Hoppa yfir valmynd

Nr. 175/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 175/2019

Miðvikudaginn 14. ágúst 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. maí 2019, kærði B, f.h A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. febrúar 2019 um stöðvun og endurkröfu á meðlagi með börnum kæranda fyrir tímabilið X 2017 til X 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunnar ríkisins, dags. 11. desember 2018, var kæranda tilkynnt um að með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 288/2018 hafi ekki verið heimilt að greiða honum barnalífeyri vegna örorku barnsmóður hans frá X 2018. Fram kemur að greiðslur barnalífeyris hafi verið stöðvaðar frá X 2018 og fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð X kr. fyrir tímabilið frá X 2018 til X 2018. Samkvæmt bréfinu var kæranda veittur frestur til 4. janúar 2019 til að koma að rökstuddum andmælum ásamt gögnum sem sýni fram á annað. Athugasemdir og frekari gögn bárust Tryggingastofnun 1., 2. og 11.  janúar 2019. Með bréfi Tryggingastofnunnar, dags. 11. febrúar 2019, var kærandi upplýstur um að stofnunin teldi að ekki væru til staðar breyttar forsendur til að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar varðandi greiðslu meðlags og ráðstöfun á barnalífeyri.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. maí 2019. Með bréfi, dags. 13. maí 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. maí 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. maí 2019. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er gerð krafa um að fallist verði á að börnin C og D hafi verið á framfæri kæranda á tímabilinu X 2017 til X 2018 og því beri Tryggingastofnun að hafa milligöngu um að greiða föður þeirra barnalífeyri og meðlag fyrir umrætt tímabil.

Í kæru kemur fram að mál þetta varði endurkröfu Tryggingastofnunar á hendur kæranda vegna meints ofgreidds barnalífeyris á tímabilinu X 2017 til X 2018.

Í máli þessu sé um að ræða tvo einstaklinga, kæranda og barnsmóður hans, en þau hafi skilið árið X. Þau eigi saman X börn. Við lögskilnað hafi þau gert með sér samning um forsjá barnanna þar sem ákveðið hafi verið að E skyldi eiga lögheimili hjá kæranda en D og C skyldu eiga lögheimili hjá barnsmóður hans. Vegna margvíslegra erfiðleika barnanna hafi þau, ásamt kæranda og barnsmóður hans, notið aðstoðar félagsþjónustu F. Líkt og ítrekað hafi komið fram í gögnum málsins, sbr. nú síðast bréfi félagsþjónustunnar, dags. 2. janúar 2019, hafi F verið með barnaverndarmál í vinnslu vegna barna kæranda og barnsmóður hans, þ.m.t. barnanna D og C, en nefndin fari jafnframt með hlutverk barnaverndarnefndar fyrrgreindra sveitarfélaga, sbr. III. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Árið X hafi barnaverndarnefnd höfðað mál gegn móður barnanna D og C þar sem krafist hafi verið að hún yrði svipt forsjá þeirra á grundvelli a- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Með dómi héraðsdóms, uppkveðnum X 2017, hafi kröfu barnaverndarnefndar um að móðir barnanna yrði svipt forsjá þeirra, verið hafnað.

Barnaverndarnefnd hafi áfrýjað málinu til Landsréttar í X2018. Skemmst sé frá því að segja að Landsréttur hafi ekki fallist á niðurstöðu héraðsdóms og svipt móður barnanna forsjá þeirra með dómi uppkveðnum þann X 2018.

Tímabilið frá uppkvaðningu héraðsdóms þann X 2017 til uppkvaðningu dóms Landsréttar þann X 2018 sé því það tímabil sem til umfjöllunar sé í máli þessu.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort Tryggingastofnun hafi borið að greiða föður barnanna barnalífeyri á umræddu tímabili eða móður barnanna líkt og hún hafi haldið fram. Einnig sé um meðlagsgreiðslur með sömu börnum að ræða. Í málinu liggi fyrir að á meðan krafa um forsjársviptingu hafi verið til meðferðar hjá héraðsdómi hafi börnin tvö verið vistuð hjá föður sínum, þ.e. utan heimilis móður þeirra (og lögheimilis þeirra) fyrir milligöngu barnaverndarnefndar, enda hafi nefndin talið að nauðsynlegt væri að svipta móður þeirra forsjá á grundvelli a- og d- liða 1. mgr. bvl., sbr. eftirfarandi:

„a. að daglegri umönnun , uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska.

d. fullvíst að líkamlegri og andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, [geðrænna] truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.“

Tryggingastofnun hafi litið svo á að við uppkvaðningu héraðsdóms hafi vistun barnanna utan heimilis fallið úr gildi og forsjársamningur foreldra þeirra um að lögheimili og búseta barnanna yrði hjá móður tekið gildi á ný. Í samræmi við þann skilning hafi Tryggingastofnun ríkisins hafið greiðslur barnalífeyris til móður barnanna tveggja á ný frá dómi héraðsdóms X 2017.

Eftir að stofnuninni höfðu borist upplýsingar frá barnaverndarnefnd þess efnis að börnin væru ekki vistuð hjá móður eftir uppkvaðningu héraðsdóms heldur hjá föður þeirra, hafi Tryggingastofnun tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur barnalífeyris og meðlags með þeim til móður. Hafi móðir barnanna enn fremur verið krafin um ofgreiðslu meðlags og barnalífeyris frá X 2017. Móðir barnanna hafi ekki unað ákvörðun Tryggingastofnunar og kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Við meðferð málsins hjá úrskurðarnefnd hafi komið skýrlega fram af hálfu Tryggingastofnunar að stofnuninni hefði borist tölvupóstur frá föður barnanna þar sem upplýst hafi verið um að þrátt fyrir að vistun utan heimilis hafi fallið úr gildi við uppkvaðningu dóms héraðsdóms, væru börnin ennþá búsett á heimili hans að hans ósk og barnaverndaryfirvalda. Hann stæði því straum af framfærslu þeirra. Börnin færu aðra hvora helgi til móður en D vildi þó ekki gista. Af hálfu Tryggingastofnunar hafi verið vísað til þess að stofnuninni hefði borið að rannsaka málið með fullnægjandi hætti, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, til að tryggja að málsatvik væru nægjanlega upplýst áður en ákvörðun í málinu væri tekin. Í þeim tilgangi hafi stofnunin óskað eftir upplýsingum um búsetu barnanna frá barnaverndarnefnd sveitarfélagsins. Svar hafi borist frá barnaverndarnefnd með tölvupósti, dags. 14. mars 2018, þar sem fram hafi komið að vistun utan heimilis hefði fallið úr gildi við uppkvaðningu dóms héraðsdóms en foreldrar hefðu hins vegar haldið óbreyttu fyrirkomulagi eftir að vistun hafi lokið. Börnin hafi dvalið áfram hjá föður og farið til móður aðra hvora helgi. Börnin hafi gengið í skóla í G þrátt fyrir að vera formlega búsett og skráð til lögheimilis hjá móður sinni. Móðir barnanna hafi búið á þessum tíma í H annars vegar og I hins vegar.

Í ljósi framangreindra upplýsinga frá barnaverndarnefnd, þ.e. því stjórnvaldi sem hafi haft mál barnanna og foreldra þeirra til meðferðar hjá sveitarfélaginu og veitt stuðning og ráðgjöf til heimilis þeirra, hafi Tryggingastofnun talið að skilyrði 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, væri uppfyllt, þ.e. að meðlag skyldi greitt til föður þar sem börnin væru á framfæri hans.

Í úrskurði sínum hafi nefndin vísað til þess að Tryggingastofnun bæri að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur ef beiðni bærist þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Það skilyrði væri þó sett samkvæmt lögum um almannatryggingar að það barn sem greiða skyldi meðlag og barnalífeyri með, væri á framfæri umsækjanda. Heimilt væri að stöðva milligöngu um meðlagsgreiðslur ef fyrir lægi að barn væri ekki lengur á framfæri umsækjanda. Tryggingastofnun hafi byggt ákvörðun sína um stöðvun á milligöngu greiðslnanna á því að fram kæmi í tölupósti barnaverndarnefndar sveitarfélagsins að börnin væru með lögheimili hjá móður en þau hefðu hins vegar dvalið áfram hjá föður eftir uppkvaðningu dóms héraðsdóms, en farið til móður aðra hvora helgi. Þrátt fyrir þessa staðfestingu frá barnaverndarnefnd um að börnin hefðu að jafnaði dvalið hjá föður á umræddu tímabili, taldi nefndin að engin gögn lægju fyrir í málinu sem staðfestu á hvers framfæri börnin hefðu verið á tímabilinu X 2017 til X 2018. Tryggingastofnun hefði því ekki rannsakað nægilega hver hefði haft börnin tvö á sínu framfæri á umræddu tímabili. Hafi ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun meðlagsgreiðslna til móður því verið felld úr gildi og lagt fyrir Tryggingastofnun að taka á ný afstöðu til kröfu móður um milligöngu meðlagsgreiðslna á fyrrgreindu tímabili.

Tryggingastofnun hafi tekið málið til meðferðar á ný og tekið nýja ákvörðun í málinu sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags.  11. febrúar 2019, þ.e. hin kærða ákvörðun.

Í hinni kærðu ákvörðun Tryggingastofnunar komi fram að fyrir liggi meðlagssamningur (samningur um forsjá) þar sem kveðið sé á um greiðslu meðlags til móður barnanna og vísi Tryggingastofnun til þess að líta beri til ákvæða þess samnings. Fyrir liggi tölvupóstur frá barnaverndarnefnd, dags. 14. mars 2018, þar sem upplýst hafi verið að börnin færu til móður aðra hvora helgi. Jafnframt hafi legið fyrir bréf frá félagsþjónustu F, dags. 2. janúar 2019, þar sem fram komi að börnin hefðu verið í umgengni við móður á umræddu tímabili. Slíkt væri í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 288/2018. Sé enn fremur vísað til þess að fram komi í dómi Landsréttar að börnin hafi „eitthvað verið hjá barnsmóður frá X 2017“. Með vísan til framangreinds hafi Tryggingastofnun talið að þótt börnin hefðu verið búsett hjá föður á tímabilinu þrátt fyrir að lögheimili þeirra hefði verið hjá móður, þá hefði ekki verið sýnt fram á það með gögnum að barnsmóðir þeirra hefði ekki sinnt framfærsluskyldu sinni á umræddu tímabili en slíkt væri forsenda fyrir stöðvun á meðlagsgreiðslum. Í ljósi þessa hafi stofnunin ekki talið forsendur til að breyta fyrri ákvörðun stofnunarinnar um greiðslu meðlags og ráðstöfun á barnalífeyri.

Með skyldu til framfærslu sé átt við að foreldrum sé skylt að fæða barn og klæða og sjá því fyrir húsnæði eða að leggja til fjárframlög í þessum tilgangi. Líkt og ítrekað hafi komið fram liggi fyrir staðfesting barnaverndarnefndar á því að á umræddu tímabili hafi börnin X verið búsett hjá föður þó svo að þau hafi farið til  móður sinnar aðra hvora helgi. Vandséð sé hvernig Tryggingastofnun geti komist að þeirri  niðurstöðu að móðirin hafi börnin á framfæri þegar þau hafi í mesta lagi dvalið tvo daga á heimili hennar á hverju 14 daga tímabili. Engin gögn liggi heldur fyrir í málinu sem sýni fram á að móðir hafi fætt og klætt börnin á umræddu tímabili. Þar sem börnin hafi að jafnaði dvalið 12 daga hjá kæranda á hverju 14 daga tímabili hljóti að teljast rökrétt að hann hafi séð þeim fyrir fæði þá daga sem þau hafi dvalið hjá honum, enda hafi ekki verið lögð nein gögn fram um annað.

Fyrir liggi í málinu að börnin gengu í Grunnskóla G á umræddu tímabili, þ.e. því sveitarfélagi sem kærandi sé búsettur í, þrátt fyrir að lögheimili hafi á umræddum tíma verið hjá móður. Fyrir liggi að kærandi hafi greitt skólamáltíðir fyrir C á umræddu tímabili og vísað sé í tölvupóst frá skrifstofustjóra J en unnt sé að leggja fram kvittanir fyrir þeim greiðslum ef óskað sé eftir. D hafi einnig búið á sama tíma hjá föður sínum og sótt Grunnskóla G en ekki borðað í mötuneytinu. Hins vegar megi sjá X millifærslur frá föður yfir á reikning D, enda hafi D verið á framfæri kæranda á umræddu tímabili. Unnt sé að prenta út og leggja fram kvittanir úr heimabanka til stuðnings þessu ef óskað sé eftir. Einnig sé lögð fram kvittun fyrir millifærslu frá kæranda inn á reikning Grunnskóla G vegna D að fjárhæð X kr. þann X 2018. Enn fremur sé lögð fram kvittun fyrir millifærslu frá kæranda inn á reikning Grunnskólans í G vegna [...] sem D hafi farið í, að fjárhæð X kr., þann X 2018. Unnt sé að kalla eftir nánari upplýsingum frá skólanum vegna þessa ef óskað sé eftir. Oftar en ekki hafi kærandi sent þau með pening eða mat til móður sinnar þegar þau hafi heimsótt hana aðra hvora helgi á umræddu tímabili til að tryggja að þau fengju mat. Sem dæmi um slíkt sé millifærsla frá föður barnanna til móður þeirra að fjárhæð X kr. X 2018.

Jafnframt sé vísað til bréfs félagsþjónustu F, dags. X 2019, þar sem fram komi eftirfarandi:

„Á tímabilinu X 2017 til X 2018 hélt barnavernd áfram að veita tilsjón inn á heimili föður sem meðal annars fól í sér morgunhana til að aðstoða við að koma börnum af stað í skóla og reglulegar heimsóknir til að aðstoða við skipulag á heimili.“

Loks sé vísað til greinargerðar K, þroskaþjálfa og verkefnastjóra […]hjá félagsþjónustu F, dags. X 2018. Greinargerð vegna tilsjónar á heimili föður, X 2017–X2018. Í greinargerðinni komi skýrlega fram að tilsjón félagsþjónustunnar hafi verið inni á heimili föður barnanna að L og að ástæður tilvísunar hafi verið [...]. Enn fremur komi skýrt fram að umrætt tímabil hafi verið frá X 2017 til X 2018. Í greinargerðinni komi meðal annars fram eftirfarandi:

„Markmið tilsjónar:

            Markmiðið var að leiðbeina         og styðja föður um uppeldi og aðbúnað barnanna, greina aðstæður á heimilinu og stuðla að bættri líðan fjölskyldunnar sem heild. Greindar voru ástæður fjarvista barnanna í skóla. Börnum var veittur stuðningur til að mæta og klára skóladaga.

            Almennt um framvindu tilsjónar:

            Faðir og börn bjuggu hjá [[...]] í X mánuði vegna [...]. Á því tímabili hitti tilsjónaraðili fjölskylduna tvisvar í mánuði. Faðir fékk góðan stuðning frá [...]. Það var góð rútína á heimilinu og settar voru viðeigandi reglur. Einu sinni í mánuði var haldinn fjölskyldufundur, þá var farið yfir hvað gengur vel og hvað þyrfti að bæta. Það var mikið álag á [[...]]á meðan fjölskyldan var á þeirra heimili. Krefjandi að vera mörg í litlu rými en þá fór vel um fjölskylduna.

            Fjölskyldan fékk húsnæði í G í X 2018. Þá fór [...] á heimilið áður en börnin fóru í skólann. Tilsjónaraðili fór á heimili á milli kl. 12:00 -13:00 til að athuga hvort börnin væru í skólanum. Einnig kynnti tilsjónaraðili fyrir föður hæfnimiðað þjálfunarprógram sem nefnist „[...]“ og byrjað var að vinna í því.

            Á tímabilinu voru gerðar tvær áætlanir og skrifaðar voru dagnótur og/eða í samskiptaskráningu hverju sinni. Faðir tók vel á móti tilsjón, var ávallt jákvæður og samvinnuþýður.

            Morgnar og skólatími á heimili föður:

            Það gekk yfirleitt vel að koma börnum í skólann og faðir tók virkan þátt. Það kom fyrir að þau voru um fimm mínútum of sein af stað en fjölskyldan býr mjög nálægt skólanum. Þau borðuðu stundum morgunmat og faðir sá til þess að D [...] áður en hann fór í skólann. Faðir sá til þess að [börnin] færu með nesti í skólann en D fór oftast heim [...]til að borða. […]

            Tilsjónaraðili fór á heimili í hádeginu til að fylgjast með hvort börnin væru í skólanum.Yfirleitt voru öll börnin í skólanum en [...] kom stundum heim í hádeginu.Tilsjónaraðili sá til þess að [...] fór aftur í skólann, sem [...]gerði oftast […]. [...] var stundum heima […].“

Af því sem þarna komi fram megi greinilega sjá að börnin hafi að jafnaði dvalið hjá föður sínum á heimili hans í G og sótt þar grunnskóla. Þau hafi þannig búið hjá föður sínum á umræddu tímabili og hann hafið séð þeim fyrir öllum helstu nauðsynjum á umræddu tímabili svo sem fæði og klæðum. Staðfest sé af félagsþjónustunni að dagleg tilsjón hafi verið á heimilinu í þeim tilgangi að styðja við fjölskylduna, hjálpa til við rútínu og að sjá til þess að börnin sæktu skóla.

Að lokum sé lagður fram tölvupóstur frá M, félagsráðgjafa hjá félagsþjónustu F, dags. X sl., þar sem staðfest sé að í fyrrgreindri greinargerð sé um að ræða tvenns konar misritanir, þ.e. dagsetning greinargerðar eigi að vera X 2018 í stað 2017 og að átt sé við [...] í greinargerðinni en ekki [...] eins og þar komi fram.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun og endurkrafa á barnalífeyri með börnum kæranda, D og C, frá X 2018 til X 2018. Einnig sé kærð milliganga meðlags til barnsmóður kæranda frá X 2018 til X 2018.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. desember 2018, hafi kæranda verið tilkynnt með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 288/2018 að ekki hefði verið heimilt að greiða honum barnalífeyri með börnum hans, D og C, vegna örorku barnsmóður hans frá X 2018. Fram hafi komið að greiðslur hefðu verið stöðvaðar frá X 2018 og fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð X kr. fyrir tímabilið frá X 2018 til X 2018. Sama dag hafi kæranda einnig verið tilkynnt að Tryggingastofnun hefði með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 288/2018 samþykkt milligöngu á meðlagi með D og C frá X 2018 til X 2018 til barnsmóður kæranda. Kærandi hafi andmælt ofangreindum ákvörðunum þann X 2019 og honum verið svarað með bréfi, dags. X 2019, þar sem fram hafi komið að ákvarðanir Tryggingastofnunar stæðu óbreyttar.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um það að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Þá segi í 5. mgr. 20. gr. að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim er annast framfærslu þeirra að fullu. Í 55. gr. laga um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Forsaga þessa máls sé sú að í X 2016 hafi stofnuninni borist þær upplýsingar frá barnavernd að börnin D og C væru vistuð hjá kæranda frá og með X 2016. Í framhaldi af því hafi barnavernd verið tilkynnt að greiðsla barnalífeyris vegna örorku barnsmóður barnanna yrði greidd kæranda frá X 2016 og einnig barnalífeyrir vegna hans eigin örorku. Þann X 2018 hafi borist bréf frá barnavernd þar sem fram hafi komið að vistun barnanna utan heimilis hefði lokið í kjölfar dóms Héraðsdóms N þann X 2017 þar sem kröfu fjölskyldunefndar um sviptingu forsjá barnanna hefði verið hafnað. Með bréfum, dags. 19. og 21. febrúar 2018, hafi Tryggingastofnun ríkisins samþykkt að greiða barnsmóður kæranda meðlag og barnalífeyri með börnunum frá X 2018. Út frá bréfi barnaverndar hafi verið litið svo á að börnin væru komin aftur til móður eftir að dómur héraðsdóms féll. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2018, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun og ofgreiðslu barnalífeyris frá X 2018. Þann 22. febrúar 2018 hafi borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hann hafi upplýst stofnunina um að þrátt fyrir að vistunin hafi runnið út þá væru börnin enn búsett hjá honum að hans ósk og barnaverndaryfirvalda og að hann stæði straum af framfærslu þeirra. Jafnframt hafi komið fram í tölvupósti þessum að C færi aðra hvora helgi til móður sinnar en D neitaði því. Í lok tölvupóstsins hafi komið fram að verið væri að bíða eftir því að Landsdómur tæki fyrir mál Barnaverndar G gegn barnsmóður kæranda þar sem barnavernd færi fram á að hún yrði svipt forræði yfir börnunum.

Tryggingastofnun hafi óskað eftir upplýsingum um búsetu barnanna frá barnavernd, sbr. tölvupóst 26. febrúar 2018. Þann 14. mars 2018 hafi stofnuninni borist tölvupóstur frá barnavernd þar sem fram hafi komið að vistunin hefði fallið úr gildi þann X 2017 en foreldrar hefðu haldið óbreyttu fyrirkomulagi eftir að vistun lauk. Börn kæranda hafi því dvalið áfram hjá kæranda og farið til barnsmóður kæranda aðra hvora helgi. Þá hafi jafnframt komið fram að börnin væru í skóla í G en barnsmóðir kæranda væri búsett í H. Í ljósi ofangreindra upplýsinga hafi Tryggingastofnun ákveðið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og greiðslu barnalífeyris til barnsmóður kæranda frá þeim tíma sem hún hafði verið sett af stað, eða frá X 2018, sbr. bréf, dags. 15. mars 2018. Þá hafi Tryggingastofnun ákveðið að samþykkja greiðslu barnalífeyris að nýju til kæranda frá X 2018. Það hafi þó láðst að senda bréf til kæranda vegna þessa. Barnsmóðir kæranda hafi kært stöðvun og endurkröfu meðlags frá X 2018 til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. mál nr. 288/2018. Með úrskurði sínum dags. 7. nóvember 2018 hafi nefndin fellt ákvörðun Tryggingastofnunar um stöðvun milligöngu meðlagsins til kæranda úr gildi og kröfu kæranda um meðlag verið vísað aftur til stofnunarinnar til frekari meðferðar. Í úrskurðinum komi eftirfarandi fram:

”Óumdeilt er að lögheimili barnanna var skráð hjá móður á umræddu tímabili. Þá er óumdeilt að börnin dvöldu fyrst um sinn meira hjá föður í kjölfar dóms Héraðsdóms N frá X 2017. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja aftur á móti engin gögn fyrir sem staðfesta að börnin hafi ekki verið á framfæri kæranda á umræddu tímabili. Úrskurðarnefndin telur að slík ályktun verði hvorki dregin af framangreindum tölvupósti frá barnavernd frá 14. mars 2018 né öðrum gögnum málsins. Í ljósi þess að það liggur fyrir lögformleg meðlagsákvörðun þar sem fram kemur að barnsfaðir kæranda skuli greiða meðlag með börnunum og engin gögn liggja fyrir sem staðfesta að börnin hafi ekki verið á framfæri kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki verið heimilt að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda felld úr gildi.”

Í kjölfar þessa úrskurðar hafi Tryggingastofnun samþykkt milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá og með X 2017 til X 2018, sbr. bréf til kæranda, dags. 11. desember 2018. Sama dag hafi kæranda verið tilkynnt að ekki hefði verið heimilt að greiða honum barnalífeyri með börnum hans, D og C, vegna örorku barnsmóður hans frá X 2018 og að greiðslur hefðu verið stöðvaðar frá X 2018 þannig að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð X kr. fyrir tímabilið frá X 2018 til X 2018.

Kærandi hafi andmælt ofangreindum ákvörðunum þann 1. janúar 2019 og honum verið svarað með bréfi, dags. 11. febrúar 2019, þar sem fram hafi komið að ekki væru breyttar forsendur til að breyta fyrri ákvörðunum stofnunarinnar. Í bréfinu sé hins vegar ranglega vísað til milligöngu meðlags og ráðstöfunar barnalífeyris, en málið hafi snúist um milligöngu meðlags og endurkröfu á barnalífeyri sem greiddur var kæranda vegna örorku barnsmóður hans. Tryggingastofnun hafi ekki endurkrafið kæranda um barnalífeyri með börnunum vegna hans eigin örorku sem stofnunin hafði greitt honum fyrir umrætt tímabil. Barnalífeyri kæranda hafi því ekki verið ráðstafað upp í meðlag barnsmóður hans sem stofnunin greiddi henni frá X 2017 þar sem kærandi hafði þegar fengið barnalífeyrinn greiddan beint til sín.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum nr. 288/2018 að ekki hefði verið heimilt að stöðva milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi til barnsmóður kæranda þar sem fyrir lægi löggild meðlagsákvörðun sem kvæði á um meðlagsgreiðslur til hennar frá kæranda og ekki hefði verið sýnt fram á að börnin væru ekki á framfæri hennar. Í ljósi þessarar niðurstöðu hafi verið óhjákvæmilegt fyrir Tryggingastofnun að hafa milligöngu um meðlag til barnsmóður kæranda frá X 2017 samkvæmt þeirri lögformlegu meðlagsákvörðun sem þegar lægi inni hjá Tryggingastofnun þar sem segi að kærandi eigi að greiða barnsmóður sinni meðlag með D og C. Af þessu hafi einnig leitt að barnsmóðir kæranda ætti einnig rétt á barnalífeyri vegna sinnar örorku frá X 2018.

Skilyrði fyrir milligöngu meðlags frá Tryggingastofnun sé að börnin séu á framfæri viðkomandi, sbr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Það sama eigi við um greiðslu barnalífeyris, sbr. 20. gr. sömu laga. Þau gögn sem hafi verið lögð fram, þar á meðal bréf barnaverndar, dags. 2. janúar 2019, og dómur Landsréttar, uppkveðinn X 2018 í máli nr. X, og þau gögn sem bárust með kæru, gefi ekki ótvírætt til kynna að börn kæranda hafi ekki verið á framfæri barnsmóður kæranda eða ótvírætt á framfæri kæranda. Í ljósi þessa og í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 288/2018 hafi Tryggingastofnun þurft að hafa milligöngu um meðlag til barnsmóður kæranda og greiða henni barnalífeyri vegna hennar örorku. Af því hafi leitt að Tryggingastofnun hafi þurft að endurkrefja kæranda um þann barnalífeyri sem honum hafði verið greiddur vegna örorku barnsmóður hans.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. febrúar 2019 um stöðvun meðlags til kæranda vegna barnanna D og C frá X 2018 og kröfu um endurgreiðslu vegna ofgreidds barnalífeyris.

Tryggingastofnun ríkisins greiðir barnalífeyri á grundvelli 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðisins segir að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Í 5. mgr. sömu greinar segir að barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annist framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.

Í 63. gr. laga um almannatryggingar er mælt fyrir um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

 „Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun. Það skilyrði er sett fyrir milligöngunni að það barn sem greiða skuli meðlag með sé á framfæri umsækjanda.

Í 4. mgr. 64. gr. laganna segir svo:

„Þegar svo háttar til að Tryggingastofnun hefur milligöngu um meðlagsgreiðslur með barni skv. 1. mgr. 63. gr. og hið meðlagsskylda foreldri öðlast rétt til barnalífeyris skv. 20. gr. vegna barnsins er stofnuninni þó heimilt að láta greiðslu barnalífeyris ganga til fyrirframgreiðslu meðlags vegna sama tímabils. Verður þá ekki um kröfu á hendur meðlagsskyldum aðila að ræða fyrir það tímabil.“

Ágreiningur í máli þessu snýst um hvort skilyrði hafi verið uppfyllt til þess að Tryggingastofnun stöðvaði milligöngu meðlags til kæranda sem fólst í því að láta barnalífeyri barnsmóður hans ganga beint til kæranda samkvæmt heimild í 4. mgr. 64. gr. laga um almannatryggingar.

Með bréfum M, félagsráðgjafa hjá félagsþjónustu F, til Tryggingastofnunnar ríkisins, dags. X 2016, var óskað eftir því að greiðslur barnalífeyris og meðlags með börnunum tveimur yrðu greiddar inn á reikning föður frá X 2016. Þá var Tryggingastofnun ríkisins, með bréfi M, dags. X 2018, upplýst um það að vistun utan heimilis hefði lokið í kjölfar dóms Héraðsdóms N nr. X þann X 2017 og var þess farið á leit að greiðslur barnalífeyris og meðlags yrðu greiddar til móður.

Í tölvubréfi kæranda til Tryggingastofnunnar ríkisins, dags. 22. febrúar 2018, segir meðal annars:

„Tvö barnanna eiga lögheimili hjá móður sinni (D og C) en öll hafa þau verið vistuð hjá mér cirka síðan í X 2016. Þar af leiðandi hef ég fengið barnalífeyrir og meðlag með þeim. Núna í X rann út vistunin en börnin eru enn búsett hjá mér, að ósk minni og barnaverndaryfirvalda. Verið er eð bíða eftir því að Landsdómur taki fyrir mál barnaverndar G gegn móður barnanna O, þar sem barnavernd fer fram á að O verði svipt forræði yfir börnunum.

Nú fékk ég bréf á mínar síður þar sem stendur að barnalífeyri og meðlagsgreiðslur falli niður (þar sem formleg vistun rann út) og ég verði að borga til baka meðlag og barnalífeyri sem ég hef fengið greiddan fyrir X og X og jafnframt að ég fái ekki áframhaldandi greiðslur. Hluti barnanna á jú ekki lögheimili hjá mér. Ekki gengur að semja við móður um flutning á lögheimili barnanna til mín.

Sem fyrr segir þá búa börnin heima hjá mér og fara [...] aðeins til móður þeirra aðra hvora helgi en [...] neitar að fara til hennar. Jafnframt býr [...] okkar á heimili mínu […].

Það er ss ég sem held heimili fyrir börnin og sé um allan kostnað sem til fellur vegna þessa og má því ekki við að missa þessar greiðslur, hvað þá að endurgreiða þá fjármuni sem ég hef þegar notað til að halda heimili fyrir mig og börnin.

Því óska ég eftir því að krafa ykkar um endurgreiðslu til ykkar falli niður og janframt að ég fái áframhaldandi meðlag og barnalífeyri með börnunum. Þetta verði gert amk til Landsdómur hefur fellt sinn dóm varðandi sviptingu forræðis hjá móður barnanna. Þá ætti málið vonandi að hafa skýrst.“

Með tölvubréfi frá starfsmanni Tryggingastofnunnar ríkisins til M félagsráðgjafa, dags. X 2018, var óskað eftir staðfestingu á því hvar börnin tvö væru búsett. Í svari M til Tryggingastofnunnar ríkisins, dags. X, kom fram að X 2018 hefði fallið úr gildi vistun barnanna tveggja utan heimilis móður. Börnin væru með lögheimili hjá móður en foreldrar hefðu haldið óbreyttu fyrirkomulagi áfram eftir að vistun barnanna lauk þannig að börnin dveldu áfram hjá föður og færu til móður aðra hvora helgi. Það væri samkvæmt upplýsingum frá foreldrum gert til að styðja við ástundun í skóla. […].

Þá segir meðal annars í bréfi M, dags. 2. janúar 2019:

„F, sem einnig fer með hlutverk barnaverndarnefndar, hefur verið með til vinnslu barnaverndarmál vegna barnanna D […] og C […]. Forsjáraðili barnanna er [kærandi]. Móðir barnanna […] var svipt forsjá í dómi Landsréttar í máli nr. X þann X 2018.

Börnin tvö höfðu verið vistuð utan heimilis móður frá X 2016 á grundvelli 27. gr. og 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl). Þann X 2016 gerir barnavernd samning við föður um að hann taki við umsjá barnanna á grundvelli 67. gr. b. bvl. Þann X 2017 hafnaði Héraðsdómur N í máli nr. X kröfu barnaverndar um forsjársviptingu gegn móður á grundvelli 29. gr. bvl. sem gerði það að verkum að vistun utan heimilis féll niður.

Á tímabilinu X 2017 til X 2018 hélt barnavernd áfram að veita tilsjón inn á heimili föður sem meðal annars fól í sér [...] til að aðstoða við að koma börnum af stað í skóla og reglulegar heimsóknir til að aðstoða við skipulag á heimili.

Börnin dvöldu áfram mest á heimili föður eftir dóm héraðsdóms nr. X þrátt fyrir að lagalega byggju þau á heimili móður. C var að mestu í helgar umgengni við móður, aðra hvora helgi, á tímabilinu og D fór í heimsóknir til móður án þess að gista í nokkur skipti á þeim tíma sem C fór í helgarumgengni.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur í samræmi við meðlagsákvörðun. Þar sem sérstaklega er tekið fram í ákvæðinu að barn skuli vera á framfæri þess sem fær úrskurð um meðlagsgreiðslur telur úrskurðarnefnd velferðarmála að heimilt sé að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til viðkomandi ef fyrir liggur að barn sé ekki lengur á framfæri hans.

Í leyfisbréfi til lögskilnaðar frá Sýslumanninum í Q, dags. X, er kveðið á um að kærandi skuli greiða meðlag til móður barnanna tveggja. Þá er óumdeilt að lögheimili barnanna, samkvæmt skráningu í Þjóðskrá, hafi verið hjá móður barnanna umrætt tímabil og að þau hafi dvalið að hluta til hjá móðurinni. Kærandi hefur lagt fram gögn sem sýna fram á útgjöld hans vegna framfærslu barnanna umrætt tímabil. Úrskurðarnefnd telur hins vegar að ekki liggi fyrir gögn sem staðfesti að börnin hafi ekki einnig verið á framfæri móður umrætt tímabil.

Í ljósi alls framangreinds er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. febrúar 2019 um að stöðva milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda frá X 2017 til X 2018 staðfest.

Kemur þá til skoðunar krafa kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunnar um endurkröfu vegna ofgreidds meðlags. Í 13. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvaða ágreiningsefni verða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna. Úrskurðarnefndinni er því ekki heimilt að úrskurða um önnur ágreiningsefni en þau sem falla undir framangreint ákvæði. Úrskurðarnefndin hefur samkvæmt framangreindri 1. mgr. 13 gr. heimild til þess að kveða upp úrskurð þegar ágreiningur varðar endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu bóta samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Í fyrrgreindri 55. gr. laga nr. 100/2007 er eingöngu verið að fjalla um þau tilvik þegar aðilar fá ofgreiddar eða vangreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem meðlag telst ekki til bóta tekur ákvæðið ekki til endurkröfuréttar vegna ofgreidds eða vangreidds meðlags.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um ágreining um endurkröfurétt vegna ofgreidds meðlags.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er félagsmálaráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til félagsmálaráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. febrúar 2019, um endurkröfu ofgreidds meðlags vegna tímabilsins X 2017 til X 2018 er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreidds meðlags því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend félagsmálaráðuneytinu.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á greiðslu meðlags til A, fyrir tímabilið X 2017 til X 2018, er staðfest. Kæra á ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu vegna ofgreidds meðlags er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend félagsmálaráðuneytinu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta