Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 18. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 16/2012.

 

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 253.982 kr. með 15% álagi, fyrir tímabilið 2. júlí  til 19. ágúst 2011, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. janúar 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 

Kærandi sótti  um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. september 2009.

 

Samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins, 2. júlí 2011, var kærandi við störf hjá fyrirtækinu B á Y samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til Vinnumálastofnunar.  

 

Þann 14. september 2011 sendi Vinnumálastofnun kæranda erindi þar sem hún var látin vita af því að stofnunin hafi fengið upplýsingar þess efnis að kærandi starfaði hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Í bréfinu er kæranda veittur frestur til að skila inn skýringum og athugasemdum. Kærandi skilaði inn athugasemdum 20. september 2011 þar sem fram kom að hún hafi selt eigin hönnun á Y. Tekur hún fram í skýringarbréfi sínu að hún hafi staðið í þeirri meiningu að allar tekjur undir 50.000 kr. á mánuði hefðu ekki áhrif á greiðslur atvinnuleysisbótanna. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi verið í samvinnu við móður sína um hönnunina og hafi þær haft í tekjur á Y samtals 63.750 kr. og að kostnaður hafi numið 129. 822 kr.

 

Vinnumálastofnun sendi kæranda hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 4. október 2011 og bað kærandi í kjölfarið um rökstuðning með bréfi, dags. 20. september 2011. Rökstuðningur var sendur kæranda með bréfi, dags. 28. október 2011.

 

Í kæru, dags. 26. janúar 2012, greinir kærandi frá því að B sé ekki fyrirtæki með eigin kennitölu heldur sé það nafn sem hún hafi notað vegna hluta sem hún hefur hannað. Kærandi kveðst hafa útskýrt af hverju hún hafi verið á Y en meginástæðan hafi verið sú að hún hafi ætlað að athuga hvort það væri grundvöllur fyrir hana að stofna sitt eigið fyrirtæki og komast þannig af atvinnuleysisbótum. Hún hafi farið á námskeið á vegum Vinnumálastofnunar um hvernig stofna eigi smáfyrirtæki. Kærandi greinir frá því að af bréfum Vinnumálastofnunnar sé henni nú ljóst að hún hafi ekki virt þá tilkynningarskyldu sem þar er kveðið á um. Kærandi greinir frá því að hún og móðir hennar hafi lagt út í töluverðan kostnað við að fara á Y og þann kostnað hafi þær alls ekki fengið til baka. Því sé ekki hægt að tala um eiginleg laun. Þær hafi selt fjóra hluti og þær skipti kostnaði og hagnaði til helminga. Kærandi kveðst alls ekki hafa gert sér grein fyrir hversu rík áhersla sé lögð á þessa skyldu og hún hafi staðið í þeirri meiningu að ekki þyrfti að tilkynna tekjur undir ákveðnu frítekjumarki. Þar sem upphæðin sem um ræðir sé langt undir frítekjumörkunum fer hún fram á að kröfur Vinnumálastofnunar verði felldar niður.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. maí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi var í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna að atvinnuleit væri hætt samkvæmt 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

 

Vinnumálastofnun bendir á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á atvinnuleysistryggingum, hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt, skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Þá vísar Vinnumálastofnun til 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um tilkynningu um að atvinnuleit sé hætt og 35. gr. a um tilkynningu um tilfallandi vinnu.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé virkur í atvinnuleit. Þá bendir stofnunin á að í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar.

 

Vinnumálastofnun telur ljóst af gögnum málsins að kærandi var að selja sína eigin hönnun á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur og að ljóst sé að kærandi tilkynnti ekki um þessar breytingar á högum sínum. Stofnunin ítrekar að rík skylda hvíli á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess stofnunin hafi réttar upplýsingar til að ákvarða bótarétt viðkomandi. Vinnumálastofnun bendir á að vanþekking kæranda á lögum um atvinnuleysistryggingar breyti ekki þeirri skyldu sem hvílir á henni samkvæmt þeim.

 

Þá telur Vinnumálastofnun í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirra skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu frá 2. júlí til 19. ágúst 2011. Vinnumálastofnun vísar til þess að í ákvæði 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um leiðréttingu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Þá eigi samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laganna. Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 2. júlí til 19. ágúst 2011 að upphæð 253.982 kr. með 15% álagi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða


Eftirlitsaðilar vinnumarkaðarins höfðu fyrir 21. desember 2011 ekki lagaheimild til að spyrjast fyrir um persónulega hagi einstaklinga sem voru staddir á vinnustöðum eða öðrum álíka vettvangi, sbr. úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 11. september 2012 í málum nr. 135/2011 og nr. 140/2011 sem og sambærilegan úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. nóvember 2012 nr. 152/2011. Þessi ágalli í þessu tiltekna máli kemur hins vegar ekki að sök þar sem kærandi hefur veitt allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega afstöðu til málsins, sbr. úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 6. nóvember 2012 í málum nr. 3/2012, nr. 9/2012 og nr. 42/2012. Með hliðsjón af þessu verður að endurskoða hvort hin kærða ákvörðun sé í samræmi við lög.


Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún var svohljóðandi þar til henni var breytt 2. september 2011 með lögum nr. 103/2011:


Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.


Þessu ákvæði var bætt við lög um atvinnuleysistryggingar með 23. gr. laga nr. 134/2009, en með þeim lögum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar í því skyni að gera strangari kröfur um trúnaðarskyldur atvinnuleitenda gagnvart Vinnumálastofnun. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 134/2009 segir að beita eigi ákvæði 60. gr. í þrenns konar tilvikum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum og hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. 35. gr. a. Síðastnefnda greinin er svohljóðandi:


Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.


Helsti tilgangur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.


Fyrir liggur að kærandi seldi sína eigin hönnun á Y. Hún tilkynnti ekki um tilfallandi vinnu eins og henni bar að gera skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Verður því í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum.


Fram kemur af hálfu kæranda að hún hafi staðið í þeirri meiningu að það væri í lagi að hafa í tekjur undir 50.000 kr. á mánuði. Ekki verður fallist á að atvinnuleitandi geti borið fyrir sig vanþekkingu á lögunum enda eru upplýsingar um atvinnuleysistryggingar aðgengilegar á heimasíðu Vinnumálastofnunar auk þess sem stofnunin heldur kynningarfundi fyrir atvinnuleitendur.


Á tímabilinu 2. júlí til 19. ágúst 2011 fékk kærandi greiddar 220.854 kr. í atvinnuleysisbætur. Þessar bætur ber henni að endurgreiða ásamt 15% álagi eða samtals alls 253.982 kr. , sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


Með vísan til ofangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. október 2011 í máli A þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur auk 15% vaxta að fjárhæð samtals 253.982 kr., er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta