Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 63/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                 

Miðvikudaginn 28. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 63/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 28. október 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, 23. október 2014, á umsókn hennar um námsstyrk á haustönn 2014.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um námsstyrk hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 9. september 2014, vegna haustannar 2014. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 6. október 2014, á þeirri forsendu að kærandi ætti rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi áfrýjaði afgreiðslu Fjölskylduþjónustunnar til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 22. október 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir niðurstöðu afgreiðslufundar Fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði um að synja beiðni umsækjanda um námsstyrk með vísan til 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Fjárhagsaðstoð er ætluð þeim sem ekki eiga réttindi annars staðar og geta ekki framfleytt sér með öðrum hætti, og námsstyrkur er fjárhagsaðstoð sem veitt er fólki í námi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Námsstyrkur lýtur sömu lögmálum og almenn fjárhagsaðstoð, þ.e. að njóti umsækjandi réttar annars staðar, t.d. til atvinnuleysisbóta, skal sá réttur nýttur áður en til fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins kemur. Þar sem fyrir liggur að umsækjandi á rétt á atvinnuleysisbótum er umsókn um námsstyrk synjað.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 23. október 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 29. október 2014. Með bréfi til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 30. október 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2014, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 8. desember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 11. desember 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. desember 2014 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ með bréfi, dags. 22. desember 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún hafi verið á atvinnuleysisbótum í þrjú ár og hafi staðið í þeirri meiningu að réttur hennar væri fullnýttur haustið 2014. Hún hafi því sótt um skólavist í B sumarið 2014. Um leið og hún hafi flutt aftur til Hafnarfjarðar hafi hún sótt um námsstyrk eða í byrjun september 2014. Umsókn hennar hafi verið synjað þar sem hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum en það hafi komið henni algjörlega í opna skjöldu. Hún hafi þá verið dottin út af atvinnuleysisbótum þar sem hún væri skráð í dagskóla en ekki kvöldskóla eða fjarnám. Kærandi fer fram á lögboðna framfærslu frá félagsþjónustunni fyrir sig og son sinn.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sent inn skriflega beiðni um þjónustu hjá Fjölskylduþjónustunni í Hafnarfirði 9. september 2014 og framhaldi af því hafi hún sótt um námsstyrk í viðtali hjá félagsráðgjafa 22. september 2014. Hún hafi þá verið byrjuð í 16 eininga námi á almennri braut í B. Í viðtalinu hafi komið fram að hún væri búin að nýta rétt sinn til atvinnuleysisbóta í 26 mánuði. Umsókn kæranda hafi verið synjað með vísan til 4. mgr. 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, er hverjum manni skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Sú skylda hvíli því á kæranda að tryggja framfærslu sína og barns síns með öllum þeim ráðum sem tiltæk séu áður en leitað er eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Þegar kærandi hafi lagt inn umsókn sína hafi komið í ljós að hún ætti nokkurrra mánaða ónýttan rétt til atvinnuleysisbóta og því hafi skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð ekki verið fyrir hendi. Sé fjárhagsaðstoð veitt sem námsstyrkur sé gerð sú krafa að viðkomandi sé að vinna að því með félagsráðgjafa að bæta stöðu sína þannig að hann öðlist fjárhagslegt sjálfstæði. Ekki sé gert ráð fyrir að einstaklingur geti skráð sig í nám án samráðs við félagsráðgjafa og óskað svo eftir fjárhagsaðstoð til framfærslu meðan á námi standi. Sveitarfélagið hafi þó ekki tekið afstöðu til þess hvort aðstæður kæranda féllu að skilyrðum 17. gr. reglnanna þar sem ljóst væri að hún ætti rétt annars staðar til framfærslu og hafi þar með átt kost á að sjá sér og barni sínu farborða án þess að leita til sveitarfélagsins. Ekki sé dregið í efa að kærandi sé að reyna að bæta stöðu sína og sonar síns með náminu en eftir standi skylda hennar að framfæra sjálfa sig og barn sitt. Kærandi hafi haft tækifæri til þess með atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun en fjárhagsaðstoð sveitarfélags geti ekki komið til fyrr en búið sé að tæma réttinn þar. Það hafi verið á ábyrgð kæranda að fylgjast með hvort réttur hennar væri fullnýttur eða ekki og jafnframt að laga nám sitt að þeim möguleikum sem í boði væru til framfærslu. Samkvæmt gögnum málsins hafi Vinnumálastofnun reynt að koma til móts við kæranda þrátt fyrir að hún hafi ekki haft samráð við stofnunina um að skrá sig í nám.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 3. apríl 2014. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um námsstyrk.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 17. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um námsstyrki frá sveitarfélaginu; þar segir:

Heimilt er að veita lán/styrk til einstaklinga sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og hafa ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla, sem stuðning við markmið í vinnu með félagsráðgjafa sem miðar m.a. að efnahagslega sjálfstæðu lífi viðkomandi. Samþykktir varðandi námskostnað skulu teknar fyrir hverja önn, þannig að aðstoð greiðist áfram þegar umsækjandi sýnir eðlilega námsframvindu. Aðstoðin miðast við fjárhagsaðstoð til framfærslu ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði.

Leggja skal inn umsókn um námsstyrki fjórum vikum áður en nám hefst.

Umsókn kæranda um námsstyrk var synjað á þeirri forsendu að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum en samkvæmt 4. mgr. 1. gr. reglna sveitarfélagsins skal kanna til þrautar rétt umsækjanda til annarra greiðslna, þar með talið frá atvinnuleysistryggingum. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er rækilega kannað hvort umsækjendur um fjárhagsaðstoð eigi rétt til framfærslu hjá öðrum aðilum og fjárhagsaðstoð ekki veitt ef svo reynist vera. Eigi umsækjendur ekki fullan rétt annars staðar geti þeir fengið fjárhagsaðstoð sem nemi því sem upp á vanti. Óumdeilt er að kærandi átti ónýttan rétt til atvinnuleysisbóta þegar hún lagði inn umsókn um námsstyrk hjá sveitarfélaginu, en þá hafði hún þegar hafið nám. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á námsstyrk á haustönn 2014.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um námsstyrk á haustönn 2014 er staðfest.

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta