Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2003

Þriðjudaginn, 13. maí 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 30. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. maí 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 7. mars 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 kemur m.a. fram að foreldrar í fullu námi eigi rétt á fæðingarstyrk. Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er tilgreint hvað teljist til fulls náms en þar segir: 

„Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms.

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.

Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðum um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.“ 

Á heimasíðu Tryggingastofnunarinnar er svo á nokkrum stöðum (www.tr.is – valið „á erlendri grund” og svo valið „námsmenn erlendis”) skilgreint hverjir teljist til námsmanna erlendis. Þar kemur fram „Með námsmanni er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu skírteinis um menntun sem viðurkennd er af yfirvöldum.” Enn fremur er þar tekið fram að sá sem dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins.

Í 2. mgr. 5. gr. læknalaga nr. 53/1988 segir „Ráðherra setur reglur um nám sérfræðinga að fengnum tillögum læknadeildar Háskóla Íslands“. Í 7. gr. reglugerðar um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa nr. 305/1997 kemur m.a. fram að til þess að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðingsleyfi þurfi hann að hafa lokið sérnámi og má heildarnámstími ekki vera skemmri en 4 1/2 ár í aðalgrein. 

Nám mitt er 6-7 ára sérnám í B-fræðum við D-háskóla. Námið er bæði bóklegt og verklegt þannig að það felst í verknámi á spítalanum, daglegum fyrirlestrum og prófum sem mér er skylt að taka og standast til að halda áfram námi. Mat á frammistöðu minni fer fram mánaðarlega og verð ég að standast það mat. Á vegum E-lensku læknasamtakanna eru haldin próf á hverju ári. Að námi loknu eru svo einnig á vegum E-lensku læknasamtakanna haldin sérfræðipróf (board test) sem ég þarf að standast til að fá sérfræðiréttindi. Að því loknu fæ ég sérfræðititilinn B-læknir að því tilskildu að ég hafi lokið 100% námsins og fengið tilteknar lágmarkseinkunnir úr lokaprófum, líkt og í öðrum háskólagreinum. Greiða þarf um F kr. fyrir hvert próf sem tekið er en ekki eru greidd skólagjöld. Í sérnámi lækna E-landi er greiddur styrkur og er hann veittur vegna verklega hluta námsins og er ætlað að standa straum af framhaldsnáminu, bókum, námsgögnum, prófgjöldum o.s.frv. en er á engan hátt hugsaður sem laun til framfærslu námsmanns og fjölskyldu hans. Styrkurinn er ákveðin fjárhæð á mánuði og er algjörlega óháður fjölda vinnustunda, þar á meðal vaktavinnu. Ef styrknum væri deilt niður á fjölda vinnustunda yrði tímakaupið langt fyrir neðan lágmarkslaun sem samið er um í kjarasamningum verkalýðsfélaga á Íslandi. Þess má loks geta að ég á engan kost á að stunda nám mitt nám mitt á Íslandi og verð ég því að taka nám mitt erlendis.

Eftir að hafa skoðað þau lög og reglur sem snúa að rétti mínum sem námsmanni til fæðingarstyrks sýnist mér ég eiga ótvíræðan rétt á greiðslu hans. Í 1. mgr 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er fullt nám skilgreint sem 75-100% nám á háskólastigi og er heimild til að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum. Nám það sem ég stunda er á háskólastigi og er gerð krafa um það að námsmenn hafi áður en þeir hefja nám lokið kandidatsnámi í læknisfræði við viðurkenndan háskóla. Námið er a.m.k. 100% nám og fer kennslan fram á háskólasjúkrahúsi sem er hluti af D-háskóla. Í reglugerðinni er einnig gerð krafa um það að námsmenn hafi lögheimili á Íslandi og uppfylli ég það skilyrði. Í 2. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar kemur fram að leggja þurfi fram staðfestingu frá skólanum, hana hef ég lagt fram og er hún nú í höndum Tryggingastofnunarinnar. Í 3. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar er kveðið á um að verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns skuli meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Með þessu ákvæði er verið að tryggja það að námsmenn sem eru í verknámi þ.e. ekki þessir hefðbundnu námsmenn fái greiddan fæðingarstyrk ef þeir eiga ekki rétt á greiðslu fæðingarorlofs sem starfsmenn. Það sama hlýtur að eiga við um námsmenn erlendis þar sem hluti náms er verknám. Ég get ekki séð að í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né í reglugerðinni um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé verið að undanskilja neina tegund námsmanna, frekar að verið sé að tryggja að allir sem teljast til námsmanna fái greiddan fæðingarstyrk.

Á heimasíðu Tryggingastofnunarinnar er skilgreint hverja stofnunin lítur á sem námsmenn erlendis. Samkvæmt þeirri skilgreiningu þarf viðkomandi námsmaður að vera einstaklingur annar en launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur. Ég er einstaklingur og ekki launþegi í námi mínu eins og komið hefur fram en ég nýt styrks vegna verklega hluta námsins sem er óaðskiljanlegur hluti sérnáms míns. Fjárhæð þessarar greiðslu er algerlega óháð raunverulegu vinnuframlagi mínu. Í skilgreiningunni er einnig gerð krafa um það að viðkomandi sé við nám eða starfsþjálfun og er ég við nám hér eins og komið hefur fram. Námið þarf að ljúka með útgáfu skírteinis um menntun sem er viðurkennd af yfirvöldum. Eins og fram hefur komið er gerð krafa um það í lögum og reglugerðum um lækna að þeir þurfi að ljúka tilskildu námi til að öðlast sérfræðiréttindi. Fæ ég við lok náms útgefið skírteini um menntun sem er viðurkennd af yfirvöldum, en engin möguleiki er að fá útgefið skírteini án þess að hafa lokið námi, sbr. 5. gr. læknalaga og rg. 305/1997 um veitingu læknaleyfa og sérfræðileyfa.

Í læknalögum nr. 53/1998 og reglugerð um veitingu lækningaleyfa og sérfræðileyfa nr. 305/1997 er ávallt talað um sérnám lækna sem nám og uppfyllir það nám sem ég stunda hér þau skilyrði sem lögin og reglugerðin setja um sérnám lækna. Ef óskað er eftir frekari upplýsingum um nám mitt þá er hægt að verða við því.

Þess má geta að Hagstofa Íslands lítur á lækna í sérnámi sem námsmenn og er þeim og fjölskyldum þeirra heimilað á grundvelli 1. mgr. 9. gr. lögheimilislaga nr. 21/1990 sem fjallar um lögheimili námsmanna að hafa lögheimili á Íslandi. Eins heimilar ríkisskattstjóri læknum í sérnámi að hafa skattalegt heimilisfesti á Íslandi sem námsmenn, sbr. reglugerð um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám nr. 648/1995. 

Ennfremur vil ég benda á þau fordæmi sem hafa gengið eftir gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 og reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Að mér vitandi hafa sambærileg mál verið afgreidd á árunum 2001 og 2002 á þann veg að greiddur hefur verið fæðingarstyrkur til námsmanna í sama námi og ég er í. Jafnframt veit ég til þess að nemar í meistara- og doktorsnámi sem eru á styrk fyrir kennsluframlag hafa verið að fá greiddan fæðingarstyrk og m.a eitt mál um svipað leyti og ég sótti um fæðingarstyrkinn. Við getum farið ofaní þessi mál og nafngreint þá einstaklinga sem í hlut eiga ef það er tryggt að afgreiðslu þeirra verði ekki breytt þó svo að Tryggingastofnun telji afgreiðslu þeirra hafa verið ranga. Ég get ekki annað séð en að með afgreiðslu þeirra hafi verið skapað fordæmi og sams konar mál hljóta að fá sams konar afgreiðslu á meðan lögin og reglugerðin eru þau sömu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis.

Synjun Lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins á afgreiðslu fæðingarstyrk námsmanna til mín er rökstudd með því að launað verklegt nám sem stundað er á Íslandi veiti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Heimild reglugerðarinnar til að meta nám foreldris erlendis eigi ekki við þegar stundað er launað verklegt nám þar sem fæðingarstyrkur greiðist ekki foreldri sem er á vinnumarkaði. Ekki get ég séð að þessi túlkun eigi sér nokkra stoð, hvorki í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 né í reglugerðinni um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Eins og fram hefur komið er ég ekki á vinnumarkaði og nýt ekki launa fyrir nám mitt. Ég vil einnig benda á 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks en þar kemur fram að verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu skuli meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Það er því ljóst að ekki allt verknám veitir rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Ennfremur er það ljóst að verknám á Íslandi hvort sem það er launað eða ekki og veitir ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði veitir rétt til greiðslu fæðingarstyrk. Heimild reglugerðarinnar til að meta nám foreldris erlendis hlýtur því að eiga við bóklegt og verklegt nám sem stundað er erlendis hvort sem námsmaður fær greiddan styrk eða ekki. 

Loks má geta þess að málsvarar ríkisins réttlæta óhóflegt vinnuálag unglækna á Íslandi með því að telja þá lækna í námi og með því falla þeir ekki undir vinnutímatilskipun ESB. Okkur þykir það skjóta skökku við að um leið og þeir halda erlendis í framhaldsnám og eru raunverulegir námsmenn njóta þeir ekki réttinda sem slíkir.“

Með bréfi, dags. 6. júní 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 19. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 7. ágúst 2002 og móttekinni 21. ágúst 2002 sótti kærandi um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 28. ágúst. Með umsókninni fylgdi staðfesting frá the D-háskóla dags. 18. júlí 2002 um að hann væri „currently a Second Year Resident in good standing in the Department of G at the D-háskóli“.

Þar sem í staðfestingunni kom fram að kærandi væri „resident“, en það mun almennt þýða að hann sé í launuðu verklegu námi, var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 17. september 2002 óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda í E-landi á árinu 2001 og það sem af væri árinu 2002.

Tóku þá við samskipti með netpósti við maka kæranda sem óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun fyrir að krefjast skattframtals sem lauk með því að eftir að staðfesting barst á því að þau væru með skattalegt heimilisfesti hér á landi var samþykkt að greiða maka kæranda fæðingarstyrk foreldris utan vinnumarkaðar en kæranda var með bréfi dags.7. mars 2003 synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hann fengið laun greidd erlendis fyrir verklegt nám sem hann stundar þar.

Samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl). eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 19. gr. ffl. er kveðið á um að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan.

Í 12. gr. reglugerðarinnar er áréttað að foreldri þurfi að hafa átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði þar á undan og síðan tekið fram að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Í 9. gr. a. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (sem er í I. kafla A. laganna) er kveðið á um að sá sem sé búsettur hér landi teljist tryggður, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum og að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Í 9. gr. c. er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem tryggður er skv. lögunum sé áfram tryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 9. gr. a, enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki tryggður í námslandinu. Sama gildi um maka hans sem var tryggður hér við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast. Í 9. gr. d. segir að ráðherra setji reglugerð um einstök atriði varðandi framkvæmd þessa kafla, m.a. um skráningu Tryggingastofnunar ríkisins á tryggingaréttindum einstaklinga og hvað telja skuli viðurkennt nám erlendis.

Í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá nr. 463/1999 er að finna svohljóðandi skilgreiningu á því hver sé námsmaður:

„Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.“

Í þessari skilgreiningu er að finna það skilyrði fyrir því að geta verið tryggður á Íslandi skv. lögum um almannatryggingar að viðkomandi einstaklingur sé ekki launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í þessu sambandi skal einnig bent á það að í úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna kemur fram að lán er ekki veitt til náms sem er liður í launuðu starfi samkvæmt ráðningarsamningi og er tekið sérstaklega fram að þetta gildi m.a. um launað framhaldsnám lækna.

Fram til gildistöku ffl. annaðist Tryggingastofnun ríkisins greiðslur í fæðingarorlofi til foreldra á grundvelli 15., 16. og 16. a gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.). Greiddur var fæðingarstyrkur og ef foreldri hafði unnið tiltekinn fjölda vinnustunda á síðustu 12 mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs voru til viðbótar greiddir fæðingardagpeningar, að því tilskyldu að störf væru lögð niður. Nám var metið til vinnustunda og ef um fullt nám hafði verið stundað í a.m.k. sex mánuði voru greiddir fullir fæðingardagpeningar. 

Fjárhæð skv. ffl. er sambærileg við samanlagða fjárhæð fæðingarstyrks og fullra fæðingardagpeninga fæðingarstyrks námsmanna sem áður greiddist skv. atl. Veigamesta breytingin sem varð á greiðslum til námsmanna við gildistöku ffl. var sú að nám er ekki lengur metið sem vinna og þar með er ekki lengur gerð sú krafa að hlé sé gert á námi, þ.e.a.s.. að störf séu lögð niður í fæðingarorlofi, meðan greiðslur eiga sér stað.

Eftir gildistöku ffl. kom smám saman í ljós að þar sem sú breyting hafði orðið á eðli greiðslna skv. lögunum að greiðslur til námsmanna eru ekki lengur sömu greiðslur og til foreldra á vinnumarkaði og jafnframt því að í ljós kom að foreldrar sem stunda launað verklegt nám á Íslandi teljast vera á innlendum vinnumarkaði og eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, að uppfylltu því skilyrði fyrir þeim greiðslum að störf væru lögð niður en ekki fæðingarstyrk námsmanna, væri engan veginn eðlilegt að foreldrar sem stunda launað verklegt nám erlendis gætu sótt um að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna og nutu þar með meiri réttinda heldur en foreldrar sem stunduðu sambærilegt nám hér á landi.

Þessu tengist einnig sú breyting á 14. gr. reglugerðar 909/2000 sem gerð var í desember 2001 að heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk námsmanna sem hefur lokið a.m.k. einnar annar námi og hefur síðan verið samfellt á vinnumarkaði en sú krafa hefur verið gerð í slíkum tilvikum að ekki sé um þátttöku á vinnumarkaði að ræða á meðan.

Í framhaldi af þessu var farið að gera auknar kröfur um þau gögn sem framvísað væri með umsóknum um fæðingarstyrk námsmanna erlendis, þ.á.m. með því að fara fram á upplýsingar um hvort um greiðslu launa fyrir verklegt nám væri að ræða. Þegar þannig var farið að kanna betur í hverju nám umsækjenda um fæðingarstyrk námsmanna væri fólgið kom í ljós að eitthvað hafði verið um það að greiðsla fæðingarstyrks hefði átt sér stað á grundvelli staðfestinga um nám þar sem ekki höfðu komin fram neinar upplýsingar um að um launagreiðslur væri að ræða. Lífeyristryggingasvið telur að foreldri sem upplýst er að stundi launað verklegt nám geti ekki fengið greiddan fæðingarstyrk námsmanna á grundvelli þess að áður en auknar voru kröfur um gögn sem framvísað væri með umsóknum hafa í einhverjum tilvikum verið um að ræða greiðslur þegar réttur var í raun ekki fyrir hendi.

Þar sem einnig kom í ljós að iðulega var um tekjur erlendis að ræða sem ekki hafði verið staðið skil á til skattyfirvalda hér á landi þrátt fyrir að þeim sem eru með heimilisfesti hér á landi er skv. 1. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt nr. 75/1981 skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, og eignaskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær eru, að teknu tilliti til tvísköttunarsamninga eins og t.d. hefur verið gerður við E-land, var farið að kanna hvort sótt hefði verið um skattalegt heimilisfesti skv. reglugerð um réttindi og 648/ skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld nr. 1995 ef tali var að um tekjur væri að ræða enda er skattalegt heimilisfesti skilyrði fyrir heimild til að halda lögheimili hér á landi á grundvelli 9. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990.

Kæranda synjað um að fá greiddan fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hann fengi greidd laun í E-landi fyrir verklegt nám sem hann stundar þar. Í tengslum við þetta skal á það bent að ef sambærilegt nám væri stundað á Íslandi teldist viðkomandi foreldri vera á innlendum vinnumarkaði og ætti rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. ffl. Lífeyristryggingasvið lítur svo á að heimild 4. ml. (3. ml. fram til 1. janúar 2003) 1.mgr. 14. gr. reglugerðarinnar til að meta nám foreldris erlendis eigi ekki við þegar stundað er launað verklegt nám þar sem fæðingarstyrkur greiðist ekki foreldri sem er á vinnumarkaði.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2004, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust með bréfi dags. 15. mars 2004. Þann 14. apríl 2004 óskaði úrskurðarnefndin eftir skattframtölum kæranda vegna áranna 2001 og 2002 og bárust þau 21. apríl 2004 og 29. apríl sama ár.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. 

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna þess að beðið var eftir greinargerð frá Tryggingastofnunar ríkisins vegna málsins, svo og vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Eftir að málið barst til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 30. maí 2003 var óskað eftir greinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi dags. 6. júní 2003. Með tölvupósti 25. nóvember 2003 og síðan aftur 6. janúar 2004 var beiðni um greinargerð ítrekuð. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst 21. janúar 2004. Athugasemdir kæranda við greinargerðinni bárust 22. mars 2004 með bréfi dags. 15. mars sama ár. Eftir að framangreind gögn málsins lágu fyrir var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kalla þyrfti eftir ákveðnum skattframtölum kæranda og var það gert. Þau bárust annars vegar 21. apríl 2004 og hins vegar 29. apríl 2004. Í framhaldi af því var hægt að úrskurða í málinu. 

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. 

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13 gr. reglugerðarinnar. Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla, sbr. 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Barn kæranda fæddist 25. ágúst 2002. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 25. ágúst 2001 til fæðingardags barnsins. 

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi á árinu 2001 til E-lands til þess að stunda þar nám. Hann stundar sérnám í B-fræðum við D-háskóla, nám sem felur í sér bóklega og verklega þætti. Kærandi fær greiðslur vegna námsins sem er ákveðin upphæð á mánuði.

Kærandi er skráður með lögheimili á Íslandi en heimild til þeirrar skráningar byggir á dvöl hans við nám erlendis. Þann 28. janúar 2003 úrskurðaði ríkisskattstjóri að kærandi skuli með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum og með vísan í reglugerð 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám eiga rétt á að eiga hér á landi skattlegt heimilisfesti. Samkvæmt því ber hann skattskyldu hér á landi af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað. 

Samkvæmt skattframtali kæranda vegna ársins 2001 eru tekjur hans í E-landi samtals H kr. og samkvæmt skattframtali hans vegna ársins 2002 eru tekjur hans samtals I kr. Framangreindar tekjur eru gefnar upp sem tekjur erlendis í reit 2.8 á skattframtalinu.

Kærandi hefur haft allnokkrar mánaðarlegar tekjur vegna náms síns erlendis. Nám hans þar mun vera að stórum hluta verklegt. Með hliðsjón af því og þar sem 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 tekur eingöngu til verklegs náms sem stundað er á Íslandi, verður eigi talið að kærandi eigi rétt á greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest. 

  

   

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta