Úrskurður nr. 126/2015
ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA
nr. 126/2015
Ár 2015, miðvikudaginn 1. apríl, er tekið fyrir mál nr. 7/2015; kæra A og B, dags. 3. janúar 2015 Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur
ú r s k u r ð u r :
I.
Málavextir eru þeir að kærendur sóttu um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 24. maí 2014, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kærenda var 0 kr. og var sú fjárhæð birt kærendum 5. desember 2014.
Með kæru, dags. 3. janúar 2015, hafa kærendur kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, og framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. sömu laga. Í kæru er þess krafist að frádráttur vegna glataðs veðs hjá bankanum x verði ekki lagður til grundvallar við útreikning leiðréttingarfjárhæðar kærenda. Um sé að ræða glatað veð sem hafi tengst gjaldþroti kæranda, A. Lánið hafi ekki verið vegna heimilis kærenda í Reykjavík.
Með viðbótarrökstuðningi, dags. 24. febrúar 2015, bentu kærendur á athugasemdir sem komu fram í frumvarpi sem varð að lögum nr. 142/2010, um breyting 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum og sneru að fyrningarfresti. Í viðbótarrökstuðningi greindu kærendur jafnframt frá því að kærandinn A hafi orðið gjaldþrota aftur og skiptum lokið í byrjun ársins 2013. Eina krafan sem hafi verið samþykkt við gjaldþrotaskiptin hafi verið krafa tollstjóra.
Þann 6. mars 2015 leitaði úrskurðarnefndin umsagnar bankans x um hvort lán bankans nr. 1 hafi verið fasteignaveðlán. Svar barst frá bankanum þann 23. mars 2015. Afrit af skuldabréfi fylgdi því til staðfestingar að um fasteignaveðlán hafi verið að ræða, tryggt með veði í fasteigninni z. Bankinn áréttaði í svari sínu að hann teldi að þær upplýsingar sem bankinn hafi sent ríkisskattstjóra um frádráttarliði hafi verið í samræmi við lög nr. 35/2014.
Svar bankans x, auk afrits skuldabréfs, var sent kærendum 23. mars 2015 og þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í svari bankans sem þau teldu ástæðu til. Skriflegt svar óskaðist sent innan 7 daga. Kærendur svöruðu erindinu þann 27. mars 2015 og ítrekuðu að umrætt lán tengdist gjaldþroti kæranda A og væri fyrnt samkvæmt lögum.
II.
Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Útreiknuð leiðrétting lána kærenda nam 1.236.372 kr. hjá hvorum kærenda eða samtals 2.472.744 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu var lán nr. 1 fellt niður þann í októbermánuði 2010 hjá bankanum x. Þær upplýsingar voru lagðar til grundvallar ákvörðunar ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð og endanleg niðurfelling umrædds fasteignarveðláns, að fjárhæð 9.791.884 kr., dregin frá útreiknaðri leiðréttingu samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014. Auk þess voru dregnar frá 300.000 kr. vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, en kærendur hafa ekki gert athugasemd við þann frádráttarlið.
Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. samtölu hlutdeildar einstaklings í niðurfellingu vegna fasteignaveðlána sem glatað hafa veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarri ráðstöfun eignar eftir 1. janúar 2008. Af umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014 kemur fram að ákvæðið eigi við um nauðungarsölu. Síðan segir þar: „Hið sama gildir þegar söluverð eignar í almennri sölu nægir ekki til greiðslu áhvílandi veðskulda og einnig þegar kröfuhafar hafa leyst til sín yfirveðsettar eignir. Hafi umsækjandi þannig þegar fengið felldar niður fasteignaveðkröfum umfram verðmæti eignar í kjölfar nauðungarsölu, sölu á almennum markaði eða í kjölfar eignaráðstöfunar í skuldaskilum við lánveitanda er talið rétt að slík niðurfelling komi til frádráttar leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins.“
Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014. Sömu tímafrestir skuli gilda um kröfur sem glatað hafa veðtryggingu en hafi ekki verið felldar endanlega niður gagnvart umsækjenda, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 4. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með annarri ráðstöfun eignar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 sé m.a. átt við sölu eða aðra eignaráðstöfun sem framkvæmd hefur verið í tengslum við gjaldþrot umsækjanda og leitt hefur til þess að fasteignaveðlán hans hefur glatað veðtryggingu. Fasteignaveðkröfur sem glatað hafa veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, teljast endanlega niðurfelldar í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 og dragast frá þeirri fjárhæð sem ákvarðast skv. 7. gr. laganna, sé fyrningarfrestur skv. lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. liðinn á samþykktardegi ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014. Ef fyrningarfrestur fasteignaveðkröfu, sem glatað hefur veðtryggingu fyrir, í tengslum við eða eftir gjaldþrot umsækjanda, er ekki liðinn á framangreindu tímamarki, skal leiðréttingarfjárhæð umsækjanda skv. 9. gr. laga nr. 35/2014 fyrst ráðstafað til að lækka slíkar kröfur skv. 1. mgr. 11. gr. laganna enda hafi krafan ekki verið endanlega felld niður.
Ágreiningslaust virðist vera að fasteignaveðlán kæranda, A, hafi verið endanlega fellt niður gagnvart honum. Hefur fjárhæð niðurfellingar ekki verið mótmælt. Er sú fjárhæð verulega umfram útreiknaða leiðréttingarfjárhæð kærenda, sbr. 7. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur virðast einkum byggja málatilbúnað sinn á því að umrætt lán hafi ekki verið vegna heimilis þeirra í Reykjavík og að krafa á hendur kæranda A sé fyrnd í dag.
Ljóst er að ákvæði 8. gr. laga nr. 35/2014 er ekki takmarkað við fasteignaveðlán er hvíldu á íbúðarhúsnæði þar sem umsækjandi hélt heimili eða hafði lögheimili á, né heldur við að um núverandi fasteign sé að ræða. Skilyrði er að um fasteignaveðlán hafi verið að ræða og er það skilyrði uppfyllt. Fasteignin X er, þrátt fyrir að hafa ekki verið íbúðarhúsnæði kærenda, fasteign í skilningi 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, nánar tiltekið afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Lán nr. 1 var tryggt með veði í fasteigninni.
Skilyrði fyrir því að kröfur séu dregnar frá útreiknaðri leiðréttingu lána samkvæmt 8. gr. laga nr. 35/2014 eru að kröfurnar séu niðurfelldar. Nánari skýringu er að finna í umfjöllun um 8. gr. í greinargerð með frumvarpi með lögum nr. 35/2014: „Rétt er að taka fram að hér er eingöngu átt við fasteignaveðkröfur umsækjanda sem hafa verið felldar niður að fullu gagnvart honum og eru ekki bókfærðar hjá kröfuhafa sem krafa á skuldarann og þannig hvorki á kröfuvakt né annarri vöktun. Hafi fasteignaveðkröfur á hinn bóginn ekki verið endanlega felldar niður gagnvart skuldara samkvæmt framansögðu koma þær ekki til frádráttar leiðréttingu. Leiðréttingu skv. 7. gr. frumvarpsins skal undir slíkum kringumstæðum þá fyrst ráðstafað til lækkunar á kröfum sem glatað hafa veðtryggingu með framangreindum hætti, líkt og nánar er rakið í skýringum með 11. gr. frumvarpsins.“ Í lögum nr. 35/2014 er þannig gert að skilyrði að krafa hafi verið fasteignaveðlán sem hafi glatað veðtryggingu í kjölfar nauðungarsölu eða annarrar ráðstöfunar eignar í eftir 1. janúar 2008 og að krafan hafi verið endanlega felld niður. Ekki er þar gerður greinarmunur á hvort niðurfelling er gerð vegna fyrningar eða annarra ástæðna., s.s. ákvörðunar viðkomandi kröfuhafa. Þvert á móti virðist vera gert ráð fyrir því að niðurfellingin geti verið vegna fyrningar, sbr. umfjöllun um 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Ljóst er að krafan sem um ræðir í málinu hefur verið felld niður gagnvart kæranda A.
Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur, vegna niðurfellingar fasteignaveðláns nr. 1, sem hefur glatað veðtryggingu er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kærenda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kærenda er hafnað.