Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 205/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 205/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með tölvupósti, dags. 1. nóvember 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda,A, að hún yrði látin sæta frádrætti á atvinnuleysisbótum, fyrir þrjá daga er kærandi var óvinnufær samkvæmt læknisvottorði og fjarverandi frá námskeiði á vegum stofnunarinnar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 5. nóvember 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. mars 2010 og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar í samræmi við rétt sinn.

Í ágústmánuði 2010 hófst námskeið í grafískri hönnun á vegum Vinnumálastofnunar og var kærandi skráð á námskeiðið frá 31. ágúst til 21. október 2010. Vinnumálastofnun barst tilkynning frá kæranda þann 20. september 2010 þess efnis að kærandi hafi ekki getað mætt á boðað námskeið vegna veikinda, dagana 14. til 16. september 2010. Læknisvottorð, dags. 29. september 2010, barst Vinnumálastofnun þann 5. október 2010 þar sem fram kemur að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 14. september til 16. september 2010 vegna sjúkdóms. Vinnumálastofnun greiddi ekki atvinnuleysistryggingar til handa kæranda þá daga sem hún var óvinnufær.

Greiðslustofu Vinnumálastofnunar barst tölvupóstur frá kæranda, dags. 1. nóvember 2010, með fyrirspurn vegna þess að hún hafði fengið lægri greiðslu atvinnuleysisbóta en hún hafði vanalega fengið. Kæranda barst svar Greiðslustofu Vinnumálastofnunar þann 1. nóvember 2010, þar sem henni var tilkynnt að um frádrátt frá atvinnuleysisbótum hennar væri að ræða, fyrir þrjá daga er kærandi var óvinnufær samkvæmt læknisvottorði og fjarverandi frá námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. nóvember 2010, segir kærandi að hún hafi fengið misvísandi upplýsingar frá Vinnumálastofnun varðandi veikindi sín og þá skerðingu atvinnuleysisbóta sem fylgt hafi í kjölfarið. Kærandi bendir einnig á að í lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að einstaklingar missi bótarétt sinn ef þeir séu ekki reiðubúnir að hefja störf. Kærandi segir að það eigi ekki við í hennar tilviki þar sem hún hafi verið reiðubúin að hefja störf, hún hafi eingöngu verið fjarverandi frá námskeiði á þessu tímabili, en ekki hafnað starfi. Kærandi segir að Vinnumálastofnun hafi í samskiptum við hana vísað til 14. og 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þau ákvæði eigi ekki við í hennar tilviki. Kærandi kveðst hafa lagt fram læknisvottorð að beiðni Vinnumálastofnunar, en hún segist hafa staðið í þeirri trú að með því að leggja fram læknisvottorð til staðfestingar á veikindum sínum kæmi hún í veg fyrir að hún þyrfti að sæta skerðingu á bótarétti sínum.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2010, segir Vinnumálastofnun að ágreiningurinn snúist um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða ekki atvinnuleysistryggingar til kæranda fyrir tímabilið 14. september til 16. september 2010, er kærandi var fjarverandi frá námskeiði vegna veikinda og uppfyllti því ekki skilyrði laga um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun vísar til a-liðar 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem það sé gert að skilyrði fyrir því að atvinnuleitandi geti talist tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, að hann sé fær til flestra almennra starfa. Felist í ákvæðinu það skilyrði að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar verði að teljast vinnufær að hluta eða öllu leyti. Vinnumálastofnun vísar einnig til g-liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem fram komi að atvinnuleitandi þurfi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standi honum til boða, til að geta talist í virkri atvinnuleit í skilningi laganna. Telji Vinnumálastofnun sér því ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda á sama tímabili og hann sé óvinnufær.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi vegna veikinda verið ófær um að sinna mætingarskyldu sinni á boðað námskeið hjá Vinnumálastofnun, samkvæmt afdráttarlausu læknisvottorði sem liggi fyrir í máli kæranda. Telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi því verið ófær um að sinna skyldum sínum skv. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á því tímabili. Ekki hafi komið til viðurlaga skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi lagt fram vottorð um veikindi sín.

Vinnumálastofnun vísar til laga nr. 153/2010 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraða, sem samþykkt voru á Alþingi þann 18. desember 2010. Með þeim lögum hafi orðið breytingar á 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar varðandi „tilfallandi veikindi“. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. laga núgildandi laga um atvinnuleysistryggingar er tekið hafi gildi 1. mars 2011, geti atvinnuleitandi talist vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga á tólf mánaða tímabili. Eftir gildistöku ákvæðisins sé Vinnumálastofnun því heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda vegna tímabundinna veikinda, hafi einstaklingur áunnið sér veikindarétt innan kerfisins. Vinnumálastofnun bendir á að heimild núgildandi 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi tekið gildi þann 1. mars 2011, eða um sex mánuðum eftir að atvik í máli kæranda hafi átt sér stað.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 14. september til 16. september 2010, enda hafi kærandi verið óvinnufær á því tímabili og ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi var skráð á námskeið í grafískri hönnun á vegum Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst til 21. október 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði var kærandi óvinnufær með öllu er hún var fjarverandi frá námskeiðinu dagana 14. september til 16. september 2010 og hún var í kjölfarið látin sæta frádrætti á atvinnuleysisbótum fyrir þá daga er hún var fjarverandi.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna. Þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur geta orðið tímabundið veikir, rétt eins og þeir sem starfa á vinnumarkaði. Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett giltu engar sérstakar reglur um tilfallandi veikindi atvinnuleitanda en með lögum nr. 153/2010 urðu breytingar á 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þannig að atvinnuleitandi geti talist vera í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga á tólf mánaða tímabili. Þessi lagaákvæði tóku gildi 1. mars 2011 og hafa því enga þýðingu í málinu, þ.e. leysa verður málið á grundvelli þeirra laga sem giltu á tímabilinu 14.–16. september 2010.

Það að láta atvinnuleitanda sæta þriggja daga frádrætti er ákvörðun um viðurlög. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir þurfa að eiga sér stoð í lögum. Vinnumálastofnun hefur rökstutt ákvörðun sína með vísan til reglna um virka atvinnuleit, sbr. þágildandi 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlagaúrræði Vinnumálastofnunar eru ekki að finna í þessari greinum laganna heldur í XI. kafla þeirra. Þegar kærandi var veik 14.–16. september 2010 voru engin viðurlagaúrræði í lögum um atvinnuleysistryggingar sem kváðu á um heimild Vinnumálastofnunar til að láta atvinnuleitendur sæta frádrætti af því tilefni einu að þeir hafi orðið tímabundið veikir.

Í skilningi þágildandi ákvæða laga um atvinnuleysistryggingar var kærandi í virkri atvinnuleit dagana 14.–16. september 2010 þótt hún hafi verið veik um stundarsakir. Í þessu sambandi verður til þess að líta að veikindin vöruðu eingöngu í þrjá daga og kærandi aflaði tiltækra gagna til að sanna þau. Kærandi veitti því fullnægjandi skýringar á fjarveru sinni á námskeiði um grafíska hönnun. Jafnframt verður lagt til grundvallar að kærandi hafi hvorki hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð í skilningi þágildandi 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar né veitt rangar upplýsingar um breytta hagi sína samkvæmt þágildandi 59. gr. sömu laga.

Með hliðsjón af framanrituðu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og fallist á að kærandi eigi rétt til að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14.–16. september 2010.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 1. nóvember 2010 í máli A um frádrátt á atvinnuleysisbótum kæranda í þrjá daga, vegna tilfallandi veikinda og fjarveru frá námskeiði á vegum stofnunarinnar er felld úr gildi. Kærandi á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 14.–16. september 2010.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta