Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 1/2016, úskurður 22. febrúar 2017

Ár 2017, miðvikudaginn 22. febrúar er í Matsnefnd eignarnámsbóta, samkvæmt lögum nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið nr. 1/2016.

Landsnet hf.
gegn
Finni Sigfúsi Illugasyni
 og
 Kristínu Þ. Sverrisdóttur

 og í því kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Eignarnemi er Landsnet hf., kt. 580804-2410, Gylfaflöt 9, 112 Reykjavík.  Eignarnámsþolar eru þinglýstir eigendur um 11,46% óskipts lands jarðarinnar Reykjahlíðar:

1)         Finnur Sigfús Illugason, kt. 261148-7819, vegna 50% eignarhluta í jörðinni Bjarg landnr. 153542, og þar af leiðandi um 6,25% í óskiptu landi Reykjahlíðar, 

2)         Kristín Þ. Sverrisdóttir, kt. 061259-3849, vegna 25% eignarhluta í jörðinni Víðihlíð landnr. 153612, og þar af leiðandi um 1,56% í óskiptu landi Reykjahlíðar,

 

MÁLSMEÐFERÐ NEFNDARINNAR

Með bréfi, dagsettu 17. október 2016, fór eignarnemi með vísan til eignarnámsheimildar, dagsettrrar 14. október 2016, svo og með vísan til 4. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta, að hún meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og hæfilegt endurgjald vegna kostnaðar þeirra við matið, sbr. niðurlag 11. gr. laganna. Framkvæmdin og matið varði 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, sem lagðar verði um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar, líkt og í eignarnámsheimild greinir. Með bréfi dagsettu sama dag beiddist eignarnemi þess með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 og laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, að honum yrðu fengin umráð lands undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti   vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða á því svæði sem eignarnámið beinist að, en með ákvörðun Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytisins hinn 14. október 2016, var Landsneti hf. heimilað, með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að framkvæma eignarnám í óskiptum réttindum vegna 11,46% eignarhluta í landi jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi.

Með úskurði nefndarinnar hinn 3. nóvember 2016 heimilaði matsnefndin umráðatöku í óskiptu landi Reykjahlíðar, Skútustaðahreppi, á landi undir 10.100 metra langt og að jafnaði 47 metra breitt háspennulínubelti vegna framkvæmdarinnar Kröflulína 4, 220 kV háspennulína, ásamt 35 möstrum (6 fastmöstrum og 29 burðarmöstrum), auk samtals 10.100 metra langra og 6 metra breiðra nýrra vegslóða gegn tryggingu að fjárhæð fimm milljónir króna.

Eignarnema var veittur frestur til greinargerðar um kröfu hans um mat á eignarnámsbótum. Greinargerð eignarnema barst nefndinn 1. desember 2016 og greinargerð eignarnámsþola barst nefndinni 4. janúar 2017.

Lögmenn aðila fluttu síðan fram sjónarmið sín varðandi frestun málsins og ákvörðun bóta hinn 7. febrúar sl.

MÁLSATVIK

Hinn 14. október 2016 veitti Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytið eignarnema heimild með vísan til 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003 til þess að framkvæma eignarnám vegna lagningar háspennulína (Kröflulínu 4 og 5). Fyrirhugaðar háspennulínur munu liggja um land jarðarinnar Reykjahlíðar.

Eignarnámið er heimilað til ótímabundinna afnota fyrir Landsnet hf. Eftirfarandi kvöð hafi verið þinglýst á jarðirnar Bjarg, landnr. 153542 og Víðihlíð, landnr. 153612, að teknu tilliti til fjölda burðarmastra:

1. Landsneti hf., kt. 580804-2410, er heimilt að leggja um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar tvær 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, ásamt því að reisa 72 stauravirki í landinu til að bera línurnar uppi, nánar tiltekið 60 burðarmöstur og 12 hornmöstur, sbr. meðfylgjandi yfirlitskort, fylgiskjal 1 frá eignarnámsbeiðanda. Skal Landsnet hf. jafna allt jarðrask að loknum framkvæmdum og sá í gróðursár. Verða mannvirki þessi óskoruð eign Landsnets hf. eða annars þess aðila sem fyrirtækið framselur rétt sinn til.

2. Línulögn þessari fylgir sú kvöð, í samræmi við ákvæði reglugerðar um raforkuvirki nr. 678/2009, sbr. og 13. gr. laga um öryggi raforkuvirkja o.fl., nr. 146/1996, bæði með áorðnum breytingum, að óheimilt verður að koma fyrir mannvirkjum á belti, sem er að jafnaði 99,2 metra breitt undir og við línurnar. Landsnet hf. eða þeir, sem það felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum og rafmagnslínu í landi jarðarinnar, bæði að því er varðar byggingarframkvæmdir, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar. Landsneti hf. er heimilt en ekki skylt í þessu skyni, að leggja samtals 10.833 metra langa vegslóða að línunum og meðfram þeim og halda slóðunum við eftir því sem þörf krefur að mati Landsnets hf. en ber enga skyldu til þess. Landsnet hf. gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti við að landeigandi nýti slóðina og skrái hana sem sinn einkaveg, enda sé Landsneti hf. ávallt tryggður óheftur aðgangur og umferðarréttur, sbr. 3. gr. hér að neðan. Ef vegslóðanum er lokað af landeigendum skal Landsneti tryggður framangreindur afnota- og umferðarréttur með afhendingu lykils að þeim lokunarbúnaði.

3. Mega mannvirki þau sem yfirlýsing þessi tekur til standa í landinu ótímabundið og óátalið af eigendum og ábúendum jarðarinnar. Landsnet hf. eða þeir, sem fyrirtækið felur slík störf, skulu hafa óhindraðan aðgang að helgunarsvæði rafmagnslínanna í landi jarðarinnar, bæði vegna byggingarframkvæmda, sem og vegna viðhalds, eftirlits og endurnýjunar síðar. Ákveði Landsnet hf. að hætta rekstri Kröflulínu 4 og 5 að fullu og öllu og rífa mannvirkin og fjarlægja, skal það gert án kostnaðar fyrir landeigendur. Skal landinu þá skilað til baka með snyrtilegum frágangi er tekur mið af næsta umhverfi hins raskaða svæðis eins og kostur er.

KRÖFUR AÐILA

Eignarnemi krefst þess að nefndin meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola í máli þessu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og hæfilegt endurgjald vegna kostnaðar þeirra, sbr. niðurlag 11. gr. laganna. Framkvæmdin og matið varði tvær 220 kV háspennulínur, Kröflulínu 4 og 5, sem lagðar verða um óskipt land jarðarinnar Reykjahlíðar, líkt og í eignarnámsheimild greini. Vísar hann til eignarnámsheimildar, frá 14. október 2016, svo og til 4. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

Eignarnámsþolar krefjast þess aðallega að máli þessu verði frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum.

Verði ekki fallist á kröfur eignarnámsþola um frestun málsins eru gerð krafa til að bætur verði metnar hærri en það endurgjald sem eignarnemi hefur boðið eignarnámsþolum sem miðast við kr. 350.000 fyrir hvern hektara lands, sem fyrir áhrifum verður af eignarnáminu, en eignarnámsþolar skilja beiðni eignarnema um mat á bótum vegna eignarnáms, skjal nr. 1, þannig að gerð sé krafa til að við þá fjárhæð verði miðað enda er hvorki í þeirri beiðni né í greinargerð, skjal nr. 34, gerð krafa til að bætur nemi tiltekinni annarri lægri fjárhæð. Í þessu ljósi telja eignarnámsþolar að umfjöllun eignarnema með almennum orðum um að hann telji að eignarnámsþolum beri mjög hóflegar eignarnámsbætur og að þær eigi að vera „mun lægri en þær bætur fyrir landsréttindi sem þeim var boðið í samningaviðræðum og sameigendur þeirra gegnu að“, hafi enga þýðingu.

Verði ekki fallist á að eignarnámsþolum beri hærri bætur en miðað við 350.000 krónur fyrir hvern hektara lands, sem verður fyrir áhrifum af eignarnáminu, þá er til vara gerð krafa um að við þá fjárhæð verði miðað.

Þá er krafist máskostnaðar úr hendi eignarnema fyrir þennan þátt málsins að skaðlausu eftir tímaskráningaryfirliti lögmanns eignarnámsþola sem lagt er fram.

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA UM ÁKVÖRÐUN BÓTA

Eignarnemi tekur fram að við matið beri líta til almennra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta. Eignarnemi telur að markaðsverð þess lands sem hér um ræðir sé mjög lágt. Ef markaðsverð sé ekki talið vera til staðar sé einnig á það bent að telja verði notagildi þess lands sem meta skal mjög lítið fyrir eignarnámsþola. Þannig telur eignarnemi að hvort sem notaður sé mælikvarði um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni sé niðurstaðan ávallt sú að eignarnámsþolum beri mjög hóflegar eignarnámsbætur sem séu mun lægri en þær bætur fyrir landsréttindi sem þeim hafi verið boðnar í samningaviðræðum og 92,19% sameigenda þeirra hafi gengið að.

Eignarnemi telur allt hið eignarnumda landsvæði vera jafnverðmætt.

Áréttað er að eignarnemi hafi náð samningum við 98% landeigenda á línuleiðinni um þau landsréttindi sem þörf sé á, þegar litið sé til heildarlengdar hápennulínunnar að Bakka. Hafi öllum landeigendum á línuleiðinni verið boðin sama fjárhæð, þ.e.a.s. grunnverð að fjárhæð 350.000 krónur fyrir hvern hektara lands. Sé það boð hagstætt landeigendum Reykjahlíðar þar sem land jarðarinnar liggi hæst yfir sjávarmáli af því svæði sem leið línunnar liggi um.

Í október 2014 og júní 2015 hafi náðst samningar við eigendur 87,76% réttinda í óskiptu landi Reykjahlíðar og við alla aðra landeigendur frá Kröflu til Bakka við Húsavík. Eftir áskorun ráðuneytisins í ágúst 2016 hafi eignarnemi gert lokatilraun til að ná samningum, ef þess væri nokkur kostur, svo komast mætti hjá eignarnámi. Í því skyni hafi, til viðbótar við þær bætur fyrir landsréttindi sem þegar höfðu verið boðnar fram, lagt fram tilboð um eingreiðslu til hvers og eins landeigenda, óháð eignarhlutdeild, að fjárhæð 150.000 krónur vegna samningagerðar. Hafi eignarnámsþolum því verið boðnar eftirfarandi greiðslur sem bætur fyrir landsréttindi:

  • Sigfús Finnur Illugason samtals kr. 1.868.688 (kr. 1.718.688 + kr. 150.000).
  • Sólveig Illugadóttir samtals kr. 1.010.719 (kr. 860.719 + kr. 150.000).
  • Kristín Þ. Sverrisdóttir samtals kr. 578.985 (kr. 428.985 + kr. 150.000).
  • Héðinn Sverrisson samtals kr. 292.995 (kr. 142.995 + kr. 150.000).

Þessu tilboði hafi verið hafnað með aðgerðaleysi eignarnámsþola. Hins vegar hafi þrír aðrir eignarnámsþolar tekið þessu tilboði og eignarnámsbeiðni hvað þá varðar dregin til baka hinn 19. ágúst 2016. Þá hafi eignanámsþolarni Sólveig Illugadóttir og Héðinn Sverrisson tekið tilboði eignanema svo sem fram komi í bréfi lögmanns eignanema til nefndarinnar 29. desember 2016. Samtals hafi eignarhlutdeild þeirra í hinni óskiptu sameign Reykjahlíðar numið 0,78 + 7,81%.

Allir landeigendur að óskiptu landi Reykjahlíðar eigi sömu hagsmuna að gæta og engin rök standi til þess að eignarnámsþolum séu greiddar hærri bætur en öðrum. Landgæði til landbúnaðarnota í hefðbundnum skilningi séu ekki meiri í óskiptu landi Reykjahlíðar en annars staðar á línuleiðinni og oft á tíðum minni. Landið liggi hæst yfir sjávarmáli og sé dæmigert afréttarland, fjarri almennum samgöngum og stofnveitum.

Eignarnemi telji að engin sjónarmið um sérstakar bætur, umfram þær bætur sem boðnar hafa verið fram, eigi við í máli þessu, enda sé framkvæmdin á afréttarlandi sem ekki verði fyrir sérstakri verðrýrnun vegna framkvæmdanna. Ekki verði séð að framkvæmdin hamli neinum notum af landinu. Í þessu sambandi sé minnt á að einvörðungu beri að meta bætur fyrir það beina fjártjón sem eignarnámsþoli verði fyrir.

Af hálfu eignarnema er byggt á almennum eignarréttarreglum, fyrst og fremst þeim sjónarmiðum sem gilda um eignarnám. Í íslenskum lögum sé ekki að finna almennar reglur um það hvernig meta skuli verðmæti eigna sem teknar eru eignarnámi en um framkvæmd eignarnáms gildi lög nr. 11/1973. Í löggjöf megi þó finna ýmis ákvæði um sjónarmið sem hafa ber í huga varðandi fjárhæð eignarnámsbóta við eignarnám, svo sem 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, 140. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, 5. mgr. 23. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sbr. og til hliðsjónar 3. mgr. 30. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998.

Við ákvörðun bóta vegna eignarnáms hafi einkum þrenns konar sjónarmið komið til álita, þ.e.a.s. söluverð, notagildi og enduröflunarkostnaður á útvegun sambærilegrar eignar. Að mati eignarnema eigi sjónarmið um enduröflunarkostnað ekki við í þessu máli.

Við bótaákvörðun sé það meginregla að eignarnámsþoli geti krafist þess verðs sem ætla má að fengist fyrir eign við frjálsa sölu á markaði. Markaðsvirði ráðist að jafnaði af þeim notum eða arði sem hafa megi af eign. Í þeim tilvikum sem markaðsvirðið endurspegli ekki þau not (arð) sem hafa megi af viðkomandi eign eða eignin gangi hreinlega ekki kaupum eða sölu, sé eignarnámsþoli talinn eiga rétt á bótum á grundvelli þeirra nota sem hafa megi af eigninni.

Eignarnemi telur að markaðsverð þess lands sem meta skal sé mjög lágt. Ef það sé ekki til staðar sé á það bent að telja verði notagildi þess lands sem meta skal fyrir eignarnámsþola takmarkað. Þannig telur eignarnemi að hvort sem notaður sé mælikvarði um markaðsvirði eða not eignarnámsþola af eigninni sé niðurstaðan ávallt sú að eignarnámsþolum beri mjög lágar bætur. Er vísað til vettvangsgöngu sem fram fór hinn 27. október 2016 því til staðfestingar, um sé að ræða afréttarland hátt yfir sjávarmáli og séu landgæði í samræmi við það, en hluti sé hraun.

Um framkvæmd eignarnema og skyldur hans að lögum gildi ákvæði raforkulaga nr. 65/2003, sérstaklega 1. gr. laganna og III. kafli. Orkuflutningar teljist til mikilvægra innviða þjóðfélagsins og að baki framkvæmdinni hvíli ríkir almannahagsmunir. Þá beri að geta þess að í eignarnámsheimild sé einvörðungu gert ráð fyrir ótímabundnum afnotarétti en ekki beinum eignarrétti eignarnema. Þannig hafi eignarnámsþolar full umráðaréttindi yfir landi sínu, en verði þó að hlíta þeim kvöðum sem gilda vegna helgunarsvæðis háspennulínanna.

Orðalag 72. gr. stjórnarskrárinnar að „fullt verð“ komi fyrir eign sem tekin er eignarnámi vísi til réttarstöðu eignarnámsþola en ekki eignarnema. Meta þurfi fjárhagslegt og raunverulegt tjón eignarnámsþola út frá almennum skaðabótareglum og hlutlægum grundvelli. Ófjárhagslegt tjón, líkt og miskabætur, séu ekki andlag mats.

Þegar metin eru verðmæti hinna eignarnumdu réttinda verði almennt að hafa til hliðsjónar þau not sem matsþoli hefur af eigninni. Í íslenskum rétti hafi verið talið að bætur beri að miða við tjón eignarnámsþola en ekki þann hagnað sem eignarnemi kunni að öðlast. Þannig eigi bætur til matsþola að miðast við sannanlega og eðlilega notkun hans af eigninni nú.

 

Matsnefnd eignarnámsbóta hafi í tvo áratugi fylgt þeirri reglu við ákvörðun eignarnámsbóta vegna háspennulína að meta til fulls miðað við metið hektaraverð viðkomandi áhrifasvæðis, það landsvæði sem fer undir möstur og slóða en kvöð vegna byggingarbanns sem hlutfall af því. Meginkvöðin sé vegna þessa byggingarbanns, sem nái til svæðis undir þeim þremur háspennuleiðurum á milli tveggja mastra sem bera þá uppi.

Þær framkvæmdir sem hér er vitnað til séu fyrst og fremst framkvæmdir við Búrfellslínu 3, sem fram hafi farið skömmu fyrir síðustu aldamót, framkvæmdir við Sultartangalínu 3 á árunum 2003-2004, en báðar þessar háspennulínur liggja frá Þjórsár- Tungnaársvæði og til Höfuðborgarsvæðisins, og framkvæmdir við Fljótsdalslínur 3 og 4, sem liggja frá Fljótsdalsstöð og að álveri Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Allar þessar háspennulínur hafi verið reistar fyrir flutningsgetu á 420 kV spennu og séu því stærstu háspennulínur á landinu.

Matsnefnd eignarnámsbóta hafi kveðið upp úrskurði í málum nr. 2-9/2014 hinn 30. júlí 2015, en þeir hafi varðað svonefndar Suðurnesjalínu 2 og Kolviðarhólslínu 2. Sé í úrskurðum matsnefndarinnar byggt á sömu aðferðum og að framan er getið en því til viðbótar hafi í þeim málum verið ákveðið að á 400 metra belti breiðu belti, 200 metra til hvorrar handar frá miðlínu að frádregnu byggingarbannssvæði, hafi komið til verðrýrnun á landi sem matsnefndin taldi að meta bæri með 10% af fullu verði. Að mati eignarnema sé hér um mjög íþyngjandi reglu að ræða sem aðeins geti átt við ef um augljóst markaðssvæði sé að ræða og þá helst fyrir mögulega íbúðabyggð í náinni framtíð eða einhver augljós not sem eignarnámsþolar kynnu ella að geta haft af eigninni. Ella er hætta á því að bótagreiðslur verði það háar að þær fari upp fyrir það mark sem 72. gr. stjórnarskrár kveður á um, þ.e.a.s. fullar bætur. Þá geri beiting þessarar reglu þær kröfur til matsnefndar að það hektaraverð sem miðað er við sé í fullu samræmi við það sem raunverulega megi ætla. Í þessu máli verði að telja líklegt að hektaraverð það sem boðið hafi verið í samningaviðræðum við landeigendur hafi verið hátt og í raun falið í sér bætur fyrir meira en bara kvöðina sem slíka og áhrif hennar. Verði að líta til þess að mati eignarnema.

Því telur eignarnemi að eignarnámsbætur eigi einvörðungu að miðast við áhrif byggingarbannskvaðarinnar og að hektaraverð eigi að vera mun lægra en það verð sem samið hafi verið um við aðra landeigendur á línuleiðinni.

Kröflulína 4 og 5 og Þeistareykjalína 1 séu reistar fyrir flutning á 220 kV spennu. Sé masturgerð sú sem notuð er svonefnd röramöstur og landnot undir mastur verulega minni en í 420 kV háspennulínum, sbr. mynd af masturgerð á skj. nr. 44-46.

Hvað varði byggingarbann og línuhaf sem sé á milli mastra sé ljóst að eignarnámsþolum séu ekki meinuð öll afnot landsins en þau megi ekki fara í bága við þær kvaðir sem háspennulínunum fylgi. Vegna þessa hafi verið talið rétt að leggja til grundvallar að bætur séu reiknaðar þannig að þær nemi 2/3 hlutum hektaraverðs fyrir land sem sé kvaðasett vegna byggingarbanns. Við ákvörðun bóta vegna Fljótsdalslínu 3 og 4, þar sem línurnar hafi á löngum köflum farið um fjalllendi og óbyggð svæði, hafi matsnefndin lagt til grundvallar að á slíkum svæðum væru bætur miðaðar við ½ hektaraverð. Í tilboði eignarnema til eignarnámsþola hafi verið miðað við að fyrir helgunarsvæði væri greidd fjárhæð er næmi 2/3 hlutum þeirrar fjárhæðar sem lögð hafi verið til grundvallar sem hektaraverð.

Eignarnemi telur að fylgja beri eldri fordæmum um endurgjald fyrir afnotaréttindi og kvaðir vegna háspennulína í flutningskerfi eignarnema, að teknu tilliti til minna umfangs Kröflulínu 4 og 5. Þó telur eigarnemi að við matið eigi að taka til skoðunar, sökum legu lands eignarnámsþola og lítilla landnota, hvort frekar eigi að miða við hina lægri hlutfallsreglu eða ½ hektarverðs, þegar bætur vegna byggingarbanns eru metnar.

Komi fram krafa af hálfu eignarnámsþola um frekari bætur en sem hér hefur verið lýst, þá er þeim hafnað af hálfu eignarnema, m.a. hugsanlegum kröfum um bætur vegna frekara verðfalls á fasteign.

Eignarnemi vísar frekar um þennan þátt til dóms Hæstaréttar í máli nr. 404/2009, sem kveðinn var upp hinn 25. mars 2010 og dóms Hæstaréttar í máli nr. 18/1995, sem kveðinn var upp hinn 16. janúar 1997.

Heildaráhrif á hina óskiptu jörð, Reykjahlíð, af framkvæmdinni megi sjá af tilboðsyfirliti, dagsettu 6. október 2014, samþykktu af Landeigendum Reykjahlíðar ehf. með fyrirvara um samþykki þinglýstra eigenda og yfirlitskorti á matsskjali 39.

Eignarnámið nái til Kröfulínu 4 og 5, sem báðar séu 220 kV háspennulínur. Samanlögð lengd línanna tveggja sé 19.245 m samtals (vegalengd hinna tveggja samhliða lína er um 10 km.) og byggingarbann að jafnaði 99,2 m. Helgunarsvæði línanna sé 95,5 ha sem að mati eignarnema ættu að bætast með ½ hektaraverðs sem lagt sé til grundvallar en að hámarki 2/3 hluta þess. Þá séu ráðgerð 12 hornmöstur í línunum báðum og fari 1,92 ha undir þau að fullu. Burðarmöstur séu ráðgerð 60 samtals í báðum línum og fari 6,3 ha lands að fullu undir þau. Þá séu nýir slóðar, 6 m að breidd, að heildarlengd 10.833 m, ráðgerðir og fari að fullu 6,5 ha undir þá. Þannig fari samtals 14,72 ha lands undir full not eignarnema sem bæta beri með fullu því hektaraverði sem lagt verði til grundvallar. Bent sé þó á að slóð verði landeigendum til ráðstöfunar og hafi þeir heimild eignarnema til að loka henni, enda sé umferðarréttur eignarnema ávallt tryggður.

Eignarnemi hafi náð samningum við mikinn meirihluta landeigenda hins óskipta lands Reykjahlíðar um framkvæmdirnar Kröflulínu 4 og 5, auk allra annarra landeigenda á framkvæmdasvæði Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1. Eignarnámið feli í sér kvöð, óbein eignarréttindi, sem í engu skerði möguleika landeigenda til nýtingar fasteignar sinnar, m.a. orkunýtingar eins og félagið Landeigendur Reykjahlíðar ehf., sem allir þinglýstir eigendur jarðarinnar eigi eignarhlut í, hafi stefnt að. Telja verði í ljósi núverandi landnýtingar hins eignarnumda lands að landið sé mjög verðlítið. Þá verði að minna á að eignarnámsþolar fari ekki með óskorað ráðstöfunarvald hins eignarnumda svæðis, heldur sé það allt í óskiptri sameign eins og gerð sé grein fyrir hér að framan.

Eignarnemi tekur fram að líta megi til máls nr. 4/2008 fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, er vörðuðu framkvæmdir Vegagerðarinnar við Dettifossveg í óskiptu landi Reykjahlíðar. Í því máli hafi verið lagt til grundvallar að hektaraverð væri 111.460 kr. per. ha., sbr. skj. nr. 43. Telur eignarnemi að í þessu máli hafi niðurstaða í máli matsnefndar nr. 4/2008 fullt fordæmisgildi.

Hinn 27. apríl 2015 hafi Sparisjóður Suður-Þingeyinga afsalað til Finns Sigfúsar Illugasonar, sem í hópi eignarnámsþola eigi stærstan hluta í hinni óskiptu sameign, 25% eignarhluta í jörðinni Bjarg, landnr. 153542, en áður hefði verið samið við fyrri eiganda um kvöð vegna Kröflulínu 4 og 5 að því sem nemi þessum 25% eignarhlut. Í afsali komi fram að umsamið kaupverð sé að fullu greitt en kaupsamningi mun ekki hafa verið þinglýst, sbr. skj. nr. 40. Er skorað á eignarnámsþola að leggja fram kaupsamning eða upplýsa með öðrum sannanlegum hætti um kaupverð.

Þá vísar eignarnemi til þess að gerður hafi verið samningur hinn 5. maí 2015 um sölu á jörðinni Einarsstaðir í Reykjahverfi, sbr. skj. nr. 41. Einarsstaðir séu 1/3 hluti af óskiptu landi jarðarinnar Skörð, sem teljist nú 1/3 hluti torfunnar og að lokum sé jörðin Skarðaborg 1/3 hluti torfunnar. Samið hafi verið af hálfu Landsnets við eigendur Skarða, Skarðaborgar og Einarsstaða um bætur er numið hafi 350.000 krónum á ha. að grunnverði, líkt og við aðra landeigendur á leið Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1. Kaupin hafi gerst eftir að samið hafði verið um bætur vegna framkvæmdanna. Jörðin Skörð sé ekki minni en 5.200 ha, sbr. skj. nr. 42, sem sé viðtal við Sigurð Ágústsson, bónda á Skarðaborg, sem birst hafi í Bændablaðinu haustið 2015. Kaupverð fyrir Einarsstaði með einbýlishúsi frá 1985, ræktun á 35,5 ha. auk hlöðu og fjárhúsa frá 1977 og 1978 hafi verið 40.700.000 krónur. Ef þeirri fjárhæð sé deilt í þriðjung 5.200 ha eða 1.773 ha fáist hektaraverðið 23.485 krónur. Eignarnemi telur þetta nýlega dæmi lýsa vel markaðsverði og um leið hversu ríflegar þær bætur hafi verið sem hann hafi greitt landeigendum. Ljóst sé að ekki sé unnt að leggja það verð til grundvallar ákvörðunar eignarnámsbóta heldur hljóti matið að vera mun lægra en sú fjárhæð sem notuð hafi verið í samningum við landeigendur.

Á matsskjali nr. 43 sé samantekt um ásett verð á nokkrum jörðum á norðausturhorni landsins. Þannig má benda á að hektaraverð á þeim hluta jarðarinnar Grímsstaða sem er til sölu er 34.211 kr. Liggur jörðin að óskiptu landi Reykjahlíðar, austan Jökulsár á Fjöllum.

Eignarnemi telur allt hið eignarnumda landsvæði vera jafnverðmætt en áskilur sér frekari umfjöllun um mismunandi verðmæti lands innan hins eignarnumda hluta jarðarinnar ef greinargerð eignarnámsþola kallar á slíka umfjöllun.

Þau dæmi sem hér eru nefnd að framan gefa vísbendingu að land sem er að öllu leyti sambærilegt við land eignarnámsþola, sé að markaðsvirði um 50-100 þús. kr. per. hektara.

Um lagarök vísar eignanemi til 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 14. október 2016. Að því er snerti málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu er vísað til laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Þá er vísað til meginreglna og lagasjónarmiða í eignarrétti um mat á bótum vegna eignarnáms auk meginreglna í skaðabótarétti.

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA UM FRESTUN MÁSMEÐFERÐAR                      

Eignarnámsþolar krefjast þess aðallega að máli þessu verði frestað ótiltekið þar til leyst hafi verið úr ágreiningi um lögmæti eignarnámsins fyrir dómstólum. Samhliða máli þessu reki eignarnámsþolar mál fyrir héraðsdómi á hendur eignarnema og íslenska ríkinu vegna eignarnámsákvörðunar ráðherra.  Engin þörf sé til þess að ljúka eignarnámsmáli þessu fyrr en dómstólar hafi skorið úr um lögmæti eignarnámsheimildar ráðherra og einbúið að verði hún talin lögleg muni málsaðilar geta sæst á endurgjald fyrir þau eignarréttindi sem séu andlag málsins. Eignarnemi hafi enga sérstaka þörf fyrir því að skorið verði strax úr því fyrir nefndinni hvert verðmæti réttindanna teljist vera þar sem hann hafi þegar með úrskurði nefndarinnar frá 3. nóvember s.l. fengið umráð hins eignarnumda og engu skipti í því sambandi þó ágreiningur um umráðatöku sé nú til úrlausnar í aðfararmáli fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. 

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar  nr. 33/1944, sé eignarrétturinn friðhelgur. Engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar sé ljóst að ef unnt sé að ná markmiði framkvæmdar, sem felur í sér skerðingu á eignarrétti, með ásættanlegum hætti með mismunandi leiðum, beri að velja þann kost sem sé minnst íþyngjandi fyrir þann sem skerðing bitni á (meðalhófsregla), sbr. dóm Hæstaréttar frá 19. mars 2009 í máli nr. 425/2008.

Lagaskilyrði eignarnáms, svo sem um almenningsþörf o.fl., séu matskennd og hvíli réttmæti eignarnámsins á túlkun á umræddum lagaskilyrðum. Vegna séreðlis eignarnáms sé þó eðlilegt að gera strangar kröfur til ákvarðana ráðherra um að heimila eignarnám. Ákvörðun ráðherra um eignarnám sé stjórnvaldsákvörðun og gildi slíkra ákvarðana sé háð almennum reglum um stjórnarathafnir. Dómstólar hafi, í samræmi við 60. gr. stjórnarskrárinnar, vald til þess að ógilda stjórnvaldsákvarðanir ef þeim sé áfátt að formi eða efni til. Dómstólar hafi því endanlegt úrskurðarvald um hvort skilyrði séu til eignarnáms. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms komi fram það skilyrði fyrir því að eignarnám verði framkvæmt að lagaheimild sé til eignarnámsins.  Þá komi fram í 17. gr. laganna að heimilt sé að leita úrlausnar dómstóla um ágreining út af lögmæti þess. Í ljósi þess hversu íþyngjandi ákvörðun um eignarnám sé megi ekki leika nokkur vafi á því að eignarnámsheimildin sé skýr og ótvíræð. Af þessum sökum séu mörg dæmi þess í framkvæmd að matsnefndin fresti máli ótiltekið á meðan rekið sé dómsmál um lögmæti eignarnámsins. Þótt það verði ekki lagt í hendur matsnefndarinnar að skera úr um gildi eignarnámsins sé augljóst að málshöfðun eignarnámsþola sé hvorki tilefnislaus né órökstudd. Þvert á móti séu í stefnu eignarnámsþola færð fram málefnaleg rök og málsástæður fyrir ógildingu ákvörðunar ráðherra sem dómstólar þurfi að taka efnislega afstöðu til.  Það sé því a.m.k. uppi vafi um að eignarnámsheimildin sé lögmæt.

Við mat á því hvort matsnefnd eignarnámsbóta hafi heimild til að fresta málsmeðferðinni um sinn, þrátt fyrir þá meginreglu stjórnsýsluréttar um skilvirka málsmeðferð og að leysa beri úr málum eins fljótt og kostur er, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vísa eignarnámsþolar til þess að nefndin beri í því sambandi að meta hagsmuni aðila af skjótri úrlausn, auk þess sem hafa verði í huga að eignarnámsþolar óski eftir þeim fresti til þess að geta gert nánari grein fyrir afstöðu sinni þegar úrlausn dómstóla liggi fyrir, m.a. hvort þau samþykki það boð eignarnema sem hann hafi gert þeim sem endurgjald fyrir hið eignarnumda. Er vísað til 2. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þessu sambandi og jafnframt til þeirra sjónarmiða sem liggi að baki dómum Hæstaréttar í málum nr. 202/2016, 203/2016, 204/2016 og 205/2016. Auk þess verði að telja að frestun máls, að ósk eignarnámsþola, sé í góðu samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds telja eignarnámsþolar sýnt að fresta verði máli þessu fyrir matsnefndinni ótiltekið á meðan mál um gildi eignarnámsákvarðana ráðherra er rekið fyrir dómi.

SJÓNARMIÐ EIGNANÁMSÞOLA UM ÁKVÖRÐUN BÓTA

Verði ekki fallist á kröfur eignarnámsþola um frestun málsins er gerð krafa til að bætur verði metnar hærri en það endurgjald sem eignarnemi hefur boðið eignarnámsþolum sem miðast við 350.000 krónur fyrir hvern hektara lands, sem fyrir áhrifum verður af eignarnáminu, en eignarnámsþolar skilja beiðni eignarnema um mat á bótum vegna eignarnáms, skjal nr. 1, þannig að gerð sé krafa til að við þá fjárhæð verði miðað enda sé hvorki í þeirri beiðni né í greinargerð, skjal nr. 34, gerð krafa til að bætur nemi tiltekinni annarri lægri fjárhæð. Í þessu ljósi telja eignarnámsþolar að umfjöllun eignarnema með almennum orðum um að hann telji að eignarnámsþolum beri mjög hóflegar eignarnámsbætur og að þær eigi að vera „mun lægri en þær bætur fyrir landsréttindi sem þeim var boðið í samningaviðræðum og sameigendur þeirra gegnu að“, hafi enga þýðingu.

Verði ekki fallist á að eignarnámsþolum beri hærri bætur en miðað við 350.000 krónur fyrir hvern hektara lands, sem verði fyrir áhrifum af eignarnáminu, sé sú krafa gerð til vara að við þá fjárhæð verði miðað. Verði að telja að með áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar um „fullar bætur“ sé vísað til þess verðs sem fáist fyrir sambærilega „eign“ í frjálsum viðskipum manna í millum. Almennt sé við mat á því hvað teljist vera fullt verð í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar hefðbundið að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignar, notagildi hennar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Þá sé viðurkennt að því sjónarmiði beri að beita sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola. Nú liggi fyrir að nákvæmlega sama „eignin“ hafi verið seld í frjálsum samningum eignarnema og annarra landeigenda. Hafi eignarnemi að eigin sögn keypt 92% landsréttindanna fyrir viðmiðunarverðið 350.000 krónur fyrir hvern hektara. Þannig liggi fyrir óumdeilt verðmæti, sem a.m.k. verði að teljast vera „fullar bætur“ skv. stjórnarskrárákvæðinu og engin rök hnígi til þess að ákvarða lægri bætur til eignarnámsþola en samkvæmt því viðmiði. Beri í því sambandi að hafna rökum eignarnema um að í því kaupverði hafi falist einhver tiltekin greiðsla til annarra eigenda landsréttindanna, umfram verðmæti landsréttindanna sjálfra, fyrir það að semja um kaup með frjálsum samningum og fyrir það að eignarnemi þurfi ekki að leita til matsnefndar eignarnámsbóta um ákvörðun þess.  Eignarnemi sem sé opinbert hlutafélag hafi heldur enga heimild til þess að greiða sérstaklega vegna slíkra sjónarmiða. Skorað er á eignarnema að leggja til matsnefndarinnar uppgjör og greiðslukvittanir til annarra landeigenda ef þar er greint frá því að söluverðið sé sundurliðað með slíkum hætti og hvaða verð hafi þá í raun verið greitt fyrir landsréttindin.

Eignarnámsþolar séu að svo stöddu ekki tilbúnir til að færa fram sundurliðaða fjárkröfu vegna þeirrar kröfu sinnar að miðað verði við hærra verð en 350.000 krónur fyrir hektarann og er áskilinn réttur til að gera það á síðari stigum. Allt að einu telji þeir að matsnefndin hafi heimild til þess að hækka bætur frá því sem eignarnemi hafi boðið á grundvelli slíkrar kröfugerðar eignarnámsþola þó þeir sundurliði kröfu sína ekki sérstaklega í þessum efnum heldur krefjist hækkunar eins og hér er gert.

Þau sjónarmið sem eignarnámsþolar telji að matsnefnd eignarnámsbóta eigi að taka tillit til við ákvörðun bótafjárhæðar og eigi að leiða til þess að bætur verði metnar hærri en miðað við 350.000 krónur fyrir hvern hektara séu þessi:

1.    Meta þurfi hæfilegt verð fyrir hvern hektara lands sem fari undir möstur og vegslóða.

2.    Meta þurfi hæfilegar bætur vegna svæðis þess sem verði fyrir beinum áhrif af línunum og vegunum svo sem t.d. vegna byggingabanns.

3.   Sérstaklega þurfi að meta eignarnámsþolum bætur vegna þess að eignarnámið muni leiða til þess að eignin, sem eftir stendur að loknu eignarnámi, verði verðminni í framtíðinni en hún ella yrði ef landsréttindin yrðu ekki tekin eignarnámi.  Í þessu sambandi sé vísað til til vaxandi ferðamannastraums á svæðið og þeirra möguleika sem hann kunni að hafa í för með sér til tekjuöflunar fyrir jarðeigendur og sé byggt á því að taka verði tilliti til að færri ferðamenn hafi áhuga á að sækja landið heim eftir að línurnar hafi verið lagðar en myndu hafa áhuga á því ef línurnar yrðu ekki lagðar.

4.   Verðmati eignarnema um 350.000 krónur fyrir hektara sé alveg sérstaklega mótmælt og öllum hugleiðingum hans í greinargerð um að leggja eigi lægra verð til grundvallar.  Ekki sé unnt að fallast á forsendur hans fyrir verðútreikningum. Um litla landspildu, sem skeri eignarland, sé að ræða og allt önnur sjónarmið um verðmæti hennar hljóti að liggja til grundvallar mati en almennt fasteignamat eða mat ýmissa fasteignasala á heildarsöluverði jarða enda ekki um að ræða mat á slíkri sérstakri röskun eins og hér sé til meðferðar. Þá sé þar ekkert tillit tekið til þeirra alkunnu sanninda að eftir því sem minni landspilda er keypt þá verði verð á hvern fermetra hærra að tiltölu heldur en það er þegar stórar spildur gangi kaupum og sölum.

5.   Ekki geti staðist að eignarnámið taki einungis til þess hektarafjölda sem eignarnemi reikni með enda gæti áhrifa háspennulínanna og tilheyrandi vegaslóða um allt landið. Enga nákvæma uppmælingu sé reyndar að finna í gögnum málsins á þessu og nauðsynlegt fyrir eignarnema að láta vinna slíka mælingu og leggja fram.    

6.  Líta þurfi til þess að lagning línanna sé til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis en eignarnámið og byggingabannið nái til vegna sjónrænna áhrifa af línunum. Sérstaklega þurfi því að meta eignarnámsþolum bætur vegna sjónrænna áhrifa af háspennulínunum, möstrum og vegum, sem telja megi víst að leiða muni til þess að eign eignarnámsþola verði verðminni í framtíðinni en hún ella yrði ef landsréttindin yrðu ekki tekin eignarnámi. Í þessu samhengi benda eignarnámsþolar á að sjónræn og önnur neikvæð áhrif loftlínanna teygi sig margfalt lengra en samskonar áhrif af vegi, enda um að ræða gríðarlega mikið og áberandi mannvirki. Útsýni af Hlíðarfjalli, Gæsafjöllum, Kröflu, Leirhnjúki og fleiri stöðum verði mikið spillt. 

Hafa verði í huga að stóraukinn fjöldi ferðamanna mun sækja svæðið heim og þurfa að ganga undir háspennulínurnar, sem óhjákvæmilega muni hafa neikvæð áhrif á upplifun þess fólks, sem leitað hefur eftir að upplifa óspillta náttúru. Eignarnámsþolar benda á að sjónræn áhrif af línunni séu til þess fallin að rýra verðmæti jarða þeirra. Ásýnd og upplifun verði ekki söm á eftir. Loftlínur hafi verulega neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og upplifun á svæðinu. Í þessu tilfelli séu áhrifin sérstaklega neikvæð með hliðsjón af því að línurnar muni að mestu liggja um fallega og ósnortna náttúru og gróður sem nýtur verndar samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 60/2013. 

Þá verður að taka tillit til þess að spjöll á landinu með möstrum og línuvegum eru óafturkræf. Auk sjónrænna áhrifa munu línurnar valda varanlegum óþægindum sökum hávaða frá þeim bæði af völdum veðurs og gneista. Þá getur vindgnauð myndast við ákveðnar aðstæður, þ.e. vindhraða og stefnu, þegar vindur blæs í gegnum möstrin. Hávaði af rafrænum uppruna skapist auk þess af háum rafsviðsstyrk við yfirborð leiðara. Hávaði þessi muni hafa í för með sér veruleg óþægindi fyrir eignarnámsþola og leiða til verðrýrnunar á landinu.

7.   Meta þurfi áhrif þess að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum, vegna ótta um áhrif á heilsufar sem stafa kunni frá seguláhrifum vegna raflínanna.  Þá fylgi því beinlínis hætta að vera í námunda við háspennt mannvirki. Manneskja sem sé í jarðsambandi og komi of nærri leiðara eigi það á hættu að fá í sig raflost. Vísað er til þess eignarnemi hafi látið vinna sérstakar varúðarreglur um vinnu sem unnin sé undir og í námunda við háspennuvirki. Meta þurfi sérstaklega bætur vegna svæðis þar sem þessara áhrifa gæti og telja eignarnámsþolar að á svæði í allt að 1.000 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá línunni eða 2.000 metra breiðu bili gæti slíkra áhrifa.

8.  Við ákvörðun bóta verði að miða við möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Eignarnámið sé þvingunaraðgerð og eignarnámsþolar þannig sviptir möguleika á að koma landi sínu í verð þegar markaðsaðstæður séu heppilegar. Eignarnámsþolar eigi því að fá að njóta svokallaðrar biðvonar, þ.e. að markaðsvirðið ákvarðist ekki einungis af núverandi notkunarmöguleikum heldur einnig af eftirvæntingum um breytingar sem gefi möguleika á arðbærari nýtingu. Það hafi því ekki meginþýðingu við verðmatið hvernig landið sé eða hafi verið nýtt til dagsins í dag. Það sem skipti máli séu nýtingarmöguleikar þess til framtíðar litið. Líta verði til þess að línurnar fari yfir óspillt víðerni, sem augljóslega verði verðmætari en annað land eftir því sem tímar líði, t.d. vegna ásóknar manna í að dvelja í slíku umhverfi. 

9.   Meta þurfi eignarnámsþolum bætur vegna almennrar skerðingar á nýtingarmöguleikum landsins eftir að línurnar hafi verið lagðar og tilheyrandi vegir. Sérstaklega þurfi að meta eignarnámsþolum bætur í þessu sambandi vegna þess að háspennulínurnar og tilheyrandi vegir slíti í sundur eignina og telja megi víst að það muni leiða til þess að eignin sitt hvoru megin við mannvirkin, að loknu eignarnámi, verði verðminni í framtíðinni en hún ella yrði.

10.  Meta þurfi sérstaklega bætur til eignarnámsþola vegna allra framangreindra áhrifa á búsmala, sem fram til þessa dags hafi nýtt landið til beitar en búast megi við að fé renni eftir hinum nýju vegslóðum og verði fyrir slæmum áhrifum af línunum.

11.  Meta þurfi sérstaklega bætur til eignarnámsþola vegna allra framangreindra atriða, sem hafi áhrif á og skerði nýtingarmöguleika landsins til veiða, en um mjög gott rjúpnaland sé að ræða og viðbúið að rjúpa muni forðast mannvirkin. Auk þess sem þær muni fljúga á raflínurnar og farast þannig. Rjúpur leiti í Gæsafjöll við ákveðin skilyrði. Þá fljúgi hópar og stundum flotar af þeim í ljósaskiptum eða myrkri á milli svæða, til að forðast fálkann og muni þá rjúpur í slíkum flotum vafalaust lenda á línunum.

12.  Meta þurfi sérstaklega bætur til eignarnámsþola vegna þess að línurnar muni að þeirra áliti hafa neikvæð áhrif á tvö fálkaóðul sem þeim sé kunnugt um í Seldal og Gæsadal. Eignarnámsþolar telja að tilvist óðalanna sé stefnt í verulega tvísýnu með línulögnunum og hafi í för með sér óafturkræf umhverfispjöll vegna þessa.

13.  Meta þurfi sérstaklega bætur til eignarnámsþola vegna skerðingar á möguleikum til öflunar fjallagrasa og berjatínslu.

14. Sérastaklega þurfi að meta eignarnámsþolum bætur vegna óþæginda og rasks á framkvæmdatíma en ljóst sé að það verði umtalsvert.  Við framkvæmdina þurfi að steypa undirstöður, reisa gríðarhá möstur, leggja línuvegi samhliða línunum o.s.frv. Ljóst sé að verkið muni taka langan tíma og að til þess þurfi fjölda vinnuvéla og vinnumanna með tilheyrandi raski og ónæði.

15.  Sérstaklega þurfi að meta eignarnámsþolum bætur vegna eftirlits af þeirra hálfu að loknum framkvæmdartíma og breyti engu í þeim efnum þó eignarnema beri í samræmi við lög og reglugerðir skylda til að hafa reglulegt eftirlit og viðhald með háspennulínum. Línulögninni fylgi aukinheldur sú kvöð, að eignarnemi skuli hafa óhindraðan aðgang að stauravirkjum, rafmagnslínunni og helgunarsvæði, bæði að því er varði byggingarframkvæmd, svo og viðhald, eftirlit og endurnýjun síðar.

16.  Sérstaklega þurfi að meta eignarnámsþolum bætur vegna óþæginda af umferð óviðkomandi aðila eftir línuvegunum.

NIÐURSTAÐA

Matsnefndin fór á vettvang hinn 27. október 2016 og var farið að fyrirhuguðu línustæði norðvestur af Hlíðarfjalli þar sem vel sást yfir svæði það sem eignarnámið beinist að og enn fremur á línustæði suð-suðvestur af Kröflu.

Eins og rakið er hér að framan ákvað Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytið að heimila eignarnema, Landsneti hf. að beita heimild í 23. gr. raforkulaga nr. 65/2003 hinn 14. október 2016. Þá liggur fyrir leyfi Skútustaðahrepps frá 26. október 2016 þar sem eignarnema eru heimilaðar framkvæmdir við Kröflulínu 4.

Um kröfu eignanámsþola um frestun málsmeðferðar vegna þess að þeir hafi leitað til dómstóla vegna ágreinings um lögmætis eignarnámsins er það að segja að þegar litið er til 2. málsl. 60. gr. stjórnarkrár verður ekki fallist á það með eignarnámsþolum að efni séu til þess að fresta meðferð matsmáls þessa af þeim sökum.

Við mat þetta verður litið til þess hvert sé líklegt söluverðmæti lands þess sem hér er tekið eignarnámi. Er þá litið til gagna um sölu lands sem nefndinni eru tiltækar og aðilar hafa gert grein fyrir í málatilbúnaði sínum svo og úrskurða nefndarinnar sjálfrar.

Kemur fyrst til álita hvert sé hæfilegt matsverð fyrir hvern hektara lands sem fer undir möstur og vegslóða. Við mat þetta er litið til staðsetningar landsins sem sem er gróið heiðarland að mestu notað sem afréttur en á austasta hluta þess er nýtt hraun sem rann í Kröflueldum á síðustu öld og allmikið um ferðamenn á því svæði. Fram kemur í málatilbúnaði eignarnema að 98% landeigenda á svæði því sem ætlað er að línurnar liggi um hafa samþykkt tilboð hans um að verð hvers hektara skuli vera 350.000 krónur og þykir það hæfilegt verð fyrir hvern hektara sem fer undir möstur og vegi.

Leiðir það til þeirrar niðurstöðu að bætur til eignarnámsþola vegna lands undir 60 möstur, þ.e. 6,3 hektarar, og lands undir 12 burðarmöstur, þ.e. 1,92 hektarar, eða samtals 8,22 ha séu 2.877.000 krónur (8,22 x 350.000).

Þá kemur til úrlausnar hverjar séu hæfilegar bætur vegna svæðis þess sem fer undir vegi og vegslóða sem er samtals 6,5 ha og eru bætur vegna þessa liðar því 2.275.000 krónur (6,5 x 350.000).

Þá kemur til úrlausnar hverjar séu hæfilegar bætur vegna svæðis þess sem byggingarbann nær til og telur nefndin að miða beri við 2/3 af verði hvers hektara sem fer undir möstur og vegi enda eru mörg fordæmi fyrir því í sams konar málum. Er það 234.000 krónur fyrir hvern hektara og bætur vegna þessa liðar því 22.347.000 krónur (95,5 x 234.000).

Tekið skal fram að fram kemur í gögnum málsins að við uppgjör bóta til landeigenda annarra en eignarnámsþola hefur eignarnemi ekki dregið frá flatarmáli svæðis þess sem byggingarbann tekur til svæði það sem fer undir vegslóða og möstur svo sem venjulega hefur verið gert. Er þeirri aðferð beitt við mat þetta enda engar athugasemdir gerðar við það af hálfu aðila.

Loks er til þess að líta að lagning línanna er til þess fallin að rýra verðmæti stærra svæðis en eignarnámið og byggingarbannið nær til vegna sjónrænna áhrifa af línunni. Á þetta sérstaklega við á austasta hluta svæðisins.  Þar er mikið um ferðamenn sökum náttúrufegurðar og ummerkja eftir nýleg eldgos. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðist að vera nærri slíkum mannvirkjum, vegna ótta um áhrif á heilsufar sem stafa kunni frá seguláhrifum vegna raflínanna. Svæði þetta er fjórir og hálfur kílómetri að lengd á austasta hluta línanna. Telur nefndin að á svæði sem er í allt að 200 metra fjarlægð frá miðju til hvorrar handar frá línunum eða 400 metra breiðu bili, að frádregnu 99,2 metra breiðu svæði sem byggingarbannið nær yfir, gæti áhrifa sem rýri verðmæti lands á þessu svæði. Er um þetta að líta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 349/2004 (Þjórsártún). Eignarnámið nær til 99,2 metra breiðs svæðis þar sem er byggingarbann sem hér að framan hefur verið metið. Því til viðbótar kemur 300,8 metra breitt svæði þ.e. 400 metrar að frádregnum 99,2 metrum þar sem nefndin telur að til komi verðrýrnun sem nemi 10% af fullu verði eða 35.000 krónum á hektara. Heildarbætur vegna þessa nema 4.760.000 krónum  (136 ha á 35.000 krónur).

Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða mats þessa að bætur til eigenda Reykjahlíðar vegna eignanáms í óskiptu landi Reykjahlíðar séu hæfilega ákvarðaðar 32.259.000 krónur sem skiptist þannig milli eignanámsþola:

Bætur til Finns Sigfúsar Illugasonar vegna 6,25% hluts í óskiptu landi Reykjahlíðar ákvarðast 2.016.188 krónur (6,25% af 32.259.000).

Bætur til Kristínar Þ. Sverrisdóttur vegna 1,56% hluts í óskiptu landi Reykjahlíðar ákvarðast 503.240 krónur (1,56% af 32.259.000).

Eignarnemi skal greiða eignarnámsþolum óskipt 726.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs þessa þáttar málsins fyrir matsnefndinni og tvær milljónir króna í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Eignarnemi, Landsneti ehf., greiði eignarnámsþola Finni Sigfúsi Illugasyni 2.046.188 krónur og eignarnámsþola Kristínu Sverrisdóttur 503.240 krónur og eignanámsþolum 726.000 krónur krónur í málskostnað.

Eignarnemi greiði tvær milljónir króna til ríkissjóðs vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í þessum þætti málsins.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta