Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 15. febrúar 2000
Þriðjudaginn 15. febrúar 2000 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 2/2000
Vegagerðin
gegn
Margréti Tryggvadóttur
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II. Ágreiningsefni:
Með matsbeiðni dags. 24. janúar 2000, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 3. febrúar 2000, fór eignarnemi, Vegagerðin, þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta að hún mæti hæfilegar bætur til eignarnámsþola, Margrétar Tryggvadóttur, vegna eignarnáms á 39.456 m² spildu úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ. Tilefni eignarnámsins er lagning Hafravatnsvegar um svæðið. Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
Í matsbeiðni kemur fram sú krafa eignarnema að honum verði heimiluð umráð hins eignarnumda þó mati sé ekki lokið, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
Við fyrstu fyrirtöku málsins hjá matsnefndinni þann 3. febrúar 2000, mótmælti lögmaður eignarnámsþola þessari kröfu eignarnema, og var aðilum því gefinn kostur á að skila inn greinargerðum vegna þessa þáttar málsins. Að framlagningu þeirra lokinni var þessi þáttur málsins tekinn til úrskurðar.
III. Sjónarmið eignarnema:
Af hálfu eignarnema er tekið fram að framkvæmdir við lagningu Hafravatnsvegar hafi þegar verið boðnar út og viðsættanlegt tilboð borist í framkvæmdina. Eignarnemi bendir á að ætlunin sé að nýta hinn nýja veg í tengslum við kristnitökuhátíð á Þingvöllum á komandi sumri. Af þessum sökum sé mikilvægt að framkvæmdir við veginn geti hafist sem allra fyrst, svo tryggja megi að hinn fyrirhugaði vegur verði tilbúinn til notkunar í tæka tíð.
Eignarnemi bendir sérstaklega á að það muni ekki hamla framkvæmd matsins á neinn hátt þó hann fái umráð hins eignarnumda nú þegar, og þar með sé engum hagsmunum eignarnámsþola stofnað í hættu þó fallist yrði á þessa kröfu hans.
Eignarnemi kveðst ítrekað hafa leitað eftir samningum við eignarnámsþola um bætur fyrir hina eignarnumdu landspildu, en án árangurs. Af þessum sökum hafi honum verið sú ein leið fær að neyta eignarnámsheimildar sinnar til að hægt verði að leggja umræddan veg. Þar sem enginn vafi sé á lagaheimildinni til eignarnámsins og mikið í húfi fyrir eignarnema að geta hafið framkvæmdir, er krafan um umráðatöku ítrekuð.
IV. Sjónarmið eignarnámsþola:
Af hálfu eignarnámsþola er þess aðallega krafist að kröfu um umráðaheimild verði vísað frá. Verði eigi fallist á þá kröfu er þess krafist að kröfu eignarnema verði hafnað. Verði fallist á kröfuna er sú krafa gerð að eignarnema verði gert að setja fram fulla tryggingu fyrir bótum og tjóni eignarnámsþola vegna eignarnámsins.
Af hálfu eignarnámsþola er því haldið fram að engar raunverulegar viðræður hafi átt sér stað milli aðila um kaup eignarnema á landi eignarnámsþola og því engar forsendur fyrir eignarnáminu. Eignarnámsþoli telur boð eignarnema um það sem hann kallar hæfilegar bætur fyrir landspilduna hafi verið svo fráleitt og óskilgreint með öllu, að eigi hafi þótt þjóna tilgangi að svara því bréflega eða með öðrum formlegum hætti.
Eignarnámsþoli telur kröfu eignarnema um umráðatöku órökstudda og það tilefni sem eignarnemi gefi, þ.e. kristnitökuhátíðin á Þingvöllum næsta sumar, verði að teljast léttvægt og fráleitt, einkum þegar haft er í huga að eigi liggi fyrir heimildir eða leyfi til handa Vegagerðinni til þess að hagnýta svokallaðan Nesjavallaveg fyrir almenna umferð í tengslum við þá hátíð.
Eignarnámsþoli bendir jafnframt á að nú sé snjór yfir landi því sem til umræðu er og því erfiðleikum bundið fyrir matsnefndina að skera úr um mikilvægi þess að taka landið eignarnámi, eða yfirleitt að átta sig því landi eða verðmæti þess alnds sem gerð er krafa um að eignarnámi verði tekið. Þá telur eignarnámþoli að taka svo lítillar ræmu af landinu muni í raun eyðileggja landið til allra þeirra nota sem annars hefðu verið fær og eðlileg.
V. Álit matsnefndar:
Að áliti matsnefndarinnar er ljóst, að fullnægjandi lagaheimild fyrir eignarnáminu er að finna í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994, og af gögnum málsins megi ráða að tilraunir aðila til samninga um verð fyrir landspilduna hafi engan árangur borið. Af hálfu matsnefndarinnar þykir ennfremur ljóst að verulegt hagræði muni verða af því fyrir eignarnema að fá umráð hins eignarnumda strax og að framkvæmdir hans á svæðinu muni ekki með neinum hætti torvelda störf nefndarinnar síðar.
Með vísan til ofanritaðs er eignarnema heimiluð umráðataka hins eingnarnumda landsvæðis og að hefja framkvæmdir á svæðinu með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973.
Sjónarmið eignarnámsþola um almenna verðrýrnun landsins og önnur atriði í því sambandi koma til skoðunar við úrslausn nefndarinnar um verðmæti hins eignarnumda á síðari stigum málsins. Þá bíður ákvörðun um málskostnað einnig lokaniðurstöðu málsins.
Vegna kröfu eignarnámsþola um að eignarnemi setji tryggingu fyrir væntanlegum bótum ákveður matsnefndin, með vísan til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 11/1973, að eignarnemi skuli setja tryggingu að fjárhæð kr. 10.000.000- til tryggingar væntanlegum bótum.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Eignarnema, Vegagerðinni, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands eignarnámsþola úr landi Miðdals I, Mosfellsbæ, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið.
Þá skal eignarnemi setja tryggingu að fjárhæð kr. 10.000.000- fyrir væntanlegum bótum.
__________________________________
Helgi Jóhannesson, hrl., formaður
___________________________ _________________________________
Vífill Oddsson, verkfr. Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi