Mál nr. 338/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 338/2022
Miðvikudaginn 7. september 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. júní 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. febrúar 2020 og var umsóknin samþykkt 25. febrúar sama ár. Þann 18. febrúar 2022 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. mars 2022, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá B. Skýringar kæranda bárust ekki. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar hefðu verið stöðvaðar frá og með 1. apríl 2022 á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi skilaði inn skýringum og óskaði eftir endurupptöku þann 6. apríl 2022. Í kjölfar endurupptöku Vinnumálastofnunar á máli kæranda í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest þann 27. apríl 2022.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júní 2022. Með bréfi, dags. 4. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 5. ágúst 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að Vinnumálastofnun hafni áframhaldandi greiðslum atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að henni hafi ekki verið heimilt að hafna starfi sem henni hafi boðist. Líkt og fram komi í svari kæranda til Vinnumálastofnunar hafi hún talið heimilt að hafna starfi einu sinni þar sem hún hafði ekki gert það áður. Starf þetta hafi einungis verið tímabundin afleysing og að loknu samtali við mannauðsstjórann hafi verið ljóst að ekki hafi verið möguleiki á að vinna sig upp í starfi. Kærandi hafi verið atvinnulaus lengi og þekki því til umhverfisins sem hafi verið í gangi á vinnumarkaðnum á þeim tíma þegar starfið hafi boðist. Hún hafi talið að þar sem loksins væri að rofa til eftir Covid væru miklir möguleikar á störfum sem myndu henta henni betur með tilliti til launa, starfsvettvangs og framtíðarmöguleika. Hún hafi ekki viljað missa af þeim tækifærum. Kærandi sé nú komin í fullt starf á vettvangi sem hæfi menntun hennar og reynslu mun betur.
Kæranda hafi aldrei verið tjáð að henni væri ekki heimilt að hafna starfi. Kærandi telji Vinnumálastofnun hafa brugðist leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu sinni til hennar. Kærandi hafi átt samtal við starfsmann Vinnumálastofnunar um aðstæður hennar stuttu áður en hún hafi hafnað umræddu starfi en ekki hafi verið minnst á að þar sem atvinnuleysistímabilið væri orðið það langt væri ekki heimilt undir neinum kringumstæðum að hafna starfi. Hvergi komi fram, hvorki í samtölum við starfsmenn Vinnumálastofnunar, á mínum síðum, né hafi það verið kynnt kæranda að staða hennar sem bótaþega væri breytt þar sem hún væri komin yfir ákveðna tímalengd í atvinnuleysi. Að mati kæranda hljóti að vera ríkari skylda lögð á stjórnvöld að kynna réttindi og skyldur sem fylgi því að vera bótaþegi heldur en á henni sjálfri að kynna sér það, sérstaklega þegar um breytta stöðu sé að ræða. Það komi einungis fram þegar sótt sé um atvinnuleysisbætur í upphafi að aðili skuli kynna sér réttindi og skyldur en á þeim tímapunkti hafi henni ekki órað fyrir að atvinnuleysi hennar myndi vera svo langt sem það hafi orðið. Kærandi hafi verið atvinnulaus í langan tíma og telji að Vinnumálastofnun hefði átt að leiðbeina mun betur um þau íþyngjandi áhrif sem það hafi að hafna starfi. Því verði að telja að stjórnvöld skuli bera hallann af skorti á leiðbeiningum og tilkynningarskyldu til kæranda þar sem um mjög íþyngjandi ráðstöfun sé að ræða. Kærandi sé einstæð móðir með barn á framfæri og þetta hafi mikil áhrif á fjölskylduaðstæður hennar.
Í ljósi framangreinds telji kærandi að það hafi verið réttlætanlegt að hafna starfinu. Verði ekki fallist á það telji kærandi þó að hún eigi rétt á greiðslu frá Vinnumálastofnun því leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu hafi engan veginn verið gætt, enda hefði hún tekið starfinu hefði hún vitað að hún myndi missa bæturnar. Ríkar sanngirnisástæður séu fyrir því að kæranda verði greiddir þeir mánuðir sem hún telji sig eiga inni. Einnig séu miklir hagsmunir í húfi fyrir kæranda að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði snúið við ef svo óheppilega vildi til að hún missi vinnu á næstu tveimur árum. Þá eigi hún ekki rétt á atvinnuleysisbótum og kærandi ítreki að ef stjórnvöld hefðu sinnt leiðbeiningarskyldu sinni hefði hún ekki neitað þessu starfi og þar með misst þessi ríku réttindi sem atvinnuleysisbætur séu.
Kærandi óski þess að Vinnumálastofnun verði gert skylt að greiða henni þá mánuði sem henni hafi verið synjað um.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 3. febrúar 2020. Með erindi, dags. 25. febrúar 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Þann 18. febrúar 2022 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða starf þjónustufulltrúa en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun.
Með erindi, dags. 3. mars 2022, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á starfi hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hafi atvinnuleitandi hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þá hafi kæranda verið greint frá því að hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði kynni viðkomandi að þurfa að ávinna sér rétt til nýs bótatímabils. Kæranda hafi verið veittur sjö virkra daga frestur til að veita stofnuninni skýringar sínar. Engar skýringar hafi borist Vinnumálastofnun að liðnum þeim sjö daga fresti sem kæranda hafi verið veitt. Í kjölfarið hafi kæranda verið sent erindi, dags. 30. mars 2022, og henni tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar væru stöðvaðar frá 1. apríl 2022 á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þann 6. apríl 2022 hafi kærandi veitt Vinnumálastofnun skýringar sínar og óskað eftir því að mál hennar yrði tekið til meðferðar að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hafi sagst ekki hafa veitt stofnuninni skýringar sínar fyrr því hún hafi staðið í þeirri trú að henni væri heimilt að hafna starfi einu sinni áður en til viðurlaga kæmi, sérstaklega ef um tímabundið starf væri að ræða líkt og í hennar tilfelli. Kærandi hafi greint frá því að hún hefði í tvö skipti talað við mannauðsstjóra B í síma og jafnframt mætt í atvinnuviðtal. Hún hafi greint mannauðsstjóra frá því að hún væri að leita sér að starfi sem hæfði menntun hennar betur og spurt hvort möguleiki væri á því að taka umræddu starfi á meðan hún leitaði annarra starfa. Það hafi ekki staðið henni til boða þar sem leitað hafi verið eftir starfsmanni til lengri tíma. Kærandi hafi greint frá því í atvinnuviðtali að hún þyrfti hærri laun þar sem hún væri einstæð móðir en atvinnurekandi hafi tjáð henni að slíkt væri ekki mögulegt. Kærandi hafi jafnframt greint frá því í skýringarbréfi sínu að atvinnurekandi hefði hringt í meðmælanda hennar og spurst fyrir um ástæðu þess að kærandi hefði þegið atvinnuleysistryggingar í svo langan tíma. Það hafi haft lýjandi áhrif á kæranda og hún upplifað sig vonlausa. Að lokum hafi kærandi greint frá því að hún væri dugleg að sækja um störf og sjái loksins fram á að finna viðeigandi starf.
Með erindi, dags. 27. apríl 2022, hafi kæranda verið greint frá því að mál hennar hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun, dags. 30. mars 2022, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu í máli hennar.
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærandi veitt frekari skýringar á ástæðum þess að hún hafi hafnað umræddu starfi hjá B. Kærandi hafi greint frá því að aðeins hafi verið um þriggja mánaða tímabundna afleysingu að ræða og möguleikar á framlengingu starfsins eða vexti innan stofnunarinnar engir. Þá hafi kærandi greint frá því að hefði hún tekið umræddu starfi væru líkur á að störf sem myndu henta henni betur, meðal annars með tilliti til launa, starfsvettvangs og framtíðarmöguleika, kynnu að losna. Kærandi hafi ekki viljað missa af slíkum tækifærum. Jafnframt geri kærandi athugasemdir í kæru sinni við málsmeðferð Vinnumálastofnunar en hún telji að stofnunin hafi brugðist leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu sinni. Stofnunin hafi aldrei tjáð að henni væri ekki heimilt að hafna starfi og telji hún að stofnunin hefði átt að leiðbeina henni mun betur um íþyngjandi áhrif þess að hafna starfi. Enn fremur hafi henni aldrei verði tjáð að staða hennar sem atvinnuleitanda væri breytt þar sem hún hefði þegið atvinnuleysistryggingar lengur en 24 mánuði, enda hefði hún ekki hafnað umræddu starfi hefði hún verið upplýst um afleiðingar þess. Kærandi telji að rík skylda hvíli á stjórnvöldum að kynna henni réttindi og skyldur og verði skortur þar á hljóti stjórnvöld að bera hallann af því. Kærandi vísi þó til þess að henni hafi verið bent á að kynna sér réttindi sín og skyldur í umsóknarferlinu en á þeim tíma hafi henni ekki órað fyrir því hversu lengi atvinnuleysi hennar myndi standa. Með vísan til framangreinds hafi það verið mat kæranda að réttlætanlegt hafi verið að hafna umræddu starfi. Að öðrum kosti telji kærandi að ríkar sanngirnisástæður standi til þess að hún fái greiddar atvinnuleysistryggingar þá mánuði sem henni hafi verið synjað um vegna skorts á leiðbeiningum.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi. Ákvæðið sé svohljóðandi:
,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B og að hún hafi veitt skýringar á ástæðum höfnunar á umræddu starfi. Því komi til álita hvort skýringar hennar séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg, en í 4. mgr. segi orðrétt:
,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.
Skýringar kæranda lúti meðal annars að því að hún hafi ekki viljað taka starfinu þar sem það hafi ekki hæft hennar menntun. Hefði hún tekið umræddu starfi kynni möguleikum hennar á að finna starf sem myndi henta henni betur, meðal annars með tilliti til launa, starfsvettvangs og framtíðarmöguleika, fara forgörðum. Kærandi hafi jafnframt vísað til þess að aðeins hafi verið um tímabundið starf til þriggja mánaða að ræða, án möguleika á framlengingu eða nokkurs konar vexti í starfi.
Eins og áður hafi verið rakið hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá þurfi atvinnuleitendur jafnframt að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að atvinnuleitendur geti ekki hafnað störfum á þeim forsendum að reynsla þeirra og menntun liggi í annarri atvinnugrein, eða að þau laun sem greidd séu fyrir starfið séu lág ef kjör á vinnustað séu í samræmi við ákvæði gildandi kjarasamninga. Á sama hátt sé það mat Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti ekki hafnað starfi á þeim forsendum að aðeins sé um tímabundið starf að ræða.
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála geri kærandi jafnframt athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar, nánar tiltekið að stofnunin hafi brugðist leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu sinni. Kærandi greini frá því að henni hafi aldrei verið tjáð af stofnuninni að henni væri ekki heimilt að hafna starfi og hún telji að stofnunin hefði átt að veita henni betri leiðbeiningar um íþyngjandi áhrif þess að hafna starfi. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að við móttöku umsóknar um atvinnuleysistryggingar veiti stofnunin öllum atvinnuleitendum leiðbeiningar um hvar finna megi upplýsingar um réttindi og skyldur sínar. Þannig sé öllum atvinnuleitendum vísað á heimasíðu Vinnumálastofnunar þar sem meðal annars sé að finna skýrar upplýsingar um afleiðingar þess að hafna starfi án gildra ástæðna, þar á meðal upplýsingar um stöðu atvinnuleitanda sem þegið hafa atvinnuleysistryggingar í 24 mánuði eða lengur í slíkum tilfellum. Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði laganna séu skýr hvað varði skyldu atvinnuleitanda til að taka störfum sem í boði séu og um höfnun á atvinnutilboðum. Kæranda sé ekki stætt á því að halda því fram að hún, ólíkt öðrum atvinnuleitendum, sé undanþegin grundvallarskilyrðum laganna og viðurlagakafla þeirra. Í máli þessu hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að kærandi hafi fengið rangar, misvísandi eða ófullnægjandi upplýsingar um réttindi sín og skyldur sem leiða skuli til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar.
Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 3. febrúar 2020. Þegar ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 57. gr. hafi verið tekin hafi kærandi þegið atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í 25 mánuði. Greiðslur til kæranda hafi því verið stöðvaðar og geti hún fyrst átt rétt til atvinnuleysisbóta að nýju þegar hún uppfylli skilyrði 31. gr. laganna, sbr. 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Samkvæmt gögnum málsins var ferilskrá kæranda send til B þann 10. febrúar 2022 vegna starfs þjónustufulltrúa. Stofnunin tilkynnti Vinnumálastofnun þann 18. febrúar 2022 að kærandi hefði hafnað starfinu. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi talið heimilt að hafna starfi einu sinni. Starfið hafi verið tímabundin afleysing og að loknu samtali við mannauðsstjóra B hafi verið ljóst að ekki væri möguleiki á að vinna sig upp í starfi. Kærandi hafi ekki viljað missa af tækifæri á starfi sem hentaði henni betur með tilliti til launa, starfsvettvangs og framtíðarmöguleika. Hún sé nú komin í fullt starf á vettvangi sem hæfi menntun hennar og reynslu mun betur. Þá hefur kærandi gert athugasemd við skort á leiðbeiningum frá Vinnumálastofnun um áhrif þess að hafna starfi.
Þann 11. febrúar 2020 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Kæranda var greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna undir liðnum „Hvað þarftu að vita“ á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur meðal annars fram að atvinnuleitandi þurfi að sýna frumkvæði í atvinnuleitinni og vera reiðubúinn að taka starfi á Íslandi sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum. Þar er einnig vísað til upplýsinga um biðtíma og viðurlög og undir þeim lið kemur fram að atvinnuleitendur geti þurft að sæta viðurlögum ef þeir hafni starfi sem býðst fyrir milligöngu Vinnumálastofnunar án þess að hafa til þess gildar ástæður. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um afleiðingar þess að hafna starfi. Engu skiptir að kærandi hafi einungis verið upplýst um framangreint þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur.
Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki réttlætanlegt að hafna starfi á þeirri forsendu að um sé að ræða tímabundið starf sem hugsanlega leiði til þess að tækifæri á starfi sem henti betur með tilliti til launa, starfsvettvangs og framtíðarmöguleika glatist. Úrskurðarnefndin bendir á að eitt af skilyrðum þess að vera tryggður samkvæmt lögum nr. 54/2006 er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. Í því felst meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, sbr. c. lið 1. mgr. ákvæðisins, og að hafa vilja og getu til að taka starfi, án sérstaks fyrirvara, sbr. d. lið 1. mgr. ákvæðisins. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.
Í 5. mgr. 57. gr. segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi þegið atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í 25 mánuði þegar ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 var tekin. Því bar Vinnumálastofnun að stöðva greiðslur til kæranda og getur hún fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum þegar hún uppfyllir skilyrði 31. gr. laganna, sbr. 5. mgr. 57. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálstofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006, staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir