Hoppa yfir valmynd

Nr. 243/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 27. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 243/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20030027

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. mars 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Úkraínu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. mars 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verð felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 26. september 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 10. og 22. október 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 3. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 16. mars 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 30. mars 2020 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn 25. og 26. maí, 29. og 30. júní, 6. júlí, 17. og 26. ágúst 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd 13. ágúst sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í heimaríki sínu vegna starfa sinna sem fjölmiðlamaður.Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra skuli fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé blaðamaður frá Chernihiv í Úkraínu. Kærandi hafi í störfum sínum rannsakað spillingu í heimaríki sínu og birt upplýsingar um háttsetta stjórnmálamenn og aðila í viðskiptalífi sem hafi komið þeim illa. Kærandi hafi upplýst um spillingar- og hneykslismál, einkum á samfélagsmiðlunum Youtube og Facebook. Kæranda hafi borist ítrekaðar hótanir, bæði í gegnum skilaboð á internetinu og í eigin persónu. Óhróðri hafi verið dreift um hann á netinu þar sem honum sé m.a. gert að sök að vera barnaníðingur. Þá gangi lygasaga um á netinu um að kærandi sé samkynhneigður, en miklir fordómar séu gegn samkynhneigðum einstaklingum í Úkraínu. Kærandi hafi einnig orðið fyrir líkamsárás sem hann hafi rökstuddan grun um að hafi verið þaulskipulögð. Samkvæmt viðtali við kæranda hafi tveir menn ráðist á hann og lamið hann ítrekað í höfuðið þar til hann hafi misst meðvitund. Kærandi hafi fengið heilahristing og sár og hafi legið á sjúkrahúsi í eina viku þar sem lögregla hafi komið og rætt við hann um árásina. Kærandi hafi ítrekað lagt fram kvartanir og kærur til yfirvalda vegna framangreindra hótana, áreitis og líkamsárásar. Erfiðlega hafi gengið að fá svör frá yfirvöldum en þau hafi ítrekað sent málið sín á milli með þeim rökum að málið heyri undir lögsögu annars embættis. Þá hafi yfirvöld ítrekað sagst ætla að skoða málið án þess að neitt hafi áunnist í þeim efnum og hafi lögreglan verið treg til að hafa uppi á árásarmönnunum eftir árásina. Kærandi hafi ítrekað að hann hefði bílnúmer gerenda undir höndum en yfirvöldum hafi ekki fundist það skipta máli. Þann 25. maí 2020 bárust kærunefnd upplýsingar frá kæranda um morðið á þingmanninum [...] en kærandi hafi starfað fyrir hann og tengsl þeirra séu fólki kunn. Kærandi sé mjög óttasleginn vegna þessara frétta.

Í greinargerð kæranda koma fram nöfn þeirra aðila sem hans kveðst óttast mest. Kærandi kveðst óttast þingmanninn Dubil Valeriy Olexandrovych, en hann sé varaformaður Batkivschina flokksins sem sé flokkur fyrrum forsætisráðherra Úkraínu, Yulia Tymoshenko. Jafnframt kveðst kærandi óttast viðskiptamanninn Averianov Oleh Viathceslavovych en hann sé háttsettur innan Radical Party, fyrrum vararáðherra neyðaraðstæðna (e. vice minister of emergency situations) og núverandi þingmaður á þingi Chernihiv héraðs. Kærandi óttist lögmanninn Serhiy Volodymyrovych Korovchenko en hann sé m.a. fyrrum dómsmálaráðherra á Krímskaganum og hafi nýverið hlotið annað sætið í þingkosningum í sínu umdæmi. Þá óttist kærandi mann að nafni Vadim Iovenko, en hann hafi m.a. starfað fyrir rússnesku leyniþjónustuna GRU og sé fyrrum aðstoðarmaður þingmannsins Serhiy Andros sem hafi áður stefnt kæranda vegna blaðaskrifa hans. Framangreindir menn séu hátt settir bæði í stjórnmálum og viðskiptalífi í Úkraínu og hafi þar af leiðandi afar sterk tengsl við yfirvöld og lögreglu. Kærandi óttist að vera myrtur en það hafi ítrekað gerst í gegnum tíðina að blaða- og fréttamenn í Úkraínu hafi látið lífið á óútskýrðan hátt.

Kærandi rekur í greinargerð sinni helstu atburði og samskipti við yfirvöld í aðdraganda komu hans til Íslands. Þann 14. júní 2019 hafi kærandi kvartað til borgarlögreglu Pryluky vegna hótana tiltekinna manna með tengsl við þingkonuna Vita Solorieva og deilingar hennar á stöðuuppfærslu á Facebook þar sem því sé haldið fram að kærandi sé barnaníðingur. Þann 29. ágúst hafi kærandi orðið fyrir líkamsárás. Frá 14. júní til 4. október hafi kærandi sent mál sitt, bæði hvað varðar hótanir og þá líkamsárás sem hann hafi orðið fyrir, sem og um aðgerðarleysi lögreglu í kjölfar þeirra, til borgaralögreglunnar í Pryluky og Chernihiv, netlögreglunnar í Chernihiv héraði, Security Service of Ukraine (SBU), innanríkisráðuneytisins, lögreglu Chernihiv héraðs, ótilgreindra samtaka, saksóknara í Chernihiv héraði og Chernihiv borgar, Tjáningarfrelsisnefnd og Mannréttindastofu þingsins. Þessar stofnanir hafi svo ýmist sent mál hans á milli sín eða sagst vera að rannsaka eða skoða málið.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um stöðu fjölmiðlafólks í Úkraínu. Stjórnarskrá Úkraínu kveði á um tjáningarfrelsi, en heimildir beri þó með sér að yfirvöld virði þessi réttindi ekki sem skyldi. Algengt sé að fjölmiðlar hafi sterk sambönd við yfirvöld eða stjórnarandstöðuflokka og fjölmiðlar flytji reglulega falskar fréttir í því skyni að auka pólitískt fylgi sitt. Ritskoðun sé alvarlegt vandamál og netfrelsi hafi minnkað síðasta árið. Þá hafi Úkraínsk yfirvöld gert ýmsar ráðstafanir til að hefta frelsi fjölmiðla og fjölmiðlafólks. Ofbeldi gegn blaðamönnum sé vandamál í Úkraínu en heimildir beri með sér að blaðamenn á veraldarvefnum, bloggarar og aðrir blaðamenn séu í hættu bæði í netheimum og raunheimum. Þá hafi árásir á blaðamenn aukist á árunum 2018 til 2019. Rannsóknarblaðamenn í Úkraínu séu gjarnan undir eftirliti, verði fyrir áreiti og eigi á hættu líkamlegt ofbeldi, bæði af hálfu yfirvalda sem og einkaaðila. Ráðamenn og lögregla beiti blaðamenn gjarnan líkamlegu ofbeldi og ógni þeim á annan hátt. Þá hóti stofnanir yfirvalda og opinberir aðilar rannsóknarblaðamönnum og fjölmiðlum gjarnan málsókn vegna meiðyrða sem geti leitt til hárra sektargreiðslna. Ennfremur beri heimildir með sér að áreiti gagnvart blaðamönnum á veraldarvefnum sé töluvert. Dæmi séu um fjölda netárása á blaðamenn en slíkar árásir geti leitt til tæknilegra erfiðleika fyrir viðkomandi blaðamenn auk þess sem alþekkt sé að þeir verði fyrir barðinu á svokölluðum internettröllum sem áreiti þá t.a.m. á samfélagsmiðlum.

Í greinargerð eru nefnd dæmi um árásir á fjölmiðlafólk í Úkraínu á síðustu árum og viðbrögð yfirvalda við þeim. Árið 2012 hafi blaðamaðurinn Taras Vozniuk látist en ekkert hafi komið fram um dánarorsök hans. Hann hafi starfað sem ritstjóri dagblaðsins [...] og unnið að því að rannsaka og birta niðurstöður sínar um spillingu yfirvalda. Er hann hafi látist hafi hann m.a. verið að rannsaka ólöglega viðskiptahætti áðurnefnds [...] og hvernig hann hafi tengst tilgreindum morðum. Taras hafi borist hótanir frá [...] og ráðist hafi verið að aðgerðarsinnum [...] til að koma í veg fyrir að birtar yrðu niðurstöður rannsóknanna. Árið 2016 hafi blaðamaður látið lífið í bílsprengju, en enginn hafi verið handtekinn í tengslum við málið. Í júlí 2018 hafi kona, sem barist hafi gegn spillingu innan lögreglu, orðið fyrir sýruárás og látist í kjölfarið. Í mars 2019 hafi verið ráðist á blaðakonu en árásaraðilarnir hafi verið fulltrúar sveitastjórnarinnar í Chabany og árásin hafi átt sér stað á skrifstofu sveitastjórnarinnar. Ekki sé að finna upplýsingar um niðurstöðu rannsóknar lögreglu í máli hennar. Í júní 2019 hafi úkraínskur blaðamaður, Vadym Komarov, látist eftir að ráðist hafi verið á hann og hann laminn í höfuðið með þungum hlut. Í greinargerð kemur fram að kunnugir telji fullvíst að ástæða árásarinnar hafi verið starf hans sem fjölmiðlamanns, en hann hafi birt niðurstöður rannsókna sinna um spillingu yfirvalda og vanhæfni þeirra í borginni Cherkasy. Daginn fyrir árásina hafi hann tilkynnt að hann hygðist birta tilteknar niðurstöður rannsókna sinna. Umfjallanir sínar og niðurstöður rannsókna sinna hafi hann helst birt á Facebook. Rannsókn yfirvalda hafi engan árangur borið.

Í greinargerð kemur fram að fjallað hafi verið um árásir og hótanir í garð kæranda í fjölmiðlum, tilkynningum frá ýmsum alþjóðlegum samtökum auk þess sem fjallað hafi verið um hann í opinberum skýrslum.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi og vegna stjórnmálaskoðana með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi vegna starfs síns sem fjölmiðlamaður en hann hafi birt niðurstöður rannsókna sinna um spillingu og glæpi háttsettra aðila innan yfirvalda á veraldarvefnum. Þá sé kærandi gagnrýninn á stefnu og aðferðir úkraínskra stjórnvalda sem hann telur að séu spilltar. Með hliðsjón af framburði kæranda og framlögðum gögnum, sem og með vísan í landaupplýsingar sé ljóst að ótti hans að verða fyrir ofsóknum vegna starfa sinna sem fjölmiðlamaður og vegna stjórnmálaskoðana sé ástæðuríkur. Þar sem kærandi óttist úkraínsk yfirvöld sem og almenning verði að telja að a- og c- liðir 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eigi við. Kærandi hafi mátt þola töluvert áreiti á veraldarvefnum, þ. á m. af hálfu aðila sem séu hátt settir innan hins opinbera og aðila sem séu þeim nákomnir. Kærandi viti ekki fyrir víst hver það hafi verið sem hafi staðið að baki líkamsárás þeirri sem hann hafi orðið fyrir en hann telji fullvíst að það hafi verið einhver hinna háttsettu aðila sem kærandi hafi beint spjótum sínum að í rannsóknum sínum. Þá hafi úkraínsk yfirvöld ekki gripið til viðeigandi aðgerða til að vernda kæranda og rannsaka hótanir gegn honum. Lögregla hafi ekki rannsakað líkamsárásina nema að mjög takmörkuðu leyti enda þótt unnt hafi verið að afla ýmissa upplýsinga. Að framangreindu sé ljóst að kærandi geti ekki leitað verndar hjá yfirvöldum, enda séu það m.a. yfirvöld sem standi að baki ofsóknum á hendur honum.

Til vara krefst kærandi að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi á hættu ofsóknir vegna starfa sinna sem fjölmiðlamaður sem berjist gegn spillingu innan hins opinbera í Úkraínu. Heimildir séu skýrar um þá hættu sem fjölmiðlafólk þar í landi standi frammi fyrir og þá liggi einnig fyrir að möguleikar þeirra til að leita verndar yfirvalda séu afar takmarkaðir. Refsileysi gerenda í slíkum málum og aðgerðarleysi yfirvalda sé mikið áhyggjuefni og hafi ýmsir óháðir aðilar og samtök kallað eftir umbótum og sagt aðstæður í landinu að þessu leyti afar slæmar. Kærandi uppfylli öll skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Úkraínu sem yfirvöld hvorki geti né vilji veita honum vernd gegn. Þá séu það m.a. yfirvöld sem kærandi óttist.

Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Þar komi fram að með erfiðum almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í greinargerð kæranda kemur fram að fjölmiðlafólk sem berjist gegn spillingu í Úkraínu geti ekki ávallt treyst á vernd yfirvalda. Félagslegar aðstæður hans yrðu því afar bágbornar ef hann neyddist til að snúa aftur til Úkraínu.

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í máli hans. Kærandi gerir athugasemd við það að nánast ekkert hafi verið fjallað um sérstakar aðstæður hans, svo sem hverjir það séu sem helst hafi staðið í hótunum við hann og sem hann telji að standi að baki líkamsárásinni. Kærandi telji ótækt að ekki hafi verið fjallað um stöðu hans sem fjölmiðlamanns, þá hættu sem að fjölmiðlafólki steðji í Úkraínu og takmarkaða möguleika þeirra á að leita aðstoðar yfirvalda þar í landi. Í ákvörðun sé einungis minnst á almennan hátt á tjáningarfrelsi einstaklinga og möguleika þeirra til að leita sér verndar en staðan sé allt önnur þegar um sé að ræða fjölmiðlafólk. Þá komi fram í ákvörðun að einstaklingar á svæðum sem lúti stjórn úkraínskra yfirvalda geti gagnrýnt yfirvöld bæði opinberlega og einslega og rætt málefni er varða almannahagsmuni án þess að þurfa að óttast opinberar hefndarráðstafanir, en ekki hafi verið vísað í neinar heimildir hvað þetta varðar. Kærandi mótmælir því að yfirvöld í Úkraínu hafi sýnt vilja til að aðstoða kæranda til þessa en yfirlýsingar um að verið sé að rannsaka málið án þess að nokkuð bendi til þess að svo sé í raun geti ekki verið taldar sýna fram á að kæranda sé tryggð vernd í heimaríki sínu þvert á það sem komi fram í heimildum. Að endingu bendir kærandi á að hann hafi lagt fram frumrit blaðamannaskírteinis síns í viðtali hjá Útlendingastofnun en fulltrúi hafi ekki talið þörf á að taka það til nánari skoðunar. Í ákvörðun hafi svo komið fram að kærandi hafi aðeins lagt fram ljósmyndir af skírteininu. Þá mótmælir kærandi áreiðanleikakönnun þeirri sem fulltrúi Útlendingastofnunar virðist hafa framkvæmt á ljósmyndum skírteinisins, en mun áreiðanlegri rannsókn þyrfti að fara fram ef draga ætti í efa gildi skírteinisins.

Kærandi telur að með endursendingu hans til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað úkraínsku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé úkraínskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Úkraínu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2016 Annual Report of UHHRU (Ukrainian Helsinki Human Rights Union, 16. ágúst 2017);
  • 2018 Country Reports on Human Rights Practices – Ukraine (US Department of State, 13. mars 2019);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices – Ukraine (US Department of State, 11. mars 2020);
  • Access to Justice and the Conflict in Ukraine (Organization for Security and Co-operation in Europe, desember 2015);
  • Amnesty International Report 2017/2018: Ukraine (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Assessment of Certain Provisions of the Criminal Code of Ukraine Concerning Offenses Against Media Professionals (Council of Europe, október 2017);
  • Association Implementation Report on Ukraine (European Commission, 14. nóvember 2017);
  • Can people afford to pay for health care, New evidence on financial protection in Ukraine (WHO, 2018);
  • Conflict- related Displacement in Ukraine: Increased Vulnerabilities of Affected Populations and Triggers of Tension within Communities (Organization for Security and Co-operation in Europe, júlí 2016);
  • Conscientious Objection – Factsheet (European Court of Human Rights, október 2017);
  • Country Policy and Information Note – Ukraine: Actors of protection (UK Home Office, maí 2019);
  • Country Policy and Information Note – Ukraine: Internal relocation (UK Home Office, maí 2019);
  • Country Policy and Information Note – Ukraine: Minority groups (UK Home Office, júní 2019);• Country Policy and Information Note – Ukraine: Sexual orientation and gender identity (UK Home Office, júlí 2017);
  • Fact Finding Mission Report (Austrian Federal Office for Immigration and Asylum (BFA), Country of Origin Information Department & French Office for the Protection of Refugees and Stateless persons (OFPRA), maí 2017);
  • Freedom in the World 2020 - Ukraine (Freedom House, 6. mars 2020);• Human Rights Observance in Ukraine: The Situation Analysis (UNDP Ukraine, 13. nóvember 2018);
  • International Protection Considerations related to developments in Ukraine – Update III (UNHCR, 24. september 2015);
  • Impact of Local CSOs on Implementing Anti-corruption Reforms in the Regions of Ukraine (Anti-corruption Research & Education Centre (ACREC), desember 2019);
  • Nations in Transit 2018 – Ukraine (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • “Nobody wants us”: The Alienated Civilians of Eastern Ukraine (International Crisis Group, 1. október 2018);
  • Report on the human rights situation in Ukraine (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, 15. apríl 2014);
  • Report on the human rights situation in Ukraine (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, 19. september 2014);
  • Report on the human rights situation in Ukraine 16 August to 15 November 2019 (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, 12. desember 2019);
  • Report on the human rights situation in Ukraine 16 November 2019 to 15 February 2020 (Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights, 12. mars 2020);
  • Security and Justice in Ukraine: Perspectives from Communities in Donetsk, Luhansk and Zhytomy Oblasts (UNDP Ukraine, 7. nóvember 2018);
  • Social Security Programs Throughout the World: Europe, 2018 (Social Security Administration, september 2018);
  • Temanotat Ukraina: Domstolene – korrupsjon og manglende uavhengighet (Landinfo, 6. júlí 2015);
  • Temanotat Ukraina: Forhold for homofile (Landinfo, 29. júní 2015);
  • Temanotat Ukraina: Internflyktninger (Landinfo, 16. apríl 2020);
  • Temanotat Ukraina: Korrupsjonsbekjempelse og beskyttelse for varslere av korrupsjon (Landinfo, 21. febrúar 2018);
  • Temanotat Ukraina: Korrupsjonsbekjempelse og beskyttelse for varslere av korrupsjon (Landinfo, 2. mars 2020);
  • Ukraine: Country Background Note (UK Home Office, maí 2019);
  • Ukraine: Whether a victim of a crime can request that the Public Prosecutor's Office or another public agency initiate an investigation into the alleged crime if the police have failed to act (January-November 2017) (Immigration and Refugee Board of Canada, 27. nóvember 2017);
  • Upplýsingar af vef United States Agency for International Development (USAID) - https://www.usaid.gov/where-we-work/europe-and-eurasia/ukraine/global-health og
  • World Report 2020 – Ukraine (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Úkraína er lýðræðisríki með um 44 milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt talin virt af úkraínskum stjórnvöldum á þeim svæðum sem lúta stjórn þeirra. Úkraína gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1997. Landið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 10. júní 2002, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 12. nóvember 1973 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 24. febrúar 1987. Meirihluti íbúa landsins eru af úkraínskum uppruna eða um 78% en um 17% íbúa eru af rússneskum uppruna og 5% eru af hinum ýmsu þjóðarbrotum. Úkraína er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki, að undanskildum héruðunum Donetsk, Luhansk og Krím.

Í skýrslu mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur m.a. fram að í lok árs 2013 hafi mótmæli hafist í Kænugarði og öðrum borgum Úkraínu. Upphaflega hafi verið um friðsöm mótmæli að ræða en síðar hafi átt sér stað átök fylkinga óeirðalögreglu og mótmælenda sem hafi leitt til mannfalls. Í kjölfar ofangreindra mótmæla og innlimunar Rússa á Krímskaga í mars 2014 hafi brotist út átök á milli hersveita aðskilnaðarsinna og Úkraínuhers í austurhluta Úkraínu. Í skýrslunni greinir að fulltrúar frá Úkraínu, Rússlandi og aðskilnaðarsinnum hafi undirritað samkomulag um vopnahlé í september 2014, en að átök eigi sér enn stað á víð og dreif á svæðinu milli stjórnarhers og aðskilnaðarsinna, sem studdir séu af stjórnvöldum í Rússlandi. Þrátt fyrir að átökin séu að mestu bundin við héruðin Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu hafi önnur svæði einnig orðið fyrir árásum og séu áhrif stríðsins margskonar. Samkvæmt ofangreindum gögnum sé vegalaust fólk innan landsins u.þ.b. 1,7 milljón manns.

Þá kemur fram í gögnum, m.a. ofangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, að spilling sé viðvarandi vandamál í Úkraínu. Þá kemur fram í skýrslu Landinfo að ýmsar stofnanir starfi við að rannsaka og ákæra í spillingarmálum. Samtökin The National Anti Corruption Bureu (NABU) rannsaki spillingu hjá yfirvöldum á meðan lögreglan annist rannsókn spillingarmála á lægri stigum löggæslu. Í skýrslunni komi fram að NABU rannsaki spillingu með skilvirkum hætti en rannsókn lögreglunnar hafi ekki verið mjög árangursrík. Þá veigri margir íbúar landsins sér við því að tilkynna spillingu innan stjórnkerfisins vegna skorts á viðeigandi úrræðum til að veita þeim stuðning og vernd. Þá kemur fram í ofangreindri skýrslu kanadísku útlendingamálanefndarinnar frá 2017 að í úkraínskum sakamálalögum sé kveðið á um framkvæmd þess að leggja fram kvörtun til lögreglu og saksóknarembættisins. Þá sé í sakamálalögum kveðið á um við hvaða aðstæður heimilt sé að áfrýja athöfnum eða athafnaleysi lögreglu. Falli undir þau tilvik m.a. ákvörðun lögreglu um að neita að rannsaka brotlega háttsemi, stöðva rannsókn eða fella rannsókn niður. Í skýrslu Landinfo kemur fram að ýmislegt hafi verið gert til að vinna gegn spillingu í Úkraínu frá því Viktor Janukovitsj, fyrrverandi forseti Úkraínu, hafi verið hrakinn frá embætti í febrúar 2014. Eftir að Petro Porosjenko hafi tekið við forsetaembættinu árið 2014 hafi verið sett á laggirnar aðgerðaráætlun sem hafi m.a. falist í myndun stofnana og lagasetningu á sviðinu. Þá hafi núverandi forseti Úkraínu, Volodomyr Zelenski, byggt framboð sitt vorið 2019 m.a. á því að hann hygðist vinna gegn spillingu. Flokkur hans hafi fengið hreinan meirihluta í kosningunum sem hafi greitt fyrir lagasetningu á sviðinu. Af þeim umbótum sem gerðar hafi verið á þessu sviði má nefna lög um vernd uppljóstrara um spillingu sem tóku gildi í janúar 2020 og ákvörðun þingsins að aflétta friðhelgi löggjafans. Í september 2019 hafi svo verið settur á fót sérstakur dómstóll fyrir spillingarmál, The High Anticorruption Court (HACC).

Í skýrslu breska utanríkisráðuneytisins kemur fram að í Úkraínu séu ríkjandi íhaldssöm viðhorf gagnvart LGBTQ+ fólki og það eigi í hættu á að verða fyrir fordómum. Einhverjar framfarir hafi átt sér stað í þessum málefnum á undanförnum árum. Árið 2015 hafi verið sett á laggirnar þjóðarstefna næstu fimm ára í mannréttindamálum þar sem m.a. sé fjallað um vernd réttinda LGBTQ+ fólks. Samþykktin geri ráð fyrir því að lög verði þróuð hvað þessi málefni varðar. Þó að það hafi orðið ákveðin viðhorfsbreyting gagnvart LGBTQ+ fólki þá geti það verið ólíkt eftir svæðum, það sem teljist samfélagslega samþykkt í stærri samfélögum sé ekki endilega samþykkt í þeim minni. Á flestum svæðum í Úkraínu sé ekki talað opinskátt um málefni þessa hóps og flestir LGBTQ+ einstaklingar leyni kynhneigð sinni af ótta við að verða fyrir fordómum og andúð frá samfélaginu. Almennt er talið að fordómar og meðferð LGBTQ+ fólks í Úkraínu nái ekki því alvarleikastigi hvað varðar eðli og umfang til að jafnast á við ofsóknir eða alvarlegan skaða. Ennfremur sé talið að almennt séu yfirvöld í Úkraínu fær um að veita fólki vernd.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2018 kemur fram að tjáningarfrelsi, þ. á m. fyrir fjölmiðlafólk, sé varið í stjórnarskrá og lögum Úkraínu. Stjórnvöld hafi þó ekki ávallt virt þennan rétt. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 kemur fram að aðilar frá stjórnvöldum hafi fyrirskipað eða tekið þátt í árásum gegn aðgerðarsinnum og blaðamönnum í tenglum við störf þeirra og í einhverjum tilfellum hafi árásirnar leitt til dauða. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2019 hafi verið tilkynnt um 20 árásir á blaðamenn. Ofbeldi gegn blaðamönnum sé vandamál og yfirvöld hafi sætt gagnrýni fyrir aðgerðarleysi sitt í þessum málum. Almennt sé þó talið að einstaklingar sem lúti stjórn úkraínskra yfirvalda geti gagnrýnt yfirvöld bæði opinberlega og einslega og rætt málefni er varða almannahagsmuni án þess að þurfa að þola opinberar hefndarráðstafanir. Í skýrslu Evrópuráðsins kemur fram að breytingar hafi verið gerðar á úkraínskum sakamálalögum í kjölfar byltingarinnar árið 2014 sem miði að því að veita fjölmiðlafólki aukna vernd. Lagabreytingar hafi verið yfirgripsmiklar og séu til merkis um áherslu stjórnvalda að styrkja stöðu fjölmiðla í ríkinu og að uppfylla kröfur Evrópusambandsins á þessu sviði.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í Úkraínu sé til staðar almannatrygginga- og velferðarkerfi sem allir íbúar landsins eigi aðgang að. Allir ríkisborgarar eigi rétt á atvinnuleysisbótum og þá sé ákveðnum hópum tryggður ríkari réttur til slíkra bóta, þ. á m. einstæðum mæðrum með börn undir 14 ára aldri á sínu framfæri. Þá kemur fram í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að öllum íbúum landsins sé tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu samkvæmt stjórnarskrá ríkisins.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur vegna starfa sinna sem blaðamaður og vegna stjórnmálaskoðana. Kærandi hafi starfað við rannsóknir á spillingu í heimaríki sínu og birt upplýsingar um háttsetta stjórnmálamenn, einkum á samfélagsmiðlunum Youtube og Facebook. Kærandi hafi orðið fyrir áreiti og ofbeldi, honum hafi borist ítrekaðar hótanir og óhróðri hafi verið dreift um hann á netinu þar sem honum sé m.a. gert að sök að vera barnaníðingur. Þá hafi kærandi orðið fyrir líkamsárás og þurft að liggja á spítala í viku í kjölfarið. Kærandi hafi ítrekað lagt fram kvartanir og kærur til yfirvalda vegna framangreindra hótana, áreitis og líkamsárásar en yfirvöld hafi annaðhvort sent málið til annarra stofnana eða sagst vera með málið til skoðunar án þess að neitt hafi áunnist í þeim efnum. Kveður kærandi að tregi lögreglu og yfirvalda sé kominn til vegna stöðu þeirra aðila sem kærandi óttist.

Kærandi hefur lagt fram fjölda gagna við málsmeðferð stjórnvalda sem hann kveður að renni stoðum undir frásögn sína. Eru þetta m.a. skjöl sem sýna fram á samskipti kæranda við lögreglu og ýmsa aðra opinbera aðila í heimaríki hans vegna þeirra hótana sem kærandi kveðst hafa fengið og líkamsárásar sem hann hafi orðið fyrir og tenglar á umfjallanir kæranda um spillingarmál í heimaríki.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd þann 13. ágúst 2020 og lýsti hann ástæðum umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd. Kærandi kvaðst hafa unnið sem blaðamaður frá árinu 2008 og hafi ávallt verið að fjalla um spillingu í Úkraínu en rannsóknir hans hafi orðið ítarlegri og beinskeyttari eftir því sem hann öðlaðist meiri reynslu í starfi. Í viðtalinu áréttaði kærandi tengsl sín við þingmanninn Valery Davydenko. Greindi kærandi frá því að hann hafi unnið fyrir þingmanninn fyrst árið 2014 þegar Davydenko hafi verið í framboði til þjóðþings. Kærandi hafi verið ráðinn til þess að rannsaka spillingu pólitískra andstæðinga Davydenko, n.tt. borgarstjóra Chernihiv borgar, Vladislaw Atroshenko. Samkomulag virðist hafa komist á hjá Davydenko og Atroshenko því eftir nokkra mánuði hafi kæranda verið sagt að hætta rannsóknum sínum. Kærandi hafi síðan tekið sér hlé frá blaðamennsku árið 2016 þar sem enginn hafi þorað að ráða blaðamann til að rannsaka spillingu á þeim tíma. Kærandi hafi hafið störf sem einkaþjálfari og hafi starfað við það þar til árið 2019 þegar hann hafi aftur fengið boð um starf við rannsóknir á spillingu andstæðinga Davydenko, n.tt. áðurnefnda Dubil, Averianov, Korovchenko og Iovenko. Honum hafi verið lofað að honum yrði ekki gert að stöðva rannsóknir sínar í þetta sinn og kærandi hafi því samþykkt að taka starfið að sér. Rannsóknir hans árið 2019 hafi leitt til framangreinds áreitis og ofbeldis. Þá séu tengsl kæranda og Davydenko fólki kunn og kærandi hafi fengið hótanir þar sem nafn Davydenko hafi komið fram og þeir m.a. sagðir eiga í ástarsambandi. Þann 25. maí 2020 bárust kærunefnd upplýsingar frá kæranda um að Davydenko hafi fundist látinn á skrifstofu sinni og lögregla rannsaki málið nú sem morð. Áréttaði kærandi ótta sinn vegna þessara vendinga og þá hættu sem hann sé í vegna þeirra. Telji kærandi að sé opinber persóna líkt og Davydenko ekki öruggur þá sé kærandi alls ekki öruggur. Kærandi hefur lagt fram gögn sem sýna fram á að búið sé að höfða meiðyrðamál gegn honum fyrir úkraínskum dómstólum. Að sögn kæranda viti aðeins foreldrar hans hvar hann sé staddur og málið hafi verið höfðað í því skyni að hafa uppi á og refsa honum. Það sé aðstoðarkona áðurnefnds Averianov sem hafi höfðað málið og það sé gert að beiðni Averianov, Korovchenko, Iovenko og Dubil.

Kærandi hefur frá upphafi verið samkvæmur sjálfum sér í frásögn sinni af atvikum og lagt fram ofangreind gögn til stuðnings henni. Verður því lagt til grundvallar að kærandi hafi haldið úti síðum á samfélagsmiðlum þar sem hann hafi m.a. fjallað um aðila sem tengist stjórnmálum í heimaríki hans og spillingarmál tengd þeim. Þá bera framlögð gögn kæranda einnig með sér að hann hafi orðið fyrir áreiti og verið hótað á samfélagsmiðlum vegna rannsókna sinna og að búið sé að útmála kæranda sem barnaníðing á veraldarvefnum. Loks telur kærunefnd að leggja megi til grundvallar að kærandi hafi orðið fyrir líkamsárás árið 2019, sem ekki sé hægt að útiloka að hafi átt rætur að rekja til starfa hans.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér í málinu er ljóst að blaða- og fjölmiðlamenn sem hafa fjallað um stjórnmál og spillingu hafi orðið fyrir aðkasti og árásum í heimaríki kæranda á undanförnum árum. Kemur einnig fram í gögnunum að úkraínsk stjórnvöld hafi sætt gagnrýni fyrir að bregðast ekki við þeim árásum með fullnægjandi hætti. Þrátt fyrir að ekki verði talið að stjórnvöld beiti fjölmiðlamenn kerfisbundið ofsóknum þá sýni heimildir að staða þeirra er viðkvæm og möguleikar þeirra á vernd yfirvalda fari eftir aðstæðum í hverju máli fyrir sig.

Kærandi býr og starfar í Chernihiv héraði í Úkraínu. Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um stöðu spillingarmála í Chernihiv héraði má ráða að lítill sem enginn pólitískur vilji sé til staðar hjá stjórnvöldum til að vinna gegn spillingu á svæðinu. Þó að eitthvað samráð eigi sér stað meðal stjórnvalda og samtaka sem vinni gegn spillingu þá virðist slíkt aðeins vera gert að orðinu til og að áhrif þeirra sem berjist gegn spillingu á ákvarðanir stjórnvalda séu minniháttar. Chernihiv héraði er lýst sem skýru dæmi um spillt pólitískt kerfi þar sem einn aðili sé ráðandi og ráði til sín aðra sem starfi fyrir hann. Kærandi hefur lagt fram gögn í málinu sem sýna að hann hafi tilkynnt um hótanir og umrædda líkamsárás til lögregluyfirvalda í heimaríki. Samkvæmt kæranda hafi yfirvöld sent erindi kæranda á milli stofnana á þeim grundvelli að viðkomandi stofnun hefði ekki lögsögu í málinu. Í ljósi framangreinds má að mati kærunefndar leiða að því líkur að vilji lögreglu og annarra yfirvalda í Chernihiv héraði til að aðstoða kæranda og veita honum vernd vegna rannsókna hans á spillingu innan raða æðstu embættismanna héraðsins, sem m.a. sitji á þjóðþingi Úkraínu og gegni háttsettum stöðum fyrir stjórnmálaflokka í landinu, sé lítill.

Að mati kærunefndar gerði kærandi með ítarlegum og trúverðugum hætti grein fyrir atburðum sem hafi leitt til umsóknar hans um alþjóðlega vernd. Kærunefnd telur, eins og málsatvikum er háttað í máli þessu, að kærandi hafi lagt nægan grunn að þeirri málsástæðu sinni að hann hafi sætt og eigi á hættu að sæta áreiti og meðferð sem jafnist á við ofsóknir í skilningi 1.mgr. 37. gr. laga um útlendinga af hálfu opinberra embættismanna og aðilum tengdum þeim. Kærunefnd hefur við það mat haft til hliðsjónar að það áreiti sem kærandi eigi á hættu að verða fyrir samanstandi af endurteknum athöfnum sem líklegar eru til að gera líf kæranda óbærilegt í heimaríki. Þá hafi hann gert nægilega líklegt að sökum rannsókna sinna og umfjöllunar á samfélagsmiðlum á spillingu stjórnvalda í heimaríki hans muni hann ekki geta fengið vernd lögreglu eða yfirvalda, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Er því fallist á það að kærandi hafi með nægilega rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi vegna starfa sinna sem blaðamaður sem rannsaki spillingu yfirvalda, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Eins og fram er komið er það mat kærunefndar að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu opinberra embættismanna og aðilum tengdum þeim, auk þess sem hann hafi gert nægilega líklegt að hann muni ekki geta fengið vernd lögreglu eða yfirvalda, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Að virtum atvikum málsins og þeim aðilum sem ætla má að standi að baki ofsóknum í garð kæranda er það mat kærunefndar, eins og hér stendur á, að ekki verði talið raunhæft að kærandi fái raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamaður hér á landi.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er fallist á aðalkröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og veita kæranda alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kæranda er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. s.l. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue him residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                  Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta