Mál nr. 23/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Beiðni um endurupptöku máls nr. 23/2020
Miðvikudaginn 29. apríl 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir. Með rafrænu erindi, mótteknu 20. mars 2020, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. janúar 2020 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 6. desember 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með tölvupósti 9. janúar 2020 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. janúar 2020.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. janúar 2020. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 11. mars 2020. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.
II. Sjónarmið kæranda
Í beiðni um endurupptöku segir að kærandi vilji setja málið aftur af stað og vísar þar til ADHD greiningar geðlæknis. Kærandi ætli að láta reyna á tímabundna örorku eins og honum hafi verið tjáð að hann eigi rétt á. Kæranda hafi verið synjað aftur en hann haldi að það verði að taka þetta til greina.
III. Niðurstaða
Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. mars 2020. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Af beiðni um endurupptöku má ráða að þess sé óskað að fallist verði á að fram fari mat á örorku kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngum lagagrundvelli og/eða rangri túlkun lagaákvæða.
Í beiðni um endurupptöku kemur fram að kærandi sé nú kominn með ADHD greiningu frá geðlækni. Í meðfylgjandi vottorði B sálfræðings, dags. 17. mars 2020, segir meðal annars:
„[Kærandi] hefur verið í greiningar- og meðferðarferli hjá undirrituðum síðan í nóvember 2019. ADHD greining hefur verið staðfest af C geðlækni eftir þriggja tíma forvinnu hjá undirrituðum.
[Kærandi] upplýsir að örorkuumsókn hafi verið hafnað. Miðað við ástandið í dag er lítil von til þess að [kærandi] komist í vinnu á næstunni. Hann er nálægt örmögnunarástandi, skv Maastricht kvarðanum sem er viðurkenndur mælikvarði.
Undirliggjandi ADHD vandi hefur torveldað alla endurhæfingu [kæranda]. Afleiðingar slyss og örmögnun í kjölfarið: Það þarf tíma til að komast út úr því ástandi og það gerist hægt.
Undirritaður er tilbúinn að halda heildstætt utan um endurhæfingarferli í samvinnu við færustu sérfræðinga. Það gerist varla nema einhver lágmarks framfærsla verði tryggð gegnum TR og félagsþjónustu sveitarfélags. […].“
Að mati úrskurðarnendar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Úrskurðarnefndin telur að ekkert í þeim læknisfræðilegu gögnum, sem kærandi lagði fram, gefi til kynna að það mat úrskurðarnefndarinnar að endurhæfing sé ekki fullreynd hafi verið rangt. Þvert á móti gefa gögnin til kynna að enn sé tilefni til að reyna endurhæfingu.
Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 23/2020 synjað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 23/2020 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir