Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 20. ágúst 1999
Föstudaginn 20. ágúst 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 5/1999
Hafnarsjóður Hornafjarðar
gegn
Ómari Antonssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Ragnar Ingimarsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II. Ágreiningsefni:
Þann 23. september 1999 var tekin fyrir í matsnefndinni beiðni Hafnarsjóðs Hornafjarðar (eignarnema) um mat á bótum vegna eignarnáms á grjótnámi úr klöpp í landi Horns, Austur Skaftafellssýslu. Eigandi landsins er Ómar Antonsson (eignarnámsþoli), en fyrirtækið Rein sf. er með grjótnámurnar á leigu og hefur því hagsmuna að gæta. Fulltrúar Reinar sf. voru boðaðir til fyrstu fyrirtöku málsins ásamt fulltrúum Hafnarsjóðs Hornafjarðar og Ómars Antonssonar. Eignarnámsheimildina er að finna í 16. gr. hafnalaga nr. 23/1994.
Við fyrstu fyrirtöku málsins lagði lögmaður eignarnámsþola fram bókun þar sem þess var krafist að matsnefndin vísaði málinu frá. Í bókuninni kemur eftirfarandi fram:
"Ég mæti í máli þessu f.h. Ómars Antonssonar, Hlíðartúni 15, Höfn og leyfi mér að krefjast þess að matsnefnd eignarnámsbóta vísi frá sér beiðni hafnarsjóðs Hornarfjarðar um að fram fari mat á verðmæti grjóts úr landi umbj. míns á jörðinni Horni í Austur Skaftafellssýslu.
Það er afstaða umbj. míns, að matsnefndin geti ekki tekið mál fyrir nema sýnt sé að tekin hafi verið að réttum lögum ákvörðun um eignarnám það sem er tilefni mats. Að öðrum kosti geti aðili ekki talist hafa neytt eignarnámsheimildar sinnar, eins og það er nefnt í 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Matsbeiðandi hefur ekki, svo séð verði, lagt fram nein gögn sem sýna að slík ákvörðun hafi verið tekin. Skortir því á frumskilyrði fyrir því að matsnefndin geti tekið málið til meðferðar.
Telji matsnefndin að einhvers konar ákvörðun kunni að hafa verið tekin um eignarnámið, er ljóst að slík ákvörðun teldist óskuldbindandi fyrir umbj. minn. Í því sambandi skal á það bent, að stjórnvaldsákvörðun verður ekki bindandi að lögum, fyrr en hún hefur verið birt aðila, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ennfremur ber að gefa aðila kost á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin skv. t. d. 13. og 14. gr. sömu laga. M. a. þarf honum að gefast kostur á að tjá sig um, hvort skilyrði eignarnáms séu yfirleitt fyrir hendi, hvort réttu aðili taki ákvörðun o.fl. Þá verður við ákvörðun um eignarnám að greina með skýrum hætti hvað tekið sé eignarnámi. Í þessu tilviki er t.d. óhjákvæmilegt að sýna nákvæmlega með uppdrætti hvar taka eigi grjótið sem málið snýst um. Á öllu þessu eru sýnilegir annmarkar í þessu máli. Umbj. minn telur sig því ekki þurfa að sæta því að við svo búið sé hafin málsmeðferð fyrir matsnefnd eignarnámsbóta."
Lögmaður eignarnema mótmælti því að málinu yrði vísað frá og krafðist þess að rekstur málsins héldi áfram fyrir nefndinni. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar gagna af hálfu eignarnema.
Við aðra fyrirtöku málsins þann 8. ágúst 1999 lagði lögmaður eignarnámsþola m.a. fram fundargerð hafnarstjórnar Hornafjarðar frá 26. júlí 1999 þar sem formlega var ákveðið að taka umrætt grjót eignarnámi með vísan til 16. gr. hafnalaga. Þá lagði lögmaðurinn einnig fram afrit bréfaskipta Siglingastofnunar Íslands við eignarnámsþola og Rein sf., þar sem þess var freistað að ná samkomulagi um verð fyrir það grjót sem eignarnema er nauðsynlegt að fá vegna framkvæmda á hans vegum.
Af hálfu lögmanns eignarnámsþola var svohljóðandi bókun lögð fram við fyrirtökuna:
"Ég mæti sem fyrr í þessu máli f.h. Ómars Antonsonar og leyfi mér enn að krefjast þess, að matsnefnd eignarnámsbóta vísi frá sér beiðni hafnarsjóðs Hornajarðar um að fram fari mat á verðmæti grjóts úr landi umbj. míns á jörðinni Horni í Austur Skaftafellssýslu.
Af hálfu matsbeiðanda eru nú lögð fram gögn sem sýna að 26. júlí s.l. eða 3 dögum eftir að beiðni hafnarsjóðsins var fyrst tekin fyrir hjá nefndinni, var haldinn fundur í hafnarstjórn Hornafjarðar og ákveðið að "taka grjót úr fyrrgreindri námu eignarnámi". Þessi samþykkt hafnarstjórnar hefur enga þýðingu fyrir málið. Samkvæmt 14. gr. hafnarlaga nr. 23/1994, sbr. 26. gr. laga nr. 7/1996, er frumkvæði að hafnargerð hjá eiganda hafnar og framkvæmdir á ábyrgð hans. Af 3. gr. sömu laga verður ráðið að sveitarfélög teljast eigendur hafna samkvæmt lögunum. Af þessu leiðir að viðkomandi sveitarstjórn hlýtur að vera sá aðili, sem tekur ákvörðun um eignarnám skv. 16. gr. laganna. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem sýna að sveitastjórn Hornafjarðar hafi tekið ákvörðun um eignarnámið, sem er grundvöllur beiðninnar til matsnefndarinnar. Ber henni því að vísa málinu frá sér.
Þá skal þess einnig getið, að við ofangreinda málsmeðferð hjá hafnarstjórninni hefur ekki fremur en fyrr verið gætt að réttum málsmeðferðarreglum. Vísast um það efni til bókunar minnar við fyrirtöku málsins 23. júlí s.l. Þar að auki fær það varla staðist, að unnt sé að taka dýrt byggingagrjót eignarnámi til uppfyllingar í höfnum, þegar nóg er til í landinu af grjóti sem ekki hefur þá fágætu eiginleika til byggingar húsa og grjótið úr námu umbj. míns.
Því er sérstaklega mótmælt, að matsbeiðanda verði veittir frekari frestir til að bæta úr annmörkum á beiðni sinni."
Lögmaður eignarnema mótmælti enn frávísunarkröfunni. Benti hann á að bæði eignarnámsþola og Rein sf. hafi verið fullkunnugt um fyrirætlanir eignarnema og því hafi verið óþarft að gefa aðilum einhvern sérstakan frest til að tjá sig um eignarnámsákvörðunina sjálfa. Lögmaðurinn taldi að málið væri a.m.k. nú í formlega réttum farvegi, eftir ákvörðun hafnarstjórnar frá 26. júlí 1999. Lögmaðurinn benti í þessu sambandi á framlögð ljósrit af bréfaskiptum við eignarnámsþola og Rein sf. Þá mótmælti lögmaðurinn því sérstaklega að hafnarstjórn Hornafjarðar hefði ekki vald til að taka ákvörðun um að beita eignarnámsheimildinni í hafnalögum, þar sem hafnarstjórnin starfi í umboði sveitarstjórnar og sé skipuð af henni.
III. Niðurstaða:
Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms kemur fram að hlutverk Matsnefndar eignarnámsbóta sé að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samvæmt lögum um eignarnám. Í 5. gr. sömu laga kemur fram að fallist matsnefnd á að lagaheimild sé til eignarnáms, ákveði hún dag til fyrirtöku málsins með a.m.k. viku fyrirvara.
Vegna hins þrönga hlutverks sem matsnefndin hefur með höndum samkvæmt framangreindu lagaákvæði, er ljóst að það er ekki í valdi eða á verksviði nefndarinnar að segja til um það hvort framkvæmd eða undirbúningur sjálfrar eignarnámsákvörðunarinnar hafi verið með þeim hætti er lög bjóða. Ágreiningur um slík atriði sætir eftir atvikum stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds, eða endurskoðunar dómstóla. Í því máli sem hér er til meðferðar liggur fyrir að eignarnámsheimild í 16. gr. hafnalaga er fyrir hendi. Einnig liggur fyrir að hafnarstjórn, sem fer með málefni hafnarinnar í umboði sveitarstjórnar, sbr. 4. gr. hafnalaga, er til þess bær að taka ákvörðun um eignarnám samkvæmt þessari heimild. Á þeim grundvelli var boðað til fyrirtöku málsins samkvæmt 5. gr. laga nr. 11/1973.
Með vísan til þess að fullnægjandi eignarnámsheimild er fyrir hendi og þess að ekki er deilt um eignarrétt að hinu eignarnumda grjótnámi, þykja ekki efni til að vísa máli þessu frá matsnefndinni.
Ú R S K U R Ð U R :
Kröfu um frávísun málsins frá Matsnefnd eignarnámsbóta er hafnað.
___________________________________
Helgi Jóhannesson
Ragnar Ingimarsson Kristinn Gylfi Jónsson