Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 186/2010

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá um synjun um styrk vegna búferlaflutnings var staðfest.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli Magnúsar Sigurðssonar nr. 186/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 22. september 2010 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá 2. september 2010 með vísan til 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 28. september 2010, að Vinnumálastofnun hefði hafnað umsókn hans um búferlastyrk á grundvelli reglugerðar nr. 12/2009, þar sem ekki hafi orðið af ráðningu, ekki liggi fyrir staðfesting á búferlaflutningum og reikningur vegna útlagðs kostnaðar sé ófullnægjandi. Kærandi vildi ekki una þessum ákvörðunum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. október 2010. Hann krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 27. júlí 2009. Hann var ráðinn til starfa hjá X í sveitarfélaginu Y frá 9. ágúst 2010. Í kjölfar ráðningar kæranda sótti hann um styrk vegna flutninga á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Kærandi starfaði hjá X til 31. ágúst 2010. Sótti kærandi aftur um atvinnuleysisbætur þann 2. september 2010. Sama dag barst Greiðslustofu Vinnumálastofnunar erindi frá kæranda þar sem fram komu athugasemdir og skýringar kæranda á uppsögn sinni á starfi hjá X. Í vottorði vinnuveitanda útgefnu 31. ágúst 2010 af X, kemur fram að kærandi hafi starfað sem iðnaðarmaður hjá fyrirtækinu frá 9. ágúst til 31. ágúst 2010. Í vottorði er ástæða starfsloka tilgreind sem eigin uppsögn kæranda.

Í erindi kæranda bendir hann á að hann hafi verið ráðinn til reynslu, og að sá reynslutími hafi verið gagnkvæmur af hálfu hans og fyrirtækisins X. Hann hafi því hafnað starfinu á reynslutíma.

Kærandi bendir á 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um að líta skuli til þess hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna meðal annars félagslegra aðstæðna eða umönnunarskyldu ungra barna. Einnig sé tiltekið í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að líta beri til heimilisaðstæðna hins tryggða er starfi fjarri heimili er hafnað. Telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi hvorki lagt mat á aðstæður kæranda né metið hvort ákvörðun kæranda hafi verið réttlætanleg, ekki hafi verið leitað eftir nánari upplýsingum og að það mat sem fara á fram samkvæmt framangreindu lagaákvæði, hafi ekki farið fram.

Kærandi segist hafa sent Vinnumálastofnun bréf til skýringar á starfslokum sínum hjá X og þar tilgreinir hann fjölskylduaðstæður sem ástæðu starfsloka. Telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi borið að kanna nánar þær aðstæður er lágu til grundvallar starfsloka hans áður en íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin um að fella niður bótarétt kæranda í 40 daga og hafi Vinnumálastofnun því brugðist rannsóknarskyldu sinni. Kærandi bendir á að ekki hafi verið sóst eftir frekari útskýringum á þeim fjölskylduaðstæðum sem legið hafi að baki starfslokum hans hjá X, en hann hafi verið viljugur að veita slíkar útskýringar. Jafnframt bendir kærandi á að um viðkvæmar upplýsingar geti verið að ræða í slíkum tilvikum.

Kærandi mótmælir þeirri fullyrðingu í greinargerð Vinnumálastofnunar að aðalástæða fyrir því að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu hafi verið sú að kona hans hafi ekki viljað búa í sveitarfélaginu Y. Kærandi vísar í kæru sína til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og í bréf sitt til Vinnumálastofnunar. Segist kærandi orðrétt hafa sagt í áðurnefndu bréfi að aðalástæðan hafi verið sá forsendubrestur, fyrir dvöl hans í sveitarfélaginu Y og vinnu hjá X, að fjölskyldan hafi verið farin frá sveitarfélaginu Y.

Kærandi bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að um gildar ástæður geti verið að ræða í þeim tilvikum er maki hins tryggða byrjar störf í öðrum landshluta og fjölskyldan þurfi að flytja búferlum. Telur kærandi að fjallað sé um dæmi um gildar ástæður, en ekki sé fjallað um allar aðstæður sem til greina komi. Kærandi telur jafnframt að hann hafi uppfyllt það skilyrði að vinnuveitanda hafi mátt vera kunnugt um ástæður þessar þar sem kærandi hafi tekið fram í uppsagnarbréfi sínu til X að fjölskylduaðstæður væru ástæða starfsloka hans hjá fyrirtækinu.

Kærandi vísar til lögskýringargagna sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Hann bendir á að þar komi fram að ríkar kröfur séu gerðar um að þegar ákvarðanir um biðtíma séu teknar liggi fyrir hvaða ástæður hafi raunverulegar ástæður legið að baki þess er launamaður segir uppi starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi. Þá sé mikilvægt að þau meginsjónarmið er ákvörðun byggist á sé tilgreind í rökstuðningi stofnunarinnar.

Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun hafi ekki falast eftir nánari útskýringum sem kærandi telur að stofnuninni hafi borið skv. 10. gr. stjórnsýslulaga. Hann telur því að Vinnumálastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni þar sem vafi hafi leikið á raunverulegum ástæðum að baki starfslokum hans hjá X.

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi ekki tekið tillit til þessa mikla kostnaðar sem fylgir því að flytja með fjölskyldu milli landshluta. Telur kærandi að með því að Vinnumálastofnun taki ekki tillit til þess að kærandi hafi sagt upp störfum og flutt aftur til sveitarfélagsins Z sökum þess að fjölskylda hans fluttist aftur þangað, þýði að stofnunni finnist eðlilegt að tvístra fjölskyldum. Telur kærandi því að Vinnumálastofnun hafi ekki stuðst við málefnaleg sjónarmið við mat sitt á umsókn kæranda og kæru.

Kærandi sótti um styrk vegna búferlaflutninga og meðal gagna málsins er útfyllt umsókn um slíkan styrk dagsett 16. ágúst 2010. Á eyðublaðinu kemur fram að gert er ráð fyrir að umsókn fylgi staðfesting á búferlaflutningi atvinnuleitanda/fjölskyldu frá sveitarfélagi, skrifleg staðfesting vinnuveitanda um ótímabundna ráðningu og reikningar vegna fargjalda og/eða flutnings búslóðar. Í tilefni af framangreindri umsókn sendi kærandi afrit af ráðningarsamningi sínum við X og afrit af leigusamningi þeim sem hann gerði um íbúð í sveitarfélaginu Y. Meðal gagna málsins er einnig ljósrit af reikningi frá kæranda sjálfum, sem verktaka, og hljóðar reikningurinn upp á samtals 282.000 kr. vegna leigu á jeppa og kerru. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 28. september 2010, er honum synjað um styrk vegna búferlaflutninga með þeim rökum að ekki hafi orðið af ráðningu, staðfesting á búferlaflutningi hafi ekki borist og reikningur sé ófullnægjandi.

Kærandi mótmælir því að reikningur hans vegna umsóknar um búferlastyrk sé ekki fullnægjandi þar sem kærandi hafi sjálfur flutt búslóð sína og því sé um að ræða frumrit af reikningi í skilningi 18. gr. reglugerðar nr. 12/2009. Kærandi bendir á að hann hafi uppfyllt öll skilyrði 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009 að undanskildu ákvæði b-liðar um að atvinnuleitandi skuli hafa flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til þess sveitarfélags sem viðkomandi starfsstöð er í. Kærandi telur að ekki séu efasemdir um að kærandi og fjölskylda kæranda hafi flutt frá sveitarfélaginu Z til sveitarfélagsins Y, en ekki hafi komið til flutnings á lögheimili, þar sem fjölskylda kæranda hafi fljótlega eftir að kærandi hóf störf hjá X, flutt frá sveitarfélaginu Y til sveitarfélagsins Z. Jafnframt bendir kærandi á að reikningurinn sé hóflegur, ef miðað sé við eðlilegt markaðsverð á flutningum.

Bendir kærandi á að Vinnumálastofnun sé í undantekningartilvikum heimilt að veita búferlastyrk án þess að öll skilyrði 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009 séu uppfyllt, hafi stofnunin metið aðstæður viðkomandi atvinnuleitanda heildstætt. Einnig heldur kærandi því fram að ekki sé gert að skilyrði fyrir styrkveitingu í 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009 að framlagðir séu reikningar lögskráðra flutningafyrirtækja, kærandi hafi sjálfur flutt búslóðina langa leið og því fylgi mikill kostnaður sem ekki þurfi að sanna frekar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2010, segir að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 22. september 2010. Það sé mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi, dags. 23. september 2010, hafi honum verið kynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur en með vísan til starfsloka hjá X hafi réttur hans til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistrygginga sem grundvöll ákvörðunar stofnunarinnar um niðurfellingu bótaréttar. Vinnumálastofnun kveðst hafa tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 28. september 2010, að stofnunin hefði hafnað umsókn hans um búferlastyrk á grundvelli IV. kafla reglugerðar 12/2009.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðs­kerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða aðstæður sem liggja að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnumálastofnun áréttar að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segja upp störfum sínum um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Telur Vinnumálastofnun ljóst að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningurinn snýst um hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Vísar Vinnumálastofnun til þess að orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og að fá tilvik hafi verið talin falla þar undir.

Vinnumálastofnun vísar til skýringarbréfs kæranda og til kæru til úrskurðarnefndar þar sem kærandi segist hafa hætt í starfi sínu vegna fjölskylduaðstæðna. Vinnumálastofnun bendir á að í athugasemdum um 54. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé meðal annars tekið fram að það kunni að vera um gilda ástæðu að ræða ef maki hins tryggða byrjar störf í öðrum landshluta og fjölskyldan þarf að flytja búferlum. Enn fremur segi að það sé skilyrði að vinnuveitanda hafi mátt vera kunnugt um þær aðstæður áður en launamaðurinn lét af störfum. Kærandi var ráðinn til starfa hjá X þann 9. ágúst 2010 og flutti til sveitarfélagsins Y. Skömmu síðar sagði kærandi starfi sínu lausu til að flytja aftur til sveitarfélagsins Z. Vinnumálastofnun vísar til þess að í bréfi kæranda til stofnunarinnar tilgreini hann aðalástæðu þess að hann sagði starfi sínu lausu vera þá að kona hans hafi ekki viljað búa í sveitarfélaginu Y. Vinnumálastofnun segist ekki vera kunnugt um að maki kæranda hafi byrjað störf í sveitarfélaginu Z og það hafi verið ástæða fyrir því að fjölskyldan flutti búferlaflutningum öðru sinni.

Í ljósi alls framangreinds telur Vinnumálastofnun að kæranda hafi mátt vera ljóst að með því að segja starfi sínu lausu á þeim tímum sem nú eru, gæti verið erfiðleikum bundið fyrir hann að komast í annað starf og metur Vinnumálastofnun því að ástæður þær er kærandi gefur fyrir uppsögn sinni, teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á að þann 16. ágúst 2010 hafi kærandi sótt um styrk vegna búferlaflutninga, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Flutningur kæranda kom til vegna vinnu hans hjá X. Með vísan til 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar bendir Vinnumálastofnun á að mælt sé fyrir um að heimilt sé að styrkja einstaklinga til búferlaflutninga innan lands úr Atvinnuleysistryggingasjóði, með nánari reglum í IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009. Vinnumálastofnun vísar til 15. gr. fyrrnefndrar reglugerðar og þeirra skilyrða sem þar sé kveðið á um að umsækjendur um búferlastyrk þurfi að uppfylla. Jafnframt vísar Vinnumálastofnun í bréf stofnunarinnar, dags. 28. september 2010, þar sem umsókn kæranda er hafnað af þeim sökum að ekki hafi orðið af ráðningu, ekki hafi borist staðfesting á búferlaflutningi og að reikningur kæranda vegna útlagðs kostnaðar hafi verið ófullnægjandi.

Vinnumálastofnun kveður óumdeilt að kærandi hafi verið ráðinn til starfa hjá X. Því fallist stofnunin á að orðalagið, „ekki varð af ráðningu“, í bréfi stofnunarinnar kunni að vera villandi, en athugasemd þess efnis komi fram í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. október 2010, enda liggi fyrir ráðningarsamningur milli kæranda og X.

Telji Vinnumálastofnun að í ljósi skilyrðis c-liðar 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um að starf feli ekki í sér tímabundna ráðningu, telur Vinnumálastofnun að framangreind heimild eigi ekki við í þeim tilvikum er atvinnuleitandi hættir störfum að eigin frumkvæði og hættir við flutning milli landshluta í framhaldi. Telji Vinnumálastofnun að ekki verði fallist á að heimild skv. IV. kafla reglugerðarinnar sé nýtt þegar um skammvinna breytingu á dvalarstað sé að ræða, óígrundaðar ákvarðanir eða þreifingar atvinnuleitanda séu því ekki nægjanlegar forsendur fyrir styrk á grundvelli IV. kafla reglugerðarinnar. Vinnumálastofnun bendir á skilyrði b-liðar 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009 þar sem það sé gert að skilyrði styrkveitingar að atvinnuleitandi hafi flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til þess sveitarfélags sem viðkomandi starfsstöð er í. Bendir Vinnumálastofnun á að kærandi segist ekki hafa vitað um framangreint skilyrði er hann sótti um styrk vegna búferlaflutninga og að hann hafi sjálfur, í tölvupósti til starfsmanns Vinnumálastofnunar þann 22. september 2010, bent á að enginn tilgangur væri í því að flytja lögheimili eftir að ljóst hafi verið að dvöl hans í sveitarfélaginu Y yrði ekki varanleg.

Vinnumálastofnun vísar til 16. gr. reglugerðar nr. 12/2009 þar sem segi að búferlastyrkur skv. 14. gr. sömu reglugerðar skuli nema að hámarki 80% af kostnaði við flutning á fjölskyldu og búslóð atvinnuleitandans. Skuli umsókn um styrk, sbr. 18. gr. reglugerðarinnar, fylgja frumrit af reikningum fyrir kostnað vegna búferlaflutninga. Telji Vinnumálastofnun því að greiðsla búferlastyrks sé með öðrum orðum háð því að umsækjandi geti fært fram sönnur á útlagðan kostnað vegna flutninga. Vinnumálastofnun bendir á reikning þann sem stofnunni hafi borist frá kæranda vegna umsóknar um búferlastyrk, sem sé útbúinn af kæranda og hafi stofnuninni ekki borist frumrit af reikningum vegna tilgreindra kostnaðarliða. Vinnumálastofnun telji því reikning kæranda vegna útlagðs kostnaðar með öllu ófullnægjandi, sbr. 18. gr. reglugerðar 12/2009.

Að mati Vinnumálastofnunar er ekki heimilt að veita kæranda styrk á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. mars 2011. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 8. mars 2011. Í bréfi kæranda ítrekar hann athugasemdir sínar um að Vinnumálastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi raunverulegar ástæður starfsloka hans áður en stofnunin tók íþyngjandi ákvörðun í máli hans. Í bréfinu útlistar hann nokkuð ítarlega þær fjölskylduaðstæður sem hann segir hafa gert það að verkum að hann hafi ekki átt þess annan kost en að flytja aftur suður með fjölskyldu sinni. Hann leggur áherslu á að upplýsingarnar séu trúnaðarmál, en þær varða viðkvæma einkahagsmuni þeirra sem tilheyra fjölskyldu hans.

Kærandi kveður forsendubrest hafi orðið á dvöl sinni og vinnu hjá X. Aðalástæða hafi verið sú að fjölskyldan hafi verið farin, en kostnaðurinn hafi ekki bætt úr skák. Það sé útúrsnúningur af hálfu Vinnumálastofnunar að aðalástæða þess að hann hafi hætt vegna þess að konan hans hafi ekki viljað búa í sveitarfélaginu Y.

Varðandi styrk vegna búferlaflutninga ítrekar kærandi sjónarmið sín um að reikningur hans sé fullkomlega löglegur. Hann hafi sjálfur flutt búslóðina og fjölskylduna og kostnaðurinn komi fram í reikningnum sem stafi frá honum og engum öðrum. Hann segist telja reikninginn eðlilegan miðað við eðlilegt markaðsverð á flutningum og hóflegan ef tekið er mið af leigu á jeppa og kerru á bílaleigu. Kærandi bendir á að það sé ekki gert að skilyrði fyrir styrkveitingu í 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009 að framlagðir séu reikningar lögskráðra flutningafyrirtækja til að fá styrkinn enda sé það alvanalegt að fólk noti eigin bifreiðar og flutningatæki til flutninga.

Kærandi kveður Vinnumálastofnun ekki hafa metið umsókn hans heildstætt og hún hafi ekki kynnt sér aðstæður hans og fjölskyldu hans. Hann hafi uppfyllt öll ákvæði þessarar reglugerðar til að fá flutningsstyrkinn að undanskildu ákvæði b-liðar 15. gr. vegna þess að hann hafi ekki getað flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar þangað þar sem fjölskyldan hafi verið farin.

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi til kæranda, dags. 6. júlí 2011, eftir læknisvottorði sem staðfesti veikindi konu hans. Vottorðið barst 27. september 2011 ásamt tölvubréfi frá kæranda og tölvubréfi frá sambýliskonu hans. Vottorð C, sérfræðings er dagsett 26. september 2011. Í því segir að hann hafi verið með sambýliskonu kæranda í reglulegri meðferð og eftirliti undanfarin ár og sé enn vegna veikinda. Hann staðfestir að vegna þessara veikinda hafi kærandi orðið að snúa aftur til sveitarfélagsins Z eftir að hafa flutt austur á land með fjölskylduna til að vinna hjá X í sveitarfélaginu Y. Óskist frekari upplýsingar segir læknirinn velkomið að leita til hans og hann muni góðfúslega veita þær innan trúnaðarmarka.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta varðar annars vegar ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hins vegar að hafna umsókn kæranda um búferlastyrk á grundvelli IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki.

Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009, segir:

 Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Almenn lagarök mæla með því að ákvæði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu bótaréttar skuli fyrst og fremst beitt þegar viðkomandi einstaklingur segir starfi sínu lausu og sækir í kjölfar þess um atvinnuleysisbætur. Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir.

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Kærandi starfaði hjá X í sveitarfélaginu Y frá 9. ágúst til 31. ágúst 2010. Hann sagði sjálfur upp störfum sínum hjá fyrirtækinu án þess að vera með annað starf í hendi. Í kæru sinni kveður kærandi rökin fyrir því að hann hafi sagt upp störfum vera þau að sambýliskona hans hafi flutt frá sveitarfélaginu Y ásamt barni þeirra eftir vikudvöl, þar sem hún hafi ekki getað hugsað sér að búa þar. Kærandi sagðist ekki geta haldið tvö heimili af fjárhagslegum ástæðum og ekki geta annast barn sitt við þær aðstæður. Við rannsókn málsins af hálfu nefndarinnar veitti maðurinn frekari upplýsingar um ástæðu þess að hann taldi sig nauðbeygðan að flytja suður eftir að sambýliskona hans flutti þangað með barn þeirra. Hann greinir meðal annars frá því að sambýliskona hans sé alvarlega veik og hann verði því að vera til staðar til að annast fjölskylduna.

Í læknisvottorði, dags. 26. september 2011, kemur fram að vegna veikinda sambýliskonu kæranda hafi hann orðið að snúa aftur til sveitarfélagsins Z.

Telja verður að þær viðkvæmu og persónulegu upplýsingar sem kærandi hefur veitt við rannsókn málsins sýni að hann hafi haft ríka ástæðu til að flytja aftur suður eftir að hafa hafið störf fyrir austan.

Með vísan til framanritaðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber því að ógilda ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

Kærandi sótti um styrk vegna búferlaflutninga 16. ágúst 2010, sbr. IV. kafla reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Fram kemur í 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að heimilt sé að styrkja einstaklinga til búferlaflutninga innanlands úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 12/2009 kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita sérstaka styrki vegna búferlaflutnings atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins innanlands frá þeim stað þar sem hann hefur lögheimili sitt til þess staðar sem hann flytur lögheimili sitt í því skyni að sækja vinnu hjá nýjum vinnuveitanda sem hefur sannanlega boðið honum starf. Styrkurinn nær bæði til flutnings á fjölskyldu atvinnuleitanda og á búslóð hans. Í 15. gr. reglugerðarinnar er gerð grein fyrir skilyrðum búferlastyrkja og skv. b-lið greinarinnar er eitt skilyrðanna það að atvinnuleitandi hafi flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til þess sveitarfélags sem viðkomandi starfsstöð er í. Í 18. gr. reglugerðarinnar kemur fram að umsókn um styrki á grundvelli hennar skuli vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum ásamt nauðsynlegum fylgigögnum, svo sem frumriti reikninga fyrir kostnaði vegna búferlaflutnings.

Rök Vinnumálastofnunar fyrir synjun um búferlastyrk eru meðal annars þau að styrkur skuli ekki veittur vegna starfa sem feli í sér tímabundna ráðningu og því sé ekki unnt að veita styrk í tilvikum er atvinnuleitandi hættir störfum að eigin frumkvæði og hættir við flutning milli landshluta í framhaldi af því. Þannig verði heimildin ekki nýtt þegar um skammvinna breytingu á dvalarstað sé að ræða, óígrundaðar ákvarðanir eða þreifingar atvinnuleitanda. Einnig sé það skilyrði styrkveitingar að atvinnuleitandi hafi flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til þess sveitarfélags sem viðkomandi starfsstöð er í, en það skilyrði hafi kærandi heldur ekki uppfyllt.

Óumdeilt er að kærandi hafi verið ráðinn til starfa hjá X og ekki er dregið í efa að áform hans hafi verið þau að starfa þar um óákveðinn tíma. Af þeim ástæðum er lýst hefur verið í máli þessu hafi forsendur fyrir starfinu og búferla­flutningum tengdum því hins vegar brostið. Því verður ekki fallist á að um tímabundið starf hafi verið að ræða eða óígrundaðar þreifingar er geti ekki réttlætt styrkveitingu.

Eitt af skilyrðum búferlastyrkja er að atvinnuleitandi hafi flutt lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar til þess sveitarfélags sem viðkomandi starfsstöð er í, sbr. b-lið 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Í þessu ákvæði er vísað í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar en það girðir fyrir að atvinnuleitendur, sem flytja búferlum innan höfuðborgarsvæðisins, geti fengið slíka styrki.

Reglugerðarákvæði um búferlastyrki til handa atvinnuleitendum byggja á því grundvallaratriði að með slíkum styrkjum sé í reynd verið að aðstoða þá atvinnuleitendur sem hafa burði til að flytja landshluta á milli í því skyni að tryggja sér starf til langs tíma. Ein vísbending um slíkt er þegar atvinnuleitendur eru tilbúnir að flytja lögheimili sitt á hinn nýja stað. Af þessum ástæðum er tiltekið í 1. mgr. 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita sérstaka styrki vegna búferlaflutnings atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins innanlands frá þeim stað þar sem hann hefur lögheimili sitt til þess staðar sem hann flytur lögheimili sitt í því skyni að sækja vinnu hjá nýjum vinnuveitanda sem hefur sannanlega boðið honum starf. Miðað við þetta orðalag og b-lið 15. gr. reglugerðarinnar er auðsýnilegt að skipulag kerfisins byggir á því að atvinnuleitendur hafi í reynd fært lögheimili sitt á hinn nýja stað til þess að geta fengið greidda búferlastyrki, þ.e. skilyrði um flutning lögheimilis atvinnuleitanda og fjölskyldu hans er óundanþægt nema eitthvað sérstakt komi til.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, er að finna svohljóðandi ákvæði:

 Í sérstökum undantekningartilvikum er Vinnumálastofnun heimilt að veita búferlastyrk án þess að öll skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt enda hafi stofnunin metið aðstæður viðkomandi atvinnuleitanda heildstætt, sbr. þó 2. mgr. 14. gr.

Í ljósi þess hversu stutt kærandi vann hjá X verður ekki talið að aðstæður hans hafi verið það sérstakar að ástæða sé til að beita tilvitnuðu reglugerðarákvæði. Þótt fjölskylduaðstæður kæranda hafi verið honum erfiðar þá réttlæta þær ekki að vikið sé frá þeim skilyrðum sem koma fram í b-lið 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Af þessu leiðir að sú ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja honum um greiðslu búferlastyrkja er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. september 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. september 2010 um synjun um styrk vegna búferlaflutnings A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta