Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 70/2020

Fimmtudaginn 18. júní 2020

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. febrúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála, afgreiðslu Seltjarnarnesbæjar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Seltjarnarnesbæ árið 2019. Að sögn kæranda sótti hann einnig um félagslegt leiguhúsnæði árið 2006. Kærandi kveðst enn bíða afgreiðslu umsóknarinnar og kæri því drátt á afgreiðslu, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Seltjarnarnesbæjar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2020, og með símtali starfsmanns úrskurðarnefndarinnar 11. maí 2020. Greinargerð Seltjarnarnesbæjar barst 15. maí 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. maí 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og ástæðu þess að hann hafi sótt um félagslega leiguíbúð hjá Seltjarnarnesbæ. Kærandi hafi fyrst sótt um íbúð árið 2006 en lítið hafi verið um svör frá sveitarfélaginu og hann upplifað fordóma frá félagsþjónustunni. Árið 2019 hafi nýir félagsráðgjafar komið til starfa og þá hafi kærandi fengið smá von um breytingar á sínum húsnæðisvanda. Þrátt fyrir það hafi ekkert breyst en hann hafi verið búsettur á áfangaheimili í sex ár.

III.  Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar

Í greinargerð Seltjarnarnesbæjar kemur fram að núverandi sviðsstjóri Fjölskyldusviðs sveitarfélagsins hafi ekki komið að málsmeðferð vegna umsókna kæranda sem séu annars vegar frá því í nóvember 2019 og hins vegar frá byrjun janúar 2020. Við eftirgrennslan um afgreiðslu umsóknanna sé ljóst að ekki liggi fyrir önnur skrifleg gögn um málið en umræddar umsóknir. Samkvæmt fyrrverandi félagsmálastjóra Seltjarnarnesbæjar hafi umsóknunum verið haldið til haga en ekki synjað þannig að kærandi sé enn á biðlista eftir félagslegu húsnæði hjá sveitarfélaginu. Það sé miður að ekki hafi verið brugðist við umræddum umsóknum með formlegum svörum af hálfu Seltjarnarnesbæjar. Nú liggi fyrir ný umsókn frá kæranda og hún verði tekin til efnislegrar meðferðar á næstu dögum. Í kjölfarið verði hann upplýstur um niðurstöðu afgreiðslu málsins.

IV.  Niðurstaða

Kærandi sótti um félagslegt leiguhúsnæði hjá Seltjarnarnesbæ árið 2019. Að sögn kæranda sótti hann einnig um félagslegt leiguhúsnæði árið 2006 og kveðst enn bíða afgreiðslu umsóknanna. Samkvæmt upplýsingum frá Seltjarnarnesbæ liggja ekki fyrir nein skrifleg gögn um mál kæranda önnur en umsóknir hans um félagslegt leiguhúsnæði frá því í nóvember 2019 og janúar 2020. Umsóknum kæranda hafi verið „haldið til haga en ekki synjað“.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við framangreinda málsmeðferð Seltjarnarnesbæjar. Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar, enda uppfylli erindið skilyrði um að ráðið verði af efni þess að vænst sé svars og erindið sé á verksviði stjórnvaldsins. Þá ber stjórnvaldinu að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.

Þar sem Seltjarnarnesbær hefur ekki lagt fram viðhlítandi skýringar á þeirri töf sem hefur orðið á afgreiðslu máls kæranda og ekki verður séð að hann hafi fengið nein svör við erindum sínum, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að afgreiðsla máls kæranda hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og taka afstöðu til réttar kæranda til húsnæðis svo fljótt sem auðið er.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Seltjarnarnesbæjar í máli A var ekki í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt er fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu máls kæranda og taka afstöðu til réttar hans til félagslegs leiguhúsnæðis svo fljótt sem auðið er.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta