Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 401/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 401/2020

Miðvikudaginn 20. janúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 18. ágúst 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. júní 2020 um útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. apríl 2020, var kæranda tilkynnt um lækkun mánaðarlegra greiðslna í framhaldi af reglubundnu eftirliti, auk áætlaðrar kröfu vegna ofgreiddra bóta. Kærandi útbjó nýja tekjuáætlun þann 14. júní 2020 sem var staðfest með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. júní 2020, þar sem fram kom að engar breytingar yrðu á greiðslum kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 2. september 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 2. október 2020, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er farið fram á að skerðing á greiðslum Tryggingastofnunar til kæranda vegna greiðslna fæðingarstyrks verði endurskoðuð.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um fæðingarstyrk þegar hún hafi eignast barn í febrúar 2020. Þetta hafi verið rúmlega 50.000 kr. en hún hafi komið út á núlli þar sem greiðslur frá Tryggingastofnun og húsaleigubætur hafi verið skertar í kjölfarið. Greiðslur til kæranda séu skertar um rúmlega 30.000 kr. sem hana muni sannarlega um og hún hafi fengið þær upplýsingar að greiðslur verði skertar fram að áramótum vegna styrksins. Kærandi sé því í bullandi mínus eftir að hafa fengið fæðingarstuðning í fjóra mánuði. Það séu engin rök fyrir skerðingu þegar styrkurinn sé löngu runninn út.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé útreikningur Tryggingastofnunar á greiðslu örorkulífeyris til kæranda.

Málavextir séu þeir að þann 14. apríl 2020 hafi kæranda verið sent bréf þar sem komið hafi fram að tekjuáætlun hafi verið leiðrétt til samræmis við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Skattsins og réttindi fyrir árið 2020 hafi verið endurreiknuð. Niðurstaðan hafi leitt í ljós að kærandi hafi fengið hærri greiðslur en hún hefði átt rétt á fyrir tímabilið janúar til og með apríl, eða samtals 112.698 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Í bréfinu hafi verið tekið fram að áætluð skuld muni ekki verða innheimt fyrr en að loknu uppgjöri greiðslna ársins 2020 sem fari fram vorið 2021.

Með bréfinu hafi fylgt ný tekjuáætlun sem hafi gert ráð fyrir 883.751 kr. í launatekjur og 240 kr. í vexti og verðbætur fyrir árið 2020. Einnig hafi fylgt með greiðsluáætlun fyrir árið 2020 sem hafi sýnt áætlaðar greiðslur út árið 2020, reiknaðar út frá þessari tekjuáætlun.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun, dags. 24. júní 2020, þar sem gert hafi verið ráð fyrir þessum sömu tekjum. Kæranda hafi verið sent bréf þann 26. ágúst 2020 þar sem komið hafi fram að bótaréttur ársins hefði verið endurreiknaður á grundvelli nýju tekjuáætlunarinnar og að ekki væri um breytingar á greiðslum að ræða árið 2020.

Kæra sé ekki skýr en svo virðist sem kærandi sé ósátt við að tekjur úr Fæðingarorlofssjóði, sem kærandi segi að sé fæðingarstyrkur fyrir mánuðina febrúar til og með júní 2020, komi til frádráttar greiðslum allt árið.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning.

Þá segi í 16. gr. laga um almannatryggingar að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár sé almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skuli byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. Sé um nýja umsókn um bætur að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur hafi stofnast. Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í 40. gr.

Í 16. gr. sé einnig heimild til að telja atvinnutekjur til tekna bótaþega einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað.

Bótaþegi beri ábyrgð á því að tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.

Samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að reikna mánaðarlegar greiðslur út frá fyrirliggjandi tekjuupplýsingum sem hafi áhrif á tekjutengdar bætur. Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Tryggingastofnun telji sig ekki geta horft fram hjá upplýsingum í staðgreiðsluskrá við vinnslu tekjuupplýsinga, sbr. meðal annars ákvæði 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun beri því að telja umræddar greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði til tekna við útreikning á mánaðarlegum greiðslum örorkulífeyris til kæranda allt árið 2020.

Sú heimild í 16. gr. laga um almannatryggingar að telja atvinnutekjur til tekna einungis í þeim mánuði þegar þeirra sé aflað eigi einungis við um atvinnutekjur og teljist fæðingarstyrkur frá Fæðingarorlofssjóði ekki þar undir.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. júní 2020 um útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2020, nánar tiltekið örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu. Við samkeyrslu tekjuáætlunar við staðgreiðsluskrá í apríl 2020 kom í ljós að kærandi hafði verið með greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í febrúar og mars. Tryggingastofnun gerði þá nýja tekjuáætlun sem gerði ráð fyrir 883.751 kr. í launatekjur til samræmis við það sem fram kom í staðgreiðsluskrá Skattsins og 240 kr. í vexti og verðbætur. Jafnframt var kæranda tilkynnt um áætlaða ofgreiðslu að fjárhæð 112.698 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta fyrir tímabilið janúar til og með apríl, nánar tiltekið að kærandi ætti ekki lengur rétt á greiðslu sérstakrar uppbótar. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun, dags. 24. júní 2020, sem var óbreytt frá tekjuáætlun Tryggingastofnunar, dags. 14. apríl 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. júní 2020, var kæranda tilkynnt um að engar breytingar yrðu á greiðslum hennar á árinu á grundvelli þessarar nýju tekjuáætlunar.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þá segir í 5. mgr. 16. gr. laganna að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins.

Eins og áður hefur komið fram var það niðurstaða Tryggingastofnunar að kærandi ætti ekki rétt á greiðslum sérstakrar uppbótar vegna framfærslu. Um sérstaka uppbót er fjallað í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Til þess að eiga rétt á uppbót þurfa heildartekjur að vera undir ákveðinni fjárhæð sem hefur verið hækkuð árlega. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar á meðal greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, kemur fram að við mat á því hvort örorkulífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli miða við að heildartekjur, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar, séu undir 255.834 kr. á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi yfir þessum mörkum í innsendri tekjuáætlun og átti því ekki rétt á greiðslum sérstakrar uppbótar vegna framfærslu.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi afgreitt innsenda tekjuáætlun kæranda eins og lög kveða á um. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. júní 2020 um útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda staðfest.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að endurreikningur og uppgjör tekjutengdara bóta ársins 2020 mun fara fram vorið 2021 eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Verði kærandi ekki sátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar getur hún kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á mánaðarlegum greiðslum til A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta