Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 218/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 218/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. júlí 2010. Umsókn kæranda var samþykkt á fundi stofnunarinnar þann 6. ágúst 2010. Kærandi var ekki talinn eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skv. 7. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, heldur grunnatvinnuleysisbótum í samræmi við tryggingarhlutfall sitt skv. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta sinna og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 22. nóvember 2010. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi tekjutengdra atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

Kærandi starfaði hjá X hf. þegar hann fékk hjartaáfall þann 28. mars 2008. Hann var frá störfum vegna veikindanna frá þeim tíma þar til hann hóf störf að nýju þann 9. september 2008. Hann varð síðan að láta af störfum að nýju þann 3. desember 2008 vegna veikindanna. Í læknisvottorði, dags. 8. júlí 2010, kemur fram að kærandi sé vinnufær en sé ekki til erfiðisstarfa frá og með 1. júlí 2010. Kærandi sótti síðan um atvinnuleysisbætur þann 2. júlí 2010. Kærandi telur að hann hafi átt rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum og telur að við þann útreikning skuli ekki horft til þess tíma sem hann var frá vinnumarkaði vegna veikinda heldur skuli litið til þess að hann hafi átt geymdan bótarétt meðan á veikindum hans stóð.    

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. maí 2011, kemur fram að skv. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar öðlist atvinnuleitandi sem skráður er atvinnulaus rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði eftir að grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafi verið greiddar í tíu daga. Við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum sé byggt á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur umsækjanda, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattayfirvalda. Í samræmi við 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli Vinnumálastofnun, við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi hafi orðið atvinnulaus. Telji stofnunin að ekki séu rök eða heimildir fyrir því að líta til annars viðmiðunartímabils en lögfest sé í skýru ákvæði 32. gr. laganna við útreikning á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé viðmiðunartímabil við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda því frá september 2009 til og með mars 2010.

Vinnustofnun telji, með vísan til framangreindra sjónarmiða, að tekjutengdar atvinnuleysisbætur kæranda skuli byggjast á sex mánaða tímabili sem hefjist tveimur mánuðum áður en kærandi hafi orðið atvinnulaus. Sé Vinnumálastofnun ekki heimilt að taka tillit til launagreiðslna sem greiddar hafi verið utan viðmiðunartímabils. Þá vísar Vinnumálastofnun til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 71/2009, 36/2010 og 35/2010 er varði viðlíka álitaefni.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggi fyrir um laun kæranda á áðurnefndu sex mánaða viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu 70% af meðaltekjum kæranda lægri en sem nemi þeim grunnatvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Samkvæmt 7. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistrygginga eigi kærandi því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysistryggingum en öðlist rétt til grunnatvinnuleysisbóta í samræmi við tryggingarhlutfall sitt skv. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. maí 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. maí 2011. Kærandi sendi frekari andmæli með bréfi mótteknu 27. september 2011. Þar kemur fram að hann telji útreikning á tekjutengingu rangan og regla um geymdan bótarétt sé hunsuð. Til viðmiðunar sé notaður tími þegar kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri og dagpeningum en ekki þegar hann hafi verið starfandi launþegi.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt kæru virðast ágreiningsefni þessa máls vera tvíþætt, annars vegar krefst kærandi þess að bótahlutfall hans verði hækkað úr 97% í 100% og hins vegar krefst hann þess að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði frá og með umsóknardegi. Hvað fyrra atriðið varðar gefa gögn málsins til kynna að Vinnumálastofnun hafi viðurkennt að bótahlutfall kæranda sé 100% frá og með umsóknardegi, sbr. yfirlitsblað stofnunarinnar yfir bótaútreikning kæranda. Sú niðurstaða samrýmist reglum um ávinnslutímabil atvinnuleysisbóta launamanna og um geymdar atvinnuleysistryggingar, sbr. 15. og 26. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki þykir þörf á að fjalla nánar um þetta álitaefni en eigi að síður verður í úrskurðarorði tekið sérstaklega fram að kærandi eigi rétt til greiðslna 100% atvinnuleysisbóta frá og með 2. júlí 2010.

Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram sú meginregla að sá sem telst tryggður skv. III. eða IV. kafla öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði. Til að öðlast rétt til slíkra greiðslna þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að uppfylla ýmis skilyrði. Þannig segir í 1. málsl. 2. mgr. 32. gr. laganna að tekjutengdar atvinnuleysisbætur launamanna skv. 1. mgr. skuli nema 70% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við sex mánaða tímabil sem hefjist tveimur mánuðum áður en umsækjandi varð atvinnulaus. Tekið er fram að til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald en ekki skal miða við tekjur af störfum er umsækjandi gegnir áfram. Jafnframt segir í ákvæðinu að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem umsækjandi hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Aldrei skal þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í 4. mgr. 32. gr. segir að útreikningur á tekjutengdum atvinnuleysisbótum skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur umsækjanda úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.

Miðað við orðalag 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er ekki nauðsynlegt að túlka viðmiðunartímabilið fyrir útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta í samræmi við reglur um ávinnslutímabil atvinnuleysisbóta, sbr. 15., 19. og 23.–28. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðmiðunartímabilið er því ávallt sex mánaða tímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en umsækjandi um atvinnuleysisbætur varð atvinnulaus.

Kærandi veiktist alvarlega í lok mars 2008 sem gerði það meðal annars að verkum að kærandi fékk greiðslur úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags sem og frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu maí 2008 til september 2008. Kærandi hóf aftur störf í september 2008 en þurfti að hætta vinnu í desember sama ár vegna veikinda. Vinnuveitandi kæranda greiddi honum laun í maí 2008 og frá september til desember 2008. Fram til júlí 2010 fékk kærandi svo greiðslur úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags og frá Tryggingastofnun ríkisins áður en hann sótti svo um atvinnuleysisbætur í byrjun júlí 2010.

Af framangreindu leiðir að kærandi varð atvinnulaus í desember 2008 og því er viðmiðunartímabil fyrir útreikning tekjutengdra atvinnuleysisbóta frá maí 2008 til október sama ár, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sé mið tekið af staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fékk kærandi samtals 723.520 kr. í laun á þessu tímabili. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal aldrei miða meðaltal launa við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Með hliðsjón af þessari reglu voru meðaltal launa kæranda Y kr. á viðmiðunartímabilinu en 70% af þeirri tölu er Y kr. sem er lægri fjárhæð en grunnatvinnuleysisbætur.

Með hliðsjón af framansögðu, og með vísan til þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun um þetta atriði, þá verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er að kærandi, A eigi rétt til greiðslna 100% atvinnuleysisbóta, frá og með 2. júlí 2010. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest að synja kæranda um greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta