Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 176/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 176/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 6. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið við vinnu hjá X ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en kærandi hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Að auki var þess krafist að kærandi myndi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur til 19. apríl 2010, samtals Y kr. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. september 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. janúar 2010 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn. Vinnumálastofnun barst ábending frá eftirlitsdeild ríkisskattstjóra þess efnis að kærandi starfaði hjá fyrirtækinu X ehf. Við athugun stofnunarinnar á samskiptasíðunni ,,Facebook“ kom í ljós að kærandi hafði starfað þar sem sölumaður á sama tíma og hún var skráð atvinnulaus hjá stofnuninni. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 28. maí 2010, kemur fram að fjallað hafi verið um mál hennar á fundi stofnunarinnar þann 27. maí 2010 vegna upplýsinga um að hún væri við vinnu í X ehf. Afgreiðslu málsins var frestað og óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna framangreindra upplýsinga. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 4. júní 2010 þess efnis að hún hafi ekki verið við störf hjá X ehf., en að hún hafi spurst fyrir um starfsþjálfun þar. Hafi hún sagt að hún fengi ekki vinnu þar fyrr en í júlí. 

Vinnumálastofnun taldi skýringar kæranda ekki vera í samræmi við athugasemdir hennar á netsíðu sinni. Fyrir lægi einnig að hún hafi fengið greidd laun fyrir fyrirtækinu X ehf. frá því í janúar 2010. Þá séu ekki fyrir hendi nein gögn sem bendi til þess að kærandi hafi óskað eftir starfsþjálfunarsamningi hjá versluninni enda sé afar óvenjulegt að atvinnuleitandi óski eftir starfsþjálfunarsamningi hjá fyrirfram ákveðnu fyrirtæki.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar vegna upplýsinga um ótilkynnta vinnu hjá X ehf. Niðurstaða stofnunarinnar var því að kærandi skyldi ekki eiga rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrr en hún hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi færir ekki fram neinn rökstuðning til stuðnings máli sínu í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags 8. september 2010. Með kærunni sendi hún uppsagnarbréf sitt hjá X ehf., dags. 31. ágúst 2010, en þar kemur fram að vegna samdráttar í rekstri verslunarinnar sé henni sagt upp störfum frá og með þeim degi. Þar sem hún hafi starfað af og til síðustu sjö mánuði en ekki stundað samfellda vinnu hjá fyrirtækinu sé uppsagnarfrestur hennar ein vika.

Í greinargerð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2010, er vísað til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og jafnframt til laga nr. 134/2009, um breytingar á atvinnuleysistryggingum, en með þeim lögum voru gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að verknaðarlýsing ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Einnig sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum markaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Segir enn fremur í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé mikilvægur liður í því að sporna við svartri atvinnustarfsemi.

Vinnumálastofnun bendir á að fyrir liggi að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 1. janúar 2010. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi þegið laun frá X ehf. frá því í janúar 2010. Á facebook-síðu kæranda megi greinilega sjá að kærandi hafi verið við vinnu á því tímabili er um ræði. Þá staðfesti meðfylgjandi launaseðlar frá X ehf. að kærandi hafi starfað þar frá janúar 2010. Kærandi hafi hvorki tilkynnt um hlutastörf né tilfallandi vinnu áður en stofnunin tók mál hennar til skoðunar. Hafi kærandi skilað til Vinnumálastofnunar launaseðlum ásamt tilkynningu um tekjur frá fyrirtækinu, eftir að ákvörðun hafi verið tekin í máli hennar. Það ætti öllum að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggi greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til þess að tilkynna tilfallandi vinnu til Vinnumálastofnunar um leið og hann hefji störf. Í tilfelli kæranda hafi henni borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín, strax í janúarmánuði 2010.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Verði ekki séð að skiljanlegar ástæður séu fyrir því að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna stofnuninni um vinnu sína.

Það er niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og að kærandi skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hafi starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það er einnig niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð Y kr. Beri henni að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. mars 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

 Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði a innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar, með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Má þar sérstaklega nefna 60. gr. og 35. gr. a laganna. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a.

Þá segir í 35. gr. a:

 Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi varð uppvís að því að hafa án þess að tilkynna Vinnumálastofnun starfað hjá versluninni X ehf. á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Kærandi tilkynnti hvorki um hlutastörf eða tilfallandi vinnu, en eftir að ákvörðun hafði verið tekin í máli hennar skilaði hún launaseðlum vegna vinnu sinnar.

Kærandi hefur ekki fært fram rök fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða máli sínu til stuðnings. Í kæru hennar kemur fram, varðandi upplýsingar um ákvörðunarbréf Vinnumálastofnunar, að hún hafi ekki fengið bréfið. Ákvörðunarbréf stofnunarinnar er dagsett 6. júlí 2010 og af gögnum málsins má ráða að það var sent kæranda með ábyrgðarpósti þann 7. júlí 2010, en þess var ekki vitjað.

Verður að telja í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda, sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber kæranda því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. júlí 2010 í máli A þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún  hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð Y kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta