Mál nr. 543/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 543/2023
Fimmtudaginn 15. febrúar 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 10. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 10. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 10. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 8. janúar 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því ástæður uppsagnar hans úr starfi séu rangar og langsóttar. Kærandi hafi rakið allar ástæður sínar og rök í svari til Vinnumálastofnunar, sbr. meðfylgjandi skjal. Samkvæmt Vinnumálastofnun sé sönnun á vinnuveitendum og meint brot verði að vera mjög alvarlegt til að réttlæta uppsögn án frekari launa. Kærandi hafi verið hvattur til að hafa samband við sitt verkalýðsfélag varðandi málið. Ekki hafi verið gætt að því en að mati kæranda sé ómögulegt að sanna að lygi sé sönn. Allt sem kærandi hafi sagt í skýringum til Vinnumálastofnunar sé satt og það geti hann sannað með upptökum úr eftirlitsmyndavélum, vitnaskýrslum, skjáskotum og mörgu öðru, allt þetta sé möguleiki en eins og Vinnumálastofnun hafi sagt honum sé sönnunarbyrðin hjá vinnuveitandanum. Kærandi spyrji því af hverju hann ætti að sanna sakleysi sitt.
Kærandi bendi á að í uppsagnarbréfi komi fram að hann hafi ítrekað yfirgefið vinnustað sinn hálftíma fyrir áætlaðan tíma. Kærandi fullyrði að það sé hrein lygi. Þetta sé mjög auðvelt að sanna með eftirlitsmyndavélum. Ef að minnsta kosti ein slík upptaka verði sýnd muni kærandi biðjast afsökunar og samþykkja hvers kyns refsingu. Kærandi hafi ítrekað beðið um þetta en það sé ómögulegt að sýna fram á eitthvað sem ekki gerðist. Kærandi fullyrði enn og aftur að hann hafi verið rægður, rægður og niðurlægður. Kærandi muni ekki missa vonina um réttlæti og ef Ísland sé löglegt ríki muni hann sanna að hann hafi rétt fyrir sér.
Að mati kæranda séu enn mörg lagaleg atriði óljós. Kæranda sé sagt að ráðningarsamningur haldi gildi sínu jafnvel eftir lok þess tímabils sem tilgreint sé í honum. Það hafi komið kæranda á óvart þar sem það stangist á við alþjóðalög.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 10. október 2023. Með umsókn kæranda hafi fylgt uppsagnarbréf frá fyrrverandi vinnuveitanda, B, auk samskipta við vinnuveitanda á skjáskotum og skýringarbréfi frá kæranda sjálfum. Í þeim gögnum komi fram að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu frá 15. júlí 2021 til þess tíma er honum hafi verið sagt upp störfum, eða 5. október 2023. Í uppsögn vinnuveitanda komi fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna brota í starfi.
Með erindi, dags. 27. október 2023, hafi kæranda verið boðið að skila skýringum vegna starfsloka hjá B og verið veittur sjö virkra daga frestur til þess. Frekari skýringar hafi borist frá kæranda 31. október 2023 og með erindi, dags. 3. nóvember 2023, hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Með vísan til starfsloka kæranda hafi réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta þó verið felldur niður í tvo mánuði, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á.
Í 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:
,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.“
Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Ljóst sé að kæranda hafi verið sagt upp hjá B vegna brota í starfi. Í skýringum kæranda komi fram að kæranda hafi verið sagt upp vegna brota í starfi, bæði vegna ógnandi hegðunar í garð samstarfsfólks en einnig vegna ítrekaðra atvika þar sem samstarfsmenn hefðu stimplað kæranda út eftir að hann hafi vikið af vinnustað.
Við mat á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar skuli sæta viðurlögum á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málum sem þessum beri stofnuninni að líta til þess hvort viðkomandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann hafi sjálfur átt sök á. Uppsögn kæranda megi rekja til brota á starfsskyldum hans gagnvart vinnuveitanda. Fyrirliggjandi gögn í málinu og skýringar kæranda bendi eindregið til þess að kæranda hafi verið fullljóst hvers vegna vinnuveitandi hans hafi sagt honum upp starfi og að um sé að ræða atferli sem kærandi einn beri ábyrgð á. Þegar starfsmaður brjóti á veigamiklum atriðum ráðningarsamnings geti atvinnurekandi átt rétt á því að víkja manni úr starfi samstundis.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að háttsemi hans myndi leiða til brottvikningar úr starfi og að hann hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur hafi átt sök á, sbr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því beri honum að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysisbóta skuli fyrst hefjast þegar kærandi hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun án bóta í tvo mánuði.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.
Í fyrirliggjandi uppsagnarbréfi frá B, dags. 5. október 2023, kemur fram að kæranda hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust. Annars vegar vegna ítrekaðrar ógnandi hegðunar gagnvart samstarfsfólki, bæði í orðum og hegðun, og hins vegar vegna þess að kærandi hafi ítrekað fengið samstarfsfólk til að stimpla sig út eftir að hafa vikið af vinnustaðnum. Kærandi hefur mótmælt þessu sem röngu og vísað til ítarlegra skýringa sem hann sendi Vinnumálastofnun.
Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ekki er að sjá af gögnum málsins að Vinnumálastofnun hafi gætt að þeirri skyldu sinni, enda var í engu brugðist við skýringum kæranda áður en hin kærða ákvörðun var tekin, svo sem með því að óska eftir frekari upplýsingum frá fyrrum vinnuveitanda hans.
Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. nóvember 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir