Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 7. júní 2002.

Föstudaginn 7. júní 2002 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 4/2000

Vegagerðin

gegn

Eigendum Skjöldólfsstaða I og II

og kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

I. Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 27. janúar 2000 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 14. febrúar 2000, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi) þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms í landi Skjöldólfsstaða I og II, Jökuldal. Tilefni eignarnámsins er lagning nýs vegar um landið. Andlag eignarnámsins er nánar tiltekið:

a) Eftirtalin útihús Skjölólfsstaða I skv. skráningu Fasteignamats ríkisins:

1. Fjós byggt 1963, 82 m² að flatarmáli.

2. Hlaða byggð 1959, 157,5 m² að flatarmáli.

3. Fjárhús, byggt 1973, 481,8 m² að flatarmáli.

b) 2,2 ha. landspilda undir vegsvæði, 550 m. löng og 40 m. breið. Um 0,88 ha af spildunni er ræktað land, en að öðru leyti er um óræktað land að ræða sem að stærstum hluta er ræktunarhæft. Eignarnemi skilar aftur fyrra vegsvæði sem er u.þ.b. jafn langt. Skv. upplýsingum eignarnema sem fram komu í matsbeiðni skiptist spildan þannig að hluti hennar er í eigu skráðra eigenda Skjöldólfsstaða I en hluti hennar í óskiptri sameign eigenda Skjöldólfsstaða I og II.

Með úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta dags. 20. desember 2000 voru eigendum Skjöldólfsstaða I ákvarðaðar bætur fyrir byggingar þær sem taldar eru upp í a-lið hér að framan. Frestað var að ákvarða bætur fyrir landspilduna skv. b-lið, enda aðilar málsins ekki á eitt sáttir um eignarhald á þeirri spildu. Þann 7. mars 2002 var lögð fram í málinu landskiptagerð dags. 15. júní 2001 en skv. henni tilheyrir hin eignarnumda spilda ekki Skjöldólfsstöðum II. Teljast því eigendur Skjöldólfsstaða I eignarnámsþolar í máli því sem hér er til úrskurðar og er samkomulag um það af hálfu Norður-Héraðs einnig sem þó kann að eiga hluta af hinni eignarnumdu spildu skv. fram lögðum gögnum.

Eigendur Skjöldólfsstaða I eru:

Vilhjálmur Snædal, kt. 311045-3429, Skjöldólfsstöðum I, Jökuldal, Þorsteinn Snædal, kt. 271269-2939, Álfatröð 5, Egilsstöðum og Steinunn Snædal, kt. 190872-4759, Vörðubrún, Egilsstöðum.

Eignarnámsheimildina er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.

III. Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir mánudaginn 14. febrúar 2000. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekin tíma til vettvangsgöngu. Við fyrirtökuna tók Jörundur Gauksson hdl. lögmaður Eiríks Skjaldarsonar fram að umbj. hans hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um hina nýju veglínu auk þess sem ekki hafi verið reynt að ná sáttum við hann um bætur fyrir eignarnámið. Af hálfu lögmannsins var gerð krafa til að slíkar samningaviðræður færu fram áður en málinu yrði fram haldið. Stefán Erlendsson hdl., lögmaður Vegagerðarinnar, tók fram að Eiríkur hefði hingað til neitað öllum viðræðum um bætur. Tók Stefán jafnframt fram að væri nú vilji til slíkra samningaviðræðna væri Vegagerðin einnig tilbúin til þess.

Þriðjudaginn 5. september 2000 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Eignarnámsþolar tóku fram að ekki lægi fyrir um nákvæma skiptingu hinnar eignarnumdu landsspildu þeirra í milli. Eignarnámsþolar tóku fram að það væri því þó ekki til fyrirstöðu að landið yrði metið af nefndinni. Af hálfu Jörundar Gaukssonar hdl. lögmanns Stefáns Skjaldarsonar kom fram að hann teldi ekki forsendur til að hefja matsstörf í máli þessu þar sem ekki lægi fyrir formleg ákvörðun um hvað tekið skyldi eignarnámi. Þá kvað Jörundur umbj. sinn ekki hafa fengið tækifæri til að tjá sig um fyrirhugaða staðsetningu veglínunnar. Vilhjálmur Snædal tók fram að hann gerði ekki athugasemd við fyrirhugaða veglínu. Stefán Erlendsson hdl. lögmaður Vegagerðarinnar mótmælti bókun lögmanns Stefáns Skjaldarsonar og gerði þá kröfu að málinu yrði fram haldið. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema til 19. september 2000.

Samkvæmt samkomulagi við aðila málsins varð ekkert af fyrirtöku málsins þann 19. september 2000. Mánudaginn 16. október 2000 var málið tekið fyrir. Þar sem Eiríkur Skjaldarson hafði þá kært eignarnámsákvörðunina óskaði eignarnemi eftir því að þætti málsins er varðar landspilduna undir hinn nýja veg yrði frestað ótiltekið, en að nefndin úrskurðaði nú einungis bætur fyrir hinn eignarnumda húsakost. Ekki var gerð athugasemd við þetta af hálfu matsnefndarinnar og lagði eignarnemi fram greinargerð vegna þess þáttar málsins. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.

Mánudaginn 6. nóvember 2000 var málið tekið fyrir. Af hálfu lögmanns Skjöldólfsstaða I var lögð fram greinargerð vegna mats á bótum fyrir hinn eignarnumda húsakost. Af hálfu matsnefndarinnar var ekki talin þörf á munnlegum flutningi málsins og var málið því tekið til úrskurðar.

Miðvikudaginn 20. desember 2000 kvað matsnefndin upp úrskurð um bætur fyrir hinn eignarnumda húsakost.

Fimmtudaginn 28. júní 2001 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram ýmis gögn auk þess sem lögmaður Skjöldólfsstaða II lagði fram eitt skjal. Eignarnemi krafðist þess að málið yrði tekið til úrskurðar, en því var mótmælt af hálfu lögmanns Skjöldólfsstaða II þar sem beðið væri niðurstöðu samgönguráðuneytisins vegna kærumáls umbj. hans vegna eignarnámsins. Skv. ákvörðun matsnefndarinnar var málinu frestað ótiltekið.

Miðvikudaginn 18. júlí 2001 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram nokkur gögn auk þess sem eignarnemi lagði fram úrskurð landbúnaðarráðuneytisins dags. 11. júlí 2001 þar sem eignarnámsákvörðun eignarnema er staðfest. Að kröfu eignarnema heimilaði matsnefndin eignarnema að hefja framkvæmdir á svæðinu þó matinu væri ekki lokið. Fram kom að hinu umþrætta landi hefði verið skipt og að eigendur Skjöldólfsstaða I væru eigendur hins eignarnumda auk þess sem hugsanlegt væri að sveitarfélagið Norður-Hérað ætti þar einhverja hagsmuni. Málinu var að því búnu frestað ótiltekið af hálfu nefndarinnar þar til ljóst væri orðið hver eða hverjir væru raunverulegir eignarnámsþolar í málinu.

Fimmtudaginn 7. mars 2002 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram ýmis gögn. Fram kom að aðilar sættu sig við landskiptagerð þá sem lögð hafði verið fram. Var því eigandi Skjöldólfsstaða II ekki lengur talinn aðili að matsmálinu.

Fimmtudaginn 4. apríl 2002 var málið tekið fyrir. Eignarnemi og lögmaður eig. Skjöldólfsstaða I lögðu fram greinargerðir í málinu. Matsnefndin ákvað að senda lögmanni Norður-Héraðs framlögð gögn og óska sérstaklega eftir afstöðu hans til málsins og rökstuðningi fyrir því að Norður-Hérað ætti hagsmuna að gæta í málinu. Tekið var fram að matsnefndin myndi taka afstöðu til þess hvort hún teldi þörf á munnlegum flutningi málsins eftir að hún móttæki svör frá lögmanninum.

Fimmtudaginn 4. apríl 2002 sendi matsnefndin lögmanni Norður-Héraðs bréf þar sem m.a. var krafist svara hans við því hvaða hagsmuni Norður-Hérað teldi sig eiga í málinu auk þess sem óskað var eftir greinargerð frá lögmanninum þar sem rökstuðningur fyrir aðild Norður-Héraðs kæmi fram auk þeirra sjónarmiða sem umbj. hans teldi að líta bæri til við matið. Svarbréf barst frá lögmanninum dags. 16. maí 2002. Í svarinu kemur fram að sveitarfélagið setji ekki fram nein sérstök sjónarmið varðandi matið en bendir á að um tún og gróið land sé að ræða. Með bréfi lögmannsins fylgdi kort og ljósmynd er hann kveður sýna hve stóran hlut af hinu eignarnumda landi er í eigu sveitarfélagsins. Að höfðu samráði við lögmann Norður-Héraðs var ákveðið að breyta allt að einu ekki aðildinni í málinu, þ.e. að líta svo á að eigendur Skjöldólfsstaða I væru aðilar gagnvart eignarnema í máli þessu, þó uppgjör kynni að eiga sér stað síðar milli þeirra og Norður-Héraðs. Að þessari ákvörðun tekinni var málið tekið til úrskurðar, en matsnefndin telur ekki þörf á munnlegum flutningi málsins fyrir nefndinni.

IV. Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður hina eignarnumdu spildu vera um 2,2 ha. að stærð og þar af séu 0,88 ha. taldir ræktað land en 1,32 ha. óræktað. Eignarnemi bendir á að Skjöldólfsstaðir séu staðsettir ofarlega í Jökuldal. Staðsetning jarðarinnar sé með þeim hætti að þar sé ekki um að ræða neina eftirspurn eftir byggingarlandi. Hefðbundin landbúnaðarnot eru því einu raunhæfu notin sem hægt sé að hafa af landinu. Eignarnemi vill að við ákvörðun bótanna sé tillit tekið til þess að um sé að ræða landbúnaðarland í harðbýlli, afskekktri sveit.

Eignarnemi hefur lagt fram orðsendingu nr. 13/2001 um landbætur, greiðslur fyrir efnistöku, áætlaðan stofnkostnað girðinga og greiðslu viðhaldskostnaðar girðinga með stofn- og tengivegum. Eignarnemi kveður orðsendinguna gerða að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands hvað varðar landverð, en tekið sé fram að um lágmarksverð sé að ræða. Eignarnemi býður kr. 203.500 pr. ha. fyrir ræktaða hluta landsins en kr. 20.000- pr. ha. fyrir óræktaða hlutann. Eignarnemi telur verðmæti landsins allt að einu vera lægra en það sem hann býður fram t.d. með hliðsjón af fasteignamatsverði ræktaðs lands.

Eignarnemi byggir á því að bætur til eignarnámsþola eigi að miðast við sannað fjárhagslegt tjón hans af eignarnáminu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim, sem eru tilefni eignarnámsins. Eignarnemi telur færsla vegarins frá húsunum muni auka öryggi og notagildi eignanna og því auka verðgildi jarðarinnar í heild. Hér sé um að ræða sérstakt hagræði sem komi eignarnámsþolum einum til góða og líta beri til þess við matið til lækkunar á bótum til eignarnámsþola. Telur eignarnemi verðmætaaukninguna af þessum sökum ekki vera minni en 10% af verðmæti þess hluta eignarinnar sem eftir verður og megi í þessu sambandi miða við fasteignamatsverð.

Varðandi málskostnaðarkröfur bendir eignarnemi á að eignarnámsþolar hafi þegar fengið ákvarðaðan málskostnað vegna eignarnáms á útihúsunum og því beri einungis að ákvarða þeim bætur fyrir þann þátt málsins sem nú er til meðferðar. Beri því einungis að miða við kostnað við rekstur málsins sem til hefur fallið efir uppkvaðningu úrskurðarins vegna útihúsanna þann 20. desember 2000. Eignarnemi mótmælir sérstaklega málskostnaðarkröfu lögmanns eigenda Skjöldólfsstaða II. Krafan sé ekki sett fram f.h. eignarnámsþola en óheimilt sé að úrskurða öðrum en eignarnámsþola kostnað vegna reksturs málsins, nema fyrir liggi framsal réttar til málskostnaðar af hans hálfu. Eignarnemi telur ennfremur að gögn málsins sýni að eignarnámsþoli hafi í raun ekki haft neinna hagsmuna að gæta í málinu og því beri að hafna kröfu um málskostnað honum til handa. Eignarnemi mótmælir sérstaklega fjárhæðum í málskostnaðarreikningi eignarnámsþola.

Eignarnemi vísar sérstaklega til IX. kafla vegalaga nr. 45/1994. Ennfremur vísar hann til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 með síðari breytingum. Þá er vísað til laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, einkum 11. gr. varðandi málskostnað. Þá er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá 1980 bls. 920 varðandi frádrátt hagnaðar eignarnámsþola vegna eignarnámsins frá bótum.

V. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar mótmæla tilboði eignarnema um bætur sem hljóðar upp á kr. 225.040-. Eignarnámsþolar benda á að skv. orðsendingu eignarnema og því tilboði sem þeim hefur verið gert sé um að ræða lágmarks bótafjárhæð. Eignarnámsþolar telja að eignarnemi hafi í tilboði sínu ekki reiknað með þeim sérstöku aðstæðum sem séu fyrir hendi á Skjöldólfsstöðum. Jörðin sé beitarjörð og ræktað land takmarkað sem minnki möguleika ábúenda til heyöflunar. Af þessum sökum sé ræktað land verðmætt þarna og á það beri að líta við matið. Þá telja eignarnámsþolar að gera verði ráð fyrir því að ræktunarkostnaður sé hærri en fram kemur í orðsendingu eignarnema og einnig beri að miða afurðartjónsbætur við lengra tímabil en 2 ár.

Eignarnámsþolar telja að bætur þeim til handa ættu að reiknast út með eftirfrandi hætti:

Fyrir ræktað land 0.88 ha. x 1.017.500- kr./ha kr. 895.000-

Fyrir ræktunarhæft land 1,32 ha x 100.000 kr./ha kr. 132.000-

Jarðrask kr. 200.000-

Samtals kr. 1.227.400-

Að auki krefjast eignarnámsþolar málskostnaðar úr hendi eignarnema að fjárhæð kr. 162.285-.

VI. Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Fallist er á það með eignarnema að nýting landsins sé einkum til landbúnaðarnota, enda liggur ekkert fyrir um eftirspurn eftir landinu til annarra nota.

Þar sem ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um sölur á landi í nágrenninu telur matsnefndin að styðjast beri að nokkru leyti við orðsendingu eignarnema við mat á bótum fyrir hið eignarnumda land. Fyrir liggur að 0,88 ha. landsins er ræktað land en 1,32 ha. óræktað, en ræktanlegt. Landið liggur lágt miðað við aðra hluta jarðarinnar og telst því á verðmætasta hluta hennar.

Ekki er fallist á það með eignarnema að draga beri frá eignarnámsbótunum fjárhæð vegna hagræðis sem af framkvæmdinni hlýst og nýtist eignarnámsþolum einum, enda telur matsnefndin ekki ljóst að jörðin hækki neitt í verði þrátt fyrir hið nýja vegstæði.

Með hliðsjón af framansögðu þykir matsnefndinni hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda land vera kr. 210.000- fyrir hið ræktaða land og kr. 65.000- fyrir hið óræktaða. Samtals ákvarðast því eignarnámsbætur kr. 275.000- í máli þessu. Að auki skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 150.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa. Við ákvörðun kostnaðarfjárhæðar hefur verið litið til þess að með úrskurði sínum frá 20. desember 2000 ákvarðaði matsnefndin eignarnámsþolum fjárhæð vegna kostnaðar sem þá hafði fallið á málið, sem m.a. fólst í vettvangsferð o.fl.

Svo sem fram hefur komið var í upphafi talið að eigendur Skjöldólfsstaða II gætu átt aðild að máli þessu. Óumdeilt er að lögmaður eigenda Skjöldólfsstaða II starfaði að málinu framan af. Hann hefur lagt fram málskostnaðarreikning upp á kr. 709.027- þ.m.t. virðisaukaskattur. Meðfylgjandi reikningnum lagði lögmaðurinn fram tímaskýrslur vegna vinnu við málið. Nefndinni þykir ljóst af tímaskráningum að hluti af vinnu lögmannsins tengdist ekki meðferð málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta, heldur kærumálum í tengslum við eignarnámið o.fl. Með vísan til 11. gr. laga nr. 11/1973 þykir nefndinni ekki tækt að gera eignarnema að greiða fyrir alla þá vinnu. Með vísan til atvika málsins þykir hæfileg fjárhæð til Eiríks Skjaldarssonar, eiganda Skjöldólfsstaða II vegna þessa vera kr. 180.000- auk virðisaukaskatts.

Eignarnemi skal að auki greiða kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Vilhjálmi Snædal, kt. 311045-3429, Skjöldólfsstöðum I, Jökuldal, Þorsteini Snædal, kt. 271269-2939, Álfatröð 5, Egilsstöðum og Steinunni Snædal, kt. 190872-4759, Vörðubrún, Egilsstöðum, kr. 275.000- í eignarnámsbætur og kr. 150.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir matsnefndinni. Þá skal eignarnemi greiða eiganda Skjöldólfsstaða II, Eiríki Skjaldarsyni, kt. 120853-2019, Skjöldólfsstöðum II, Jökuldal, kr. 180.000- auk virðisaukaskatts vegna þess kostnaðar sem Eiríkur hefur haft af rekstri málsins fyrir matsnefndinni.

Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

______________________________

Helgi Jóhannesson

____________________________ ___________________________

Magnús Leópoldsson Ragnar Ingimarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta