæli við mati kærunefndar og veita skýringar á þeim þáttum er taldir voru draga úr trúverðugleika skjalsins. Hinn 15. mars 2022 barst svar frá kæranda þar sem hann mótmælti mati kærunefndar, m.a. með vísan til þess að ekki væri búið að hnekkja greininni með rannsóknarskýrslu og af þeim sökum ætti skjalið að vera metið trúverðugt þar til annað kæmi í ljós. Kvað kærandi bróður sinn hafa fengið aðstoð frá vini sínum við að hafa uppi á fréttagreininni.

Í ljósi framangreinds óskaði kærunefnd eftir því hinn 16. mars 2022 að fram færi rannsókn á skjalinu. Hinn 10. apríl s.á. barst kærunefnd rannsóknarskýrsla lögreglu þar sem fram kemur að líklegt þyki að greinin væri fölsuð. Samkvæmt skýrslunni hafði vökva eða efni verið makað á pappírinn í þeim tilgangi að lita hann, en það virðist hafa verið gert til að ljá pappírnum gamalt útlit. Þá séu nokkrir gallar í prentverkinu, auk þess sem það vanti bil á eftir kommu á nokkrum stöðum ólíkt því sem gildi um texta í öðrum greinum. Textinn sé ritaður á bágborinni ensku og víki að því leyti frá öðrum texta á síðunni. Textinn sé endurtekningasamur og virðist byggður á framburði aðila tengdum þeim er sagður er hafa verið myrtur. Þá komi fram að einstaklingur hafi verið myrtur „[…]“ en dagsetning ekki tilgreind nánar. Grunsamlegt sé að mati lögreglu að á vefsíðu dagblaðsins sé greinin um kæranda sú eina frá […] sem sé aðgengileg. Alls séu fimm fréttir vistaðar undir ártalinu 2008 á vefsíðunni. Þá fjalli fréttirnar iðulega um nafngreinda einstaklinga sem hafi ástæðu til að óttast um líf sitt vegna ofsókna eða hótana af einhverju tagi. Að mati lögreglu þyki líklegt að þetta tengist skipulögðu svindli. Skjalið sé að öllum líkindum ekki hluti upprunalegs og ósvikins dagblaðs, þó ekki þyki útilokað að greininni hafi verið skeytt við upprunalega dagblaðið.

Hinn 11. apríl 2022 var kæranda sent afrit af rannsóknarskýrslunni og honum tilkynnt að skjalið yrði ekki lagt til grundvallar við úrlausn máls hans hjá kærunefnd. Þá var kæranda jafnframt veitt tækifæri til að bera fram andmæli. Í tölvubréfi til kærunefndar, dags. 17. apríl 2022, kom fram að kærandi hafi þegar gert grein fyrir því hvernig hann hafi fengið dagblaðið afhent. Að öðru leyti kvaðst kærandi mótmæla niðurstöðu skýrslunnar, enda teldi hann dagblaðið vera ófalsað. Auk þess hafi kærandi lagt dagblaðið fram í góðri trú.

Með tilliti til rannsóknarskýrslu lögreglunnar þar sem fram kemur að um falsað skjal sé að ræða og trúverðugleika kæranda er það mat kærunefndar að umrætt skjal hafi ekki sönnunargildi og verður það ekki lagt til grundvallar í málinu.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi glímdi m.a. við kviðverki og var lagt til grundvallar í úrskurði nefndarinnar, dags. 6. maí 2021, að hann væri í læknismeðferð hér á landi. Þá óskaði kærunefnd m.a. eftir öllum heilsufarsögnum kæranda og fjölskyldu hans sem til höfðu komið eftir að ákvarðanir Útlendingastofnunar lágu fyrir í máli þeirra. Í ljósi þeirra gagna sem lágu fyrir við meðferð málsins var það mat kærunefndar að sú meðferð sem kærandi þarfnaðist yrði hvorki talin vera svo sérhæfð að hann gæti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir hann. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem benda til þess að framangreint mat kærunefndar sé rangt eða að kæranda standi ekki til boða heilbrigðisþjónusta í heimaríki sínu. Líkt og fram kom í úrskurði kærunefndar frá 6. maí 2021 er öllum ríkisborgurum Nígeríu tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu og er það mat kærunefndar að kærandi muni hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og lyfjum þar í landi.

Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hans upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Endurupptökubeiðni kæranda er, sem fyrr segir, einnig byggð á því að ákvörðun í máli hans og maka hans hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum. Þá er á því byggt að kærunefnd hafi endurupptekið mál við minna tilefni, en nefndinni beri að gæta jafnræðis. Framangreindar málsástæður eru hvorki rökstuddar né studdar neinum gögnum og er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þær.

Samantekt

Með vísan til alls framangreinds er beiðni kæranda um endurupptöku málsins hafnað.

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta